Punktar

Tákn hins versta

Punktar

Bandaríkin eru illt afl, hafa rústað fyrra samstarfi, sem kennt var við vestræn ríki. Undir forustu núverandi ríkisstjórnar hafa Bandaríkin gefið skít í alla heimsbyggðina, meira eða minna með stuðningi bandarískra kjósenda. Bandaríkin eru orðin að tákni flests hins versta. Þau ganga þvert á fyrri hugsjónir og sameiningartákn vestrænna ríkja. Bandaríkin sparka í nánast allar reglur, sem gilda um samskipti, samskipti ríkis og borgara, samskipti ríkis og útlendinga, samskipti milli þjóða og ríkja. Bandaríkin eru ekki lengur húsum hæf í samskiptum ríkja. Þau ber að einangra.

Að bregða fæti

Punktar

Enn styðja ríkisstjórnir í Evrópu við bakið á Bandaríkjunum, þrátt fyrir andstöðu kjósenda. Með því að sjá um hluta hernáms Afganistan léttir Nató á Bandaríkjunum og gerir þeim kleift að stunda heimsvaldastefnu á fleiri stöðum. Með þessu tekur Evrópa óbeina ábyrgð á framgöngu, sem er andstyggð góðra manna um allan heim. Miklu skynsamlegra er fyrir ráðamenn Evrópu að líta á Bandaríkin sem lausbeizlað og geðveikt heimsveldi, sem beri að bregða fæti fyrir við hvert einasta tækifæri. Eins og þjóðir Evrópu rústuðu heimsveldi Rómar í lok fornaldar.

Þeir eru tíu eftir

Punktar

Nú eru dauðir þeir Augosto Pinochet frá Chile og Saddam Hussein frá Írak. Nokkur heimsfræg illmenni eru enn á lífi, brotamenn gegn fjölþjóðalögum um stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni. Í versta hópnum eru tíu landsfeður. Þeir eru í stafrófsröð Tony Blair frá Bretlandi, George W. Bush frá Bandaríkjunum, Hissène Habré frá Tsjad, Kim Jong Il frá Norður-Kóreu, Thomas Lubanga frá Kongó, Alexander Lukasjenko frá Hvítarússlandi, Mengistu Haile Mariam frá Eþiópíu, Robert Mugabe frá Simbabwe, Vladimir Pútín frá Rússlandi og Charles Taylor frá Líberíu.

Voldugt fylgisleysi

Punktar

Vinnumiðlunin er strax farin að skandalísera í meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur út á sex prósent atkvæða. Ekki er nóg að koma Framsókn niður í sex prósent fylgi. Eigi að síður heldur hún áfram að vera í meirihluta. Það er raunar stefna nýs formanns vinnumiðlunarinnar, að hún sé ákaflega samstarfshæf, hæfari en nokkur annar stjórnmálaflokkur. Við losnum því aðeins við þetta landsfræga böl, að kjósendur komi fylgi þess enn neðar. Í alþingiskosningum í vor þurfa kjósendur að koma fylgi þess niður fyrir 3% til að gera Framsókn áhrifalausa.

Fríspil Byrgisins

Punktar

Hvorki félagsmálaráðuneytið né ríkisendurskoðandi hafði neitt eftirlit með Byrginu. Hvorki fjárlaganefnd né Alþingi í heild hafði hugmynd um, í hvaða rekstur þeir voru að henda 186 milljónum króna. Byrgið felur sig bak við tvo gamla lækna, sem segjast ekki hafa neina hugmynd um reksturinn og fela sig bak við orðhengilshátt um mun á afeitrun og aðhlynningu. Byrgið er gott dæmi um, hversu auðvelt er að draga pólitíkina á tálar. Pólitíkusar eru alltaf að kaupa sér vinsældir á kostnað skattgreiðenda. Fríspil Byrgisins er afleiðing af vanþroskuðu stjórnmálakerfi.

