Punktar

Illir ákallaðir

Punktar

Annan daginn kalla hinir ofsatrúuðu Tony Blair og George W. Bush heilu ríkin illum nöfnum, Íran og Sýrland, kalla Íran öxul hins illa. Hinn daginn senda þeir fulltrúa til þessara ríkja að biðja um aðstoð við að koma á nægum friði í Írak til að geta kallað herinn heim án þess að það sé talin uppgjöf. Annan daginn segja þeir rætur hryðjuverka vera í Íran og Sýrlandi, hinn daginn eru þessi ríki væntanlegir bjargvættir hrunins heimsveldis. Alþjóðapólitík 21. aldar byggist á, að heimsveldi engilsaxa er hrunið og að spottaðir leiðtogar þess eiga daglega fundi með guði Gunnars í Krossinum.

Flóttinn hafinn

Punktar

Bandaríkjamenn átta sig á, að stríðið gegn Írak vinnst ekki fremur en stríðið vannst gegn Sómalíu og Líbanon og VíetNam og Norður-Kóreu. Þeir eru hættir að tala um, hvort herinn verði kallaður heim, og tala nú um, hvenær hann verði kallaður. Flestir telja, að flóttinn hefjist upp úr næstu áramótum og honum ljúki í lok ársins. Eftir verður skilið ríki í rústum, klofið í fylkingar sértrúarsafnaða. Íran mun seilast til valda í héruðum sjíta. Þetta ferli mun magna kröfur Ísraels um bandarískan stuðning við kjarnorkuárás á Íran, krossferð kristinna ofsatrúarmanna, ragnarökin.

Endir á morgun

Punktar

Trú á yfirvofandi heimsendi dreifist hratt. Fjórðungur Bandaríkjamanna hefur tekið þá trú, sem stíft er boðuð hér á landi af Krossinum og Omega og fleiri innheimtustofnunum tíundar. Heimsendir hefst með stríði á mærum Ísraels, þar sem rammkristnir menn flykkjast til stuðnings við hina útvöldu þjóð. Heimurinn mun farast í syndum sínum, en sannkristnir verða dregnir upp í himnaríki. Þessi rammpólitíska trú knýr bandarískan stuðning við Ísrael og áhugaleysi bandarískra stjórnvalda á vistkerfi jarðar. Það er víst óþarft vegna aðvífandi ragnaraka.

Játningar flæða

Punktar

Tony Blair játaði í gær að stríðið gegn Írak væri “disaster”, alger mistök. Hann gerði það í viðtali við Sir David Frost á sjónvarpsstöðinni Al-Jazeera. Ráðherrar í brezku stjórninni hafa sagt slíkt hið sama, t.d. Margaret Hodge viðskipta- og iðnaðaráðherra, sem sama dag kallaði stríðið “big mistake”, mistök. Tom Koenigs, sendifulltrúi Sameinuðu þjóðanna í Afganistan, segir í dag í Guardian, að Atlantshafsbandalagið geti ekki sigrað talíbana í Afganistan með handafli. Hann segir bandalagið vera of bjartsýnt, enda tregðast ríki Evrópu við að senda fleiri hermenn austur.

Næg ágreiningsefni

Punktar

Ef Hilary Rodham Clinton verður forseti Bandaríkjanna eftir tvö ár, verður stuðningur Bandaríkjanna við ofbeldishneigt Ísrael grimmari en nokkru sinni fyrr. Ögranir við Íran verða meiri en nokkru sinni fyrr. Clinton er gerólík manni sínum. Hún er hægri sinnaður demókrati eins og svo margir hinna nýju þingmanna flokksins. Þegar demókratar ná forsetanum, verður aukin áherzla á vernd í viðskiptum, sem veldur auknum núningi við þriðja heiminn og Evrópusambandið. Eina mikilvæga sviðið, þar sem vænta má aukins samstarfs yfir Atlantshafið, er umhverfisvernd.

