Punktar

Tekur ekki sönsum

Punktar

Þótt tilraunir Fjármálaráðuneytisins til landvinninga gegn bændum hafi farið út um þúfur í Árnessýslu, heldur það áfram að gera kröfur til eigna hringinn um landið. Ætla mætti, að hæstaréttardómar í fyrstu málum væru prófmál fyrir það, sem á eftir komi. En ráðuneytið lætur sér samt ekki segjast og heldur fast við ítrustu kröfur, þótt ljóst sé af dómum, að þær muni ekki ná fram að ganga. Vinnubrögð ráðuneytisins eru þrjózka, sems hefur þann eina tilgang að skapa lögmönnum vinnu á kostnað bænda og skattgreiðenda. Árni Mathiesen á að borga vitleysuna sjálfur.

Einveldi hrunið

Punktar

Einveldi engilsaxa í fjölmiðlun er hrunið. AP og Reuters stjórna ekki lengur fréttum heimsins. Agence France-Presse er orðin jafn sterk og þær tvær. Al Jazeera er orðinn fréttastofa múslima og Todo Noticias er orðin fréttastofa Suður- og Mið-Ameríku. Sólarhrings-fréttasjóvarp er komið víða um heim, svo sem í Líbanon og Tyrklandi. Fox og CNN og Sky eru bara peð með öðrum peðum á skákborðinu. Svo er netið komið með alls konar fréttum framhjá hliðvörðum engilsaxa, til dæmis VikiNews, þar sem allir segja fréttir. Murdoch og Bandaríkjastjórn hafa engin tök á heimsfréttunum, bara heimafréttunum.

Blair er að bila

Punktar

Tony Blair er farinn að víkja frá eindregnum stuðningi við stríðsstefnu George W. Bush. Blair sagði á blaðamannafundi á sunnudaginn með Pervez Musharraf, harðstjóra í Pakistan, að heildarfriður í miðausturlöndum væri forsenda velgengni í baráttu gegn hryðjuverkum. Hingað til hafa Blair og Bush sagt, að stríð væri forsenda velgengninnar. Á föstudaginn viðurkenndi Blair í viðtali við David Frost á stöðinni Al Jazeera, að stríðið gegn Írak væri “disaster”. Spunakerlingar hans hafa síðan reynt að draga úr áhrifum orða hans með því að segja hann hafa verið annars hugar í viðtalinu.

Orkuveitan í sandkassa

Punktar

Orkuveita Reykjavíkur og Ölfushreppur hafa stöðvað borun í Hengli. Það gerðist í kjölfar frétta í Blaðinu um, að framkvæmdirnar væru ólöglegar. Þær hafa ekki farið formlegt ferli um kerfið og Skipulagsstofnun ríkisins hefur krafizt stöðvunar. Skoðum annars vegar þetta bráðræði Orkuveitunnar og hins vegar glannalega hönnun hennar á leiðslum undir Skarðsmýrarfjalli, sem stinga í augu vegfarenda. Þá má sjá, að hrokinn og frekjan, sem einkenna Landsvirkjun, einkenna líka Orkuveituna. Hvor tveggja er stofnun verkfræðinga, sem ekki hafa vaxið upp úr sandkassanum.

Sleppa undan gjöldum

Punktar

Starfsmannaleigur hafa vikizt undan greiðslum opinberra gjalda vegna innfluttra starfsmanna. Ríkið hefur rukkað þetta inn hjá verkkaupum á borð við Impregilo. Samkvæmt Evrópudómi er þetta ekki lögleg innheimtuleið. Ríkið getur ekki látið einkafyrirtæki sjá um innheimtu fyrir sig og þarf að magna eftirlit með starfsmannaleigum um allan helming. Ríkisvaldið hefur lítinn áhuga á málinu og það leiðir til tvenns. Annars vegar rukkast opinber gjöld verr en áður. Hins vegar batnar samkeppnisstaða ósvífinna starfsmannaleiga, sem komast upp með að hunza gjöld.

Búrkur og hettupeysur

Punktar

Hollendingar hyggjast banna búrkur, sem hylja andlit sumra múslimskra kvenna. Þetta varðar að vísu aðeins 100 konur í landinu, en er um leið angi af stærra vandamáli. Glæpamenn og terroristar vilja geta dulbúist í búrkum til að leynast fyrir myndavélum og öðru eftirliti. Í Bretlandi hafa sumar stórverzlanir bannað hettupeysur unglinga, því að þær eru notaðar í hnupli. Allar aðferðir við að hylja andlit fólks, allt frá hettupeysum yfir í búrkur, munu á næstu árum lenda í skærara sviðsljósi löggæzlunnar, sem telur dulbúning af þessu tagi spilla rannsókn sakamála.

Varizt Norðmenn

Punktar

Norðmenn vilja senda hingað orrustuþotur og eftirlitsþotur til að gæta norskra hagsmuna, ekki íslenzkra. Fyrir dyrum stendur að dæla meiru af olíu og gasi úr sjó norðan við Noreg. Siglingaleiðir tankskipa frá borpöllunum liggja hjá Íslandi og Norðmenn vilja vernda þessar leiðir. Hagsmunir Íslendinga eru allt aðrir, að þessar leiðir verði sem fjærst landinu vegna hættu á mengunarslysum. Því er nauðsynlegt að fara varlega í viðræðum við Norðmenn, sem munu þykjast vilja brúa skarð í vörnum Íslands við brottför bandaríska hersins. Varizt Norðmenn, sem færa gjafir.

