Punktar

Snjólausir alpar

Punktar

Mér finnst náttúruhamfarir vera meiri hin síðustu ár en þær voru í mínu ungdæmi. Miklar sveiflur voru sjaldgæfari í þá daga og sumarhiti þekktist ekki í síðari hluta desember. Nú er ekki einu sinni snjó að hafa í ölpunum. Í Madonna hafa þeir að vísu 600 snjóbyssur, sem framleiða gervisnjó dag og nótt. Mér er því ráðlagt að sleppa ekki skíðunum, þegar kemur að skíðaferð vetrarins. Kannski leysir tæknin náttúruöflin af hólmi og skíði leggjast ekki af í ölpunum eins og þegar hefur gerzt á Íslandi. Við höfum ekki sýn yfir, hvert leiða okkur loftslagsbreytingar af mannavöldum.

Honum er tjáð

Punktar

Samfélagið hefur verið á kafi í fréttum af deilu flugumferðarstjóra og nýstofnaðs hlutafélags hins opinbera, Flugstoða. Sturla Böðvarsson virðist ekki fylgjast með fréttum eða áliti á fréttum, því að hann orðar meðvitund sína um málið svona: “Mér er tjáð, að þeir setji fram skyndilega mjög háar launakröfur.” Ég sé fyrir mér, að ráðherrann sé sambandslaus að ráfa um í ljóslausu ráðuneyti, þar sem hann rekist stundum utan í embættismenn, sem tjá honum, hvað sé að gerast fyrir utan veggina. Varla er hægt að kalla þetta fílabeinsturn, en dauft er samband ráðherrans við umheiminn.

Telur sig vita betur

Punktar

Kærunefnd jafnréttismála hefur tvisvar sagt Háskóla Íslands brjóta lög með því að taka karl fram yfir konu. Það gerir skólann skaðabótaskyldan, svo að gagnlegt væri fyrir hann að sjá að sér. Það gerir Kristín Ingólfsdóttir rektor hins vegar ekki. Þótt hún lesi ekki jafnréttislögin, veit hún betur en kærunefndin og segir jafnrétti virt í ráðningum skólans, samkvæmt venjum skólans. Það er sérkenni Íslendinga, að margir þeir vita betur, sem sekir eru dæmdir. Þeir viðurkenna ekki niðurstöður dóma og endurtaka í síbylju, að þeir hafi ekkert gert af sér.

Vinnusparandi eintal

Punktar

Óskar Bergsson skilur ekki, um hvað málið snýst. Hann telur það snúast um, hvað hann fái mikið fyrir hlutastörf hjá borginni og verktaka. Honum finnst það ekki bara í lagi, heldur beinlínis vinnusparandi, að Óskar Bergsson hafi eftirlit með Óskari Bergssyni. Þá getur hann talað við sjálfan sig í stað þess að tveir menn deili um keisarans skegg. Allir aðrir en félagsmenn vinnumiðlunar Framsóknar vita, að málið snýst um að hindra Óskar í að sitja beggja vegna borðsins. En félagsmönnum í vinnumiðluninni er fyrirmunað að skilja slík viðhorf. Þess vegna er Framsókn eins og hún er.

Frjálslega þýtt

Punktar

Gagnvart útlendingum hefur ríkisstjórnin her, “military”, sem heitir friðargæzla gagnvart kjósendum. Gagnvart útlendingum hefur ríkisstjórnin tvær leyniþjónustur, “intelligence services”, sem heita Sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli og Greiningardeild ríkislögreglustjóra gagnvart kjósendum. Þannig hefur ríkisstjórnin komið sér undan að ræða hernaðar- og leynivæðingu ríkisins við þjóð, þing og utanríkismálanefnd. Hún notar bara orð, sem ekki kveikja á perunni. Embættismenn þessara stofnana nota rétt orð í samskiptum sínum við útlönd, en þykjast ekkert vita hér heima.

