Punktar

Skekja steinhúsið

Punktar

Ég bý í steinhúsi með steyptu gólfi, veggjum og lofti. Samanlögð þyngd steyputstyrktarjárns þótti mér ævintýraleg, þegar húsið var byggt, til að standast jarðskjálfta. Samt titrar húsið og skelfur í klukkutíma, þegar æstasti nágranninn sprengir áramótabombur sínar. Enginn þarf að segja mér, að þetta sé í lagi. Styrkur sumra áramótasprengja, sem notaðar eru hér á landi, eru áreiðanlega hátt yfir öllum mörkum. Yfirvöld á sviði lögreglu kjósa að setja kíkinn fyrir blinda augað, þegar öldruð börn hefja þetta háværa frístundagaman sitt.

Gamansamt myndband

Punktar

Ég hló svo mikið, að konan hélt ég væri orðinn veikur. Ég las á vísir.is, að sá hestamaður, sem mest hefur barizt gegn öryggishjálmum, væri að semja myndband um það “sem ber að varast fyrir nýliða í hestamennsku”. Kannski segir Sigurbjörn Bárðarson á myndbandinu, að ekki skuli taka mark á áróðri Sigurbjörns Bárðarsonar gegn hjálmum hestamanna. Sigurbjörn hefur þing eftir þing haft veg og vanda af að koma í veg fyrir, að Landssamband hestamannafélaga samþykkti hjálmaskyldu. Nú er hann orðinn eins konar öryggisfulltrúi sambandsins. Ég er enn að hlæja.

Munur heimsálfanna

Punktar

Fjölþjóðleg skoðanakönnun sýnir, að Evrópumenn hafa meiri áhyggjur en Bandaríkjamenn af spjöllum manna á lofthjúpi jarðar. Vandinn hefur lengi verið ræddur í Evrópu. Þar er talað um aðgerðir til mótvægis, en í Bandaríkjanum er enn rætt, hvort þetta sé vandamál eða ekki. Mörg stórfyrirtæki í Evrópu hafa snúist á sveif með umhverfissinnum, en vestan hafs er algengt að stórfyrirtæki fjármagni falsvísindamenn og andstöðu við aðgerðir. Sama skoðanakönnun sýnir sama mun á viðhorfum til ofsatrúarmanna. Evrópumenn telja þá hættulegri en hryðjuverkamenn. Sjá IHT.

Duglegar Flugstoðir

Punktar

Óskabarn ríkisstjórnarinnar var snöggt að vinna fyrsta afreksverkið á einkavæðingarferlinum. Varla voru Flugstoðir komnar á koppinn, er þær lögðu til fjórföldun á skatti íslenzkra flugvéla fyrir flug á rekstrarsvæði Flugstoða. Tillagan hefur enn ekki verið samþykkt hjá Alþjóða flugmálastofnuninni, en verður það von bráðar. Ég hef ekki vit á, hvaða gjöld eru sanngjörn í einokunarferli. En hitt er ljóst, að Flugstoðir fara af stað með látum, hvort sem er í mannaráðningum eða verðhækkunum. Í raun er einkavæðing bara einkavæðing einokunar, verri en ríkiseinokun.

Nató í einkaheimi

Punktar

Einkennilegt er, hversu langt og langvinnt landsfeður treysta sér til að vinna þvert gegn eindregnum vilja almennings. Nató er dæmi um stofnun, sem hagar sér eins og kjósendur í Evrópu séu ekki til. Ýmis verkefni þess eru óvenjulega hötuð, svo sem hernám Afganistans og stuðningur við heimsveldi Bandaríkjanna. Að auki lifir Nató í eigin heimi, langt frá veruleika kjósenda. Þegar Geir H. Haarde fór síðast á fund til Nató, var honum talin trú um, að staðan væri fín og batnandi í Afganistan. Allir fjölmiðlar vita, að ástandið þar er skelfilegt og sífellt versnandi. Undir stjórn Nató.

