Punktar

Rangt gefið í skattaspili

Punktar

Með því að fela 580 milljarða í skattaskjóli plús vexti, eru hafðir af ríkissjóði 115 milljarðar. Þess vegna eru ekki til peningar í velferð. Þess vegna er ekki hægt að hafa húsnæðisvexti sömu og annars staðar. Þess vegna er ekki hægt að koma Landspítalanum og heilsuverndarstöðvum í samt lag. Þess vegna er ekki hægt að greiða öldruðum og öryrkjum sömu hækkanir og öðrum. Undanskotið í skattaskjólum er nógu mikið til að hindra eðlilegt skattfé fyrir þarfir ríkisins. Enda segja vitfirringar nýfrjálshyggjunnar, að skattar séu ofbeldi og að græðgi sé góð. Á þennan hátt var rangt gefið í spilunum, sem lögð voru fram í kosningabaráttunni.

Bjarni Ben veldur fátækt

Punktar

Bjarni Benediktsson lá í fjármálaráðuneytinu í nokkra mánuði á skýrslu nefndar um íslenzkt skattaskjól á aflandseyjum. Eins og orðin tjá, er fé haft í skattaskjóli á aflandseyjum til að koma því undan skatti. Fjármálaráðherra lá á skýrslunni, því þar var fjallað um undandrátt hans sjálfs og hans Engeyinga. Lagðist á skýrsluna, því hann vildi hvorki, að fjallað yrði um falið fé í kosningabaráttu vetrarins né í stjórnarmyndunartilraunum. Skýrslan gefur upp miðgildi, sem segja, að óhreina féð í skattaskjólum nemi 580 milljörðum og að ríkið hafi misst af 115 milljörðum fyrir utan vexti á nokkrum árum. Af þessu stafar fátækt fátæklinga.

Staðreyndavaktir

Punktar

Erlendis hafa verið settar upp staðreyndavaktir til að fylgjast með og segja frá lygi í fréttum og fyrirtækjum á því sviði. Flókin tölvureiknirit eru notuð til að finna villur á sjálfvirkan hátt, án þess að mannshöndin komi nærri. Google og Facebook eru að þróa þessa tækni til að geta sagt notendum, hversu áreiðanlegar heimildir eru. Er þá líka miðað við umrædda frétt, svo og forsögu þess, sem fréttina skrifar og þess fjölmiðils, sem birtir hana. Vissulega má búast við, að upp rísi falskar staðreyndavaktir til að sveigja almenningsálitið að tilteknum hagsmunum. Í heild ætti þó að koma úr þessu betra fréttamat almennings.

115 milljarðar á lausu

Punktar

Óhreint fé Íslendinga í skattaskjólum á aflandseyjum nemur 580 milljörðum. Sú er útkoma nefndar hins opinbera um misnotkun á frjálsum fjármagnsflutningum. Þetta er einkum þrennt, hækkun í hafi, eignastýring erlendis og vanskráðir flutningar peninga. Skattatap ríkissjóðs af þessu braski hefur numið 4,6 milljörðum á ári eða 115 milljörðum alls fyrir utan vexti. Upphæðin er miklu hærri en sem nemur því fé, sem vantar í húsnæði fyrir ungt fólk, heilbrigðismál og í bætt lífskjör aldraðra og öryrkja. Ekki hefur frétzt af neinum tilraunum til að ná inn þessum útistandandi peningum. Varla verður það meðan skúrkarnir sitja í ráðherrastólum.

Ekki er sopið kálið

Punktar

Á fjölmiðlum er vart hægt að sjá nein tilþrif við að grafa upp sjónarmið í stöðu stjórnarmyndunar. Vitað er um ýmsa fýlu meðal þingmanna flokkanna, en fátt um viðhorf almennra flokksmanna. Sennilega finna þeir ekki orð til að lýsa þjáningum sínum á fésbók. Líklega tekst Benedikt Jóhannessyni og Óttarri Proppé að fela sig fyrir blaðamönnum. Slíkt hefur verið tízku í nokkur ár. Hvergi er viðtalið: „Ég kokgleypti allan pakkann“. Dauðaþögnin er einkennislýsing þess, að Viðreisn og Björt framtíð hafa fallið frá öllum helztu málum sínum. Kálið beizka er komið í ausuna og nú gildir að súpa á. Hver verða svo hóstaköstin, þegar kálið er sopið?

