Punktar

Hvalur á haugum

Punktar

Helmingurinn af hvölunum, sem veiddust hjá Hvalstöðinni fyrir jól, er nú kominn á hauganna í Fíflholtum. Það er sá hluti, sem áður fór í bræðslu. Ekki hefur gengið neitt að selja hinn helminginn, þótt ætla megi, að hvalveiðisinnar geti skotið saman fyrir kostnaði. Kannski verður kjötið gefið eins og við gáfum Bandaríkjamönnum lambakjöt áður en þeir neituðu að skipta við okkur. Útrásarmenn íslenzka hagkerfisins kvarta sáran yfir hvalveiðunum. Þær eru bara neyðaróp þjóðrembdra, sem ekki vilja láta aðra segja okkur fyrir verkum og vilja væntanlega borga fyrir þann lúxus.

Margfalt heimsmet

Punktar

Heimskustu kjósendur heims vinna lengsta vinnudag heims til að hafa ráð á dýrasta mat heims. Þeir borga hæstu vexti heims, lifa við mestu landeyðingu heims, velja ráðherra frá pólitískustu vinnumiðlun heims. Þeir bjóða ódýrasta rafmagn heims til að fremja heimsins mestu umhverfisslys á ósnortnum víðernum, sem þær telja bara vera grjót. Þegar þessir heimskustu kjósedur heims koma á kjörstað í vor, munu þeir tryggja völd heimskustu landsfeðra heims til næstu fjögurra ára. Þeir munu þrábiðja landsfeðurna um að halda áfram að misþyrma landi og þjóð.

Heimsins dýrasti matur

Punktar

Ódýrasta og einfaldasta leiðin til að lækka matarverð á Íslandi er að afnema tolla á mat eins og tollar hafa verið afnumdir á öðrum vörum. Það er einfaldari leið en að lækka vask af mat umfram aðrar vörur. Fyrri aðferðin eykur samræmi, en sú síðari eykur misræmi. Það er ekki heldur nóg að lækka matarverð um tíu prósent, þegar munurinn á Íslandi og Evrópu er sextíu prósent. Þótt kjósendur séu óvenjulega vitlausir hér á landi, er ekki sanngjarnt að láta þá vinna meira en kjósendur nokkurs annars lands til að eiga fyrir dýrasta mat í heimi.

Keypt von í sæti

Punktar

Við hæfi er, að vinnumiðlun sé fyrsti flokkurinn, þar sem menn reyna að múta sig inn á framboðslista. Hjörleifur Hallgríms á Akureyri býðst til að greiða tvær milljónir króna fyrir þriðja sætið á framboðslista Framsóknar á Norðausturlandi í vor. Hann er að reyna að kaupa sér von í þingsæti, því að vinnumiðlunin hefur fjóra þingmenn í kjördæminu. Svo hjartahrein er þessi spilling, að hún gerist ekki undir borði, heldur fyrir opnum tjöldum. Málsaðilar hafa ekki hugmynd um, hvað er spilling. Og fjölmiðlarnir vita það ekki heldur, því að þar hefur ekki kviknað ljós.

Veit ekki um úrslit

Punktar

Ekki er hægt að saka George W. Bush um að vera sjálfum sér ósamkvæmur, segir Jonathan Freedland í Guardian. Þegar allir segja einum rómi, frá bandarískum herforingjum til samfélags þjóðanna, að nú sé nóg komið af stríði í Írak, ætlar Bush að magna stríðið með 20.000 hermönnum í viðbót. Þótt bandaríska þingið muni ekki fjármagna þessa viðbót. Á sama tíma er Bush kominn í nýtt stríð, við Sómalíu. Hann borgar þar rekstur stríðs af hálfu marxista í Eþiópíu og styður það með loftárásum. Freedland telur, að Bush sé enn ókunnugt um kosningaúrslitin í Bandaríkjunum í nóvember.

