Punktar

Verra er hans réttlæti

Punktar

Nýr formaður Framsóknar opnaði á landsfundi flokksins fyrir umræðu um lágan fjármagnstekjuskatt auðmanna í samanburði við háan tekjuskatt fátæklinga. Hann vill, að menn greiði tekjuskatt af fyrstu fjármagnstekjum upp að einhverju launamarki. Hann vill auka launajöfnuð upp að því marki, að það nái til fátækari hluta fjármagnstekjumanna, en ekki til hinna ríkari, sem hafa fjármagnstekjur langt yfir það, sem Jón Sigurðsson kallar “launaviðmið”. Um slíka formenn má segja, að vont hafi verið þeirra ranglæti, en verra sé þeirra réttlæti.

Nýja meiðyrðaleiðin

Punktar

Kaupþing íhugar að feta í fótspor landflótta Jóns Ólafssonar, sem kærði Hannes Hólmstein Gissurarson í London fyrir meiðyrði á heimasíðu og fékk sér dæmdar tíu milljónir króna. Kaupþing íhugar að kæra danska Extrabladið í London fyrir meiðyrði á heimasíðu blaðsins, ekki í pappírsblaðinu. Menn hafa áttað sig á, að hægt er að fara kringum meiðyrðalög með því að kæra ekki það, sem stendur í blöðum, heldur það, sem stendur á vefsíðum þeirra og fer um heiminn. Þá má knýja fram vitleysisdóma í frumstæðari ríkjum eins og Bretlandi, Zaire og Cayman eyjum, þar sem meiðyrðamál vinnast sjálfkrafa.

Frábitinn frjálshyggju

Punktar

Ríkisrekstur stendur með blóma um þessar mundir. Flokkar ríkisdýrkunar undirbúa ríkisvæðingu flokkanna með því að ríkið borgi brúsann. Íhaldið fylgir ríkisrekstri í ljósvakanum, líklega til að hamla gegn illum öflum, sem það telur vera í Baugi. Sami flokkur vill sem mest umsvif Símans, frægs einokunarfyrirtækis. Engin hneyksli hefðu orðið í verkum Landsvirkjunar, ef ríkið hefði ekki staðið þétt að baki með ríkisábyrgðum, þegar orkusamningar urðu hvað bágastir. Íhaldið var og er enn flokkur blýantsnagara, frábitinn frjálshyggju.

Ótímabær Árni

Punktar

Þrátt fyrir ítrekaða afsökunarbeiðni Árna Johnsen, blandast fáum hugur um, að hann telur sig hafa gert tæknileg mistök, þegar hann misfór með opinbert fé. Hann hafi bara verið að gera það sama og aðrir gerðu við kjötkatlana, en hafi ekki útfært það nógu vel tæknilega, þannig að hann gómaðist. Árni sat svo aldrei refsingu sína, því að dómsmálaráðherra og handhafar forsetavalds, allir sjálfstæðismenn, notuðu fjarveru forsetans til að náða Árna. Honum hefur því verið vikið undan því að greiða skuldina við þjóðina. Því er ekki fært að kjósa lista með hans nafni.

Framsókn braggast

Punktar

Jón Sigurðsson og Framsóknarflokkurinn stækkuðu í gær af yfirlýsingu formannsins um Íraksstríðið. Hann sagði: “Ákvarðanir um öryggismál og alþjóðaverkefni ber ævinlega að taka eftir vandaðasta undirbúning og eftir trúnaðarsamráð við lögmætar stofnanir eins og utanríkismálanefnd alþingis.” Ennfremur: “Forsendurnar voru rangar og ákvarðanaferlinu ábótavant. Þessar ákvarðanirnar voru því rangar eða mistök.” Meðan Framsókn biðst forláts lýsa frambjóðendur Íhaldsins því yfir, að stríð okkar við Írak hafi verið réttmætt á sínum tíma.

Gegnsætt land

Punktar

Ef Ísland á að verða gegnsætt samfélag, þar sem frjálsir borgarar taka efnislegar ákvarðanir, þarf að setja þessi Lög um einkamál. 1. grein: a. Skattar, laun, eignir og peningar eru ekki einkamál. b. Fyrirtæki hafa ekki einkamál. c. Ættir eru ekki einkamál. d. Dómar eru ekki einkamál. e. Samkeppni er ekki einkamál. f. Greiðslur til framboða eru ekki einkamál. g. Engin opinber gögn eru einkamál. 2. grein: Afnumdar eru þessar stofnanir: a. Persónuvernd. b. Úrskurðarnefnd um upplýsingalög. 3. grein: Brot gegn lögum þessum varða fangelsi. 4. grein: Lög þessi öðlast þegar gildi.