Bara stefna Sjálfstæðis

Punktar

Viðreisn og Björt framtíð hafa gefið eftir öll sín helztu stefnumál í viðræðum við Sjálfstæðis um nýja ríkisstjórn. Ekki verður minnzt á framhald viðræðna við Evrópusambandið á kjörtímabilinu. Ekki verður rætt um breytingar á kvótakerfinu, engin uppboð og engin hækkun á auðlindarentu. Benedikt hefur fallizt á óbreytta stefnu gömlu stjórnarinnar og Óttarr þá væntanlega líka. Hugsanlegt er þó, að einstakir flokksmenn þessara meintu breytingaflokka maldi í móinn, þegar til kastanna kemur. Nýja stjórnin hefur bara eins þingmanns meirihluta. En hætt er við, að óbreyttir þingmenn séu allir úr sama lina vaxinu og formenn flokkanna.

Hinsegin markaðssinnar

Punktar

Hvergi geta pólitíkusar rætt af skynsemi um augljós mál. Svonefndir markaðssinnar mega ekki heyra það nefnt, að veiðiheimildir verði leigðar út á frjálsum markaði. Eingöngu píratar heimta það. Aðrir flokkar vilja í mesta lagi tilraunir af því tagi á örfáum prósentum aflans. Svonefndir markaðssinnar geta ekki hugsað sér nein markaðslögmál, vilja eingöngu sjá pilsfald ríkisins. Þar liggja hagsmunir hinna allra ríkustu. Markaðssinnar almennt hata hvers konar frelsi. Klikkað fólk, sem vegsamar stöðugleika og hatar breytingar. Þingmenn Viðreisnar eru þar fremstir í flokki. Við lifum svo sannarlega í Undralandi klikkaðra kjósenda.

Íslenzkur lausagangur

Punktar

Svokölluð einkavæðing er á Íslandi í því formi, að þeim gráðugustu er hleypt inn undir pilsfald ríkisins. Og síðan passað upp á, að eftirlit sé í skötulíki undir forstjórn jólasveina. Þannig kemst Kumbaravogur árum saman upp með að framkvæma engar kröfur Landlæknis. Þannig kemst United Silicon hjá því að hindra útblástur eiturefna, því Umhverfisstofnun gerir ekkert. Allir vita, hvernig eftirlitsleysi hefur verið háttað hjá Matvælastofnun. Engin stofnun tekur að sér að hindra kvótagreifa í að hækka fiskinn í hafi og koma mismuninum fyrir í skattaskjólum. Þúsundir vinna á ýmsum stofnunum, sem hafa það verkefni að láta græðgina í friði.

Píp frá seðlabankastjóra

Punktar

Seðlabankastjóri spyr háðslega, hvaða aðhald eigi að koma í stað hávaxta, þegar þensla sé á eftirspurn eins og núna. Hann bítur sig fast í skólabækurnar, þótt komið hafi í ljós, að flestar tilgátur í hagfræði eru píp. Hvenær hefur tekizt að láta háa vexti tempra eftirspurn á Íslandi? Húsnæðisskortur hefur til dæmis ætíð verið öflugri efnahagsstærð en vextir. Fikt við gengi hefur heldur ekki verið nein efnahagsstærð, aðeins aðferð við að flytja fé frá launafólki til auðgreifa. Aðferð við að draga launahækkanir til baka. Og svo er spurning, hversu lengi er hægt að muldra úrelt píp um aðhald, þegar pólitíkusar hækka sín laun um 40%.

Stjórn fjórflokksins

Punktar

Allt í einu er hægri stjórn ACD flokkanna að detta úr sögunni áður en hún fæðist. Í staðinn er stjórn BDV gamlingjaflokkanna orðin mál dagsins. Í stað þess að díla við nýju hægri flokkana er Sjálfstæðis farinn að díla við gamla óvini í fjórflokki gamla tímans. Ekki er hægt að segja annað en, að snögglega skipti um vindátt í landsmálapólitíkinni. Þingmenn Sjálfstæðis eru misjafnlega ánægðir með samneyti við samkeppnisflokka á hægri væng. Kjósa heldur gamla andstæðinga sem þekktar stærðir um áratugi. Semsagt hægri-vinstri hjónaband. Gamli Davíð fyrirskipaði þetta. Líklega fylgir þó, að puttum Sigmundar Davíðs verði haldið víðs fjarri.

