Punktar

Leppurinn afnuminn

Punktar

Brezka herstjórnin í Írak hefur í tæp fjögur ár byggt upp herlögreglu í Basra í suðurhluta landsins. Í tæp fjögur ár hefur hún verið í nánu samstarfi við þetta afkvæmi sitt. Niðurstaðan af samstarfinu var, að á jóladag réðist brezki herinn á höfuðstöðvar afkvæmisins í Jamiat í Basra og jafnaði þær við jörðu, lagði niður starfsemina. Afkvæmið hafði verið stórtækt í pyndingum og morðum undir handarjaðri Breta, sem nú allt í einu telja mælinn vera fullan. Svona er hernámið í Írak. Heimsveldin hafa ekki einu sinni stjórn á sérvöldum leppum sínum, hvað þá þjóðinni.

Nýtt stríð heimsveldis

Punktar

Bandaríkin eru komin í nýtt stríð, gegn Sómalíu. Þetta er óbeint stríð. Heimsveldið styður við bakið á einu þekktasta ofbeldisríki Afríku, Eþiópíu, sem hefur í fjóra áratugi átt í stríði við Erítreu. Öll eru ríkin þrjú í hópi fátækustu ríkja heims og ættu að hafa öðrum hnöppum að hneppa en stríði. Bandaríkin hafa útvegað Eþiópíu hergögn og peninga til að ráðast inn í Sómalíu. Einræðisríkið er peð í tafli Bandaríkjastjórnar, sem vill ráða siglingum við suðurenda Rauða hafsins. Herstjóri Bandaríkjanna í Írak, John Abizaid, heimsótti einræðisstjórn Eþiópíu fyrir jólin.

Trúlausir Bretar

Punktar

Skoðanakönnun Guardian í Bretlandi sýnir, að fjórir af hverjum fimm Bretum kenna trúarbrögðum í auknum mæli um spennu og sundrungu í heiminum. Tveir af hverjum þremur Bretum eru trúlausir, aðeins einn af hverjum þremur trúir á guð. Tíundi hver Breti sækir kirkju. Bretar hafa lengi haft fyrir augum baráttu kaþólskra og mótmælenda á Norður-Írlandi. Þeir vita, að stjórnin tekur með Bandaríkjunum þátt í krossferð gegn múslimum. Þeir muna eftir borgarastríði í Júgóslavíu á trúarnótum. Afleiðingin er, að fleiri Bretar hafna trúarbrögðum.

Fimm þúsund manns

Punktar

Allir eru sammála um, að bilið milli ríkra og fátækra sé að breikka hér á landi. Velgengni þjóðfélagsins nýtist líka miðstéttum eins og auðstéttinni, svo sem sjá má á mestu jólakauptíð sögunnar. Fámennur minnihluti hefur það skítt, fimm þúsund manns samkvæmt Mæðrastyrksnefnd. Hjálparstarfi kirkjunnar og Rauða krossinum. Breytingin milli ára felst í auknum fjölda fátækra gamalmenna. Við vitum, hverjir eru fátækir, sumir gamlingjar og öryrkjar og margar einstæðar mæður. Ef ríkisstjórnin hefði áhuga, gæti hún skipulagt aðgerðir í þágu þessa minnihluta. En áhugi hennar er enginn.

Öryggisleysi í útvarpi

Punktar

Í fáfræði hélt ég, að útvarpið væri rekið með nefskatti til að halda uppi fréttastofu, sem sendi okkur fréttir og tilkynningar, þrátt fyrir atómstríð og náttúruhamfarir. Samt datt útvarpið út í einfaldri rafmagnsbilun uppi í Hvalfirði, þótt aðrir hafi ekki dottið út. Nefskatturinn fer ekki lengur til að reka öryggisþjónustu, heldur til að bjóða í fótbolta og halda uppi skemmtiþáttum í sjónvarpi. Öryggishlutverkið er látið reka á reiðanum, meðan nefskattinum er sóað í hopp og hí, sem allir geta rekið án þess að reiða sig á nefskatt.

