Punktar

Samfélagið fái frið

Punktar

Samkvæmt vef útvarpsins heldur Margrét Sæmundsdóttir hjá Fangelsisstofnun, að samfélagið hafi ekki gagn af að loka inni unga ofbeldismenn. Hún lítur á slíkt sem refsingu, sem komi ekki að gagni. Ég hef aldrei litið á þunga dóma sem refsingu eða sem betrun. Ég lít á þá sem aðferð samfélagsins við að losna við unga síbrotamenn úr umferð, svo að samfélagið hafi frið fyrir þeim. Vandamálasérfræðingar ríkisins á þessu sviði skilja ekki þann tilgang innilokunar. Að líta á Litla-Hraun sem refsingu eða sem betrun flækir bara raunverulegan tilgang, sem er að vernda samfélagið.

Skúrkar í embætti

Punktar

Embættismenn mega gera ekki neitt, vera fullir eða láta lítið fara fyrir sér. En þeir eyða ekki gögnum. Tilvist kerfisins hefur öldum saman byggzt á, að það safni gögnum. Jafnvel leyniþjónustan Stasi í Austur-Þýzkalandi safnaði viðamiklum gögnum. Hvernig datt íslenzkum embættismönnum í hug árið 1956 að eyða gögnum um Atlantshafsbandalagið? Ófyrirgefanlegt athæfi embættismanna, versti glæpur, sem þeir geta drýgt. Og það gerðist einmitt hér í bananalýðveldinu. Hver getur hér eftir tekið mark á íslenzkum embættismanni? Af hverju eru nöfn skúrkanna ekki birt?

Gengið er rangt

Punktar

Gengi krónunnar er ekki of hátt, það er of lágt. Fram eftir áratugum voru tíu íslenzkar krónur á móti hverri danskri, en nú eru þær orðnar tólf. Það er auðvitað ekki rétt hlutfall. Krónan hefur fallið með dollar, þannig að evran er komin í 90 kall og pundið í 130. Svo segja menn, að hagkerfið sé fínt. Ég vildi ekki vera forsætisráðherra með svo lélega krónu á bakinu. Ég mundi að minnsta kosti ekki fjölyrða mikið um góða hagstjórn. Lágt gengi krónunnar endurspeglar samt ekki styrk hagkerfisins, heldur er það ein af mörgum tegundum herkostnaðar af eigin mynt.

Leynimakk um ís

Punktar

Kanna þarf, hvort lagalega ábyrg sé sú stofnun, sem heitir hinu virðulega nafni Matvælasvið Umhverfissviðs Reykjavíkur. Hún heldur leyndu fyrir okkur, hvar kólígerlar og saurkólígerlar fundust í ís. Hún eyðir fé okkar í tilgangslausar rannsóknir á 106 íssýnum á 55 sölustöðum í borginni, án þess að geta þess, hvaða búðir eru ítrekað mengaðar. Hin virðulega stofnun segir, að þeim búðum hafi fjölgað, sem ekki uppfylla kröfur. Að hvaða gagni koma slíkar upplýsingar, þegar ég heimsæki ísbúð? Alls engu. Ef einhver verður veikur, á að krefja stofnunina um skaðabætur fyrir leynimakkið.

Næg úrræði

Punktar

Sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og raunar víðar eru einkum rekin með hliðsjón af hagsmunum verktaka og sumpart hreinlega rekin af verktökum, svo sem Kópavogur. Því vilja þau ekki amast við búsetu farandverkamanna í iðnaðarhúsnæði, þar sem eldvarnir eru í ólagi. Ef sveitarfélögin vildu amast við þessu, hafa þau næg úrræði í lögum, svo sem innsiglun húsnæðis og dagsektir. Í staðinn æða þau á fund með ráðherra, þykjast koma af fjöllum og telja brýnt að hugleiða, hvort breyta eigi lögum. Þau eru bara að þyrla upp ryki til að dylja, að þau vilja ekki gera neitt.