Spunakerlingin hækkar

Punktar

Sex prósent Reykvíkinga fífluðust til að greiða vinnumiðlun atkvæði sitt í vor. 4000 Reykvíkingar komu gamalli spunakerlingu frá Halldóri Ásgrímssyni í borgarstjórn. Björn Ingi Hrafnsson lofaði mörgu, en hæst lofaði hann ókeypis leikskóla í borginni. Nú hefur hann tekið á loforðinu. Í stað þess að afnema gjöldin, hækkar hann þau um 9% um áramótin. Loforðið um afnám er líka fyrir löngu búið að gegna hlutverki sínu við að koma Framsóknarmanni í borgarstjórn. Loforð spunakerlinga hjá vinnumiðlun hafa slíkan tilgang einan og koma Reykvíkingum að öðru leyti ekkert við.

Krataverið mútar

Punktar

Aukizt hefur fyrirferð álversins í Straumsvík. Það var í fréttum um langt skeið í haust fyrir nýja og harðskeytta starfsmannastefnu, sem lítur á starfslið sem hverja aðra hilluvöru. Nú er álverið í fréttum fyrir að múta Hafnfirðingum með geisladiskum og aðgöngumiðum á atburði. Tilgangurinn er að fá þá til að kjósa rétt síðar í vetur um stækkun álversins. Vinnubrögð þess líkjast æ meira erlendum álverum, sem fræg eru að endemum fyrir yfirgang og ruddaskap. Stækkun álversins kostar þrjár virkjanir í Þjórsá niðri í byggð og er auðvitað studd af hafnfirzkum stóriðjukrötum.

Saddam var drepinn

Punktar

Saddam Hussein var vondur karl, þótt hann kæmist ekki með tærnar, þar sem George W. Bush og Tony Blair hafa hælana. Hann var einn af mörgum þrjótum, sem komust til valda með stuðningi Bandaríkjanna. Hann var studdur til að hrella nágranna í Íran. Réttarhöldin yfir honum voru skrípaleikur og dauðadómurinn utan við evrópskt siðferði. Stjórn Saddams var vond, en verri er núverandi stjórn Bandaríkjanna og Breta og leppa þeirra. Hryllingurinn í Írak er meiri en var hjá Saddam. Ekkert réttlæti verður, fyrr en Bush og Blair verða líka dæmdir fyrir glæpi sína.

Ótímabærar andlátsfréttir

Punktar

Fréttir af andláti blaðaútgáfu hafa reynzt vera ótímabærar. Innan skamms verða dagblöð á Íslandi orðin fimm talsins, ef talin eru þau blöð, sem koma út fimm daga í viku eða oftar. Þótt samdráttur hafi lengi verið víða um heim í lestri dagblaða, sjást hans ekki merki hér á landi. Notkun yngra fólks á dagblöðum er að vísu minni en eldra fólks. Það er mikilvægasta verkefni dagspressunnar að finna unga fólkið á nýjan leik, bjóða efni, sem höfðar til þess, án þess að vera prump. Vefurinn er sárafátækur kostur í samanburði við massíf dagblöð.

Óhæfa gengið

Punktar

George W. Bush er gersamlega óhæfur forseti með gersamlega óhæfa ráðgjafa kringum sig. Þótt Donald Rumsfeld sé farinn, er Dick Cheney eftir og Condoleezza Rice, sem eru ekki síður óhæf til starfa. H.D.S. Greenway lýsir þessu ástandi í grein í Boston Globe. Bush mun ekki taka mark á þjóðarsáttarnefnd Jim Baker um að vinda ofan af stríðinu gegn Írak. Þvert á móti hyggst hann magna ófriðinn, senda fleiri hermenn, ýfast við Íran og Sýrland. Hann er líka kominn á bólakaf í stríð við Sómalíu. Greenway á raunar ekki orð yfir hroka og heimsku ráðamanna Bandaríkjanna.