Sendimenn herteknir

Punktar

Bandaríski herinn handtók á jóladag íranska sendimenn á leið til fundar við forseta Íraks og tók skjöl þeirra í sína vörzlu. New York Times sagði á vefnum í gær frá broti Bandaríkjanna á lögum um alþjóðleg samskipti. Brotið hefur valdið angist ráðamanna Íraks, sem buðu sendimönnunum til fundar við sig. Einn af sendifulltrúunum var handtekinn hjá Abdul Hakin, einum helzta leiðtoga sjíta, sem var hjá George W. Bush fyrir þremur vikum. Hann er að vonum ekki kátur. Það er einmitt svona hegðun, sem frystir Bandaríkin úr samfélagi þjóðanna. Rosalega er gott, að þeir eru farnir héðan.

Ísrael og Betlehem

Punktar

Jólin í Betlehem voru með daufasta móti að þessu sinni, enda voru ferðamenn fáir. Grimmd Ísraela hegnir kristnum Palestínumönnum eins og múslimum. Fyrri jól var straumur af rútum frá Jerúsalem til Betlehem, en nú er risinn Ísraelsmúrinn mikli, sem þræðir í krókum yfir vegi og akra Palestínumanna. Múrinn nær næstum umhverfis Betlehem og hefur gert kristnum pílagrímum nánast ókleift að komast til borgarinnar helgu. Við skulum muna eftir, að sjónvarpsstöðin Omega og ofstækissöfnuðir á Íslandi styðja grimmd Ísraela í von um atómstríð og heimsenda.

Annir kokksins

Punktar

Kokkurinn hefur mikið að gera um jólin. Á aðfangadag voru hér sjö manns í smjörgrilluðum humri, sauða-hangikjöti með kartöflustöppu og grænum baunum, svo og berjum mð rjóma. Á jóladag voru hér 36 manns í sítrónugrafinni lúðu, dillgröfnum laxi, silungakæfu, rækjum með banönum og tómötum, svo og í tertum. Í dag verða hér níu manns í djúpsteiktum nautahryggvöðva með vínberjum og rúsínum, furuhnetum og hrísgrjónum, svo og rjómaávöxtum. Það verður ekki skrifað mikið á vefinn meðan á öllu þessu mataræði stendur. Grilluð hreindýrasteikin verður svo að bíða til gamlárskvölds.

Parísartízka í frostinu

Punktar

Ég var að endurlesa bók Jared Diamond, Collapse, þar sem meginkaflinn segir frá umhverfis-sjálfsmorði frænda okkar í Grænlandi 980-1410. Hann rekur, hvernig þeir neituðu að læra lífsbaráttu af skrælingjum. Þeir lærðu ekki að veiða hringanóra og hvali, heldur rústuðu landinu með sauðfé. Þeir lærðu ekki að beita atvinnutækjum skrælingja, svo sem húðkeipum og skutlum. Þeir lærðu ekki að lifa af hafinu, en treystu á hrokann og heimskuna, sem svo oft veldur straumhvörfum í mannkynssögunni. Þeir fylgdu Parísartízku hvers tíma og voru magnþrota gegn náttúruöflum Grænlands.

Hroki og heimska

Punktar

Ég var að endurlesa bók Barböru W. Tuchman, The March of Folly, þar sem hún rekur sagnfræðidæmi um hreina firru stjórnvalda. Hún rekur, hvernig hroki og heimska stýrðu alþjóðamálum fyrri tíma, eins og þau stýra núna hernámi Íraks og Afganistans. Hún rekur sögu sex páfa, sem rústuðu páfadómi á endurreisnartímanum 1470-1530. Hún rekur sögu kóngs og ráðherra brezka heimsveldisins, sem rústuðu sambandinu við nýlendurnar í Ameríku 1760-1780. Hún rekur sögu Víetnamstríðsins 1945-1975, sem rústaði áliti Bandaríkjanna í heiminum. Hroki og heimska eru sterkasta afl mannkynssögunnar.

