Punktar

Landsbankinn sukkar

Punktar

Ríkisendurskoðun gerir athugasemdir við nokkrar sölur Landsbanks í lokuðu ferli. Í ýmsum tilvikum telur hún, að bankinn hafi fengið of lítið verð fyrir eignirnar. Bankinn hafi ekki sýnt eðlilega aðgát og skynsamlegt verðmat. Er í eigu ríkisins, svo að hann kemur almenningi beint við. Þarna hafa opinber verðmæti rýrnað um milljarða að undirlagi Steinþórs Pálssonar bankastjóra, sem er frægur að endemum. Hefur þó ekki enn verið dreginn fyrir dómstóla eins og kollegar hans í Kaupþingi sáluga. Fræg er leynisalan á Borgun til Engeyinga, þar sem töpuðust milljarðar. Ríkisendurskoðun segir trú­verð­ug­leika bank­ans hafa þar verið stefnt í hættu.

Eftirgjafir í stjórnarmyndun

Punktar

Píratar hafa þegar gefið eftir í tveimur mikilvægum atriðum við stjórnarmyndun. Gera ekki kröfu til að ráðherrar hinna flokkanna séu ekki jafnframt þingmenn. Og gera ekki kröfu til að afgreiða fyrst stjórnarskrá og hafa kjörtímabilið stutt. Ljóst var, að ekki yrði af nýrri stjórn með þessum tveimur atriðum. Að vísu á eftir að afgreiða eftirgjöfina í vefkosningu pírata. Á meðan væri æskilegt, að hinir flokkarnir fjórir áttuðu sig á, að óhófleg sérstaða í öðrum málum er ekki vænleg til árangurs. Séu þeir jafn fúsir og píratar að liðka fyrir í ágreiningi, er líklegt, að þessi eftirsótta fimm flokka ríkisstjórn komist fljótt á koppinn.

Lestur versnandi fer

Punktar

Þegar ég var barn, var talið eðlilegt að kunna að lesa. Afi kenndi mér að lesa fjögurra ára. Fimm ára fór ég í forskóla og sex ára í skóla hjá frægri Kristínu á Bárugötu. Hún kenndi m.a. biblíusögur og landafræði. Ég var búinn að lesa þetta áður, enda var það algengt á þeim tíma. Man svo ekki, hvort ég lærði eitthvað í barnaskóla. Nú er þriðjungur barna talinn vera ólæs sér til gagns, þegar hann er kominn úr barnaskóla. Er sem sagt skemmra á veg komin tólf ára en ég var fjögurra ára. Eitthvað er bogið við þetta annað en tölvan og síminn. Fólk þarf þó að geta lesið á skjáinn eins og pappírinn. Getur ólæst fólk bjargað sér í lífsbaráttunni?

Brúnu umslögin

Punktar

Bandarískir pólitíkusar hoppa yfir í sérhagmuni, þegar þeir hrökklast úr pólitík. Ósiðurinn byggist á loforðum um feitar stöður, þegar þeir sitja við samningaborð gagnvart sérhagsmunum. Líka farið að tíðkast hjá Evrópusambandinu, að yfirmönnum sé mútað með loforðum af þessu tagi. Hér er þetta byrjað. Einar K. Guðfinnsson verður forstjóri Landssamtaka fiskeldisstöðva. Og Katrín Júlíusdóttir er orðinn forstjóri Samtaka fjármálafyrirtækja, hafandi verið fjármála og efnahagsráðherra. Slík ráðning varpar skugga á allan feril pólitíkusa, er eiga sem ráðherrar að halda í skefjum sífelldum árásum gráðugra sérhagsmuna á veika almannahagsmuni.

Heimildir nýtast ekki

Punktar

Fólk er ekki betur upplýst, þótt samskiptatækni hafi margfaldazt. Wikipedia og Google ættu að geta veitt svör um staðreyndir. Samt rífst fólk um staðreyndir án þess að skoða heimildir, sem Wikipedia og Google vísa á. Greiðari aðgangur að upplýsingum gagnast ekki, ef hann er ekki notaður. Þar að auki hafa áður meintar heimildir tapað vægi. Ljóst er að stjórnvöld ljúga, skýrslur ljúga, löggan lýgur og svo framvegis. Dæmin hrannast upp í leka á pósti stjórnvalda og bankatölum frá aflandseyjum. Engum er lengur að treysta. Misvísandi upplýsingar eru um flestan ágreining, til dæmis um stöðu múslima á Vesturlöndum. En fólk nennir ekki lengur.