Tilvistarkreppa

Punktar

Atlantshafsbandalagið er í tilvistarkreppu. Það gat ekki yfirfært vopnað hlutverk sitt úr kalda stríðinu yfir á allt öðru vísi hlutverk á tímum hryðjuverka, þar sem hættan er ekki staðbundin. Í stað þess að passa sín mál heima fyrir hefur það lent í ógöngum í Afganistan. Bush vill, að vígfús ríki á borð við Japan, Kóreu og Ástralíu fái aðgang, líklega til að fá auðsveipari aðila í samstarfið. Meginland Vestur-Evrópu er meira eða minna ósátt við þróunina og vill til dæmis hvorki senda fleiri hermenn til Afganistan né færa hermenn þar til hættusvæða. Um þetta er rifizt núna.

Firrtur Geir

Punktar

Forsætisráðherrar Atlantshafsbandalagsins eru eins veruleikafirrtir og ríkisstjórn Bandaríkjanna. Þeir komu saman í Riga í Lettlandi til að fagna því, að ástandið sé að skána í Afganistan. Það stingur í stúf við stöðugar fréttar af versnandi ástandi. Talíbanar leika lausum hala. Ríkisstjórn landsins hefur ekki lengur völd í miðborg Kabúl, hvað þá í úthverfunum. Bandalagið ræður engu utan herstöðva. Því blæðir í Afganistan, hvað sem Geir Haarde segir. Hann les ekki erlendar fréttir og trúir því bara blint, sem bandalagið lýgur að honum.

Minning Nausts

Punktar

Kannski var það Naustinu að þakka, að ég náði í konu fyrir rúmlega fjórum áratugum. Þá var ég ungur og ríkur og borðaði þar öll laugardagskvöld. Körfukjúklingur var frægasti rétturinn, en við snæddum jafnan Chateaubriand à la Béarnaise. Þegar matarbyltingin kom síðar til Íslands, fattaði ég, að maturinn í Naustinu hafði alltaf verið afspyrnu lélegur. Í 40 ár lifði fagurt húsnæðið á frægð þorramatar. Átta ár eru síðan ég kom þangað síðast. Nú er búið að rífa frægðina til að setja upp sætsúrar sósur og Pekingendur. Ég sé eftir staðnum vegna tilhugalífsins og innréttinganna.

Allt var vitað 2003

Punktar

Að ráði ríkisstjórnar Bandaríkjanna studdi Ísland stríðið gegn Írak. Tveir ráðherrar, sem nú eru horfnir, ákváðu að hlusta ekki á ríkisstjórnir Frakklands og Þýzkalands og ótalmargar aðrar ríkisstjórnir. Þeir ákváðu að hlusta ekki á erlenda og innlenda álitsgjafa, sem þá þegar mæltu hart gegn innrásinni. Ég gagnrýndi hana hart og oft. Skondið er að heyra Þorgerði Katrínu ráðherra koma af fjöllum og tala nautaskít um málið, rétt eins og bandarísk ráð hafi verið hin einu í stöðunni. Árið 2003 var nóg vitað til að hafna stríðinu strax.

Endurreisn frá Toledo

Punktar

Baráttu kaþólikka og mára á Spáni fyrir fimm-tíu öldum var vel lýst í syrpu BBC í sjónvarpinu. Það var ekki trúarstríð, enda var El Cid málaliði, barðist fyrir hvern þann, sem bezt bauð hverju sinni. Það var venjuleg valdabarátta, þar sem herskáir kaþólikkar höfðu betur en menntaðir márar, er voru vanir ljúfu lífi í menningarborgum Andalúsíu. Í deiglu þess tíma gerðu márar, gyðingar og kaþólikkar Tóledó að merkustu borg í heimi. Þar hófst Endurreisnin og fluttist síðan til Ítalíu. Renissans Evrópu á sér því eindregnar múslimskar rætur á Suður-Spáni.

