Punktar

Hægri fátæklingar

Punktar

Sósíaldemókratar hafa hrunið víða um Evrópu. Einnig hér. Fátæku færibandafólki finnst þeir gæta hags miðstétta, svo sem kvenréttinda og ýmissa réttlætismála miðstétta, þar með flóttafólks. Nýir flokkar til hægri hafa fyllt í skarðið. Þeir beina reiði fátæklinga frá ríkum körlum til útlendinga, sem hirða láglaunastörf og velferð. Gerðist þó ekki í Þýzkalandi og Svíþjóð, þar sem sósíaldemókratar eru sterkir, en er að byrja þar líka. Fátækir rauðhálsar og hjólhýsapakk flykktist að Trump í Bandaríkjunum, sem hefur eingöngu auðmenn kringum sig. Sams konar fólk keyrði Brexit í gegn í Englandi. Hjáreyndir duga þessu fólki sem staðreyndir.

Rétttrúnaður góðviljaðra

Punktar

Rétttrúnaður góðviljaðra verður stundum svo magnaður, að hann ýtir staðreyndum til hliðar, setur hjáreyndir í hásæti. Hjáreyndir eru ekki bara vandi Trumpista, heldur líka sumra rétttrúaðra. Gerðist í Svíþjóð, þar sem yfirvöld, lögreglan og hefðbundnir fölmiðlar sammæltust um að vernda múslima. Fela glæpi þeirra til að stöðva múslimahatur. Svo margir koma að samsærinu, að það er farið að hripleka. Nú síðast lýsti lögga, sem er að fara á eftirlaun í Málmey, að hann sé að gefast upp. Allur sólarhringurinn fari í aðlögunarvanda múslima, nauðganir og ofbeldi. Peter Springare verður rekinn fyrir múslimahatur. En samsærið lekur enn hraðar.
(Gúglið t.d. „muslim problems in sweden“ og finnið bæði staðreyndir og hjáreyndir)

Löggga í vanda

Bjarni svarar ekki

Punktar

Bjarni Benediktsson svarar ekki endurteknum spurningum Katrínar Jakobsdóttur um, hvort hann skuldi alþingi ekki afsökunarbeiðni. Út af tveimur skýrslum, sem hann lá á fram yfir kosningar og stjórnarmyndunarviðræður. Í báðum tilvikum voru þetta viðkvæm mál fyrir Bjarna: Skattaskjól á aflandseyjum og lækkun húsnæðisskulda auðugra. Hefðu skýrslurnar birzt á réttum tíma, hefði flokkur Bjarna fengið færri atkvæði og því ekki getað myndað ríkisstjórn. Málið speglar íslenzka spillingu í hnotskurn. Sjálfstæðisflokkurinn hefur enn fylgi fjórðungs kjósenda. Þótt almennt sé vitað, að hann er bófaflokkur um ákaflega sérhæfða peningahagsmuni auðfólks.

Stikkfrí þingmenn

Punktar

Daginn eftir kosningar var ákveðið að hækka laun alþingismanna um 44%. Hefur ekki verið dregið til baka. En fríðindi og sukk þingmanna hefur verið lækkað um 150 þúsund krónur á móti þessari 340 þúsund króna hækkun. Gerist þegar stéttarfélög eru hvött til að samþykkja 3-4% hækkun í samræmi við Salek-samkomulagið. Fátæka fólkið á að sjá um að halda staðfestu í lífskjörum. Þingmenn taka ekki þátt í slíku, ekki frekar en auðgreifar. Eru stikkfrí með fríu gleraugun og aðrar sporslur. Fólk mun ekki taka mark á þessu og ófriður mun verða á vinnumarkaði. Því er mikilvægt, að umræðan snúist næstu daga um bús í búðir. Svo fólk sé til friðs um alvörumál.

Páll telur mínútur

Punktar

Páll Magnússon, fyrrum útvarpsstjóri, leggur lóð sína á vogarskál kvartana yfir meintri afturför Ríkisútvarpsins. Hann ætti að vita manna bezt um, hvernig Páll Magnússon útvarpsstjóri stýrði Ríkisútvarpinu í þessa sorglegu átt. Páll tekur sérstaklega undir þá skoðun, að Ríkisútvarpið sé rekið fyrir notendur í hverfi 101. Nefnir sem dæmi Silfur Egils um helgina og telur mínútur hvers umræðuefnis. Samkvæmt því er sérstakur áhugi miðbæjarbúa á efni um bús í búð og Trump. Ég næ því ekki. Enda eru það einkum túristar, sem búa í 101. Víst fannst mér Silfrið lélegt núna, en sé ekki samhengið við 101. Páll þarf brýnt að útskýra það nánar.