Draga verður í land

Punktar

Í vímu hagstæðra skoðanakannana fyrri hluta ársins horfðu Píratar fram á sigur í haustkosningunum. Höfðu smíðað stefnuskrá, sem var miðuð við stærri hlut en kom upp úr kjörkössunum. Ég sagði strax, að ekki þýddi að setja öðrum það skilyrði, að þeir mættu ekki velja þingmenn til ráðherradóms. Auðvitað töluðu Píratar bara um sig sjálfa, því þeir geta ekki stýrt öðrum flokkum, allra sízt ef þeir eru jafnstórir. Því er ljóst, að Píratar þurfa að slá af ýtrustu kröfum eins og aðrir. Þar eru engin atriði ófrávíkjanleg. Meðan Píratar eru sömu stærðar og vinstri græn og Viðreisn+Björt framtíð mun hamingjan felast í hænuskrefum.

Umbrotin í Evrópu

Punktar

Er landnámsmenn komu hingað, blómstraði íslam meira en kristni. Cordoba á Spáni og Istanbul í Tyrklandi voru menningarmiðstöðvar Evrópu. Þar þróuðust fræði þess tíma. Þar laust saman trú og vísindum. Smám saman dró úr veldi múslima í álfunni, Márar hröktust frá Spáni og Tyrkir frá Balkanskaga. Er kaþólikkar voru að sigra múslima við Miðjarðarhafið, voru mótmælendur að sigra kaþólikka í norðanverðri álfunni. Miðaldir voru umbrotatími. Erfingjar sögunnar urðu Evrópumenn, sem urðu sigursælir um alla jörð. Frá þeim þróaðist nútími trúleysu og tækni. Fólk rakti menningu sína til Hellas. Má þakka múslimum fyrir að varðveita gríska arfinn um myrkar miðaldir.

Hún hefur vigt

Punktar

Eðlilegt er, að hefðbundnir pólitíkusar séu hræddir við Pírata. Sá flokkur er öðru vísi smíðaður og með öðru hugarfari en hefðbundnir flokkar. Til dæmis hefur stefna flokksins smám saman orðið til í hópum flokksmanna og henni síðar verið breytt með sama hætti. Þetta veldur óróa, þegar píratar eru í samstarfi við aðra og þurfa að lúta samstarfinu frekar en nýjum vilja flokksmanna. Píratar þurfa að taka á vandamálum, sem stafa af brýnu samstarfi. Hitt er svo rangt, að píratar séu rugludallar. Birgitta er til dæmis rúmlega höfðinu hærri en aðrir íslenzkir pólitíkusar, þegar kemur að samskiptum við erlent mektarfólk. Hún hefur vigt.

Frexit eltir Brexit

Punktar

Með Brexit og Trump siglir þjóðremba þöndum seglum. Bretland og Bandaríkin eru komin í þjóðrembda flokkinn með Rússlandi, Kína og mörgum smærri ríkjum. Næst eru forsetakosningar í Frakklandi, þar sem reiknað er með, að frambjóðandi Front National komist langt. Le Pen sem forseti gæti framið Frexit í stíl Brexit og þar með lamað evruna og Evrópusambandið. Víðs vegar um Evrópu eru fleiri andvígir innflytjendum en eru þeim meðmæltir. Þar á meðal eru Danmörk og Finnland. Meira að segja í Þýzkalandi eru þjóðrembingar með góðan byr. Eina birtan, sem skín inn í þessa myrku mynd, felst í, að fjölþjóðasinnar eru yngri en gömlu þjóðremburnar.

Að hugsa í lausnum

Punktar

Stjórnarmyndun ætti ekki að snúast um, hver getur otað sínum tota harkalegar en hinir. Hún á að snúast um, að flokkar, sem eiga ýmislegt sameiginlegt, ákveði að gera málamiðlanir. Þannig er núna unnið í tilraun Katrínar Jakobsdóttur. Það eru samráðastjórnmál í stað átakastjórnmála. Eftir helgina verður komið í ljós, hvort þetta gengur upp. Séu einhverjir ekki í alvöru að semja, heldur að fara gegnum eins konar forleik, gengur þetta ekki upp. Það kemur þá í ljós, hverjir hugsa á þann veg. Utan frá að sjá eru sjónarmið þessara fimm flokka ekki svo ólík, að þeir geti ekki með góðum vilja náð samkomulagi. Málið er að hugsa í lausnum.

