Punktar

Uppi á stól

Punktar

Fólk er sí og æ að kvarta yfir óviðkunnanlegum atriðum á internetinu. Það er eins og kerlingin, sem kvartaði yfir dónaskap nágranna í næsta húsi, sem hún sá, ef hún stóð uppi á stól. Hvað er fólk að vafra á netinu í leit að dónaskap til að kvarta um? Ekki vafrar fólk um Harlem að næturlagi eða kringum þinghúsið í Nairobi eða aðra hættulega staði í heiminum. Af hverju ætti það þá að vafra um á netinu eins og það sé í betri stofunni heima hjá sér. Menn þurfa að kunna að gá að sér hvar sem er, á netinu sem annars staðar. Og ekki kenna öðrum um. Hver er sinnar gæfu smiður.

Klófesta olíuna

Punktar

Olían er aftur komin í sviðsljós stríðsins gegn Írak. Kamil Mahdi segir í Guardian, að Bandaríkin séu með aðstoð Alþjóðabankans að reyna að láta bandarísk olíufélög komast yfir olíuna til tíu eða tuttugu ára. Það á að gera með samningi við leppstjórnina, sem horfir aðgerðalítil á blóðugt borgarastríð. Hún tekur við bandarískum tilskipunum. Þeir, sem hafa komið sér í völd sem leppar, reyna svo sjálfir að ná tökum á hluta olíunnar til að reka hana fyrir eigin reikning. Um olíuna hafa Bandaríkjamenn samið frumvarp, sem nú á að reka í gegn á Íraksþingi.

Fjórar tegundir

Punktar

Sumir Bandaríkjamenn átta sig á, að ríki þeirra er hatað um allan heim, og reyna að útskýra það. Í Boston Globe er fjallað um könnun, sem skiptir bandaríkjahatri í fjóra flokka. Í einum flokki eru frjálslyndir í Evrópu, sem hata Bandaríkin fyrir að hafa brugðist vestrænum hugsjónum. Í öðrum flokki eru kratar í Bretlandi og Frakklandi, sem hata Bandaríkin fyrir markaðshyggju. Í þriðja flokki er þriðja heims fólk, sem hatar Bandaríkin fyrir almennan yfirgang. Og í fjórða flokki eru múslimar, sem telja sig vera í stríði við Bandaríkin. Samtals er þetta mikið og flókið hatur.

Bænastund sjónvarps

Punktar

Ég hef aldrei skilið tilgang leiðarenda kvöldfrétta ríkissjónvarpsins á tölum um hlutabréf og gengi. Enda veit ég, að þeir, sem fylgjast með slíku, hafa betri tök á því en kvöldfréttirnar. Nú hefur Joe Moran skýrt þetta út í Guardian. Upplestur talna í lok kvöldfrétta kemur í stað bænastundar. Lesturinn á að segja okkur, að sjónvarpið sé alvarlegur fréttamiðill, sem endi ekki á skemmtilegri frétt af páfagaukum á Vopnafirði. Sjónvarpið sé í þess stað pokaprestur markaðshyggjurnar, sem endi hvern dag á að þylja innantómar bænir til guðs síns. Það er að segja til markaðarins sem náttúruafls.

Þorgerður Katrín

Punktar

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntaráðherra hefur ekki útvegað krónu í háskólann, þrátt fyrir undirskrift og blaðamannafund. Það er hlutverk Alþingis að útvega krónur og hefur ekki gert neitt slíkt. Ráðherrann undirritaði bara viljayfirlýsingu. Hún hefur jafnlítið gildi og yfirlýsing ríkisstjórnarinnar og fleiri aðila um afnám eiturlyfjaneyzlu á sínum tíma sællar minningar. Það er raunar til skammar, að ráðherrar byltist um fast í kosningabaráttu og skrifi undir pappíra út og suður án þess að meina neitt. Þorgerður Katrín hefur verið duglegust við slíka markleysu.