95 ára og blindur

Punktar

Ég var að endurlesa bók John Julius Norwich, A History of Venice, þar sem hann rekur þúsund ára sögu lýðveldisins Feneyja 727-1797. Hann rekur hvernig kaupmenn og sjómenn einnar borgar gátu haldið til jafns við stórveldi Evrópu í styrjöldum og sjóhernaði margra alda. Skemmtilegust er lýsingin á Andrea Dandolo hertoga, sem árið 1203 ginnti krossferð númer tvö til að víkja af leið til Jerúsalem og ráðast í staðinn á Miklagarð. Dandolo var þá sagður 95 ára og blindur, þegar hann réðist fremstur til uppgöngu á hæsta borgarmúr í heimi og hreif hugsvikinn herinn með sér.

Hrósað of hratt

Punktar

Þótt Economist og Time hafði tekið út bloggheiminn og lýst hann frábæran, hef ég lesið allt annað út úr dæmum þeirra. Vefir eins og YouTube og Digg eru bara væntingar um óljósa framtíð. Í rauninni eru þeir slappir vefir í dag. Kostur þeirra er samtalið, þar sem fréttir og skoðanir flæða fram eftir degi, meðan dagblöð koma yfirleitt bara út á vefnum einu sinni á dag eins og á prenti. En blaðafréttirnar eru bitastæðari, þótt fróðlegt sé að horfa á hrækingar eða hlusta á lög prumpuð í lúkum. Economist og Time komu of hratt með hrósið.

Blöðin eru bezt

Punktar

Ég fór um daginn, 28.11, of bratt í að hrósa ágæti vefsins og auknum áhrifum bloggara í þjóðmálum, svo og að harma dvínandi áhrif dagblaða. Við nánari skoðun ýmissa vefja, sem beztir eru taldir, svo sem Digg, WikiNews, MySpace, YouTube, verð ég að draga í land. Langbeztu vefirnir eru dagblaða, svo og Google, sem nánast eingöngu birtir efni blaða. Þótt fjöldi manns bloggi af krafti, þar á meðal ég, erum við samanlagt ekki samkeppnishæfir við hliðverði dagblaða. Dagleg hefð hjá mér er að fletta erlendum blöðum á vefnum, en á bloggara samanlagt lít ég vikulega.

Öll blöð heima

Punktar

Hruninn er helzti kostur utanferða. Áður fyrr hófust dagar mínir erlendis á að komast í blaðsöluturn og kaupa eintök af helztu dagblöðum heims, sem í þá daga voru ekki fáanleg hér heima fyrr en daginn eftir. Nú get ég lesið öll helztu blöð heimsins heima hjá mér sama morgun og þau koma út. Það er eins og að vera orðinn hluti af útlöndum. Það veitir frelsi frá smáborunni í hugsun íslenzkra dálkahöfunda og bloggara. Þótt fjárhagur dagblaða versni víða um heim og þau þurfi að laga fjármál sín, er ekki til sambærilegt efni á vefnum. Þar bera dagblöð höfuð og herðar yfir aðra.

Nýi sáttmáli

Punktar

Í annað sinn er reynt að semja við Norðmenn um, að þeir taki að sér að gæta fullveldis Íslendinga. Í fyrra skiptið var samningurinn kallaður Gamli sáttmáli, þótt deilt sé um, hvort hann hafi verið réttur eða falsaður sáttmáli. Ef samið verður við Noreg og fleiri ríki um að þau taki að sér að gæta landvarna á Íslandi, liggur beint við, að kalla samninginn Nýja sáttmála. Landsfeður okkar virðast ekki treystast til að sjá um öryggi lands og þjóðar á sama hátt og önnur ríki gera. Að venju telja landsfeður efni þessara nýju landráða ekki vera holl lesning fávísri þjóð.