Punktar

Treystir ekki þingflokki

Punktar

Össur Skarphéðinsson var naskari í morgun en aðrir álitsgjafar. Tók eftir, að Bjarni Ben valdi sér aðstoðarmenn og flokksritarann í viðræðurnar um nýja ríkisstjórn. Óttar Proppé valdi hins vegar þingmenn. Össur útskýrir réttilega, að Bjarni gerir þetta til að geta samið við aðra flokka. Með Kristjáni Þór eða Jóni Gunnarssyni væri ekki hægt að semja um fiskikvótann. Með Haraldi Benediktssyni væri ekki hægt að gera skárri búvörusamning. Þarna hefur hver þingmaður skyldur við eigendur sína, ekki við kjósendur. Með tæknifólki getur Bjarni samið. Og síðan reynt að reka samninginn ofan í kok á flokksbræðra sinna á alþingi.

Vill mannbæta Bjarna Ben

Punktar

Ósætti er komið upp hjá Bjartri framtíð um framhald myndunar ríkisstjórnar með Sjálfstæðis. „Ég tel, að við eigum enga samleið,“ segir Páll Valur Björnsson, stjórnarmaður í Bjartri framtíð og fyrrverandi alþingismaður. Páll Valur segir Bjarta framtíð vera róttækan mannréttindaflokk, umhverfisflokk og alþjóðlega sinnaðan. „Það var kosið út af Panamaskjölunum og þar var Bjarni,“ segir hann og  vonar, að Óttar Proppé standi á forsendum flokksins. Óttar virðist stefna að hugarfarsbyltingu Bjarna, þannig að friður myndist á þingi. Því mun reyna á leikhæfni Bjarna Ben, þegar hann verður að þykjast vera hjartahreinn með öllu.

Kosningar nægja ekki

Punktar

Í ljós kemur, að Íslendingar eiga erfitt með kjósa sig frá spillingunni. Eftir svínarí síðustu þriggja ára fær Sjálfstæðisflokkurinn þriðjung allra þingmanna. Er að mynda uppvakning ríkisstjórnar spillingar með því að skipta um hækjur. Því virðist vera langt að bíða endurræsingar landsins með nýju hugarfari og nýrri skiptingu þjóðartekna. Þjóðin er einfaldlega ekki undir það búin að ákveða sjálf örlög sín. Vill áfram fela þjálfuðum pólitíkusum að hafa vit fyrir sér. Þannig rýrna hinar miklu þjóðartekjur og hverfa í skattaskjól áður en allar koma til skiptanna. Það stafar einfaldlega af, að þjóðin treystir sér ekki til að stjórna.

Árás á heilsu aldraðra

Punktar

Rannsókn árin 2015-2016 sýnir, að gamlingjar svelta á heilbrigðisstofnunum og líka heima hjá sér, fái þeir heimsendan mat. Tveir þriðju aldraðra sjúklinga á Landakoti þjást af næringarskorti. Venjulega er vannæring sjúklinga ekki skoðuð sérstaklega. Enginn næringarfræðingur starfar í heimaþjónustu eða á heilsugæslu. Heimsendur matur er ekki framleiddur með tilliti til næringar. Margir þurfa á næringardrykkjum að halda, en Sjúkratryggingar hafna yfirleitt óskum um slíkt. Af því leiðir, að öldruðum sjúklingum versnar hratt og þeir verða næmari fyrir alls konar sjúkdómum. Þetta er þáttur í árásum Sjálfstæðisflokksins á heilsu fólks.

Plato snýr sér í gröfinni

Punktar

Þegar fólk talar um vestræna menningu, er oftast átt við langa fæðingu. Fyrst meðal grískra heimspekinga, síðar yfir til rómverskra, þaðan til múslima og loks frá þeim um spánskar menntaborgir til byltingar-stjórnarskráa Frakka og Bandaríkjamanna. Þetta er of mikil einföldun, helzt eru það betri háskólar sem láta vestræna menningu skara framúr íslamskri. En vestrænn nútími er meginpart enginn toppur á hugsun kynslóðanna. Hún er donuts og hamborgarar, söngvakeppnir, keppni í bolta, sápuóperur, brjóst og rassar, Donald Trump, Sjálfstæðisflokkurinn og Sigmundur. Lágkúra og neyzluhyggja er botn, en enginn toppur á tilverunni.