Seymour Hersh

Punktar

Ferill Seymour Hersh rannsóknablaðamanns hófst með skrifum um fjöldamorðin í My Lai, sem birtust 1969-1970 og reyndust vera rétt í öllum smátriðum. Síðan upplýsti hann um leynilegar loftárásir Bandaríkjanna á Kambódsíu, um lykilatriði í Watergate-málinu, svo sem segulbönd Nixons forseta, og um þátt Henry Kissinger í valdatöku hersins í Chile. Hann varð fyrstur til að segja heiminum frá uppljóstrunum Mordechai Vanunu um atómvopn Ísraels og fyrstur til að segja frá pyndingunum í Abu Gharib. Í sumar upplýsti hann, að Bandaríkin gáfu Ísrael grænt ljós á að ráðast á Líbanon. Alltaf hafa skrif hans verið rétt.

Evrópa hættir

Punktar

Eftir frétt Seymour Hersh verður stórveldum Evrópu og Evrópusambandinu ókleift að gelta að Íran fyrir hönd Bandaríkjanna. Evrópa hlýtur að falla frá þrýstingi á Íran og Bandaríkin verða að fara ein í stríð við Íran, ekki einu sinni með stuðningi hins herskáa Íslands. Bandamaður Bandaríkjanna verður ríkið, sem árum saman hefur leynt og ljóst barizt fyrir atómstríði gegn Íran. Það er Ísrael, það ríki, sem mestum vandræðum hefur valdið í heiminum undanfarin ár. Stríð gegn Íran út á lygi mun ekki vinnast fremur en önnur stríð Bandaríkjanna undanfarna áratugi.

Eitt stríð enn

Punktar

Orsök þess, að Cheney ætlar í stríð við Íran, áður en Bush víkur úr embætti forseta, er sú skoðun Nýja íhaldsins, að það sé leiðin til að sigra Írak. Þeir hugsa eins og spilafíkill, sem hefur tapað háum fjárhæðum og veðjar restinni á eina tölu í fullvissu um að sigra heiminn í næsta spili. Ósigur Bandaríkjanna í Írak sé svo alger, að ekkert geti bjargað spilinu annað en að hefja nýtt stríð í von um, að það kollvarpi stríðsógæfu síðustu ára. Samkvæmt þessu má ljóst vera, að snarbilaðir menn ráða Bandaríkjunum. Þeir ætla heldur ekkert að læra af niðurstöðum þingkosninganna.

CIA hreinsar Íran

Punktar

Þá er það upplýst. Bandaríkjastjórn hefur logið gereyðingarvopnum upp á Íran eins og hún laug þeim upp á Írak. Undir forustu Cheney varaforseta ætlar hún í stríð við Íran, hvað sem meirihluti demókrata segir á þinginu. Þetta segir Seymour Hersh í nýjum New Yorker. Og Hersh er ekki nóboddy. Hann er bezti rannsóknablaðamaður heims, hefur áratugum saman haft rétt fyrir sér, allt frá fjöldamorðunum í My Lai til pyndinganna í Abu Gharib. Hann var fyrstur með fréttina um segulbönd Nixons forseta. Hersh segir leyniþjónustuna CIA hafa samið skýrslu um, að Íran sækist ekki eftir atómvopnum.

Risaskip mengunar

Punktar

Þegar vinnsla á olíu og gasi hefst eftir tvö ár í hafinu norðan við Noreg og Rússland, má reikna með, að fjöldi tankskipa sigli með hættulegan farm nálægt ströndum Íslands. Búast má við, að einhvern tíma muni af því hljótast hræðilegt umhverfisslys, eins og áður hafa orðið í fjarlægum heimshlutum. Mikilvægt er, að stjórnvöld hafi hönd í bagga með siglingum skipanna og hafi mátt til að banna þær í efnahagslögsögu landsins. Nægur er vandi lífríkisins við strendur landsins, þótt þessi vá bætist ekki við. Því miður eru núverandi valdhafar ekki líklegir til að hafa áhuga á þessu.

Einmana hamingja

Punktar

Flestir fjölmiðlar erlendis voru í gær ósáttir við loftslagsráðstefnuna í Nairobi, þar sem engin niðurstaða náðist önnur en að hefja endurskoðun Kyoto-bókunarinnar árið 2008. Erlendir stjórnmálamenn hafa heldur ekki reynt að fegra niðurstöðuna. Jónína Bjartmarz ein er hamingjusöm og segir vel hafa miðað. Samt voru Bandaríkin ekki aðili að niðurstöðunni og eiga þau þó mestan þátt í þeirri mengun andrúmsloftsins, sem þegar er orðin. Meðan þau eru ekki með, er til lítils að hverja til dáða þriðja heims lönd, sem nú fyrst eru að láta til sín taka í mengun.

Hrafntinnuglæpurinn

Punktar

Lofsvert er framtak Guðrúnar Gísladóttur leikkonu að kæra hrafntinnustuld í Hrafntinnuskeri vestan Torfajökuls. Þar voru að verki siðblindar björgunarsveitir á Suðurlandi í umboði Þjóðleikhússins og með vitorði Umhverfisstofnunar og umhverfisráðuneytis. Klæða má þetta leikhús með innfluttu efni, sem lítur eins vel út og hrafntinna. Engin ástæða er til að leyfa því að láta ræna afar sjaldgæfu efni í náttúru landsins. Ekki er hægt að sjá, að umhverfisráðuneytið geti borið ábyrgð á þessum glæp til viðbótar öðrum glæpum þess á undanförnum árum.