Punktar

Gömlu gengin fæla

Punktar

Pírötum og Vinstri grænum tókst vel að manna framboðslista sína. Smáhvellur var um prófkjör pírata á Norðvesturlandi. Samt er þar flott fólk í framboði efst á öllum listum. Þar hefur líka orðið jafnvægi milli karla og kvenna, þrátt fyrir prófkjör. Vinstri græn hafa náð svipuðum árangri án prófkjörs, þótt enn séu þar óþarfar leifar af gamla genginu. Samfylkingin teflir nánast eingöngu fram gamla  genginu, nema hvað tvær konur falla út, Valgerður Bjarnadóttir og Ólína Kjerúlf Þorvarðaróttir. Missir er að þeim báðum. Verst er staða Sjálfstæðisflokksins, þar sem lítilsigldir karlar hanga inni, en þrjár misgóðar konur detta út. Sama gamla gengið.

Áhlaup ferðafólks

Punktar

Samkvæmt ferðaáætlunum flugfélaga mun ferðamönnum í vetur fjölga um rúm 50% frá síðasta vetri. Fjölgun ferðamanna verður hraðari með hverju misseri. Stefnir í kaos. Smíði hótela er ófullnægjandi, bílastæði sprungin, aðgengi að ferðastöðum spillir umhverfi, svo ekki sé talað um salernisskortinn fræga. Ný ríkisstjórn þarf að grípa í taumana eftir þriggja ára svefn Ragnheiðar Elínar Árnadóttur. Setja þarf vask í ferðaþjónustu á hærra þrep og hætta undanþágum Engeyinga og annarra pilsfaldamanna. Með eðlilegum tekjum af vaski getur ríkið byggt upp innviðina í ferðaþjónustu. En það verður að koma fram strax á næstu fjárlögum.

Viðreisn Flokksins

Punktar

Frambjóðendur Viðreisnar er einsleitt sjálfstæðisfólk, svo og fyrrum formaður Flokksins, Þorsteinn Pálsson. Þorgerður Katrín var varaformaður Flokksins og fór yfir í Viðreisn, sem lofaði þingsæti, er Flokkurinn vildi ekki lofa. Eins og formaður Flokksins er formaður Viðreisnar Engeyingur, Benedikt Jóhannesson. Tveir fyrrum formenn samtaka atvinnurekenda eru í Viðreisn, Þorsteinn Pálsson og Þorsteinn Víglundsson. Evrópusambandið er eini munur Sjálfstæðisflokksins og Viðreisnar. Þótt stefnu Viðreisnar megi túlka sem jákvæða í garð uppboðs á kvóta og viðreisnar heilsukerfis, mun enginn ofanskráðra taka neitt mark á því.

Örlög íhaldskvenna

Punktar

Konur falla í prófkjörum af ýmsum ástæðum, stundum af því að þær eru konur. En oftar falla þær af öðrum ástæðum. Til dæmis féllu Ragnheiður Elín Árnadóttir ráðherra og þingkonurnar Elín Hirst og Valgerður Gunnarsdóttir, því þær stóðu sig illa og áttu ekkert erindi. En karlremban í Suðurkjördæmi felldi Unni Brá Konráðsdóttur, sem vildi styðja flóttafólk. Kjósendur settu í staðinn aldraða karlrembu, sem óttast flóttafólk, Ásmund Friðriksson. Um hann segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari Flokksins, að það sé ”vægast sagt átakanlegt að vera í sama flokki“ og hann. Konur eiga stundum erfitt í karlrembdum íhaldsflokki.

Éti það sem úti frýs

Punktar

Hildur Sverrisdóttir er hugmyndafræðingur Sjálfstæðisflokksins í heilsumálum. Vill greina milli ókeypis grunnþjónustu og aukaþjónustu fyrir þá, sem vilja borga eða kaupa tryggingu í sama skyni. Aukaþjónusta við fötluð börn efnafólks gæti falizt í lestrarkennslu og daglegum göngutúr í forskóla. Í 120 sm rafknúnu rúmi með heilsudýnu fyrir efnafólk. Í vali á mat af seðli. Í daglegri sturtu. Í vali um svefntíma. Í notendastýrðri aukaþjónustu og akstri að eigin vali. Í heimaþjónustu í stað spítalavistar. Hugsjón Hildar felst beinlínis í að efnað fólk njóti mannréttinda, en pakkið éti það, sem afgangs verður eða úti frýs.