Boðskapur í bíó

Punktar

Giles Fraser skrifar í Guardian, að Mel Gibson sé við sama heygarðshornið í Apocalypto og hann var í Passion of the Christ. Boðskapur nýju myndarinnar sé sama gyðingahatrið og dálætið á blóðþyrstum útgáfum kristninnar, sem einkenndu fyrri kvikmyndina. Boðskapurinn víki frá friðar- og ástarstefnu guðspjallanna, fylgi þess í stað svörtum boðskap miðalda og Kalvínisma, að fyrir syndir þurfi menn að borga með þjáningu. Fraser útskýrir, hvers vegna kristnir ofsatrúarmenn styðja dauðarefsingu og láta kristnina þannig rotna að innan. Ofsatrúarmenn og Mel Gibson eru andstæða Krists, segir Fraser.

Fínt blogg í gær

Punktar

Aldrei þessu vant var vefurinn í gær áhugaverðari en fjölmiðlarnir. Pétur Gunnarsson skrifaði merka grein um, að Björn Bjarnason ráðherrra beri sem fyrrverandi menntaráðherra ábyrgð á því auma ástandi í skjalavörzlu ríkisins, að Björn Bjarnason erfingi vill geyma opinber skjöl föður síns heima hjá sér. Steingrímur Sævarr Ólafsson skrifaði aðra merka grein um, að stjórnarmaður Morgunblaðsins, Skúli Valberg Ólafsson, er líka stjórnarmaður Betsson, sem hefur það verksvið að rýja íslenzka spilafíkla inn að skinni í veðmálum á veraldarvefnum. Og Egill Helgason hýðir hina nýríku.

Dómsmál um hund

Punktar

Eigendur hafa deilt fyrir dómstóli um hund samkvæmt Morgunblaðsvefnum. Þetta þótti mér meira en lítið áhugavert efni, en varð fyrir vonbrigðum, þegar ég las textann. Þar var ekki einu sinni mynd af hundinum, ekkert um verðgildi hundsins og ekki talað um galla Leonberger tegundarinnar. Eins og nú er farið að tíðkast í dómsmálum voru hvorki nöfn sækjanda né verjanda og þá auðvitað ekki viðtal við þá. Af hverju eru fjölmiðlar í vaxandi mæli farnir að skilja hliðvörzlu sína þannig, að notendur fjölmiðla eigi bara að fá að vita tæpan helming af hverri frétt? Telja þeir okkur vera fífl?.

Fjórir á dag

Punktar

Fjórir menn á dag þurfa að leita til bráðamóttöku Landspítalans vegna ofbeldis. Læknar stofnunarinnar eru sammála um, að ofbeldi hafi aukizt verulega. Áverkarnir eru “hömlulausir og andstyggilegir” samkvæmt orðavali yfirlæknisins. Þetta stingur í stúf við furðulegar fullyrðingar yfirmanna í lögreglunni um óbreytta stöðu ofbeldismála um langt árabil. Það er staðreynd, að ofbeldi er orðið tryllt hér á landi og oft verða óviðkomandi fyrir því. Taka þarf alveg úr umferð alla ofbeldis-síbrotamenn, sem flestir eru 15-24 ára. Það er hagkvæm aðgerð, sem kemur refsigleði ekkert við.

Stórfé á mánuði

Punktar

Enn einu sinni hefur verið sett tala á herkostnað okkar af háu matarverði. Verðið hér er 62% hærra en í Evrópusambandinu samkvæmt fjölþjóðlegri könnun. Ýmsu er kennt um og mest verndun íslenzkra landbúnaðarafurða. Að vísu hefur framsóknarmaðurinn í embætti talsmanns neytenda ekki tekið eftir því. Skrítið að hafa mann frá vinnumiðluninni í slíku embætti. Við þurfum auðvitað að hætta að styðja búvöru, leggja niður krónu og ganga í Evrópu. Þar með ætti samkeppni að verða næg til að halda matarverði á sama stigi og er í Evrópu. Ég mundi græða 20.000 á mánuði.

