Punktar

Nóbel gegn hnattvæðingu

Punktar

Bankastjórinn Muhammad Junus gagnrýndi hnattvæðinguna, þegar hann tók á sunnudaginn við nóbelsverðlaununum í hagfræði fyrir árið 2006. Hagfræði hnattvæðingar hefði búið til einvíða persónu, sem aðeins hugsaði um gróða. Einnig gagnrýndi hann óttann við hryðjuverk, sem hefur heltekið bandarísk stjórnvöld og komið í stað aðstoðar við þróunarlönd. Junus stofnaði Grameen bankann, sem hefur lánað 36 milljarða króna til smáfyrirtækja án þess að heimta tryggingar. Nú hefur bankinn 2200 útibú og gengur vel, þvert á hagfræði hnattvæðingarinnar.

Árásin á börnin

Punktar

Tíu ára börn þekkja 300-400 vörumerki, frá Bratz yfir í Lego. Jackie Ashley segir í grein í Guardian í gær, að 70% þriggja ára barna þekki McDonalds, en aðeins 50% þekki föðurnafn sitt. Rannsóknir sýni, að meðalbarn sjái 20.000-40.000 auglýsingar á ári. Þar fyrir utan séu kynningar í kvikmyndum og sjónvarpi, til dæmis 30 vörumerki í Ninja Turtles teikniseríunni. Markaðsmenn leggja áherzlu á að koma boðskapnum á framfæri við fólk meðan það er fávísast, það er að segja yngst. Þar séu vörumerkin að ala upp dygga þræla, þegar þau vaxa úr grasi og hafa ráð á að kaupa Star Wars hjá Lego.

Leno og Letterman

Punktar

Paul Lewis gerir grín að Jay Leno, Conan O’Brien og David Letterman í International Herald Tribune. Hann minnir á, að O’Brien sagði söfnuði sínum, að Saddam Hussein væri Fransmaður. Hann minnir á að Leno sagði, að Frakkar hefðu ekki hjálpað til við að losa Frakkland við Þjóðverja. Hann minnir á, að Letterman sagði, að síðast, þegar Frakkar heimtuðu sannanir, hafi þær marsérað inn í París undir þýzkum fána. Skemmtistjórarnir voru ódýrt að níðast á Frökkum fyrir að hafa réttar skoðanir á innrásinni í Írak. Þeir voru og eru peð í spili Bandaríkjastjórnar með fávísa kjósendur.

Sykursukk Samfylkingar

Punktar

Samfylkingin er sammála ríkisstjórninni um, að ekki sé hægt að draga úr óhóflegri sykurneyzlu Íslendinga með vörugjaldi á gosi. Þetta er svipað sjónarmið og heyrist jafnan, þegar rætt er um verð á áfengi. Varaformaður flokksins er Ágúst Ó. Ágústsson, sem er til hægri við Sjálfstæðisflokkinn. Erlendis hefur komið í ljós, að framleiðendur áfengra drykkja bera fé á menn og flokka til að hindra álögur á vöru sína. Ekki hefur enn heyrst af slíkum aðferðum gosframleiðenda. En fræðimenn vita, að neyzlustýring virkar, þótt hægri kratar neiti.

Þeim leiðist Einar

Punktar

Einar K. Guðfinnsson er svo leiðinlegur, að útlendingar vilja ekki tala við hann. Þeir vita, að sjávarútvegsráðherrann þykist allt betur vita og lítur á samræður sem tækifæri til prédikana. Því vilja ráðamenn Whole Foods í Bandaríkjunum ekki tala við hann. Það er gott, því að þeir mundu koma rauðglóandi af fundi með honum og henda strax út íslenzkum vörum. Stundum er fínt að vita allt. En fyrir þjóð, sem þarf að stunda sölumennsku erlendis fyrir vörur sínar og þjónustu, er farsælla að hlusta á kúnnana. Þrútinn æsingur Einars í hvalveiðum og botnvörpuveiðum skaðar okkar.

