Punktar

Stríðið í Kabúl

Punktar

Fréttaritið Spiegel hefur áhyggjur af þýzkum hermönnum í Afganistan og óttast, að þeir fari sér að voða. Talíbanar séu að færa út kvíarnar, sitji um Kabúl og smygli þangað hermönnum. Víglínan sé tíu kílómetrum frá borgarmörkunum. Ríkisherinn þori ekki að fara í eftirlitsferðir um borgina að næturlagi. Spiegel telur, að senn verði barizt um borgina. Kominn er tími til að kalla Íslendingana heim, áður en þeir fara sér að voða. Nató sannfærði hins vegar Geir Haarde um, að stríðið gangi vel. Það er lífshættuleg trú.

Tréhausar kvaddir

Punktar

“Bless, bless, tréhausar” segir þýzka fréttaritið Spiegel. Það skrifar um “nýja íhaldið” í Bandaríkjunum, sem hefur hrakizt úr embættum, nú síðast John Bolton, sem var sendiherra hjá Sameinuðu þjóðunum, þar áður Donald Rumsfeld, sem var stríðsráðherra, og Paul Wolfowitz, sem var helzti höfundur Íraksstríðsins. Dick Cheney varaforseti safnaði hópnum saman. Tréhausarnir trúðu, að hernám Íraks yrði “tertusneið”, því að alþýðan mundi taka því fagnandi. Eins og Halldór og Davíð héldu, en þeir eru líka hættir. Írak er greinilega eitrað herfang.

Í stíl Pútíns

Punktar

Böndin berast að Pútín, sem stökk úr leyniþjónustunni upp í æðsta sess Rússlands. Hans menn drápu njósnarann Alexander Litvinenko á eitri, skutu blaðamanninn Önnu Politkovskaya til bana og reyndu að drepa Jegor Gaidar, fyrrverandi forsætisráðherra. Öll verkin bera merki stofnunar, sem Felix Dzershinky veitti fyrst forustu og lengst var fræg undir bókstöfunum KGB. Rússland er núna alræðisríki undir stjórn arftaka KGB, sem hefur náð öllum öngum ríkisvaldsins í sínar hendur, nánast öllum fjölmiðlum landsins og beinir gamalkunnum ógnunum gegn nágrannaríkjum alræðisins.

Nató í villum

Punktar

Það er líkt Nató að bjóða Serbum óbeina aðild, þótt þeir komi í veg fyrir, að stríðsglæpamenn séu gómaðir og sendir til Haag. Atlantshafsbandalagið hefur aldrei skorað hátt í siðferði. Síðari tíma sögurannsóknir hafa leitt í ljós, að í Balkanstríðunum laug bandalagið engu minna um framvindu mála en Serbía gerði. Frá sjónarmiði almennra mannasiða kemur ekki til greina að hleypa Serbum í neitt samstarf fyrr en þeir láta af hendi félagana Ratko Mladic og Radovan Karadzic. En Nató er ekki í sambandi við samfélag siðaðra manna. Það er einangruð stofnun úreltra tindáta og pólitíkusa.

Úrelt handbók

Punktar

Varla stendur steinn yfir steini í þeim kafla tæplega 20 ára leiðsögubókar minnar um London, sem fjallar um veitingahús. Aðeins Gavroche í Mayfair er enn í blóma, enn bezta hús borgarinnar. Að öðru leyti er allt horfið, meira að segja Grillið í Connaught-hóteli, sem nú heitir Angela Hartnett og er raunar sagt vera eitt hið bezta þar í borg. Fyrir tveim áratugum báru veitingastaðir fyrrverandi nýlendna og franskir staðir höfuð og herðar yfir aðra. Nú er kominn herskari nútímahúsa, sem flest blanda saman frönsku og austrænu, “fusion”-hús. Handbókin mín um London er því orðin úrelt.