Hvítt og svart

Punktar

Fróðlegt var frásögn sjónvarpsins af hugbúnaðarfyrirtækinu CCP, sem finnur ekki nógu hæfa starfsmenn hér á landi. Samt hefur menntun í hugbúnaði magnast hröðum skrefum við íslenzka háskóla. Betur má, ef duga skal. Þetta er nútímastarfsemi, sem greiðir öllum há laun og veldur ekki mengun. Hún er viðkunnanlegri en stóriðjan, sem er alfa og ómega landsfeðranna. Hugbúnaðargerð á Íslandi hefur meira eða minna risið af eigin verðleikum. En stóriðja hefur aðeins risið að frumkvæði ríkisvaldsins sem þáttur í byggðastefnu þess. Það er munur á hvítu og svörtu.

Engin umferðarspá

Punktar

Hugmyndir Björns Inga Hrafnssonar og fleiri um byltingu í Örfirisey stinga í stúf við litla flutningsgetu samgönguæða frá henni. Hringbraut og Geirsgata munu ekki ráða við þörfina. Það er ekki nýtt, að pólitíkusar hunzi umferðarspár, þegar þeir láta gamminn geisa um nýtt byggingaland. Umferðin er bara talinn vera vandi, sem komi síðar í ljós og verði þá leystur. Samt eru umferðarspár eðlilegur þáttur á öllum stigum skipulags. Þær voru orðnar það í stóra borgarskipulagi Bredsdorff og Nyvig fyrir hálfri öld. En ódýrar spunakerlingar gleyma þeim.

Andstaða við gelísku

Punktar

Faldar myndavélar eru umdeildar hér á landi eins og víðar, samanber Byrgið. BBC segir skemmtilega frétt frá Írlandi, þar sem sjónvarpsmaður reyndi að tala gelísku víðs vegar um landið. Menn tóku það óstinnt upp. Í sjónvarpinu sést kaupmaður í Dublin henda manninum út fyrir að tala ekki ensku. Andstaðan við gelísku er í BBC talin stafa af samvizkubiti fólks yfir að kunna ekki gamla landsmálið. Ljósi punkturinn var, að unga fólkið sætti sig frekar við gelískuna en hinir gömlu. Kannski kemur að því hér, að fólki verði kastað út fyrir að tala íslenzku.

Stríð nútímans

Punktar

Evrópusambandið sker upp herör gegn bílum, sem eyða miklu benzíni. Umhverfisráðherra þess, Stavors Dimas, boðar nýjar reglur, sem meðal annars fela í sér, að koma verður eyðslu Ford Focus niður um þriðjung. BBC segir frá þessum mikilvæga lið í baráttu bandalagsins gegn mengun andrúmsloftsins og gróðurhúsaáhrifum. Bílaframleiðendur hafa af þessu þungar áhyggjur, enda munu nýjar reglur í Evrópu hafa áhrif um allan heim. Ekki gengur að flytja inn bíla með eyðslu yfir hámarki bandalagsins. Neytendur munu spara stórfé í benzíni. Dimas segir það eiga að vera stríð nútímans.

Spáir sinnaskiptum

Punktar

Observer telur, að Tony Blair sé að bíða eftir fyrirhuguðum sinnaskiptum George W. Bush í umhverfismálum. Blair hafi frestað að segja af sér sem forsætis í þágu Gordon Brown til að ná í sinnaskiptin. Hann hyggist síðan þakka sér fyrir að hafa haft áhrif á Bush. Samkvæmt sögunni hyggst stjórn Bush snúast til fylgis við Kyoto-bókanir um minnkun á útblæstri mengunar. Gott væri, ef satt væri. En Bush hefur áður gengið gegn spám álitsgjafa. Um skeið héldu menn að hann mundi fallast á þjóðarsátt pabbans um brottför frá Írak. En hann fór í þveröfuga átt, hefur lýst auknu stríði.

