Punktar

Fatlaða deildin

Punktar

Fatlaða deildin í vinnumiðlun Framsóknar varð fræg fyrir að leggja Hummer í bílastæði fatlaðra, þaðan kemur nafnið. Nú er hún orðin enn frægari af að hafa Óskar Bergsson aðalmann í eftirliti borgarinnar með verktakanum Óskari Bergssyni. Það þykir Birni Inga Hrafnssyni, smjörklípara fötluðu deildarinnar, líkjast því, að Dagur Eggertsson borgarfulltrúi sé stundakennari við Háskólann í Reykjavík. Kringum Björn Inga í máli þessu er bandalag í skjallbloggi nokkurra fyrrverandi aðstoðarmanna Halldórs Ásgrímssonar. Og svo auðvitað Björn Bjarnason, sem fagnar, að Björn Ingi nuddi smjörklípum sem víðast.

Stjórnarbylting

Punktar

Það er illt verk ríkisstjórna Bandaríkjanna og Ísraels að æsa fylgisrýran forseta Palestínu til stjórnarbyltingar. Mahmoud Abbas hefur boðað til nýrra kosninga, þótt löglegar kosningar hafi þegar farið fram í janúar á þessu ári. Hamas flokkurinn vann þær kosningar með ærnum meirihluta, enda nýtur Fatah lítils fylgis eftir áratuga spillingu Jassir Arafat. Bandaríkjastjórn er illa við frjálsar kosningar, ef þær leiða ekki til réttrar niðurstöðu, hvort sem er í Alsír eða Palestínu. Í Alsír var hernum sigað á sigurvegarana og í Palestínu er búið að siga Abbas á þá.

Beggja vegna borðs

Punktar

Óskar Bergsson situr á vegum vinnumiðlunarinnar Framsóknar í framkvæmdaráði Reykjavíkur og er varaformaður skipulagsráðs borgarinnar. Sem slíkur á hann að hafa eftirlit með hagsmunaaðilum, sem þrýsta á skipulag og framkvæmdir borgarinnar. Það gerir hann með því að ráða sig hjá Faxaflóahöfnum til að gæta hagsmuna verktakans “gagnvart Reykjavíkurborg og öðrum, sem koma að samþykkt deiliskipulags fyrir svæðið og uppbyggingu þess.” Að hætti hinnar gamalkunnu vinnumiðlunar situr Óskar beggja vegna borðsins. Þannig vill Framsókn hafa það og við það sættir sig Sjálfstæðisflokkurinn.

Samsekt Samfylkingar

Punktar

Þrátt fyrir allt náttúruhjal Samfylkingarinnar stendur hún í stjórn Landsvirkjunar að ítrekuðum yfirlýsingum um nýja orkusölu til stóriðju og að áfram verði orkuverði haldið leyndu fyrir almenningi. Ég sé engan mun á stóriðjuflokknum Samfylkingunni og á stóriðjuflokkunum Sjálfstæðisflokki og Framsókn. Allir reyna að fegra hlut sinn í aðdraganda kosninganna, en enginn þessara flokka mun rétta litla fengur til hjálpar aðþrengdri náttúru landsins, þegar til kastanna kemur. Oft hefur verið logið að kjósendum og aldrei verður logið eins mikið og á næstu mánuðum.

Draumastart

Punktar

Sigurjón M. Egilsson fær draumastart á dagblaði sínu eftir áramótin, kominn í sviðsljósið nú þegar. Honum var í gær vísað af ritstjórn Blaðsins, hálfum mánuði áður en hann átti að hætta þar. Mér hafði skilizt, að undirbúningur dagblaðs SME mundi hefjast um áramótin. En nú vilja eigendur Blaðsins ekki fá samkeppni fyrr en eftir rúmlega hálft ár. Slíkir átthagafjötrar standast ekki í raun. Hliðarverkun þeirra er að vekja athygli fólks á tilraunum SME til að búa til dagblað, sem ekki er lamað af hræsni og rétttrúnaði samfélagsins.