Harðgreint hörkutól

Punktar

Þótt Katrín Jakobsdóttir brosi blítt, er hún harðgreint hörkutól. Lætur ekki segja sér fyrir verkum. Hún er miklu klárari en Bjarni Benediktsson. Til dæmis mun hún ekki lúta vilja Steingríms Sigfússonar við myndun ríkisstjórnar. Hún er ekki háð kvótagreifum frekar en öðrum frekum miðaldra körlum. Sé til sáttaleið fimm flokka í markaðsvæðingu fiskikvótans, mun hún geta samið við Viðreisn eins og aðra. Ríkisstjórn með bófaflokkunum er kannski einfaldari í smíðum, en mundi ekki verða Vinstri grænum til gæfu. Píratar verða ljúfir við hana, enda hafa þeir þegar mælt með henni sem forsætisráðherra. Og hún mun vinna hraðar en Bjarni Ben.

Takmörk samræðustjórnmála

Punktar

Gott er, ef hægt er að innleiða meiri samræðu- og samstarfsstjórnmál á alþingi í stað uppþota og málþófs. Fólk verður þó að átta sig á, að samræður í vinsemd eiga sér takmörk, þegar sérhagsmunir eru í húfi. Kvótagreifar hafna markaðslausnum í sjávarútvegi. Eru jafnvel enn að heimta, að ríkið borgi hluta af launum áhafna. Yfirgangur greifanna á sér engin takmörk og bófaflokkar alþingis taka mið af því. Sjálfstæðisflokkurinn mun áfram iðka sömu stjórnmálin, hvað sem tautar og raular, og Framsókn jafnvel líka. Því dugir ekki að ætlast til meiru af samræðupólitík en samstarfi fimm stjórnarflokka. Það eitt er mikilvægt markmið komandi alþingis.

Veruleikinn birtist hægt

Punktar

Flókin röð tilrauna til stjórnarmyndunar dregur hana á langinn. Á móti kemur í ljós, hvar eru helztu sáttaefni og ágreiningsefni flokka. Nú sést til dæmis, að  Sjálfstæðisflokkurinn er bófaflokkur, sem hafnar markaðsrekstri í sjávarútvegi. Og að Viðreisn og Björt framtíð eru hörð á markaðsrekstri. Þegar Katrín Jak fær umboðið, kemur í ljós, hvar Vinstri græn standa í uppboðum veiðileyfa og öllum fiski á markað. Þá kemur líka í ljós, hversu langt er hægt að ganga í innleiðingu nýrrar stjórnarskrár. Líklega eru allir sammála innspýtingu fjár í heilsukerfið. Litlu skiptir, hvernig fer með þjóðaratkvæði um EBE, aðild verður ekki samþykkt í náinni framtíð.

Spillingin gafst upp

Punktar

Mörgum sárnaði eðlilega, þegar Björt framtíð fór strax á bólakaf í viðræður við aflandseyjakónginn um myndun ríkisstjórnar. Enda kom ekkert út úr þeim viðræðum annað en tveggja vikna seinkun. Sjálfstæðisflokkurinn tekur ekki í mál að efna til markaðsbúskapar í sjávarútvegi og þar við situr. Ef allt er með felldu á Bessastöðum, verður Katrínu Jakobsdóttur núna falin tilraun til stjórnarmyndunar. Píratar hallast að stjórn undir forsæti hennar. Samtals hafa þeir tveir flokkar tuttugu þingmenn og þurfa því að leita liðsinnis Viðreisnar með sjö þingmenn og miðflokkanna með aðra sjö. Slík stjórn ætti að geta komið á markaðslögmálum í sjávarútvegi.

Sjálfvirkur einkagróði

Punktar

Rafræn skilríki einfalda starf stofnana og fyrirtækja og spara fyrirhöfn. Samt á almenningur að borga fyrir þau. Áður fyrr hafði fólk íslykil og það var alveg nóg dulkóðun. Þá var stofnað einkafyrirtæki um rafræn skilríki, fyrst auðkennislykil. Hann var frír og því verður hann lagður niður um áramót. Þá fer fólk að borga fyrir hvert sinn, sem það skoðar heimabankann. Fyrstir eru bankarnir og svo koma aðrir. Fólk er skyldað til að hafa rafræn skilríki. Einkafyrirtæki græðir á tá og fingri út á einkaleyfi frá fjármálaráðherra einkavinanna. Gefið er hlutverk ríkisins, svo að pilsföldungar geti okrað á því eina, sem þeir kunna, – að stela.