Sími í leyndarmálum

Punktar

Saddam Hussein var ekki drepinn í kyrrþey. Vitni tóku aftökuna upp á myndsíma og komu fréttinni út um heim. Ríkisstjórn Íraks riðar til falls, forsætisráðherrann segist vilja hætta, sakaður um óviðeigandi aðstæður við aftökuna. Munið líka símamyndirnar frá Abu Ghraib. Og lögreglan í Los Angeles getur síður níðst á svertingjum, því að myndir úr símum af óhæfuverkum hennar eru óðar komnar á netið. Loks hafa mótmælendur áttað sig á getu myndsíma til að sýna, að fullyrðingar lögreglu og annarra valdhafa um málsatvik eru yfirleitt fjarri lagi. Einnig hér á landi.

Sushi í himnaríki

Punktar

Ég er kominn á þá skoðun, að japönsk matargerðarlist sé franskri æðri, þótt ég hafi hingað til verið hallur undir þá frönsku. Sú japanska nær hástigi í einfaldleika, eins og japanskur húsbúnaður er agaðri, hreinni og einfaldari en jafnvel norrænn húsbúnaður. Sushi er bezti japanski maturinn, hrár og kryddleginn fiskur og hrísgrjón sett á borð í munnbitum, einum í einu. Ég sat um daginn við sushi-barinn á Nobu á Metropolitan í London og fékk hvern sushi-bitann á fætur öðrum. Sú matreiðsluhefð gefur ekkert svigrúm fyrir gamlan fisk. Ferskleikinn neistar af öllu. Svona munum við borða í himnaríki.

Vinsælt bandalag

Punktar

Þótt fjölmargir tali illa um Evrópusambandið, vilja flestar þjóðir komast inn. Um áramótin sluppu Rúmenía og Búlgaría. Tyrkland er enn á biðstofunni, svo og stríðsríkin á Balkanskaga. Margt hlýtur að vera gott við heimsveldi, sem fælir ekki þjóðir frá sér. Við höfum gott af sambandinu að segja, svo sem samræmt regluverk og frjálsan markað. Aðrir hafa fengið evru, sem lækkar vexti og verðbólgu. Kaupþing er farið að nota evru í bókhaldinu og fleiri munu fylgja. Krónan er mörkuð dauðanum, síðasta von stjórnmálamanna að hætti Davíðs um að framleiða prívat verðbólgu.

Fjörug bókasöfn

Punktar

Bókasöfn í Bandaríkjunum eru orðin geymslustaður fyrir börn. Dagblöð vestra eru full af fréttum um, að foreldrar hendi börnum úr bílum við bókasöfn og segi þeim að fara inn. Söfnin eru talin öruggari en gatan. Ekki eru allir sáttir. Sum söfn hafa ráðið öryggisverði og banna unglingum að vera með hávaða. Þrjár viðvaranir kosta varanlegan brottrekstur. Mannréttindafélög hafa lögsótt bókasafn vegna slíkra aðgerða. Áður friðsæl söfn eru komnir í sviðsljós harðvítugra deilna. Bókaverðir segjast ekki vera barnapíur unglinga, sem sjálfir eigi að geta verið barnapíur.

Gagnsókn trúlausra

Punktar

Trúlausir í Bandaríkjunum hafa farið í gagnsókn gegn ofsatrúuðum, sem í einn áratug hafa stýrt pólitíkinni þar í landi. Skrifaðar eru bækur gegn kristinni trú og þær orðið metsölubækur. The God Delusion eftir Richard Dawkins hefur verið á metsölulista New York Times í fjórtán vikur. Letter to a Christian Nation eftir Sam Harris hefur einnig komizt á þennan lista. Báðar þessar bækur og ýmsar fleiri útmála ofsatrúaða kristni sem illkynjnað krabbamein á þjóðarsálinni, hið illa afl, sem hafni þróunarkenningunni og hafi bakað Bandaríkjunum vandræði víða um heim.