Vafasamt Byrgi

Punktar

Þótt deildar meiningar séu um aðferðir Kompáss, er að minnsta kosti ljóst, að Byrgið hefur verið rekið af hroka manna, sem telja sig ekki þurfa að fara eftir lögum og reglum. Ennfremur er ljóst, að ríkisvaldið hefur ekki sinnt lögbundnu hlutverki, þótt það hafi árum saman vitað, að ekki var þar allt með felldu. Í þriðja lagi er ljóst, að trúarofsi er ekki viðurkennd leið til að lækna fíkniefnaneytendur. Í fjórða lagi segir reynslan, að menn með sterkan persónuleika í hlutverki frelsarans, missa stundum sjónar á mismuninum á réttu og röngu, verða sölumenn snákaolíu. Eða verri.

Tilgangurinn og meðalið

Punktar

Kompás er á hálum ís með Byrgismálið, því að vinnan var ekki nógu vönduð. Flestir fjölmiðlar neita að greiða fólki fyrir uppljóstranir. Faldar mynda- og vídeóvélar eru á undanhaldi, svo og að villa á sér heimildir. Þótt ljóstrað sé upp um alvarleg mál með slíkum hætti, finnst fólki ekki rétt að reka illt út með illu. Því finnst, að tilgangurinn helgi ekki meðalið. Komið hefur í ljós í Bandaríkjunum, að fjölmiðlar rýrna í áliti við notkun þeirra, þvert á væntingar blaðamanna. Og altjend eru þetta alls ekki þau vinnubrögð, sem ég kenndi á námskeiðinu í Háskólanum í Reykjavík í vetur.

Útlendingar réttdræpir

Punktar

Þótt Bandaríkjamenn deili um réttmæti stríðsins gegn Írak, eru þeir þó sammála um, að líf útlendinga sé einskis virði. Þar vestra er mikið skrifað um mannfall bandarískra morðingja í hernum í Írak. Menn hafa hins vegar alls engar áhyggjur af þeim hundruðum þúsunda, sem morðingjarnir hafa drepið í Írak. Því miður virðast Bandaríkjamenn telja gerlegt að senda morðingja um þriðja heiminn til að stráfella friðsamt fólk, til dæmis í Víetnam, Afganistan og Írak. Það eru bara útlendingar, einskis virði í augum manna, sem eru sjálfir útlendingar í landi indjána.

Börn eru fátæk

Punktar

Meðalútgjöld íslenzkra fjölskyldna eru 340 þúsund krónur á mánuði fyrir utan skatta, ótrúlega há tala. Hins vegar má ætla, að meðaltekjur einstæðra mæðra séu 100-150 þúsund krónur. Þetta er lunginn úr því, sem kallað er fátækt á Íslandi. Það er ekki hægt að hlægja fátækt barna út úr umræðunni með skætingi út í lélega aðferðafræði við að finna fátæk börn. Þau eru til á Íslandi og skipta þúsundum, hvað sem grínistar segja. Vanda fátæktar barna má lina með auknum stuðningi við einstæðar mæður. Það eru tilfinningasljó stjórnvöld auðhyggju, sem standa gegn bættum sið.

Bush og Cheney einangraðir

Punktar

George W. Bush Bandaríkjaforseti hafnar tillögu ráðgjafa pabbans um breytta utanríkisstefnu. Hann hafnar sömu tilraun Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands. Bush yngri hefur einangrað sig í fílabeinsturni nýhægrisinna, þar sem Dick Cheney varaforseti ræður ríkjum. Þeir hafna breyttri stefnu í miðausturlöndum. Einkum hafna þeir tilraunum til að koma á sátt milli Ísraels og Palestínu, sem er kjarni tillagna Blair og þjóðarsáttarnefndar James Baker, fyrrverandi utanríkisráðherra föðurins. Sá gamli reynir árangurslaust að tjónka við geðbilaðan soninn. Sjá Times.

