Punktar

Vilja fara að vilja fólks

Punktar

Fæstir hafa áhuga á veigamestu gerðum ríkisstjórnarinnar á kjörtímabilinu. Fáir vildu eftirgjafir á auðlindarentu, afnám auðlegðarskatts eða önnur fríðindi auðgreifa. Píratar hafa í þrjú ár fengið Gallup til að kanna óskir fólks. Þar kemur allt annað í ljós og ítrekað það sama. Eindregnast vill þjóðin setja fjárveitingar til heilbrigðismála í forgang, öfugt við ríkisstjórnina. Í öðru sæti eru menntamál, sem ítrekað hafa verið skorin niður. Í þriðja sæti eru velferð og almannatryggingar. Píratar setja þessi mál í forgang. Engin furða er, að þeir hafi forustu í könnunum, þegar þeir ætla að fara að vilja fólks.

Frómar óskir Economist

Punktar

Economist notar Ísland sem víti til varnaðar. Bretar eigi ekki að segja sig úr Evrópusambandinu, það sé of dýrt. Blaðið bendir á, að Evrópska efnahagssvæðið hafi engin áhrif á lög og reglugerðir Evrópusambandsins. Verði þó að lúta þeim til að halda tollfríðindum sínum. Aukakostnaður verði 1% af landsframleiðslu Breta. Sennilega verður Economist ekki að ósk sinni. Síðustu árin hefur ESB ítrekað lent í vandræðum, sem það hefur ekki ráðið við. Framkvæmdastjórar þess eru ekki fyrsta flokks og finna engar lausnir. Ekki á skuldum Grikkja og ekki á landhlaupi múslima. Þess vegna er Evrópusambandið hataðra en nokkru sinni fyrr.

Hótar út og suður

Punktar

Fyrir hálfri öld var Tyrkland vestrænt. Kratar og Íhald kepptu um völd og hafði ýmsum betur. Þá voru þekkt nöfn forsætisráðherra á borð við İnönü og Menderes, síðar Demirel og Ecevit. Tyrkland er í Nató, sótti um aðild að Evrópusambandi. Fólkið á götum Istanbul var vestrænt í klæðaburði og lint í trú eins og aðrir Evrópumenn. Núna hefur íslamismi náð undirtökunum og stefnir hratt í einræði Erdoğan. Hann er geðbilaður og rekur yfir 2000 dómsmál gegn þeim, er hann telur hafa móðgað sig. Brjálast, þegar erlend ríki viðurkenna sagnfræði þjóðarmorðs Tyrkja á Armenum. Vildi blóðrannsókn á þýzkum þingmönnum af ætttum Tyrkja, sem höfðu samþykkt yfirlýsinguna. Þeim hafa borizt líflátshótanir. Erdoğan hótar mönnum út og suður. Konur bera aftur slæður í Istanbul og Tyrkland siglir aftur til miðalda.

Það er Andri Snær

Punktar

Andri Snær er maðurinn í embætti forseta. Þekktastur sem víðlesinn rithöfundur heima og erlendis. Hefur hrist upp í fólki fyrir skoðanir, sem voru róttækar, en eru það ekki lengur. Umhverfisvernd er ekki lengur jaðarskoðun og það er að miklu leyti Andra Snæ að þakka. Ýmsir aðrir frambjóðendur eru frambærilegir, þótt þeir hafi ekki sama sannfæringarkraft í þágu lýðræðis, menningar og  umhverfis okkar. Flestir munu ekki standa í vegi nýrrar stjórnarskrár, en Andri Snær mun styðja við hana. Kosning hans væri dæmi þess, að gömlu sérhagsmunakarlarnir eru hver að öðrum að falla af stalli. Og nýja Ísland er að taka við keflinu.

Brynjar læknar ekki græðgi

Punktar

Reynslan sýnir, að megintilgátur nýfrjálshyggju standast ekki prófun. Gælur við auðmenn leiða ekki til brauðmola til fátækra. Því meira auði, sem hlaðið er á auðmenn, þeim mun meira eykst græðgi þeirra. Afsláttur af fjármagnstekjuskatti leiðir ekki til betri innheimtu. Þess vegna á að hafa skattinn eins hér og í nágrannalöndunum. Uppboð aflaheimilda er ekki kommúnismi, heldur hrein og tær markaðshyggja. Bætur verða því ekki greiddar fyrir minni gróðavonir. Öll rök Brynjars Nielssonar eru einskis virði, líka þau, að stórir kaupendur að ódýrri orku megi losna við auðlindarentu. Ókeypis auðlindarenta er séríslenzk fávísi.

