Punktar

Lánveitendum látið blæða

Punktar

Hingað til hefur fjölþjóðastofnunum fjármála og vestrænum ríkisstjórnum þótt sjálfsagt, að almenningur borgi fjölþjóðlegar skuldir. Þannig hefur þriðji heimurinn verið mergsoginn á vegum Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. Nú gerist þetta ekki lengur. Loks er farið að tala um, að ábyrgðarlausir lánveitendur eigi ekki örugga vernd. Grikkland mun ekki borga skuldir. Þær eru að vísu að einhverju leyti almenningi að kenna, skattsvikurum í þeirra hópi og auðvitað grískum kjósendum. En hinir eru líka ábyrgir, sem komu Grikklandi upp á fíkniefnið: Peninga. Á endanum voru lánveitendur látnir blæða ótæpilega.

Misjöfn ábyrgð á hruni

Punktar

Fólk vonar, að bankabófar og útrásarbófar hljóti makleg málagjöld. Einnig hjálparmenn þeirra, lagatæknar, hagtæknar og bókhaldstæknar. Til þess höfum við sérstakan ríkissaksóknara og dómstóla. Mál bófa eru flest í vinnslu, sem gengur rosalega hægt. Þeir voru ekki kosnir af okkur eins og pólitíkusar og verkalýðsrekendur. Sem lögðu línurnar og létu gabba sig. Þeirra ábyrgð var líka mikil. En verður ekki mæld hjá dómstólum, eins og sjálfra bófanna. Geir H. Haarde er fyrir Landsdómi, en Davíð sleppur og hinir. Þjóðin gat samt ætlazt til, að ábyrgir pólitíkusar og sjóðamenn segðu strax af sér störfum.

Einkennistákn siðblindingja

Punktar

Eitt er sameiginlegt einkenni allra þeirra, sem hafa verið yfirheyrðir sem grunaðir eða komið fyrir dómstóla sem sakborningar. Þeir eru allir yfir sig hlessa á þeirri stöðu sinni. Hafa ekki gert neitt rangt og eru beinlínis móðgaðir. Eiga allir sakleysissvipinn, sem er einkennistákn siðblindingja. Þetta gildir um kvótagreifa, sem svindla aflatekjum til aflandsfélaga. Um forsætisráðherra, sem hélt öllu leyndu meðan þjóðin fór lóðbeint á hausinn. Um bankastjóra og bankaeigendur mestu fjárglæfra Íslandssögunnar. Jafnvel endurskoðendur, sem samþykktu allt, eru svo móðgaðir, að þeir snökta nánast.

Höfum lýðræðið gamaldags

Punktar

Þótt ekki verði kosið um stjórnarskrána í forsetakosningunum í sumar, verður vonandi kosið um hana í haust. Kostar að vísu auka að hafa tvennar kosningar á þessu ári. En lýðræði kostar. Mikilvægt er, að þjóðin fái að segja álit sitt á plaggi, sem Alþingi gat áratugum saman ekki samið. Mér lízt hins vegar illa á rafrænar kosningar á vefnum til að spara peninga. Fólk er ekki allt vel í stakk búið til að greiða atkvæði á vefnum. En allir þekkja gömlu aðferðina við að koma á kjörstað og setja kross á pappírsblað. Gildi atkvæða er traustara á þann hátt heldur en úr tölvu. Höfum okkar lýðræði gamaldags.

Þetta er sáttmáli þjóðar

Punktar

Tillaga Stjórnlagaráðs að stjórnarskrá er betri en nokkurt það plagg, sem Alþingi getur soðið saman. Ekki verður skráin betri, þótt kallaðir verði til lagatæknar og aðrir sérfræðingar í loðnu orðalagi. Þeir munu eyðileggja stjórnarskrána fyrirfram, eins og þeir eyðileggja öll lög, sem sett eru. Stjórnarskrá er sáttmáli þjóðar, ekki greining ruglaðra fræðimanna og enn síður sátt við sérhagsmuni af ýmsu tagi. Ímyndið ykkur skrá, sem samin yrði í sátt við kvótagreifa. Þá færi fyrir henni eins og fór fyrir tilraun til laga um þjóðareign kvóta. Kjósum heldur um skrána, er kom úr Stjórnlagaráði.