Úti er ævintýri

Punktar

Minnisstæð ræða Sigmundar Davíðs á miðstjórnarfundi Framsóknar var ekki bara nútímareyfari með njósnurum, hökkurum og hlerurum. Fór líka aftur um tvær aldir og lýsti orrustunni við Waterloo, skothríðinni, slátruninnni og riddurunum. Mér skildist, að þetta yrði framtíð Framsóknar. Enda kom í ljós, að Sigurður Ingi forsætis gagnrýndi formanninn og raunar flokksstjórn hans. Sagðist ekki vilja vera varaformaður í slíku samkvæmi. Þar með er uppreisnin hafin gegn Sigmundi Davíð. Hin normala framsókn hyggst taka við af silfurskeiðungnum og setja hinn normala framsóknarmann í leiðtogasætið. Úti er skrautlegt ævintýri í Undralandi.

Eineltið magnast

Punktar

Sigmundur Davíð var að upplýsa miðstjórn Framsóknar um alþjóðlegt samsæri gegn sér. Brotizt var inn í tölvu hans og sími hans hleraður. Dularfullir menn elta hann um allan heim. Áður var upplýst, að George Soros fjármálaspekúlant væri kóngulóin í þessu alþjóðlega samsæri gegn óskabarni Íslands. Að sögn Sigmundar Davíðs er samsæri fjölþjóðasamtaka rannsóknablaðamanna og Ríkisútvarps Íslands bara brot af þessu víðáttumikla einelti. Sjónvarpsviðtalið fræga við hann var vandlega undirbúið. (Næsta ríkisstjórn Sigmundar Davíðs mun væntanlega byggja á reynslu Erdoğans hins tyrkneska og hefja víðtækar fangelsanir og brottrekstur.)

Of flókin prófkjör

Punktar

Prófkjörsreglur Pírata eru of flóknar. Betra er gamla góða kerfið. Þá er fyrst talið í 1. sæti og sá efsti fær það. Síðan er talið í 2. sæti og sá, sem fær samtals hæst í 1. og 2. sæti, fær það. Og svo framvegis. Þetta skilja allir og engin leið að fúlsa við niðurstöðunni. Píratar vilja hins vegar hafa þetta voðalega vandað og lenda í öngstræti vitringsins Schulze. Fáir skilja hans flóknu hugsun. Á flot fara samsæriskenningar um prófkjör, fall prófkjörs og endurprófkjör á landsvísu. Svo og um vondar sérreglur í kjördæminu. Þótt útskýrt sé, skilja menn ekki eða vilja ekki skilja. Enn er verið að rífast um Norðvesturland. Burt með þennan Schulze og þessar breytingar á mengi kjósenda.

Leifsstöð er framtíðin

Punktar

Daglega lenda í Leifsstöð mörg þúsund útlendingar og eitt-tvö þúsund íslenzkir. Af þessum fjölda má búast við, að 1000 manns, landar og túristar, mundu kjósa að fljúga beint út á land. Mundu fylla tvær-sex Bombardier vélar Flugfélagsins daglega. Mundu létta á Reykjavík og auka vægi og viðhald flugvalla úti á landi. Flug utanbæjarfólks til útlanda yrði einfaldara og þægilegra, ef allt flug væri frá einum velli. Með járnbraut milli Reykjavíkur og Leifsstöðvar mundu ferðir léttast enn frekar. Nær væri að hugsa um framtíð flugs á Íslandi á þennan hátt, heldur en að standa í eilífu rifrildi um meint manndráp og landsbyggðarhatur.

Rukkað um svör

Punktar

Flokkar, sem vilja verða stjórntækir, þurfa að gera upp hug sinn í stórmálum. Þau snúast um tekjuöflun til tugmilljarða aukningar á rekstri Landspítalans. Þannig að starfsfólki fjölgi, starfsandinn batni, biðlistar hverfi og greiðsluþátttaka sjúklinga hverfi. Snúast um uppboð á veiðikvóta og á öðrum aðgangi að auðlindum þjóðarinnar. Snúast ekki um stagbætur á húsnæðismálum unga fólksins, heldur um breytta tekjuskiptingu, sem geri fólki kleift að eignast íbúð. Snúast um skil á stuldi ríkisins á fé aldraðra og öryrkja. Snúast um þjóðgarð á hálendinu. Einkum snúast þau um nýja stjórnarskrá. Afstaða óskast.