Spillingin skiptir um hækju

Punktar

Í tæp fjögur ár hefur Framsókn verið hækja Sjálfstæðis í spillingunni. Hlutverkið hæfir Framsókn vel, en nú dugar hún ekki lengur, nánast fylgislaus. Hlutverkið er yfirtekið af Viðreisn með hjálp Bjartrar framtíðar. Sjálfstæðis getur haldið áfram að rústa innviðum samfélagsins til að einkavæða þá. Flokkurinn getur haldið áfram að nota lagasetningu til að færa fé frá fátækum til ríkra. Flokkurinn getur haldið áfram að leggja blessun sína yfir umfangsmikinn þjófnað kvótagreifa á auðlindarentu þjóðarinnar. Að þessu sinni eru hækjurnar einnota. Kjósendur þeirra láta ekki plata sig aftur. Svona fer, þegar kjósendur trúa kosningaáróðri flokka.

Hvað er þá í veginum

Punktar

Samfylkingin sýnir ábyrgð með að hverfa frá afneitun stjórnarþátttöku og bjóðast til aðildar. Ég skil ekki tregðu pírata. Kunna að hafa skynsamlegar skýringar, sem ég hef ekki séð. Þeim ber að taka þátt í ríkisstjórn Katrínar. Píratar geta skipað fagfólk sem sína ráðherra, þótt aðrir flokkar vilji ekki fyrir sitt leyti. Þessir þrír flokkar eiga margt sameiginlegt með Viðreisn og Bjartri framtíð, að minnsta kosti á pappírnum. Í sumum tilvikum kunna pappírsgögn að vera marklítil. Allir vildu þessir fimm flokkar hverfa frá spillingunni, sem gegnsýrir Framsókn og Sjálfstæðis. Allir vilja þeir breyta kvótakerfinu. Hvað er þá í veginum?

Sameinast um siðvæðinguna

Punktar

Pólitíska staðan er ekki lengur eins flókin og við álitsgjafar höfum haldið um skeið. Bjarni Benediktsson getur bara ekki myndað stjórn. Vegna þess að allir aðrir en sjálfstæðismenn telja hann tæpast viðræðuhæfan vegna Panamamálsins og fleiri grárra mála, sem ekki hæfa ráðherrum. Þess vegna hafa Viðreisn og Björt framtíð heimtað siðvæðingu, sem Bjarni getur ekki staðið undir. Þegar Framsókn er komin úr spilinu er spillingin einkamál Sjálfstæðisflokksins. Traustasta stjórnin í kortunum eru Vinstri grænir, Píratar og Viðreisn með hjálp smáflokkanna. Kominn er tími til að kanna, hvort hægri-mið-vinstri geti ekki sameinazt um siðvæðingu.

Hrósað upp í rjáfur

Punktar

Ekkert bendir til stöðvunar á auknum straumi ferðamanna til Íslands. Þvert á móti sýna pantanir og flugáætlanir töluvert meiri fjölgun en er á þessu ári. Árið 2017 verður mesta ferðamannaár sögunnar. Bretar eru í kreppu, en ætla samt að koma fleiri en áður. Allar umsagnir ferðamanna eru jákvæðar. Stórkostlegt er að koma hingað og Íslendingar taldir vinsamlegir. Gistingu og mat er hrósað upp í rjáfur. Þetta er beinlínis hástig lífsins að mati margra. Engar líkur eru á, að þetta breytist á næstu árum. Við þurfum að vísu að gera fólki kleift að kúka og pissa og gera fleirum kleift að koma upp Airbnb heima hjá sér. Það bjargar þjóðarhag.

Bingó, ný stefna

Punktar

Strax eftir lokun kjörstaða breyttust Viðreisn og Björt framtíð úr miðflokkum í hægri flokka. Þeir sóttust stíft eftir samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn, en höfnuðu Framsókn. Sá flokkur breyttist eftir fall Sigmundar Davíðs flokksformanns úr hægri flokki í miðflokk. Allar þessar breytingar sýna, hversu lítið er að marka orð og stefnu hinna hefðbundnu flokka. Þeir líta flestir á kjósendur eins og erkifífl, sem þeir raunar eru. Allir eru þeir sammála um, að Píratar séu ekki stjórntækir, enda eru þeir hinir einu, sem segja kjósendum sannleikann. Slíkt gegnsæi þykir enn ekki nógu stofuhæft fyrir afæturnar, er liggja uppi á þjóðinni.