Tvíhneppt hjá Rudy

Punktar

Ég fór til London að kaupa tvíhnepptan bleiser og virðulegan kasmír frakka í þeim stíl, sem ég hef notað í 50 ár. Fór beint í Bond Street og sá 50% útsölu hjá ítölunum Pellini frá Úmbríu. “Ekkert mál” sagði Rudy og seldi mér hálfa búðina á kortéri. Herragarðurinn var búinn að segja mér, að menn með minn smekk væru “útdauðir”. Þannig tala lélegir kaupmenn, sem hanga í tízkunni. Ítalirnir voru hinir kátustu, sögðust vonast til að Baugur keypti sjoppuna eins og annað í London. Það væru fínir strákar, sagði Rudy. Vonandi verða samt áfram til tvíhnepptir bleiserar.

Það vantaði Össur

Punktar

Ég borðaði í hádeginu í gær á Gay Hussar, sem í þessu tilviki þýðir Káti riddarinn. Ungverski veitingastaðurinn er alveg eins og hann var fyrir 50 árum. Ekkert tillit er tekið til tízkusveiflna. Þar borða enn í hádeginu sjötugir þingmenn krata og sami aldursflokkur ritstjóra á vinstra kanti. Þangað hefði verið gaman að fara með Össur. Ég fékk kalda kirsuberjasúpu, síðan kjúklingagúllas í pönnuköku og loks dísæta strúdel með þeyttum rjóma. Samtals vikuskammt af hitaeiningunum í hádeginu, áður en ég valt út á götu til að reyna að finna leigubíl í London.

Að pirra Peter

Punktar

Nú hefur vinur minn Peter Preston eyðilagt fyrir mér leigubílana í London. Þessa dásamlegu bíla með hægindastólum og nægu fótaplássi. Hann segir þá valda 1.600 dauðsföllum í London á ári, 24% af svifryki staðarins. Þetta eru dísilbílar, sem séu alltaf í gangi. Hann taldi 56 þeirra í einni röð við Paddington-stöðina. Það er einmitt, þar hljóta þeir að vera. Þessir bílar, sem alls staðar eru lausir við hliðina á þér á góðviðrisdögum, hverfa eins og dögg fyrir sólu, ef dropi eða snjókorn kemur úr lofti. Þá fara þeir sennilega allir til Paddington-stöðvar að pirra Peter.

Aldrei aftur

Punktar

Njósnamálum fjölgar og þau fara stækkandi. Við erum að byrja að sjá mynd af vænisjúkum landsfeðrum fyrri tíma með Bjarna Benediktsson í broddi fylkingar og siðlitlum embættismönnum með Baldur Möller í broddi fylkingar. Slíkir menn voru trylltir af hræðslu, létu hlera menn villt og galið og eyddu síðan gögnum til að ekki kæmist upp um þá. Þótt engin landráð fyndust í hlerunum, héldu hinir vænisjúku uppteknum hætti ár eftir ár. Við skulum ekki leyfa vænisjúkum arftökum þessara manna að koma á nýjan leik upp öryggis- og hlerunarlögreglu. Aldrei aftur.

Vestræn ábyrgð

Punktar

Borgarastríðið í Írak er ekki Írökum að kenna. Áður en Bandaríkin komu til skjalanna var þar ótryggur friður hjá Saddam Hussein, aðeins nokkur hundruð manns drepin á hverju ári. Eftir hernámið leikur þar hins vegar allt á reiðiskjálfi. Bandaríkin og hin vígfúsu stuðningsríki þeirra breyttu Írak í vígvöll. Vandi Íraks felst ekki í, að vanþakklátt fólk neiti að þiggja lýðræði úr hendi Bush. Vandinn er, að landið er hernumið af Bandaríkjunum og hinum vígfúsu fylgiríkjum þeirra. Hernámsliðið hefur stútað innviðum Íraks og skilið eftir rústir einar. Vestrið ber ábyrgðina. Og Framsókn.