Kredda á undanhaldi

Punktar

Pranab Bardhan prófessor í Kaliforníu segir í Herald Tribune, að vestræn markaðshagfræði sé í mótbyr. Komið hafi í ljós, að frelsiskalinn, sem hin róttækt hægri sinnaða Heritage stofnun gefur út, sýni rammskakka mynd af gengi þjóða. Kína og Indland séu léleg í kreddunni og þeim hafi gengið vel, meðan traustum lærisveinum hennar í Rússlandi og Suður-Ameríku hafi gengið skelfilega. Bardhan telur, að bilað hafi sú hagfræði, sem kennd er við Washington-sátt og Chicago-skóla, meira að segja í Bandaríkjunum og Bretlandi. Nú séu menn aftur komnir í austrænar og kratískar lausnir.

Kaupstefna í klámi

Punktar

BBC segir þrjátíu þúsund manns vera á klámkaupstefnu í Las Vegas þessa dagana. Í greininni kemur fram, að heildartekjur greinarinnar þar í landi nemi 12-20 milljörðum dollara. Hún sé stærri en kvikmyndaiðnaðurinn og stærri en allar íþróttir samanlagðar. Klámið er drifið af tækninýjungum, vefvídeói og farsímum. Fjórar klámkvikmyndir eru framleiddar á degi hverjum vestanhafs. Þetta minnir á, að klám er mun umfangsmeira í bandarískum blótsyrðum en íslenzkum. Tæpast er hægt að kalla það neðanjarðarhagkerfi, þegar þrjátíu þúsund manns mæta feimnislaust á kaupstefnu í klámi.

Engin siðvæðing

Punktar

Þúsundum saman finnst Íslendingum í lagi að svindla í kosningu bandarísks stjónvarpsþáttar um tónlistarmann. Hundruðum saman finnst Íslendingum í lagi að taka þátt í prófkjöri hjá öðrum flokki en þeim, sem þeir styðja. Hér skortir uppeldi gegn slíku athæfi. Sama er að segja um sannleikann. Íslendingar styðja hann kannski að meðaltali meira en lygina, en hann er samt ekki hátt skrifaður í almenningsáliti, kannski svipað og hreinskilni. Hentugleikar líðandi stundar skipta menn meira máli. Enda segir vinsælt spakmæli íslenzkt, að oft megi satt kyrrt liggja.

Olían í fókus

Punktar

Heildarmagn olíulinda minnkar. Fyrir hverjar tvær tunnur, sem notaðar eru, finnast lindir, sem jafngilda einni tunnu. Um þetta mun heimspólitíkin snúast næstu tvo áratugina. Á þeim tíma mun framleiðslan byrja að minnka og olíuverð rísa til skýjanna. Rússar munu fljótt klára sína olíu. Nánast öll olía á heimsmarkaði mun þá koma frá Persaflóa. Sólarorka og vetnisorka er eina leiðin úr þessum vanda og á vanda loftmengunar. Þeir munu hrynja, sem harðast berjast um olíuna, einkum Bandaríkin. Hinir munu lifa af, sem treysta á sól og vetni. En við þurfum greinilega að hraða vetnisvæðingu.

Raunsæismennirnir

Punktar

Ég vil ekki taka þátt í að niðurgreiða raforku frá Kárahnjúkum. Mér finnst, að stuðningsmenn orkuversins eigi að gera það einir. Ég vil ekki taka þátt í að niðurgreiða lambakjöt til útflutnings. Mér finnst, að stuðningsmenn sauðfjárræktar eigi að gera það einir. Ég vil ekki taka þátt í að niðurgreiða hvalveiðar. Mér finnst, að stuðningsmenn hvalveiða eigi að gera það einir. Mér finnst út í hött, að menn geti talið sig raunsæismenn út á stuðning við arfavitlausar stjórnvaldsgerðir. Mér finnst, að þeir eigi að borga brúsann eða þegja öðrum kosti.