Falin skýrsla

Punktar

Arnar Jensson reyndi í Kastljósi að þyrla upp ryki um fortíð sína með því að saka Blaðið um að ganga erinda Baugs. Það er í fyrsta skipti, sem Baugi er kennt um Blaðið. Hvorki geta það talist hugmyndarík undanbrögð yfirmanns hjá Ríkislögreglustjóra né árangursrík í starfi. Innanhússkýrsla um afskipti hans af viðamiklu fíkniefnimáli er falin í skúffu hjá máttarvöldum landsins. Hún fjallar um kjarna málsins, hvers vegna Arnar á ekki að vera yfirlögreglumaður og enn síður gegna mikilvægu embætti í fyrirhugaðri njósnadeild Björns Bjarnasonar. Þá skýrslu ber að birta.

Kross, fáni, þjóðsöngur

Punktar

Ted Haggard prédikaði eld og brennistein í ofsatrúarsöfnuði í Bandaríkjunum. Hann réðist grimmt á homma og fékk sér karlhóru eftir vinnu. Hann er gott dæmi um, að afbrigðilegt fólk felur sig bak við sterk kennileiti á borð við kross eða fána eða þjóðsöng. Því ákafar, sem menn berja sér á brjóst sem trúarleiðtogar og þjóðarleiðtogar, þeim mun líklegra er, að eitthvað sé bogið við þá. Sérkenni George W. Bush og Tony Blair hefur lengi verið, að þeir eiga í samræðum við guð og telja sig hafa vald sitt frá honum. Þeir eru báðir geðveikir eins og Haggard.

Fallbyssufóður

Punktar

Í gamla daga voru ekki fótboltabullur á Bretlandseyjum. Þá var þar rekin heimsvaldastefna. Ungum mönnum var smalað í herinn og innprentuð trú á fánann og kónginn. Þeir voru svo sendir til slátrunar í fjarlægum álfum. Nú er heimsveldið horfið og lítil tækifæri til að losna við iðjuleysingja úr fátækrahverfum. Þeir verða því fótboltabullur, öllum til ama heima fyrir og erlendis. Herinn er hins vegar myndaður af fagmönnum, atvinnumorðingjum á góðu kaupi. Þjóðfélög vesturlanda skortir færi á að losna á einu bretti við mikinn massa af fallbyssufóðri, bullum, sem aldrei geta orðið fagmenn í neinu stríði.

Flótti úr Himnaríki

Punktar

Maðurinn átti ekki orð til að lýsa, hversu gott er að búa í hverfinu hans. Blokkirnar eru málaðar mismunmandi litum og veita manni tilfinningu einbýlishúss. Saltið sezt á rúðurnar og veitir manni tilfinningu sæfarans. Þetta minnir mig á konuna, sem heimtaði að selja mér hest, en sagði hann mundu verða dýran, af því að sér þætti svo vænt um hann. Almannatengsl af þessu tagi eru inngróin í fólk. Það vill selja hlut, sem er svo frábær, að enginn skilur, hvers vegna því dettur í hug að selja hann. En gaman er að lesa viðtöl við hugmyndaríkt fólk að selja íbúð í Bryggjuhverfinu.

Rammkristin fræði

Punktar

Rammkristin fræði
Rammkristnir menn í Bandaríkjunum opna senn kristinfræðisafn um sögu mannsins frá því er guð skapaði heiminn fyrir um það bil sexþúsund árum að mati safnsins. Safnið er við Cincinnati og kostar hálfan annan milljarð króna. Stephen Bates við Guardian skoðaði safnið og sá þar eftirlíkingar af risaeðlum, sem safnið telur hafa verið uppi skömmu fyrir píramídanna við Cairo. Hægt er að heyra á bandi, hvernig tvö eintök af öllum dýrum jarðarinnar komust fyrir í örkinni hans Nóa. Það eina, sem vantar í safnið, er sönnun þess, að jörðin sé flöt og að um hana snúist sólin.