Endurfæðing

Punktar

Þung var orðin staðan hjá vinnumiðluninni, þegar formaðurinn hóf ræðuna. Í einu vetfangi braust sólin fram úr skýjum. Gamlir menn gripu andann á lofti, þegar Jón Sigurðsson leysti upp syndir Framsóknar. Þingflokksformaðurinn fékk nánast hjartastopp af fögnuði. Hann og hinir gamlingjarnir voru skyndilega leystir undan ábyrgð á morðum tuga og hundraða þúsunda manna í Írak. Nýi formaðurinn hafði með handayfirlagningu leyst þá undan syndum þeirra. Sama er, hvert óhæfuverk þeirra er, allir fylgja því á leiðarenda, unz lausnin kemur af himnum ofan. Í þessu tilviki frá forstjóra vinnumiðlunarinnar.

Ábyrgð smáþjóðar

Punktar

Geir Haarde náði flugi í hundalógík með því að segja stuðning íslenzka ríkisvaldsins við hernað Bandaríkjanna í Írak ekki skipta siðferðilegu máli, því að Ísland sé slíkt smáríki, að ekkert muni um það. Saga stríðsins hefði orðið nákvæmlega hin sama án afskipta Íslands. Gleymum því ekki, að hér talar maður, sem ver hundruðum milljóna króna af almannafé til að reyna troða Íslandi í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. Stuðningi við stríðið gegn Írak er ekki hægt að kasta yfir öxl sér í kyrrþey. Svartur blettur er á samvizku þjóðarinnar vegna aðgerða landsfeðra okkar gegn Írak.

Vantraust á flokki

Punktar

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir telur tíma vera kominn til að kjósendur láti af vantrausti á Samfylkingunni. Ég tel hins vegar, að ástæða fyrir vantrausti sé einmitt að magnast. Hingað til hafa sjónarmið flokksins verið fremur neikvæð í umhverfismálum, svo sem fram kom í stuðningi hans við Kárahnjúkavirkjun. Með breyttum framboðslistum hans í vor má búast við, að stuðningurinn við stóriðjuvirkjanir muni magnast. Neikvætt viðhorf til náttúrunnar verði enn neikvæðara, enda er flokkurinn upptekinn af áhugaefnum hagsmunapotara ýmissa byggða.

Lögreglustappa

Punktar

Lögreglan var sein á slysstað við Sandskeið á laugardaginn. Ég var búinn að mæta fjórum sjúkrabílum og brunabíl áður en ég mætti fyrsta lögreglubílnum. Síðustu tveir lögreglubílarnir af fjórum voru um tólf mínútum á eftir fyrsta sjúkrabílnum. Á slysstað tókst löggunni að búa til stopp í tvo tíma, þótt sjúkrabílarnir væru fyrir löngu farnir í bæinn. Þetta er ekki í fyrsta skipti, sem kemur í ljós, að löggur geta ekki stýrt umferð á slysstað. Þeir lokuðu bara veginum eins og þeir gerðu í Ártúnsbrekku í haust. Þeir skilja alls ekki, að umferð verður að hafa sinn gang.

Skúrkar í embætti

Punktar

Embættismenn mega gera ekki neitt, vera fullir eða láta lítið fara fyrir sér. En þeir eyða ekki gögnum. Tilvist kerfisins hefur öldum saman byggzt á, að það safni gögnum. Jafnvel leyniþjónustan Stasi í Austur-Þýzkalandi safnaði viðamiklum gögnum. Hvernig datt íslenzkum embættismönnum í hug árið 1956 að eyða gögnum um Atlantshafsbandalagið? Ófyrirgefanlegt athæfi embættismanna, versti glæpur, sem þeir geta drýgt. Og það gerðist einmitt hér í bananalýðveldinu. Hver getur hér eftir tekið mark á íslenzkum embættismanni? Af hverju eru nöfn skúrkanna ekki birt?