Þrælabúðir útlendinga

Punktar

Þegar ég var í menntaskóla, svaf ég á sumrin með fimm öðrum í kytrum eins og nú eru sýndar í sjónvarpi sem þrælabúðir útlendinga hjá starfsmannaleigum. Ég vann hjá Landsvirkjun, sem þá hét Sogsvirkjun, var að reisa Írafossvirkjun og Steingrímsstöð. Ekki fannst mér húsnæðið mikið svínarí, enda var ég skólastrákur og fékk raunar húsnæðið frítt, sennilega matinn líka. Þá var unnið annan hvern laugardag og farið í bæinn hina helgina. Fimmtíu ára munur er á því, sem talið var mannsæmandi fyrir mig þá og nú er talið vera sæmandi útlendingum. Munurinn er sá, að þeir borga, en ættu að fá frítt.

Vefurinn kemur

Punktar

Ekkert getur hindrað vefinn í að taka yfir hlutverk fjölmiðlunar hægt eða hratt. Unga fólkið vill fá fréttir í tölvu, lófatölvu, iPod eða síma. Það vill meiri hraða en prentið getur boðið og meiri gagnvirkni en sjónvarpið getur boðið. Núverandi skipan fjölmiðlunar er dæmd til að riðlast. Ísland verður nokkrum árum á eftir Bandaríkjunum í þessu ferli. Við getum því lært á framtíðina með því að fylgjast með þróun mála þar. Enn eru lykilatriði í óvissu, einkum fjármögnun metnaðar á tímum ókeypis fjölmiðlunar.

Vefurinn ögrar

Punktar

Unga fólkið, sem ekki vill kaupa dagblöð, hefur snúið sér að vefnum, þar sem smám saman er að rísa fjölmiðlun, sem mun taka við af dagblöðum. Við vitum ekki, hvernig hún verður, kannski frjáls miðlun notenda eins og WikiNews eða Digg, kannski faglega unnin blöð á borð við Slate, sem tíu milljón manna sjá á mánuði. Dottnir úr umræðu fólks eru álitsgjafar, sem bara sjást á prenti, svo sem Thomas Friedman, Frank Rich og Maureen Dowd. Í staðinn koma álitsgjafar í Slate. Þyngra verður fyrir nýju miðlana að sigra í fréttum. WikiNews og Digg byggja fréttir sínar á upplímingi úr dagblöðum.

Dagblöð deyja

Punktar

Með hverju árinu kemur nýr árgangur inn í samfélag fullorðinna án þess að þurfa á dagblöðum að halda. Í gamla daga gerðist fólk áskrifendur, þegar það stofnaði heimili. Ekki lengur. Lesendur Moggans eru miðaldra og gamalt fólk. Tími áskriftarblaða rennur smám saman út. Ferlið er lengra komið í Bandaríkjunum, þar sem skelfing hefur gripið eigendur áskriftarblaða. Þetta er vont mál, því að engir miðlar hafa burði til að taka upp víðtæka fréttaþjónustu dagblaða. Tvær síður í Mogganum jafngilda hálftíma fréttum í sjónvarpi.

Dýpri vasar í Evrópu

Punktar

Framkvæmdastjóri bændasamtakanna sagði á ráðstefnu í fyrradag, að svo geti farið, að íslenzkur landbúnaður hafi meira skjól innan Evrópusambandsins en utan þess. Þetta sagði ég bændum fyrir áratug. Samkvæmt reynslu Íra væri Ísland skilgreint sem jaðarbyggð, þar sem bændur fengju háa styrki fyrir það eitt að vera til, en alls ekki til að framleiða neitt, enda yki slíkt bara kjötfjöll og mjólkurlón. Gott er, ef talsmenn bænda eru seint og um síðir að átta sig á, að vasar skattgreiðenda í Evrópu eru dýpri en vasar skattgreiðenda og neytenda á Íslandi.