Heilsu og velferð bjargað

Punktar

Píratar greiða nú atkvæði um tíu tillögur að ríkisfjármálum. Þær ganga flestar í öfuga átt við núverandi ríkisstjórn. Hún hefur lækkað og afnumið álögur á auðgreifa. Meðal annars er hún smám saman að afnema auðlindarentu í fiskveiðum. Tillögurnar hjá pírötum eru markaðsvænar. Snúast um, að auðlindarenta ákveðist í frjálsum uppboðum. Auðlindarenta verði á stóriðju og fjármagnstekjuskattur hækkaður í þau 30%, sem hann er hjá nágrannaþjóðunum. Alls eiga tillögurnar að gefa 100 milljarða króna á ári. Ætti að duga til að reisa heilbrigðiskerfið úr rústum og koma velferð í frambærilega stöðu. Án hærri skatta á almenning.

Kostuleg siðblinda

Punktar

Halldór Meyer er kostulegasti siðblindingi eftirhrunsáranna. Játar alls konar lögbrot gagnvart starfsfólki og eftirliti, þar á meðal Pótemkintjöld til að villa um fyrir eftirliti. Í 11 ár hefur hann reynt að laga mál Stay Apartments án nokkurs sjáanlegs árangurs. Afsakar sig með, að 90% gistinga séu ólöglegar og hann sé ekki sá versti. Að minnsta kosti skárri en hótelhaldarinn víðfrægi á Adam. Hann hefur heyrt predikun Samtaka atvinnulífsins um, að lög og reglur séu „viðmiðunaratriði“. Þau séu um æskilega hegðun, en ekki beinlínis nauðsynlega. „Þrengi svigrúm atvinnulífsins“, svo notuð séu orð Ragnheiðar Elínar ráðherra.

Davíðsfylgið dalar

Punktar

Það hlaut að koma að því, að fylgi Davíðs færi að dala. Skítadreifarar skrímsla Flokksins hafa gengið slíkan berserksgang, að sumum flokksjálkum blöskrar. Sjá til dæmis Jakob Möller. Menn flýja bæði Flokkinn og foringjann gamla, sem hefur misst stjórn á sér. Sætt verður sameiginlegt skipbrot, ef þeir falla á sama árinu, Davíð, Ólafur Ragnar og Sigmundur Davíð. Þeir þrír, sem mest hafa angrað þjóðina á árinu. Það er mannskemmandi að þurfa að hlusta á dauðastríð yfirbófa gamla tímans. Vel færi á því, að á þessu ári riði nýi tíminn í hlað á vegum Pírata og viljugra samstarfsflokka um nýja stjórnarskrá og endurheimt auðlinda.

Úldin bolabrögð

Punktar

Allir skólanefndarmenn Borgarholtsskóla mæltu með sama manni sem skólastjóra. Fulltrúi menntaráðuneytisins sagði af sér, er ráðherra réð Ársæl Guðmundsson,  í staðinn á ófaglegum grundvelli. Ársæll er innanbúðar hjá Illuga Gunnarssyni og einn af höfundum hinnar illræmdu Hvítbókar Illuga. Skólanefndin fékk að heyra, að ekkert þýddi að mæla með þeim hæfasta, staðan væri eyrnamerkt Ársæli. Illugi þorði ekki sjálfur í skítverkið og fékk Ólöfu Nordal innanríkis til að taka það að sér. Það segir ekki lítið, að sjálfur fulltrúi ráðuneytis segi af sér, þegar gamla, úldna Ísland valtar yfir allt og alla. Rekum bófana af þingi.

Riðlað flokkakerfi

Punktar

Flokkapólitíkin er að riðlast vegna nýrra hreyfinga, sem raðast illa inn á ás milli vinstri og hægri. Stjórnarflokkarnir hafa rúmlega þriðjungs fylgi út á víðtæka fávísi kjósenda. Annar flokkurinn er undir stjórn aflendinga, sem gæta hagsmuna 1% þjóðarinnar. Hinn er orðinn að sértrúarsöfnuði, sem hoppar kringum geðbilaðan mannkynsfrelsara. Enginn áhugi er hjá öðrum á samstarfi við þessar gömlu furðustrandir íslenzkra stjórnmála. Gamla vinstrið er í tveimur flokkum, sem hafa samtals fjórðungs fylgi, aðallega hjá þeim grænu. Þriðjungur kjósenda hallast að nýjum flokkum, einkum pírötum, sem munu ráða næsta stjórnarmynztri.

