Punktar

Lágmarkslaun tímabær

Punktar

Fullljóst er, að verkalýðshreyfingin er áhugalaus um velferð lágstétta, einkum sé hún skipuð útlendingum. Samtök verkalýðsrekenda eru í samsæri með samtökum atvinnulífsins um Salek, litlar kauphækkanir. Á sama tíma eru heilu stéttirnar að lenda í tekjum undir framfærslukostnaði. Ekki bara öryrkjar, aldraðir og sjúklingar. Einnig starfsfólk í veitingum og gistingu og afgreiðslufólk á ótal sviðum. Eini aðilinn, sem getur komið í stað róttækrar verkalýðshreyfingar,  er ríkisvaldið. Það á að fylgja erlendum árangri í tilraunum við að koma á fót lágmarkslaunum. Hér gætu þau numið 300.000 krónum nettó á hverjum mánuði.

Svikin loforð endurnýtt

Punktar

Sjálfstæðisflokkurinn lofar öllu sama fyrir kosningar og hann sveik fyrir þær síðustu. Er í sex vikna kratagír á fjögurra ára fresti. Stelur þess á milli öllu steini léttara. Framsókn er ekki enn búinn að finna gírinn eftir slaginn um foringjaskiptin. En svakaleg mega loforðin verða, ef hún hyggst fara með himinhvolfum eins og síðast. Þessir tveir munu ekkert efna af loforðum sínum. Restin af fjórflokknum hefur góðan vilja, en linast, þegar að verkum kemur. Af nýlegu flokkunum er lítil reynsla, Viðreisn er ættuð úr Sjálfstæðis, en hinir flokkarnir munu reyna að efna loforð sín, Björt framtíð og einkum þó Píratar.

Hreyfing á drullupollinn

Punktar

Skoðanakannanir benda til jafnvægis jafnstórra fylkinga, hægri og vinstri. Í annarri eru stjórnarflokkarnir og Viðreisn. Í hinni er stjórnarandstaðan og Píratar. Annars vegar eru kjósendur, sem vilja að mestu óbreytt ástand. Þar á meðal er gefins aðgangur að fiski, vaxandi misskipting aðstöðu og auðs, öll einkavinavæðingin. Hins vegar eru kjósendur, sem vilja breyta sem flestu, einkum stjórnarskrá, taka upp auðlindarentu og jafna lífskjör fólksins. Hætt er við, að ný ríkisstjórn hafi tæpan meirihluta, nema atkvæði óákveðinna falli misjafnt á þessar tvær fylkingar. Þannig kæmist hreyfing á drullupollinn.

Lokar ekki sjoppunni

Punktar

Alþingi átti að hætta á föstudag í síðustu viku. Samt heldur forseti alþingis opnu, án þess að þingmál séu á dagskrá. Ríkisstjórnin boðar merk frumvörp, sem sjá ekki dagsins ljós. Ráðherrar úti um land að flytja ræður vegna aðvífandi kosninga. Að tjaldabaki einkavinavæðir fjármála ríkiseignir fyrir slikk. Í þingsölum ráfar verkefnalaus stjórnarandstaða. Skrípaleikur á ábyrgð Einars K. Guðfinnssonar þingforseta. Leyfir ríkisstjórn að segja hitt og þetta frumvarp vera alveg að koma, en ekkert kemur. Flokksformenn halda leynifundi og ekkert gerist. Á að halda þinginu verklausu, en samt opnu, alveg fram á kjördag?

Tala ljúft – hugsa flátt

Punktar

Þótt þingmannsefni Viðreisnar tali ljúft um þjónustuvilja við almenning, er ég fullur efasemda. Þetta er nánast allt fólk atvinnulífsins, ekki almennings. Allt fólk Sjálfstæðisflokksins, ekki miðflokka eða vinstri. Þarna er Þorgerður Katrín, fyrrverandi ráðherra kúlulána. Þarna er Þorsteinn Víglundsson, grátkarl og forstjóri Samtaka atvinnulífsins. Ég sé þetta fólk frekar í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn heldur en Pírata. Uppspretta Viðreisnar er stuðningur við aðild að Evrópusambandinu. Það er eina stóra ágreiningsefnið gagnvart auðræði Sjálfstæðisflokksins. Ég sé Viðreisn sem þriðja hjól núverandi ógnarstjórnar.