Ágætir umbar

Punktar

Samfylkingin hefur valið umboðsmenn Stórabróður í prófkjörum. Þetta er frambærilegt fólk félagslegs rétttrúnaðar, sem mun reyna að grýta peningum í skóla og gamlingja, öryrkja og nýbúa. Þetta verður ljúfur krataflokkur í samstarfi við íhaldið, sem leggur mesta áherzlu á velferð fyrirtækja og forstjóra. Nánast allir umbar Stórabróður í Samfylkingunni líta á sjálf umhverfismálin sem skiptimynt í plotti um myndun næstu ríkisstjórnar. Ef sú stjórn verður til vinstri, munu kratar sigla í þá átt. Verði hún til hægri, munu þeir sigla til hægri. Kjósendur flokksins ráða engu um það.

Kjósendapróf

Punktar

Guðrún Ögmundsdóttir féll í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík. Enda vissi hún, hvað framboð sitt hafði kostað og sagði, hver hafði borgað það. Kjósendur vilja alls ekki slíkan frambjóðanda. Þeir völdu fremur fólk, sem veit hvorki, hvað það eyddi miklu fé, né hver borgaði það. Kjósendur sætta sig við þingmenn, sem verja stórfé í kosningar án þess að vilja deila með öðrum, hvaðan peningarnir komu. Enda er þægilegt að gleyma slíku, þegar kemur að því að flytja mál og greiða atkvæði, sem varða hagsmuni stórfiska úti í bæ. Kjósendur falla jafnan á prófum.

Vita ekkert

Punktar

Fréttablaðið gerir vel í að birta aum svör frambjóðenda í prófkjörum við spurningum um mikilvæga pólitík á borð við stríðið í Írak og stækkun álvers í Straumsvík, opnun á pólitísku bókhaldi og skattfríðindi fjármagnstekna. Ekki síður gerir blaðið vel í að birta aum svör þeirra um kostnað við prófkjörið. Fólkið mærir sig í sjálfsauglýsingum eins og um landsfeður sé að ræða. En það getur ekki tjáð sig um einfalda pólitík og enn síður hefur það hugmynd um, hvað það eyðir miklum peningum. Minnihluti frambjóðendanna kemst óskaddaður frá orðum sínum í þessum fréttum.

James Baker ræður

Punktar

Heimsfriðurinn hvílir nú á James Baker, sem var utanríkisráðherra George Bush hins eldra 1989-1992. Hann er formaður þverpólitískrar nefndar um mál Íraks, sem markar stefnubreytingu. Nefndin segir stríð og hernám ekki hafa skilað árangri og nú verði að fara aðra leið. Með ósigri George W. Bush forseta og repúblikana í kosningunum fyrir viku hefur þverpólitíska sáttin komist í sviðsljós ákvarðana. Repúblikanar hafa áttað sig á, að forsetinn hefur leitt þá í mestu ógöngur í manna minnum. Menn eru því aftur tilbúnir að hlusta á ráð fullorðinna manna.

Gamlingjar í tízku

Punktar

Nancy Pelosi, nýr þingforseti í Bandaríkjunum, er 66 ára. Harry Reid, nýr forseti öldungadeildarinnar, er 66 ára. Helzti bjargvættur repúblikana í næstu kosningum er álitinn vera John McCain, sem er 70 ára. Einn helzti þingleiðtogi demókrata er Robert Byrd, sem verður 89 ára í þessum mánuði. Robert Gates, sem var skipaður stríðsráðherra í síðustu viku, er 63 ára. Flest þetta fólk tekur við af yngri mönnum, sem að mati þjóðarinnar í kosningunum höfðu leitt Bandaríkin í ógöngur. Að vísu var einn helzti tapari kosninganna líka gamlingi, Donald Rumsfeld stríðsráðherra, 74 ára.