Nú vantar Pétur sjómann

Punktar

Í gamla daga, fyrir daga Davíðs, var Sjálfstæðisflokkurinn flokkur allra stétta. Þar voru verkalýðsleiðtogar á borð við Pétur sjómann. Flokkurinn þóttist vera fyrir alla, líka fyrir þá fátækustu. Pétur passaði þá. Enn hefur flokkurinn slíkt fylgi af gömlum vana fólks, þótt hann hafi umturnazt. Nú er þar enginn Pétur sjómaður. Heldur fólk eins og Óli Björn Kárason og Sigríður Á. Andersen, sem hefðu verið rekin úr flokknum í gamla daga fyrir félagslegan Darwinisma. Núna takmarkar hann sig við þann helming þjóðarinnar, sem hefur það gott. Ráðandi öfl í flokknum hafa lokað augunum fyrir vanda á vegum excel-skjala Darwinistanna.

Katrín slátraði sjálf

Punktar

Á óvart kom, að Katrín Jakobs skyldi slátra fimm flokka stjórnarviðræðunum. Það var hvorki Steingrímsliðið né Svandísar-Svavars liðið, sem rak stöng í teinana. Þau voru jákvæð og lausnarmiðuð allt til enda, líkt og Benedikt og Óttar. Katrín sjálf sá hins vegar annmarka á öllu á síðasta fundinum. Hún og hennar lið höfðu þá talið sér trú um, að ekki yrði farsælt fyrir hana persónulega að fara í slíka stjórn. Líklega hafði farizt fyrir að bjóða henni forsætis nógu tímanlega. Allir voru tilbúnir til að samþykkja hana, en aldrei kom til þess. Athyglivert er líka, að það voru hvorki Benedikt né Óttarr Proppé, sem ráku stöngina í teinana.

Sex flokkar gegnumlýstir

Punktar

Síðustu dagar hafa varpað endanlegu kastljósi á stöðu stjórnmálaflokka. Vinstri græn og Framsókn uppgötvuðu samhljóminn og eru farin að tala saman í laumi. Tveir flokkar í eigu kvótagreifa, tvennt íhald, sem vill engar breytingar. Áður var ljóst, að Sjálfstæðis og Viðreisn er sama tóbakið. Viðreisn hangir í hugsjónum úr fortíð Sjálfstæðis. Á eftir að slípast í stjórn Engeyinga undir Tortola-leiðsögn. Björt framtíð snýst um bjarta fínimennsku í ráðherrastólum. Samfylkingin er farin að nudda sér utan í Framsókn. Margir voru á kjördegi ómeðvitaðir um hjartslátt þessara sex stjórnmálaflokka. Margt kemur síðan í ljós við nánari gegnumlýsingu.

Þrjár leiðir til fátæktar

Punktar

Auðgreifahópurinn, sem á pólitíkina, hefur einkum þrjár aðferðir við að flytja verðmæti frá fátækum til ríkra. Í fyrsta lagi er hægt koma peningum til Tortola með hækkun í hafi. Það gerist með því að standa gegn útleigu veiðiheimilda. Í öðru laga er hægt að margfalda skuldabyrði almennings með okurvöxtum, einkum á húsnæði. Þannig er láglaunafólk hneppt í ævilanga fjötra. Í þriðja lagi er hægt að lækka kaupmátt fólks með gengislækkunum. Ein slík er í uppsiglingu um þessar mundir. Auðgreifar hafa pólitískan stuðning við allar þessar þrjár leiðir. Gegnum Sjálfstæðis, Framsókn, Viðreisn og Bjarta framtíð, svo og jafnvel Vinstri græn.

Græðgi er eitruð

Punktar

Fjölmennur minnihluti Íslendinga býr við fátækt, þar af 11.000 börn. Erfitt er að meta hlutdeild fátæklinga, gæti verið um 10%. Það er vont og það versnar. Fátækir gæta ekki hagsmuna sinna, kjósa bófaflokkana, sem haldið er uppi af hinum, sem hafa það gott. Miklum efnum fylgir mikil græðgi og meira skeytingarleysi um þá, sem ekki njóta. Mikið vill meira, svo einfalt er það. Þess vegna hafa Sjálfstæðis og Framsókn getað níðst á fátækum til að auka enn frekar ríkidæmi hinna freku. Hér þarf byltingu, byltingu hugarfarsins. Við verðum að hætta að velja bófa til að stjórna landinu. Hætta að kjósa hvað eftir annað þá, sem hraðlygnastir eru.

Ræða forsetans