Hvað er að Geir?

Punktar

Geir H. Haarde forsætisráðherra lætur Nató ljúga sig fullan um, að stríðið gegn Afganistan gangi vel. Hann studdi uppvakning í pólitík, Árna Johnsen, sérfræðing í tæknimistökum. Hann styður þvermóðsku Þorgerðar Katrínar, sem puðar við að hlutafélagavæða Ríkisútvarpið. Hann styður hvalveiðar Einars Guðfinnssonar, taprekstur gegn gróða af annarri atvinnu. Hann stendur í gamaldags þvargi í sjónvarpi við Ingibjörgu Sólrúnu um einskisverð mál. Hann styður stóriðjustefnu og hindrar umhverfisvernd. Hann reynir að vekja upp dauðan varnarsamning. Þarf ekki Geir að fara að athuga sinn gang?

Afganistan tapast

Punktar

Eitt af öðrum flýja vestræn ríki ábyrgðina af innrásinni í Afganistan og hernámi landsins. Frakkland hefur ákveðið að kalla heim virka hermenn og skilja aðeins eftir hersveit í höfuðborginni Kabúl. Þýzkaland hefur sína hermenn aðeins í norðurhluta landsins, þar sem friður er. Kanada og Holland eru einu ríkin, sem taka virkan þátt í hernaði með Bandaríkjunum og Bretum. Á sama tíma reyna kontóristar Nató í Bruxelles að bera höfuðið hátt. Þeim tókst meira að segja að ljúga Geir Haarde fullan um, að stríðið væri að vinnast. Svo er ekki. Það tapast hægt og bítandi.

Bloggið á toppnum

Punktar

Darryl Plummer hjá Gartner ráðgjöfum segir, að bloggið muni toppa á næsta ári. Flestir, sem áhuga hafi á slíku, séu þegar farnir að blogga. Sumir muni halda því áfram, en öðrum fari fljótt að leiðast. “Allir telja sig hafa eitthvað að segja, unz þeim er afhentur ræðustóllinn,” segir Plummer. Samkvæmt þessu mun nýjabrumið fljótlega fara af blogginu. Plummer spáði líka, að kostnaður við tölvur muni lækka um helming á næstu fjórum árum. Og að í lok næsta árs verði tölvubúnaður 75% fyrirtækja sýktur af varanlegum veirum, sem ekki er hægt að finna eða hreinsa út.

Nýir passar ónýtir

Punktar

Nýju passarnir á Íslandi og annars staðar í Evrópu eru misheppnaðir að sögn David Reid hjá BBC. Auðveldara er að falsa þá en gömlu passana. Menn geta lesið þá rafrænt úr fjarlægð og tekið af þeim afrit. Þar á meðal afrit af rafrænum myndum og rafrænum texta. Í nýja passanum er þunnur tölvukubbur, sem átti að lina hræðslu vestrænna ríkja við hryðjuverk. Hann er hægt að afrita eins og aðrar tölvur. Sérfræðingar Evrópusambandsins segja passana ekki munu virka. En yfirvöld vilja ekki hlusta, enda hafa þau lagt stolt sitt í hina auðfölsuðu passa.

Of varfærnar spár

Punktar

Spár um hækkun sjávar hafa undanfarið verið of varfærnar. BBC segir frá nýrri rannsókn bandarískra og þýzkra fræðimanna, sem bendir til, að yfirborð sjávar verði árið 2100 orðið 0,5-1,4 metrum hærra en það var árið 1990. Bráðnun jökla vegur þar mest, einkum á Suðurskautinu og Grænlandi. Einkennilegt er því að láta sig nú dreyma um byggðir úti í sjó, flugvöll í Skerjafirði, hafnarhverfi í Kópavogi, verzlanir við Eiðisgranda. Þegar er hækkun sjávar farin að valda vanda í láglendum ríkjum, svo sem Bangladesh. Við eigum ekki að byggja úti í sjó.