Vinnumiðlunin

Punktar

Síðan ég man eftir mér hefur Framsókn verið skrítið nafn á vinnumiðlun. Hún tók áratugum saman við sonum kaupfélagavaldsins og útvegaði þeim vinnu hjá ríkinu á mölinni. Þar hafa þeir fengið kaup fyrir að vera til og hafa stutt áníðslu kerfisins á neytendum á mölinni, einkum með því að halda uppi ósamkeppnishæfum landbúnaði. Áratugum saman skildu menn ekki, að Framsókn var vinnumiðlun. Síðan rugluðust menn af loforðum flokksins, til dæmis um afnám eiturlyfjaneyzlu. Nú hafa menn einnig séð gegnum slíkt. Þess vegna lyftist fylgi Framsóknar ekki aftur.

4634 börn

Punktar

Fátæk börn voru orðin 4634 talsins hér á landi í hittifyrra samkvæmt staðli Efnahags- og framfarastofnunarinnar. Fátækt barna hafði aukizt á einum áratug: Það er afleiðing stjórnarstefnu, sem heimtar gjald fyrir skólamat og þáttöku fólks í kostnaði, svo sem í heilbrigðisþjónustu. Afleiðing stefnunnar er, að sumir hafa ekki ráð á opinberri þjónustu og fara á mis við hana. Mikið er um einstæðar mæður og þar er að finna mest af fátækt barna á landinu. Vonandi eru kjósendur ekki orðnir svo harðlyndir, að þeir leyfi ríkisstjórninni að komast upp með þetta.

Hjartað slær

Punktar

Stjórnmál eru einföld, þótt halda megi annað af ræðum pólitíkusa. Til dæmis er auðvelt að sjá, hvar hjarta stjórnmálaflokka slær. Fjármagnstekjuskattur er gott dæmi. Stjórnvöld hafa hann 10% á ríku fólki, en 38% á fátæku fólki með lífeyristekjur. Þau vinna fyrir hina ríku gegn hinum fátæku. Allt, sem gert hefur verið til að draga úr lögbundnum ójöfnuði í þjóðfélaginu, hefur verið dregið með töngum upp úr stuðningsflokkum stjórnarinnar. Það er rétt, sem Stefán Ólafsson prófessor segir: Ríkisstjórn okkar er harðasta Nýja-Íhald á byggðu bóli, verra en í Bandaríkjunum.

Þjark eða stríð

Punktar

Munurinn á James A. Baker, sem hyggst bylta bandarískri utanríkisstefnu, og Condoleezza Rice, sem enn hangir í embætti ráðherrans, er sá, að Baker er gamall samningarefur og utanríkisráðherra. Hann lítur á öll vandamál sem spurningu um þjark og þolinmæði. Rice er hins vegar einn hugmyndafræðinga Nýja íhaldsins, sem skiptir öllum heiminum upp í vini og óvini. Við hina síðarnefndu sé ekkert um að tala, þá verði að sigra með bandarískum eldi og brennisteini. Þetta segir David E. Sanger í International Herald Tribune. Heimsmynd Rice og forsetans er hrunin og ráðgjafar pabba gamla eru að taka við.

Arfavitlaust stríð

Punktar

Nýja íhaldið í Bandaríkjunum lauk því, sem Víetnamstríðið hóf. Bandaríska öldin byrjaði að hníga í Víetnam-stríðinu og hrundi endanlega í stríði Nýja íhaldsins gegn Írak. Síðari ósigurinn er verri en hinn fyrri, því að honum fylgir hrun bandarískra áhrifa erlendis. Martin Jacques segir í Guardian, að nú sé almennt viðurkennt í Bandaríkjunum, að George W. Bush sé versti forseti sögunnar. Hann hefur nú misst völdin í hendur ráðgjafa föður síns, sem reyna að sættast við demókrata. Týnst hafa tréhausar Nýja íhaldsins, er knúðu fram arfavitlaust stríð, sem saug merginn úr heimsveldi Bandaríkjanna.