Þeir segja svindl

Punktar

Ýmsir stuðningsmenn Sigmundar Davíðs segja brögð hafi verið í tafli um kosningu formanns á sunnudaginn. Sumir Reykvíkingar hafi ekki verið í kjörskrá. Mótmælin komu þó ekki strax til tals, ekki fyrr en daginn eftir talningu. Síðast fékk Höskuldur Þórhallsson að vera formaður í kortér, meðan talið var upp á nýtt. En nú fékk Sigurður Ingi Jóhannsson að vera formaður dögum saman og er enn. Í fyrra skiptið varð Sigmundur Davíð formaður, en í seinna skiptið tapaði hann. Svona mál koma bara upp hjá framsókn, þar sem menn virðast lélegir í reikningi. Og eingöngu, þegar um er að tefla Sigmund Davíð, hinn mikla heimsmeistara.

Dýrasti þingmaðurinn

Punktar

Sigmundur Davíð hefur ekki verið ráðherra í allt sumar. Samt hefur honum tekizt að halda aðstoðarmann, bíl og bílstjóra á ríkiskostnað. Líklega á grundvelli frekjunnar. En ríkið hefur allt annað við peningana að gera en að sóa þeim í frekan alþingismann. Þótt Sigmundur sé undarlegur, er hann ekki þvílíkt undur, að þjóðin þurfi að kosta undir það tvo aukamenn og einn bíl. Í þjóðfélaginu dofnar sífellt sú skoðun, að tilteknar persónur séu öðrum æðri. Ekki er hægt að hindra siðblinda í að telja það um sjálfa sig. En samfélaginu ber engin skylda til að halda uppi slíkum misskilningi. Betra er að gefa þeim pillur við hæfi.

Borgaralaun verða raunhæf

Punktar

Borgaralaun eru ekki raunhæfur kostur, enda hefur enginn flokkur þau á stefnu sinni. Enn vantar útreikninga á fjárhag þessa flókna dæmis. Píratar hafa tekið þau til umræðu og fylgjast með erlendri umræðu um málið og tilraunum með það. Ein ástæða umræðunnar er, að milljónir verða atvinnulausar á næstu áratugum, þegar vélmenni koma til skjalanna í þjónustu og víðar. Þjóðfélög verða að vera undir breytinguna búin. Geta dreift hagkvæmni vélmenna til allra, ekki bara til þess 1%, sem flestu ræður. Tengist hratt vaxandi ójöfnuði á flestum sviðum. Annað hvort búa þjóðir sig undir borgaralaun eða lenda í blóðugri byltingu.

Fór vel í Framsókn

Punktar

Jæja, þetta fór þá vel í Framsókn. Með sigur af hólmi fór framsóknarmaðurinn. Og leiðindagaurinn skall á veruleikann. Sigurður Ingi var skárri í stöðunni og gerir Framsókn að viðræðuhæfum flokki í pólitíkinni. Allir græða á því, en mest þó Framsókn. Hún slapp við að verða að sauðum á flótta frá veruleikanum. Hinn kostur hennar var firring, lygi og siðblinda. Og hún hafnaði þessu öllu. Varð bara eins og aðrir flokkar, heiðarlegur eða spilltur eftir atvikum. Hvað verður að Sigmundi veit ég ekki. Kannski er hann skástur í að rissa upp burstahús í skipulagi. En líklega reynir hann samt að flækjast fyrir öðrum í pólitíkinni.

Frysting á næsta leiti

Punktar

Þeir, sem þefa af almenningsálitinu, segja mér, að Sigmundur sé fjölmennari en Sigurður á ættarmóti Framsóknar. Hvor þeirra, sem hefur slaginn í dag, mun fara fyrir klofnum flokki, kannski með þrjá þingmenn á hvorn væng. Sigurðarmenn hafa meiri séns á að komast í ríkisstjórn, enda kann Sigurður fleiri mannasiði en Sigmundur. Einkum er sá síðarnefndi óvinsæll meðal kollega, frægur af endemum. Skrítið er að reyna að sjá fyrir sér báða helminga klofins flokks vera saman í einni ríkisstjórn. Hvorugt freistar annarra flokka, sem mundu þó vinna meira til að losna við Sigmund. Flokksins bíður því frysting, sem gæti staðið áratug.