Afturgangan er skæðari

Punktar

Pólitískt andlát Sigmundar Davíðs fékk snöggan endi. Afturgangan er komin á kreik, hálfu skæðari en í fyrra lífi. Hefur enn ekkert lært og engu gleymt. Er fórnardýr alþjóðlegs samsæris, sem spannar heimsbyggðina. Alls staðar var séð myndskeiðið af pólitíska sjálfsvíginu í Ráðherrabústaðnum. Þjónar í Tyrklandi segja: „Yes, Iceland, Panama“. Viðtökur Sigmundar voru jákvæðari hjá miðstjórn Framsóknar. Höskuldur Þórhallsson segist aldrei hafa orðið vitni að við­líkri for­ingja­dýrkun og virð­ist vera hjá „fá­mennum en dug­legum hópi inn­an­ Fram­sókn­ar­flokks­ins“. Afturgangan mun endurheimta flokkinn. Og sama ruglið endurlífgast.

Flott stefna – vont PR

Punktar

Píratar hafa í fjölda kosninga ákveðið stefnu í tæplega hundrað málum, nokkrir tugir eru langt komin. Verður flott stefna í haust, þegar slagurinn hefst. Enn halda þó margir, að píratar hafi enga stefnu. Það er vesen að finna stefnumál. Eiga að vera strax flokkuð og hlekkjuð við vefsíðu pírata. Og sleppa bókstafs-ritúali, sem er upphaf stefnumála. „Með tilvísun til Grunnstefnu pírata: 1.1 Píratar leggja áherslu á gagnrýna hugsun og vel upplýstar ákvarðanir.“ Þarf alltaf að tóna trúarjátninguna? Og síðan þetta: „Með hliðsjón af Stefnu Pírata um bla-bla-bla, gr. 5.“ Minnir á ritningu dagsins, t.d. Opinberun Jóhannesar, 1. kapítula, 8. vers. Á þeim stað hætta flestir að lesa. Þarf að stæla pokapresta?

Gerbreyttur flokkur

Punktar

Sjálfstæðisflokkur Bjarna Ben aflendings er gerólíkur samnefndum flokki árið 1958. Þá var hann markaðsvænn samkeppnisflokkur. Nú er hann orðin hreinn og tær bófaflokkur, sem sér um, að greifar geti falið skattsvikið þýfi á aflandseyjum. Sér um, að kvótagreifar losni við auðlindarentu og geti falið hana á sama hátt. Þannig er Sjálfstæðisflokkurinn siðblindur bófaflokkur. Hann er líka flokkur auðmanna og ójafnaðar, notar hvert færi til að færa fé frá fátækum til ríkra. Til að ná þessum árangri hefur Sjálfstæðisflokkurinn breytt sér í flokk ríkisforsjár og pilsfaldavæðingar. Í stað frelsis er komin forsjá fyrir greifa.

400 þrælar á Íslandi

Punktar

Til marks um græðgi íslenzkra athafnamanna er þrælahald hér hlutfallslega með því mesta í Evrópu. Í nýjasta Global Slavery Index eru taldir vera 400 þrælar á Íslandi. Voru bara 100 fyrir fjórum árum. Íslenzk stjórnvöld fá verstu einkunn í Vestur-Evrópu fyrir baráttu gegn þrælahaldi. Frægt er hótelið Adam, þar sem herbergisþerna þurfti að deila rúmi með hótelhaldaranum. Annars fréttist lítið í fjölmiðlum af þessum vanda og af áhugaleysi stjórnvalda. Þrælahald tíðkast á gististöðum, í landbúnaði, byggingaiðnaði og víðar. Tímabært er, að Ísland fari að hysja upp um sig buxurnar, áður en frægð okkar á þessu sviði verður meiri.

Global Slavery Index

Hrunið: Happdrættisvinningur

Punktar

Sem forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings er Ásgeir Jónsson hagfræðingur með minnisstæðari mönnum. Fremstur í fylkingu presta útrásarbólunnar allt fram í hrun. Er aftur kominn á vettvang með skýrslu handa Bjarna Ben aflendingi. Þar segir, að „hagnaður ríkisins [sé] kominn upp í 160 milljarða króna“ Hrunið var semsagt happdrættisvinningur! Ekki er tekið tillit til tapaðra skatttekna og aukinna almennra ríkisútgjalda vegna hrunsins. Enn síður til gjaldþrots og eignamissis þúsundanna og brostinna megingjarða velferðar. Ég held því, að Ásgeir eigi að fara manna varlegast í útreikningum á þessu frábæra hruni hans.