Bara einn vinur

Punktar

Ísrael er eini bandamaður Bandaríkjanna. Þurfi George W. Bush að velja milli stuðnings við sjónarmið Ísraels og Bretlands, velur hann alltaf Ísrael. Tony Blair hefur ekki fengið neitt fyrir sinn snúð, þótt hann hafi stutt Bush gegnum þykkt og þunnt. Allra sízt hefur hann fengið Bandaríkin til að slaka á stuðningnum við Ísrael, þótt hann segi slíkt vera forsendu friðar í heimi múslima. Margir hafa farið illa á stuðningi við málstað Bandaríkjanna í Írak, þar á meðal Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson. En enginn hefur rústað sig eins herfilega og Tony Blair.

Umdeild botnvarpa

Punktar

Ofan á kárínur vegna hvalveiða er nú farið að saka okkur um að hindra fjölþjóðlegt samkomulag um bætta umgengni um fiskimiðin. Rök okkar manna fyrir notkun botnvörpu hafa ekki verið sannfærandi, þótt auðvitað sé freistandi að telja útlendinga sitja á stöðugum svikráðum við okkur. Það telur Einar K. Guðfinnsson ráðherra að minnsta kosti. Hann er alltaf jafn hneykslaður á útlendingum, ekki bara bölvuðum grænfriðungum, heldur líka á leiðarahöfundum Washington Post og margvíslegum embættismönnum. Ég tel hins vegar tímabært að skoða afleiðingar botnvörpunnar í alvöru.

Hagsmunagæzlan

Punktar

Ný fjárlög ríkisins gera áfram ráð fyrir skattamun tekna. Annars vegar þurfa auðmenn bara að borga 10% af sínum fjármagnstekjum, en hins vegar þurfa gamlingjar að borga 38% af sínum fjármagnstekjum og auðvitað allur almenningur 38% af sínum launatekjum. Í gamla daga var deilt um, hversu mikið mætti nota ríkisvaldið til að jafna kjör fólks. Nú er lítið deilt um slíkt, enda er sterkur meirihluti í pólitík fyrir því, að mikilvægast af öllu sé að bæta kjör auðmanna á kostnað almennings. Ekkert vestrænt ríki hefur náð eins langt í slíkri hagsmunagæzlu.

Ertu móðgaður

Punktar

Vitleysingarnir í héraðsdómi þurfa engan málflutning í persónumálum. Þeir geta bara spurt hinn móðgaða: “Hversu mikið ertu móðgaður?” Jónína svarar: “Svona í meðallagi”. “Það verður hálf milljón”, segir dómarinn og slær hamrinum í borðið. Bubbi svarar: “Ég er alveg rosalega móðgaður”. “Það gerir milljón”, segir dómarinn. Þessa umboðsmenn hræsninnar í stétt dómara varðar ekki um, að rétt sé skrifað, ekki einu sinni þótt viðurkennt sé af lögmönnum hinna móðguðu. Héraðsdómarar hafa margir tapað jafnvægi milli prentfrelsis og móðgunarfrelsis.

Heiðraðir hermenn

Punktar

Bosníumenn eru felmtri slegnir yfir heiðursmerkjum 500 hollenzkra tindáta, sem stóðu og horfðu á Bosníu-Serbann Ratko Mladic og villimenn hans slátra 8000 manns á tíu dögum í júlí 1995. Dátarnir hreyfðu hvorki legg né lið af hræðslu, enda mun skömm þeirra lengi standa. En hollenzkir foringjar fá ekki stríðsorður, nema einhverjir hermenn fái þær líka. Því hafa allir dátarnir fengið orður, líka herforinginn Tom Karreman, sem var ljósmyndaður á fylleríi með Mladic. Mikil reiði er um alla Evrópu út af þessu. Orðunefndir herforingja eru ekki í neinu sambandi við samfélag fólks.