Stöðugleiki pilsfaldsins

Punktar

Í kosningunum kom í ljós, að gömlu slagorð Íhaldsins virkuðu bezt. Stöðugleiki, staðfesta, traust. Þetta hafði betri áhrif á kjósendur en slagorðið: Endurræsing. Fólk kvartaði að vísu og kveinaði yfir meðferðinni á öldruðum og öryrkjum, yfir húsnæðisvandræðum unga fólksins og rústun Landspítalans. Þegar í kjörklefann var komið, valdi fólk samt heldur meintan stöðugleika. Einhvern veginn tókst Íhaldinu að telja fólki trú um, að það forði þjóðinni frá ókyrrð og tilraunum. Þjóðin er í hjarta sínu íhaldssöm og óttast breytingar. Leitaði skjóls hjá lénsherrum sínum. Fær því stöðugleika í svindlbraski og gjöfum ríkiseigna til pilsfaldafólksins.

Uppreisn alþýðunnar

Punktar

Jæja, Trump hafði það, þvert á kannanir. Eins og Brexit líka, þvert á kannanir. Verðbréf falla í Bandaríkjunum eins og þau gerðu í Bretlandi í kjölfar Brexit. Alþýðan reis upp gegn yfirstéttinni, sem sér sitt óvænna. Gengi dollarsins sígur sennilega. Yfirstéttin titrar af skelfingu, lénsherrarnir sjálfir.  Miklar hættur eru á ferðinni út af persónu Trumps. Hann virðist hafa talað á máli rauðhálsanna, sem fyrirlíta jakkalakkana. Alþýðan finnur misjafnan farveg, til hægri, vinstri eða á miðju. Hér á Íslandi lánaðist hún ekki, fólk hélt tryggð við kvalara sína, enda erum við ekki forustuþjóð í pólitík. Alþýðan hefur hér enn bara 15% fylgi.

Viðreisn laug sig inn

Punktar

Viðreisn tókst fyrir kosningar að telja fólki trú um, að hún væri frjálslyndur flokkur á miðjunni. Margir vöruðu við þessum orðum, enda komu frambjóðendurnir flestir úr yfirstéttinni. Ég benti á, að fortíð frambjóðenda Viðreisnar benti til hægri stefnu. Þarna var fólk úr fjármálageiranum og frá samtökum atvinnurekenda. Eftir kosningar kom strax í ljós, að þetta var rétt. Kosnir þingmenn Viðreisnar komu fram í viðtölum og fluttu skoðanir, sem Sjálfstæðisflokkurinn þorði ekki að halda á lofti. Sögðu, að skattar væru ofbeldi. Að þjóð gæti ekki átt eignir. Þetta pólitíska trúarrugl er í Ayn Rand stíl á hægra jaðri nýfrjálshyggjunnar.

Meirihluti um uppboð kvótans

Punktar

Ef við trúum stefnuskrám, er meirihluti á alþingi fyrir frjálsum uppboðum kvóta í sjávarútvegi. Aðeins Sjálfstæðis og Framsókn vilja standa vörð um gjafakvótann. Undir eðlilegum kringumstæðum ætti því að vera hægt að mynda ríkisstjórn um að breyta þessu kerfi. Önnur mikilvæg hugsjónamál ná ekki meirihluta, til dæmis ekki um 11% landsframleiðslu til heilbrigðismála og ekki um nýju stjórnarskrána. Slík mál mættu því bíða, þangað til kjósendur þroskast. Ekki eru því líkur á miklum framförum á þessu kjörtímabili. Meirihluti kjósenda hefur ákveðið, að svokölluð staðfesta sé mikilvægari en svokölluð endurræsing. Vonandi með minni spillingu.

Blokkirnar eru veikar

Punktar

Ég sé tvær blokkir í pólitíkinni eftir kosningar. Öðru megin er hægri-íhalds blokk og hinu megin vinstri-frjálslynd blokk. Í fyrri eru Sjálfstæðis, Vinstri græn og Framsókn með 39 þingmenn alls + Viðreisn. Í síðari eru Vinstri græn, Viðreisn (aftur), Píratar, Samfylkingin og Björt framtíð með 34 þingmenn alls. Tilraun Pírata í þá átt tókst hins vegar ekki og fyrri blokkin virðist sennilegri. Til dæmis með því að skipta Framsókn út fyrir Viðreisn og Bjarta framtíð, með alls 32 atkvæðum. Virðist þó vera ákaflega tæpur eins manns meirihluti. Sumir flokkar geta talizt í báðum blokkum og Björt framtíð raunar í öllum blokkum, sem gæfu ráðherrasæti.