Eitraða ættarmótið

Punktar

Ættarmót Framsóknar hófst með, að formaður framkvæmdastjórnar neitaði að veita ræðutíma fyrir forsætisráðherra. Sigmundur sagði bara fundi slitið og rauk út. Eftirsitjandi stjórnarmenn héldu þó áfram fundi. Útkoman varð, að Sigurður Ingi forsætis fékk kortér, en formaðurinn klukkutíma. Þegar röðin kom að Sigurði, létu Sigmundarmenn skrúfa fyrir útsendinguna. Í ræðum sumra félagsformanna kom fram hvöss gagnrýni á Sigmund Davíð, meðal annars frá Ásmundi Daða. Hann var fyrir skömmu aðstoðarmaður hans. Sigmundur lýsti þó framsóknarfundinum sem eins konar ættarmóti. Það hefur greinilega verið eitrað ættarmót klofinnar ættar.

Flokkar styðja greifa

Punktar

Færeyska leiðin að auðlindarentu í fiskveiðum fær ekki víðtækan stuðning hér á landi. Markaðslögmál um frjáls útboð á leigukvóta eiga lítið fylgi. Sízt er það hjá meintum kapítalistum, sem vilja hafa það náðugt undir pilsfaldi ríkisins. Helzt styðja píratar útboð á leigukvóta og að öðrum forgangi að auðlindunum. Sjálfstæðis og Framsókn gæta hagsmuna kvótagreifa, eru andvígir auðlindarentu. Vinstri græn fengu færeyska pólitíkusa til skrafs og ráðagerða, en eru hræddir, líklega að tilhlutan Steingríms kvótgreifa-vinar. Viðreisn vill fara ofurhægt í sakirnar, setja eins stafs prósentu á uppboð. Þjóðin á því enn töluvert bágt.

Einkavæðing heilsunnar

Punktar

Sjálfstæðisflokkurinn einkavæðir í heilsugæzlunni með því að bæta við tveimur einkavæddum stöðvum. Fjármagnar þær með að lækka greiðslur til þeirra stöðva, sem fyrir eru. Einkavæðir sjúkrahúsaðgerðir með því að draga úr greiðslum til Landspítalans. Greiða í staðinn til einkastöðva úti í bæ. Í því skyni beitir Flokkurinn fyrir sig Sjúkratryggingum Íslands. Það er opinber stofnun undir stjórn fanatísks einkavæðingarsinna, Steingríms Ara Arasonar. Rekur stofnunina eins og sértrúarsöfnuð einkavæðingar. Til að rýma fyrir einkastöðvum eru stóru ríkisstofnanirnar fjársveltar, einkum Landspítalinn. Eykur kostnað sjúklinga.

Eitraða blandan

Dauðar kennisetningar

Punktar

Sósíaldemókratían er hér dauð. Samfylkingin er ekki flokkur alþýðu með sigg, heldur femínista, flóttafólks, bíllauss lífstíls, sorpflokkunar og lúxusvanda. Kommúnisminn er líka dauður hér. Vinstri græn eru ekki flokkur Moskvukomma, heldur græningja. Kapítalisminn er dauður hér á landi. Sjálfstæðisflokkurinn er flokkur kvótagreifa og annarra auðgreifa, sem hanga undir pilsfaldi ríkisins. Flokkar, sem reyna að feta í fótspor flokkanna þriggja, hafa fallandi fylgi. Aðeins þrír nýlegu flokkanna eiga séns á þingmönnum, Píratar, Viðreisn og Björt framtíð. Enginn þeirra fylgir úreltum trúarritum og kennisetningum 19. aldar.

Tvenns konar Framsókn

Punktar

Hyggist Framsókn hafa einhver áhrif fram í tímann, verður hún að díla við aðra flokka. Með formann, sem enginn vill reyna að díla við, verður þetta ókleifur múr. Sigmundur Davíð er fæla. Það er annað hvort hans leið eða engin leið. Við hann er ekkert um að semja. Þótt hans Framsókn fái 10% fylgi, fær hún engu að ráða. Dæmd til langvinnrar stjórnarandstöðu. Verður ekki húsum hæf. Sigurður Ingi er hins vegar vel látinn. Fólk er ekki hrætt að díla við hann. Það er bara eins og kaupin gerast á eyrinni. Þótt hans Framsókn fái sama 10% fylgi, getur hún lagt sitt lóð á vogarskálar stjórnarsamstarfs. Framsókn verður ekki fryst.