Persónuvæðingin

Punktar

Með persónuvæðingu Íslands er búið að læsa þjóðfélaginu kruss og þvers og búa til leynd, sem einkum hentar lögbrjótum og siðleysingjum og allra helzt þeim, sem misfara með peninga. Sumpart hefur það stuðning í þjóðarsálinni, sem ekki fattar, hvaða hættur sigla í kjölfar persónuvæðingar. Sumpart er þetta afleiðing af gerðum lögmanna og embættismanna, sem hafa samið lög og lagabreytingar, án þess að Alþingi hafi áttað sig á ósögðum hliðarverkunum. Stefnt er að þjóðfélagi, þar sem allir eiga að fá að vera friði, jafnt fyrirtæki og fólk. Leyndin um raforkuverðið er gott dæmi um sjúkdóminn.

Persónur fyrirtækja

Punktar

Sjúkust ást á útbelgdri persónuvernd kemur fram í að líta á fyrirtæki sem persónur, af því að þau séu lögpersónur. Þannig verða mál fyrirtækja talin sams konar einkamál eins og hjá einstaklingum. Þau halda leyndum atriðum, sem varða almannaheill, með því að tala um þau sem einkamál. Og afganginum af upplýsingum er haldið leyndum á forsendum samkeppnismála. Þannig er efnahagur fyrirtækja meira eða minna orðinn leyndarmál og menn draga í lengstu lög að senda frá sér rekstrar- og ársreikninga. Kominn er tími til að slá í borðið og leggja niður einkamál á vegum fyrirtækja.

Sjúk persónuvernd

Punktar

Ótal atriði flokkast hér sem einkamál. Talið er einkamál, hvað persónur gefa mikið til frambjóðenda og framboða, samanber frumvarp um það efni. Talið er einkamál, hvað fólk borgar mikið í skatta, samanber árlegan þæfing hjá skattstjórum. Talið er einkamál, hvað menn eiga af bílum og fasteignum, samanber lokaðar skár um það efni. Talið er einkamál, hvað fólk fær borgað í kaup, jafnvel af opinberum peningum. Ættir manna eru meira að segja taldar einkamál, samanber Íslendingabók. Dómar eru orðnir einkamál persóna, samanber nafnleynd á dómstólavef. Þetta er sjúkt viðhorf.

Blað fyrir fólk

Punktar

Síðdegisblöðin Vísir og Dagblaðið sameinuðust fyrir aldarfjórðungi í DV eftir harða samkeppni í sex ár. Þá voru aðrir tímar en nú, verkföll voru tíð og höfðu dregið mátt úr öllum dagblöðum. Sameiningin bætti fjárhaginn og lagði grundvöll að vel reknu blaði, sem þjónaði lesendum betur en blöðin tvö höfðu bolmagn til að gera.

Sameiningin dró síður en svo úr samkeppni, heldur leiddi til fjörugri blaðaútgáfu en áður hafði þekkzt. DV var í tvo áratugi einn af hornsteinum þjóðfélagsins, þekkt fyrir fréttir af ýmsu, sem leynt fór í þjóðfélaginu. Það var lengi eina dagblaðið, sem var óháð stjórnmálaöflum og naut þeirrar sérstöðu í vinsældum almennings.

Upp úr aldamótum varð sú breyting á rekstrinum, að óspart var farið að draga fé úr blaðinu til að fjármagna ýmis ævintýri á öðrum vettvangi. Það veikti stöðu blaðsins snöggt, svo að það var selt aðilum, sem voru tengdir pólitík og settu blaðið lóðrétt á hausinn árið 2003. Nokkru síðar var það endurvakið af nýju fólki í nýrri mynd, en náði ekki fyrri vinsældum.

Í vor var DV gert að vikublaði til að ná nýju jafnvægi í rekstri. Það hefur síðan gengið nógu vel til þess, að nú er verið að undirbúa fjölgun útgáfudaga. Enn er DV blað, sem einkum sækir efni sitt til lífs fólksins í landinu fremur en til yfirstéttarinnar. Það segir frá atburðum, sem öðrum fjölmiðlum þykja meira eða minna óviðurkvæmilegir.