Varnir gegn hökkurum

Punktar

Hollendingar hafa ákveðið að taka ekki upp rafrænar kosningar að sinni. Þingið verður kosið í marz upp á gamla mátann. Með því að krota með rauðum blýanti á pappírsörk. Fræðimenn þar hafa komizt að þeirri niðurstöðu, að of auðvelt sé að falsa kosningaúrslit í tölvum. Er skemmst að minnast þeirrar umræðu, sem hefur verið út af forsetakosningunum í Bandaríkjunum. Enn er þar rætt um, að Rússland hafi „hakkað“ niðurstöðurnar. Í vestanverðri Evrópu óttast margir, að það sama gerist í kosningum á árinu í Þýzkalandi og Frakklandi. Þar verða sennilega handvirkar kosningar eins og í Hollandi. Handvirk talning blífur enn sem fyrr.

Á eigin kostnað

Punktar

Til að draga úr stéttaskiptingu í heilbrigðisþjónustu verður ríkið að hafna aðild að greiðslum fyrir aðgerðir á einkaspítölum. Þeir, sem ætla að bruna fram fyrir aðra á biðlistum, geri það á eigin kostnað. Þátttaka ríkisins í þessum kostnaði leiðir til þess, að minna fé verður eftir til að borga aðgerðir á ríkisspítala. Biðlistar lengjast á sveltum spítala almennings, meðan auðfólkið fær þjónustuna sumpart á kostnað almennings. Að því er stefnt í ráðagerðum ríkisvaldsins um að niðurgreiða kostnað við aðgerðir á Klínikinni. Ríkið á að nota skattana til að efla almannaþjónustu, en ekki til að búa til arð fyrir Albaníu-Höllu.

Svindlið fjórfalt meira

Punktar

Enn er komin skýrsla, sem sýnir heimsmet íslenzkra bófa í geymslu illa fengins fjár í skattaskjóli á aflandseyjum. Í skýrslu Nordea bankans segir, að héðan séu fleiri skattaskjólabófar en frá Rússlandi. Meira að segja óháð höfðatölu. Nordea sýnir, að skattsvik eru stærsta atvinnugrein Íslendinga. Og það er vegna skorts á eftirliti allt frá tímum Davíðs, sem gelti eftirlitið. Stofnanir, sem brugðust, voru Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið. Nordea sýnir líka, að Mossack-Fonseca er um fjórðungur af svindlinu. Þannig eru íslenzk skattsvik fjórum sinnum meiri en kemur fram í Panama-skýrslunni. Allt er þetta í boði bófa Sjálfstæðisflokksins.

Sjónhverfingar á þingi

Punktar

Þú veizt, hvað gerist, þegar ráðamönnum finnst pólitísk umræða komin á óþægilegt stig. Þegar forsætisráðherra felur tvær hættulegar skýrslur fram yfir kosningar. Þegar hann vill ekki þurfa að svara fyrir árlegan tugmilljarða árlegan flutning peninga í skattaskjól. Þá er lagt fram frumvarp um bús í búðir. Þá fyllist fésbók af þvaðri um, hvort það muni drepa okkur eða bjarga. Á meðan er ekki minnst á skattaskjól á aflandseyjum eða annað brask bófa. Ef þetta dugir ekki, verður lagt fram frumvarp um lausagöngu katta. Þegar Proppé vill einkavæða heilbrigðiskerfið, birtist frumvarp um breytta klukku. Og þá er enn eftir frumvarp um flugvöllinn.

Fátt er svo með öllu illt

Punktar

Þótt Donald Trump hafi skelfilegar skoðanir á mörgum sviðum, er honum ekki alls varnað. Hann stendur við kosningaloforð, öfugt við íslenzka pólitíkusa. Það, sem hann er að gera, var hann búinn að boða. Að því leyti er hann skárri en Óttarr Proppé, sem gerir flest öfugt við það, sem hann lofaði. Efni Trump áfram loforð sín, má búast við, að endir verði bundinn á geðveikislegan hernað Bandaríkjanna í löndum múslima. Og kannski tjónkar hann við Vladimír Pútín. Það tvennt ætti að gera jörðina friðvænlegri en hún hefði orðið undir forsæti Hillary Clinton. Út á það má hann mín vegna halda áfram að láta eins og fífl í sjónvarpinu heima fyrir.