Trúin er skæð

Punktar

Stríðið milli Eþiópíu og Sómalíu er stríð milli kristinna og múslima. Flest stríð í heiminum hafa runnið í þann farveg síðasta hálfan annan áratug. Balkanstríðin fyrir áratug voru stríð orþódoksa, kaþólikka og múslima. Borgarastríðin í Líbanon hafa verið milli kristinna og múslima. Stríðið gegn Írak og Afganistan eru krossferðir kristins Bandaríkjaforseta gegn múslimum. Um leið og deilur heimsins komast í klær hinna trúuðu, er voðinn vís. Trúarbrögð eru orðin eitt af stærstu vandamálum mannkyns. Undir skikkju þeirra eru mestu voðaverkin framin.

Allt er hverfult

Punktar

Herstjórar Sómalíu og Bandaríkjanna voru engir vinir. Árið 1993 hröktu herstjórarnir bandaríska herinn í sjóinn. Þá var birt fræg kvikmynd í sjónvarpi af líki bandarísks hermanns, sem dregið var af bíl um götur Mogadishu í Sómalíu. Herstjórar Eþíópu voru þá miklir marxistar og Mengistu einn fræðimanna marxismans eins og Lenín og Maó. Nú er öldin önnur og stríð risið milli Eþiópíu og Sómalíu. Nú gera Bandaríkin bandalag við arftaka marxistans Mengistu um að koma sömu herstjórunum, fyrrum óvinum sínum, aftur til valda í Sómalíu. Marxistar eru orðnir skárri en múslimar.

Náttúran á sig

Punktar

Við erum dæmd til að gæta íslenzkrar náttúru, af því að hún er hér, en ekki í Eyjahafi. Íslenzk náttúra er ekki merkari en náttúra við Eyjahafið. En hún er öðru vísi. Landið, sem Kárahnjúkavirkjun spillir, var áður stærsta ósnortna víðerni í Evrópu. Eftir ellefu alda rányrkju á Íslandi er kominn tími til að fólk hætti að líta á það sem guðs gjöf og fari að líta á það sem sjálfs sín eiganda. Við erum bara sníkjudýr, laus við að vera sjálfbær. Breytt viðhorf til náttúrunnar er hvorki rómantík né fasismi. Það er raunsæi nýrrar aldar, sem vill ekki heimsenda.

Einmana álver

Punktar

Stóriðjustefna síðustu áratuga hefur dæmt þjóðina til að greiða hærra verð fyrir orkuna til að niðurgreiða orku til stóriðju. Sú er skýringin á, að við fáum ekki formlega að vita, hvert orkuverðið sé, þótt það hafi verið upplýst á heimasíðu Alcoa. Álverin eru ekki eðlilegur þáttur í atvinnulífi þjóðarinnar. Þau hafa í þrjá áratugi ekki leitt til úrvinnslu úr áli. Svo framarlega sem þau ryðja annarri atvinnu til hliðar, eru margfeldisáhrif álvera síðri en til dæmis tölvuvera. Við þurfum líka að eiga afgangs ódýra orku til að knýja vélar á hugsanlegri vetnisöld.

Birta og ylur

Punktar

Mér finnst Egill Helgason skrifa um raforku eins og nýja orkan sé að veita okkur birtu og yl. Hún sé að hleypa afa hans úr einangrun, þar sem ekki sást til næsta bæjar. Langt er síðan landið orkuvæddist, hálfur fjórði áratugur. Síðan þá hefur orka verið næg. Enginn þarf að óttast orkuskort, þótt ekki sé virkjað til síðasta blóðdropa. Menn geta verið andvígir Kárahnjúkavirkjun, án þess að vilja flytja þjóðfélagið aftur um hundrað ár. Menn geta til dæmis verið andvígir, að fólk sé látið niðurgreiða raforku til stóriðju. Andstaða við risaorkuver er engin rómantík.