Þótt líf og fjör sé í fjölmiðlun á Íslandi um þessar mundir, verður alltaf þörf á blaði að hætti síðdegisblaða, sem er óhrætt við að taka upp mál og menn, sem stinga í stúf við hefðbundið efni fjölmiðla. Rannsóknablaðamennska hefur ætíð verið ríkur þáttur blaðsins, á síðustu misserum í meira mæli en nokkru sinni fyrr. DV var upphaflega hugsað sem blað almennings og er slíkt blað enn þann dag í dag.

Jónas Kristjánsson

DV

Talsmenn Ísraelsríkis

Punktar

Talsmenn frá sjónvarpsstöðinni Omega hafa nokkrir skrifað greinar í Moggann að undanförnu til stuðnings Ísrael. Þeir koma frá sömu ofsatrúarsöfnuðum og þeim, sem mynda fjórðung af kjörfylgi í Bandaríkjunum. Sameiginlegt einkenni þeirra og Omega er, að þeir trúa, að heimsendir sé á næstu grösum. Hann hefjist með atómstríði í miðausturlöndum, þar sem múslimar sæki að Ísrael, gæludýri Omega og ofsatrúarmanna. Í heimsendanum muni guð hífa ofsatrúarmenn upp í himnaríki, en aðrir verða Antí-Kristi að bráð. Þetta er um leið óopinber utanríkisstefna ríkisstjórnar Bandaríkjanna.

Ríkisstjórn Murdochs

Punktar

Brezka ríkisstjórnin á að hafa vald sitt frá þingi og þjóð, en Tony Blair telur sig hafa það frá guði. Í raun er það Rupert Murdoch fjölmiðlaeigandi, sem stýrir stjórn hans. Hún rekur alveg sömu stefnu og hann, það er óheft frelsi stórfyrirtækja, fjötrar á stéttarfélög, andstaða við þróun Evrópusambandsins og stuðningur við stríð nýja íhaldsins í Bandaríkjunum við Írak, Íran og Afganistan. Murdoch hefur um langt árabil verið einn hættulegasti maður heims og hefur knúið stefnuskrá Margrétar Thatcher upp á kratastjórn í Bretlandi. Brezka íhaldið er vinstra megin við Blair.

Þei, þei og þei, þei

Punktar

Fáum Bandaríkjamönnum er kunnugt um, að leyniþjónstan CIA hefur samið skýrslu um, að engin merki séu um, að ráðamenn Írans ásælist kjarnavopn. Þessari skýrslu er enn haldið leyndri, þótt The New Yorker hafi skýrt frá innihaldinu á föstudaginn. Á sunnudaginn birti svo fréttatofan Reuters í Englandi frétt um málið. Þaðan rataði hún inn í New York Times og Washington Post á mánudaginn og í Seattle Post Intelligencer á þriðjudaginn. Flestir aðrir fjölmiðlar hafa þagað. Það er ekki von, að Bandaríkjamenn séu fróðir um utanríkismál.

Tekur ekki sönsum

Punktar

Þótt tilraunir Fjármálaráðuneytisins til landvinninga gegn bændum hafi farið út um þúfur í Árnessýslu, heldur það áfram að gera kröfur til eigna hringinn um landið. Ætla mætti, að hæstaréttardómar í fyrstu málum væru prófmál fyrir það, sem á eftir komi. En ráðuneytið lætur sér samt ekki segjast og heldur fast við ítrustu kröfur, þótt ljóst sé af dómum, að þær muni ekki ná fram að ganga. Vinnubrögð ráðuneytisins eru þrjózka, sems hefur þann eina tilgang að skapa lögmönnum vinnu á kostnað bænda og skattgreiðenda. Árni Mathiesen á að borga vitleysuna sjálfur.

Flóttinn er sigur

Punktar

Fréttamenn á hernámssvæði Breta í Írak eru sammála um, að fyrir löngu hafi brezki herinn gefizt upp á að reyna að stjórna og hafi látið það eftir vopnuðum sveitum trúaðra heimamanna. Það er mjög í stíl Tony Blair og róttækra spunakerlinga hans að lýsa þessu þannig, að svo mikill árangur hafi náðst í hernáminu, að nú sé óhætt að afhenda heimamönnum völdin. Brezki herinn hafði aldrei þessi völd og er núna að undirbúa flóttann. Að hætti spurnakerlinga heitir flóttinn að þessu sinni velgengni og sigur.