Fasisminn lifir

Punktar

Bandaríska leyniþjónustan, FBI, fékk háskólann í Berkeley í Californíu til að reka vinstri sinnaða kennara, að áreita mótmælendur Víetnam-stríðsins og að efla framabraut Ronald Reagan, sem þá var ríkisstjóri í Kaliforníu og síðan forseti Bandaríkjanna. Dagblaðið San Francisco Chronicle var 17 ár að grafa þetta upp. Í öllum löndum, líka vestrænum, eru leyniþjónustur á kafi í pólitík. Hleranamálin á Íslandi eru gott dæmi um, að undir yfirskyni öryggis ríkisins er abbast upp á vinstri sinnaða pólitíkusa. Nýjar leyniþjónustur á Íslandi munu gera nákvæmlega slíkt hið sama.

Hræðsluáróðurinn

Punktar

Gagnsókn Byrgisins er hafin. Nokkrir fjölmiðlar og yfirlögregluþjónar mála skrattann á veginn. Þeir segja fyrrverandi vistmenn vera sjálfum sér og öðrum til vandræða á götunum, eins og að Byrginu hafi verið lokað. Þetta er marklaus hræðsluáróður og hagsmunagæzla. Til eru aðrar meðferðarstöðvar og aðrir geymslustaðir fyrir fíkniefnasjúklinga. Efla má slíka staði frekar en að ausa eftirlitslaust peningum í stað, sem beitir vafasömum aðferðum, allt frá trúarofstæki og kynórum yfir í pillufæriband hjá úr sér gengnum læknum. Byrgið hefur dæmt sig sjálft úr leik.

Rifrildisbransinn

Punktar

Umræðusýningar í sjónvarpi stjórnast einkum af gagnkvæmri þörf stjórnanda og frambjóðenda. Í annað hvert sinn, sem ég opna fyrir sjónvarp, sé ég umræðusýningu með Birni Inga Hrafnssyni, Sigríði Andersen eða Bjarna Harðarsyni. Annars vegar vantar stjórnendur alltaf fólk til að rífast og hins vegar standa 7-8 frambjóðendur alltaf í biðröð eftir að fá að rífast. Lausnin er auðveld fyrir latan stjórnanda, en hún er þreytandi fyrir fólk, sem langar að kíkja á sjónvarp. Fámennið í rifrildisbransanum er slíkt, að mér finnst sömu leiðindin vera í gangi endalaust.

Skítur á fánann

Punktar

Við vitum, hvað krossfararnir gerðu í Miklagarði árið 1204. Við vitum, hvað spánski herinn gerði í Róm árið 1527. Við vitum, hvað bandaríski herinn gerði í Víetnam og gerir í Írak. Allir herir fremja óhæfuverk. Enginn munur er á hermönnum og geðveikum morðingum annar en búningurinn. Ef einhver er klæddur í einkennisbúning og honum afhent öflug byssa, þá fremur hann óhæfuverk. Veraldarsagan er samfelld saga óhæfuverka í hernaði, þar sem atómbomban skipar efsta sætið. Snúa má við orðalagi Lyndon Johnson forseta árið 1965 og hafa það svona: “Herinn skítur alltaf á fánann sinn.”

Atómstríð Olmerts

Punktar

Fyrir mörgum árum var ég í hádegisverði í Jerúsalem, þar sem Ehud Olmert flutti ræðu. Þá var hann þar borgarstjóri, en er nú orðinn forsætis. Ég man, að undir ræðunni hugsaði ég: “Þeir eru margir skrítnir hér í Ísrael, en þessi er sá versti.” Það var eins og að hlusta á ráðherra í Suður-Afríku á tímum aðskilnaðarstefnunnar. Nú hefur Olmert skipulagt atómstríð gegn Íran, að sögn Sunday Times. Því er sagt beint gegn kjarnorkuverum Írans, en geislunin mun verða mörgum saklausum að bana. Það er siðleysi að undirbúa atómstríð. Slíkt er aðeins hægt í Ísrael.