Ísland undir eftirliti

Punktar

Financial Action Task Force er lögregla Alþjóða hagþróunar-stofnunarinnar OECD. Sveitir hennar hafa frá því fyrir hrun komið hingað reglulega til að benda á að stöðva verði peningaþvott með lögum, reglum og eftirliti. Íslenzk stjórnvöld hafa lofað og lofað, en ekki staðið við það frekar en annað af því tagi. Um tíma leit út fyrir, að Ísland yrði sett á válista aflandseyja. Þá var sett upp regluverk, en eftirlit er enn í skötulíki. Sjálfstæðisflokkurinn hefur varið fjárhaldsmenn sína. Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið hafa skipulega sofið á verðinum. Meira að segja Seðlabankinn hefur verðlaunað bófa með því að selja þeim krónur með 20% afslætti.

Vaka koltapaði

Punktar

Undanfarin ár hefur Vaka, hægri stúdentafélag Háskóla Íslands, sigrað í hverjum kosningunum til Stúdentaráðs á fætur öðrum. Ég hef átt erfitt með að skilja, að afturhaldið skuli hafa náð slíkum kverkatökum á ungu fólki. Í ljósi andstöðu Sjálfstæðisflokksins við húsnæði og aðra hagsmuni ungs fólks. En að þessu sinni snerist dæmið við. Röskva, vinstra stúdentafélagið, hafði stórsigur, 18 sæti gegn 9. Kannski er að síast inn hjá ungu fólki, að framtíð þess er síður en svo borgið hjá bófaflokki, sem lengi hefur skipulega arðrænt samfélagið. Vonandi eru nýju úrslitin í Háskólanum merki þess, að tímamóta sé að vænta í pólitíkinni.

Undarlegar tölur

Punktar

Samkvæmt skoðanakönnun Gallup í janúar hafa Vinstri græn mokað til sín fylgi frá Viðreisn. Vinstri græn hafa hækkað frá kosningunum um 7 prósentustig og Viðreisn glatað 5 prósentustigum á móti. Þetta er eina marktæka fylgisbreytingin á þessum tíma. Ég hef enga skýringu á, hvers vegna fylgi rambar frá Viðreisn til Vinstri grænna. Þar getur verið um þrepahlaup að ræða. Enn síður get ég skýrt, hvernig Sjálfstæðisflokkur, sem er siðferðilega með buxurnar á hælunum, heldur kjörfylgi sínu nokkurn veginn. 28% kjósenda eru beinlínis sátt við bófa, sem sat á tveimur skýrslum fram yfir kosningar. Og sátt við flokk, sem hefur haft þúsund milljarða af þjóðinni.

Hækkun í hafi

Punktar

Áratugum saman hefur hækkun í hafi verið undirstaða fjársöfnunar í skattaskjólum á aflandseyjum. Innflutningsverzlunin tók sér umboðslaun, sem ekki komu hér fram. Síðan komu álfyrirtækin, sem fengu báxít fyrir slikk í Ástralíu og seldu íslenzku álverunum á uppsprengdu verði. Mismunurinn hvarf í skattaskjól og kom ekki fram í hagkerfinu. Þriðja bylgjan kom svo með ofsagróða kvótagreifa. Seldu sjálfum sér fiskinn fyrir slikk og seldu síðan á markaðsverði til skattaskjóls-fyrirtækja sinna. Samhliða tóku banka- og glæframenn að sér að þvo rússneskt þýfi og setja í skattaskjól. Meira en þúsund milljarðar hafa horfið úr landi framhjá sköttum og Salek-samningum um kjaramál. Kannski tvö-þrjú þúsund milljarða. Í boði Flokksins.

100 milljarða velferð

Punktar

Til að endurreisa hér norræna velferð og norræna skattþyngd mætti afla 100 milljarða á ári. Ferðaþjónusta fari í 20% vask, gefur 10 milljarða. Uppboð verði á öllum fiskikvóta, gefur 20 milljarða. Fjármagnstekjuskattur verði hinn sami og vinnutekjuskattur, gefur 20 milljarða. Tekjuskattur fyrirtækja verði hinn sami og á Norðurlöndum, gefur 20 milljarða. Orkuskattur á stóriðju, gefur 10 milljarða. Settur hátekjuskattur á milljónatekjur, gefur 10 milljarða. Svo þarf auðvitað að koma lögum og sektum yfir skattsvikara í erlendum skattaskjólum. Alls gefur þetta 100 milljarða á ári. Líklega sú upphæð, sem bófarnir hafa árlega stungið undan.