Endalok vestursins

Punktar

Anatol Lieven spáir endalokum markaðshagkerfisins. Í grein í International Herald Tribune segir hann mengun lofthjúpsins og hitnun jarðar verða banabita hagkerfis, sem ekki sé sjálfbært og vilji ekki vera sjálfbært. Börn okkar muni sæta aðstæðum, sem skerði lífskjör á vesturlöndum með svipuðum ofsa og heimskreppan mikla. Næstu áratugi muni hvert ríkið á fætur öðru hrynja vegna loftslagsbreytinga. Markaðshagkerfið geri vesturlöndum kleift að ferðast til andskotans á fyrsta farrými. En samt til andskotans. Börn okkar muni ekki virða auðhyggju okkar, heldur hrækja á grafir okkar.

Heimsstyrjöld um hollustu

Punktar

Styrjöld heilbrigðisyfirvalda og framleiðenda morgunmatar í Bretlandi hefur áhrif á Íslandi, því að brezkt morgunkorn er selt hér og íslenzk mjólkurvara er sykurblönduð, yfirleitt mikið blönduð. Hér vilja framleiðendur og seljendur komast hjá breyttum heilbrigðisreglum. Þekktasta dæmið um það eru umhverfisvænar eða vistvænar landbúnaðarafurðir, sem eru ný nöfn á venjulegum landbúnaðarafurðum. Orðin umhverfisvænn og vistvænn eiga við óbreytta framleiðslu, sem ekki kemst gegnum nálarauga lífrænnar framleiðslu. Við tökum þátt í heimsstyrjöld um hollustu.

Tvenns konar merking

Punktar

Kelloggs og aðrir seljendur sykurblandaðrar vöru í Bretlandi hafa gripið til vopna gegn nýjum reglum um sykurblandað morgunkorn og mjólkurvöru. Undir forustu Kelloggs hafa Unilever, Nestlé og fleiri aðilar sameinazt um annað kerfi merkinga, sem á að gera þeim kleift að bjóða börnum nokkurn veginn óbreytt gotterí. Flest bendir því til, að tvö kerfi verði á merkingum umbúða, annars vegar rauð-gul-grænar merkingar heilbrigðisyfirvalda og hins vegar kerfi ráðlagðra dagskammta frá framleiðendum. Einnig ætla sölumenn gotterís í morgunmat að kæra auglýsingabannið.

Morgunkorn og mjólkurvara

Punktar

Bannaðar verða auglýsingar á flestu morgunkorni og flestri mjólkurvöru í Bretlandi um áramótin. Heilbrigðisyfirvöld telja þessa vöru ekki vera við barna hæfi vegna of mikils sykur og salts. Jafnframt verða framleiðendur skyldaðir til að setja rauða og gula miða á vöru, sem fer yfir sykurmörk. Græna miða fær aðeins sú vara, sem er undir mörkum. Menn hafa lengi furðað sig á miklum sykri í morgunkorni og mjólkurvöru á borð við jógúrt. Og hversu grimmt slíkt gotterí er auglýst, einkum samhliða barnaefni í sjónvarpi. Nú á að taka Kelloggs í gegn.

Nefnd um læsingar

Punktar

Kaldastríðsnefnd hefur menn með langa reynslu af læsingu upplýsinga. Hún íhugar, hversu lítið megi upplýsa pupulinn um njósnir og hleranir á vegum valdhafanna á tímum kalda stríðsins. Hún átti að skila af sér fyrir áramót, en tefst fram á nýtt ár. Auðvitað eiga allar þessar upplýsingar að vera aðgengilegar öllum, ekki bara innvígðum. Eigi að síður verður niðurstaða nefndarinnar, að bara innmúruðum skuli veita aðgang og á takmarkaðan hátt. Þetta er nefnilega eitt af feimnismálum valdhafanna, sem pupullinn er ekki talinn hafa gott af að kynnast.