Lítill áhugi

Punktar

Prófkjörin benda til, að áhugi kjósenda Sjálfstæðisflokksins sé lítill. Enn séu þar margir, sem geti hugsað sér að sitja heima eða flytja til Viðreisnar. Vali efstu manna á lista Viðreisnar virðist bara ætlað að höfða til gamla flokksins. Spennandi verður að sjá, hversu margir munu bregðast við kallinu á kjördegi. Í Framsókn rífast menn um, hverjir séu mestir flugvallarvinir. En töfralausn í húsnæðismálum ungra verður sett á oddinn, þegar kosningar nálgast. Takmarkaður áhugi er á framboði annarra flokka en þeirra, sem nú hafa fulltrúa á þingi. Mest óvissa er um fylgi pírata og nennu þeirra til að mæta á kjörstað.

Spennan að hefjast

Punktar

Hreyfing er hafin á fylgi flokkanna eftir nokkurra vikna stöðnun. Píratar eru blessunarlega aftur orðnir stærstir með nærri 30% fylgi. Þeir mega varla vera neðar til að hafa áhrif eftir kosningar. Aðalmálið á þeim bæ verður að fá fólk til að nenna á kjörstað. Án slíks verður engin bylting. Komið er í ljós, að samanlagt fylgi Bófaflokksins og Viðreisnar er um 35% og Framsókn hangir í 10%. Fortíðin hefur þannig samtals 45% kjósenda að baki sér. Erfitt er fyrir Ísland að sækja fram með svo þunga byrði ómaga á bakinu. Ný stjórnarskrá og renta af auðlindum þjóðarinnar verða stóru ágreiningsefnin í þessari kosningabaráttu.

Öld stríðs og öfga

Punktar

Olíuauður eyðimerkurríkja múslima hefur eflt sjálfstraust fólks. Styrjaldir Bandaríkjamanna og vígfúsra þjóða (Davíðs) mögnuðu andstöðu við vestræna siði. Fyrir öld báru helztu borgir íslams í Tyrklandi, Sýrlandi, Palestínu, Írak, Íran, Pakistan og Afganistan vestrænan svip. Borgarkonur klæddust eftir tízku frá París. Hijab-slæður voru bara í sveitum. Á einni öld er íslam orðið harðari og öfgafyllri sem trúarbrögð. Jafnvel Mikligarður er orðinn haf af svörtum slæðum. Hefðu Bandaríkin ekki djöflazt á þessu svæði og ekki hallað sér að trúaróðum Sádum, væri friðsælla í heimi íslams. Við súpum seyðið af bandarísku rugli.

Villandi tölfræði

Punktar

Þegar þúsund manns velja sér forustu af hundrað frambjóðendum, dreifast atkvæði meira en þegar þúsund manns velja sér forustu af tíu frambjóðendum. Tölfræðin getur ekki sagt, að það sé lítið, þegar Birgitta Jónsdóttir fær 160 atkvæði í  efsta sæti og alls 672 atkvæði. Hún getur ekki heldur sagt það lítið, þegar Jón Þór Ólafsson fær 124 atkvæði í efsta sæti og alls 687 atkvæði. Morgunblaðið og Viðskiptablaðið hafa reynt að gera lítið úr prófkjöri pírata. Þau ættu fremur að skoða prófkjör Sjálfstæðisflokksins. Þar kemur það merkilega dauðamerki í ljós, að ekki fást nægir frambjóðendur í öll sætin, sem Flokkurinn býður.

Flugvallar-klofningur Framsóknar

Punktar

Framsókn vill ekki láta kosningarnar snúast um landsmál á borð við stjórnarskrá eða kvótauppboð. Ekki heldur um endurreisn heilsustofna eða svikin loforð ríkisstjórnarinnar. Betra sé að láta þær snúast um að ota landsbyggð gegn Reykjavík. Framsókn tönnlast á vonzku Dags B. Eggertssonar í garð sjúklinga af landsbyggðinni. Það gafst svo vel síðast. Fattaði ekki, að hefjast mundi stríð um, hver væri mestur „flugvallarvinur“ í Framsókn. Höskuldur Þórhallsson hjólar í Sigmund Davíð fyrir að hafa svikið í þessu sáluhjálparmáli. Og Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir hjólar í Höskuld. Litli bófaflokkurinn getur klofnað.