Duldar kynningar

Punktar

Evrópuþingið samþykkti í fyrradag mildari reglur um auglýsingar í sjónvarpi. Það treysti sér ekki til að banna duldar auglýsingar í þáttum og kvikmyndum. Þær felast í, að leikarar keyra um á Chrysler, nota iPod og drekka kók. Þingið bannaði slíkt í fréttaþáttum og barnaefni, en leyfir í íþróttaefni. Það leyfði líka með 324 atkvæðum gegn 323 að minnka bil milli auglýsinga úr þremur kortérum í tvö. Spurning er, hversu mikil pólitísk afskipti eigi að hafa af markaðinum. En duldar auglýsingar hafa lengi ögrað mönnum. Sjá Doreen Carvajal í IHT.

Tyrkir slá Írönum við

Punktar

Forseti Írans efnir til ráðstefnu, þar sem rætt er, að helför Gyðinga sé lygi. Þar tala margir, sem afneita sagnfræði, eins og Tyrkir afneita helför Armena. Tyrkir banna fólki beinlínis að viðurkenna helförina að viðlögðu fangelsi. Amadinejad lætur sér nægja að breiða út bullið, sem er innan marka hins löglega. Fólki er líka heimilt að segja, að jörðin sé flöt og að guð hafi skapað heiminn á sex dögum. Ráðstefnan í Íran er bara heimskuleg fólska, en lögin í Tyrklandi eru beinlínis glæpsamleg. Helfarir Gyðinga og Armena eru sannreyndar. Sjá Charles Fried í Boston Globe.

Kvikmynda pedófíla

Punktar

Meðan Íslendingar hossa pedófílum og pólitíkusar skrifa um þá fögur minningarorð, hafast Bandaríkjamenn ólíkt að. Þar koma samtök upp um pedófíla og hafa klófest 104 manns. Þeir setja agn á vefinn, þykjast vera tólf-fjórtán ára og efna til kynlífsfunda með pedófílunum. Á vettvangi er svo tekin kvikmynd af atburðarásinni. Ellefu þessara kvikmynda hafa verið birtar á Dateline NBC. Félagar í samtökunum Perverted-Justice.com eru orðnir 41.000. Þar af eru 65 í hlutverki agns á vefnum. Borgaralegt réttlæti af þessu tagi væri bannað hér á landi. Sjá Allen Salkin í IHT.

Sumir ófarnir enn

Punktar

Gott er að trúa á helvíti og vita, að Augusto Pinochet er kominn þangað. Bráðum fer Henry Kissinger þangað líka, maðurinn sem skipulagði valdarán Pinochet í Chile. Fleiri eru á leiðinni, til dæmis þeir, sem nota sömu aðferðir og Pinochet notaði, mannrán, leynifangelsi og pyndingar. Fremstur þar í flokki er George W. Bush forseti og ýmsir helztu ráðgjafar hans, sem beita sömu aðferðum í vonlausu stríði þeirra gegn hryðjuverkum. Þeir fara allir beint til helvítis, þegar þeir deyja. Valdastofnanir eru fullar af bófum, sem munu fá makleg málagjöld.

Gott samtal í Iðu

Punktar

Rangt er að segja fjölmiðla upptekna af fjölmiðlum. Svo sjálfhverfir eru þeir ekki. Umræðan um breytingar á þeim er utan fjölmiðla, á vefsvæðum manna, sem hafa um tíðina tengst fjölmiðlum. Þeir hafa birt skemmtilegar fréttir og furðu skjótar. Rétt var hermt, að ég hafi verið í kaffi með SME í Iðu, aðeins tveimur tímum eftir að við vorum þar. Það var vel af sér vikið. Við SME tölum oft saman, enda er gaman að tala við hann. Talið berst auðvitað að ráðagerðum hans, enda er hann fullur af góðum hugmyndum. Ég reyni að gefa honum góð ráð. En slík gef ég raunar öllum, sem hafa vilja.

Spilltur oddviti

Punktar

Oddvitinn á Álftanesi, er vel spilltur, enda notar hann orðalagið, að “ekki megi hegna mönnum fyrir afskipti af pólitík.” Kristján Sveinbjörnsson hefur markvisst reynt að komast yfir sjávarlóð við hús sitt, en dómstólar hafa bannað það. Samt telur hann sig eiga þessa lóð og notar hana sem sína eigin. Hann hindrar, að eigandi lóðarinnar geti notað hana. Oddvitinn er líka verktaki hjá oddvitanum, án útboðs. Aldrei komst Árni Johnsen í slíka aðstöðu sem þessi oddviti. Sem er í algerri afneitun og talar fullum hálsi um að ekki megi refsa sér fyrir afskipti af hreppspólitík.

Hræsnin og Nicolov

Punktar

Mér finnst umræðan um málfar Nicolov jaðra við rasisma. Hann talar betri íslenzku en margir innfæddir. Þar að auki er ekkert sem bannar, að töluð sé enska á Alþingi eins og hvert annað tungumál. Fólk sezt á Alþingi til að hafa áhrif. Ef það nær meiri eða minni áhrifum með því að nota eitthvert annað tungumál en íslenzku, er það í fínu lagi mín vegna. Það á ekki að kenna innfluttum íslenzku til að efla tungumálið, heldur til að auðvelda þeim að komast áfram í þjóðfélaginu. Markmiðið með sameiginlegu tungumáli hefur flækzt fyrir hræsnurum, sem hafa rætt tungutak Nicolovs.

Sjálfbærir skógar

Punktar

Ég furða mig á, að útgefendur dagblaða á Íslandi skuli ekki auglýsa á forsíðu, að blöðin séu unnin á pappír úr sjálfbærum skógum í Noregi. Þar planta framleiðendur meiri skógi en þeir höggva. Prentun dagblaða á Íslandi leiðir því ekki til samdráttar í skógum heimsins. Nú koma blöðin út tvíefld vegna jólavertíðar. Og von er á fleiri útgáfudögum Viðskiptablaðsins, dagblaði Sigurjóns M. Egilssonar og líklega einu vikulegu fréttablaði. Þá er tímabært, að einhverjir veki athygli á þeirri staðreynd, að öllu þessu lífi og fjöri í bransanum fylgja ekki náttúruspjöll.

Röng forgangsröðun

Punktar

Lögreglan kvartar um, að vegfarendur hafi verið dónalegir við sig á dauðaslysstað á Vesturlandi á sunnudag. Ég held, að ástæðan sé hin sama og í öðrum dauðaslysum síðari hluta þessa árs, til dæmis í Ártúnsbrekku og Sandskeiði. Fyrsta hlutverk löggunnar er að koma sér á slysstað og greiða för sjúkrabíla með slasað fólk. Síðan á umferðin að hafa forgang. Það er ólíðandi, að löggan noti einn til þrjá klukkutíma til að mæla og sópa götur meðan allir bíða. Með rangri forgangsröðun æsir lögreglan vegfarendur upp á móti sér. Og fer svo að væla.

Lausbeizlað ríki

Punktar

Ísrael sé lausbeizlað 51. ríki Bandaríkjanna, segir Peter Preston í Guardian í gær. Það reyni nú að hindra framkvæmd lausna á stríðinu gegn Írak frá nefnd undir forsæti Jim Baker, fyrrum utanríkisráðherra hjá pabba Bush. Ísrael hefur strax hafnað öllum tillögum Baker-nefndarinnar. Preston minnir á, að flestir sérfræðingar telji rót vandræðanna í Miðausturlöndum vera að finna á landamærum Ísrael, í kúgun Palestínu. Meðan Bandaríkin skirrist við að taka í hnakkadrambið á Ísrael, sé ekki að vænta friðar. Hann tekur undir þau orð Baker, að hernaðarleg lausn sé ekki til á vandanum.