Herdís verður frábær

Punktar

Ég get vel hugsað mér að kjósa Herdísi Þorgeirsdóttur sem forseta Íslands. Held að hún sé að mörgu leyti frábær kostur. Vel menntuð og ákveðin, engin pólitískur taglhnýtingur. Ég veit samt lítið um líkur hennar á árangri. Því miður vildi hún ekki taka þátt í prufukeyrslunni á spurningavagni Capacent um daginn. Því er engin mæling komin enn á karisma hennar. Þóra Arnórsdóttir fékk þar fína mælingu. Hefði átt að fá fljúgandi start út á það, en er enn að hugsa málin. Við að taka af skarið fær Herdís forskot og aukna athygli, sem ætti að gagnast henni í næstu könnun. Líklega verða alvöru kosningar.

Bófar slást við fífl

Punktar

Við höfum lengi vitað, að þingflokkur sjálfstæðismanna er bófaflokkur. Hann svífst einskis í baráttunni fyrir hagsmunum þerra, sem mest mega sín. Til þess beitir þingflokkurinn ítrekuðu málþófi. Enda eru málæðismenn hans allir samvizkulausir lagatæknar. Þetta vita menn og verða að haga sér í samræmi við það. Því er undarlegt, þegar stjórnarliðar eru sofandi uppi í rúmi í atkvæðagreiðslu og ætlast til að stjórnarandstæðingar dragi sig að landi eins og séntilmenn. Bófar eru ekki séntilmenn. Og ófært er að vera með brýn mál á síðustu stundu, eins og vitgrannir verkstjórar stjórnarliða á Alþingi.

Endurskoðun er bara bull

Punktar

Mér er fyrirmunað að skilja, hvernig endurskoðendur beita “alþjóðlegum reikningsskilareglum” til að hvítþvo bókhald banka, sem brjóta allan skala laganna. Vörn PriceWaterhouseCooper í málum Glitnis og Landsbankans felst í, að farið hafi verið eftir lögum og reglum. Reglurnar geri PWC kleift að skrifa upp á taumlaust rugl. Til hvers eru þá endurskoðendur, ef þetta er rétt hjá Stefáni Geir Þórissyni? Af hverju eru sett lög, sem gera skrípó að endurskoðun? Auðvitað bullar hann í vörninni eins og í endurskoðuninni. Er ekki kominn tími til að afskrifa “alþjóðlega” endurskoðun að hætti PWC?

Framsókn hafnar málþófi

Punktar

Þingflokksformaður Framsóknar vildi í gærkvöldi gera skarpan greinarmun á viðhorfum síns flokks og Sjálfstæðisflokksins til nýrrar stjórnarskrár. Gunnar Bragi Sveinsson sagði Framsókn ekki standa í vegi þessa ferlis, sem ráðgert er að leiði til þjóðaratkvæðis 30. júní. Flokkurinn taki ekki þátt í málþófi Sjálfstæðisflokksins. Eykur líkur á, að málið nái fram á Alþingi fyrir miðnætti. Síðustu forvöð, annars verður að hafa sérstakt þjóðaratkvæði um stjórnarskrána í haust. Það verður þá Sjálfstæðisflokkurinn aleinn, sem axlar ábyrgð af að reyna að hindra brýnar endurbætur á stjórnarskránni.

Afskaffið Persónuvernd

Punktar

Persónuvernd hindrar landlækni í að knýja lýtalækna og læknafélagið til að afhenda skrár yfir konur, sem hafa fengið brjóstapúða. Þessi ríkisstofnun hefur í nokkrar vikur haft málið til skoðunar og ekki komizt að niðurstöðu enn. Það er út af fyrir sig dæmigert fyrir ríkisstofnanir, sem ekki geta drullast til að vinna vinnuna sína. Verra er, að Persónuvernd hefur í auknum mæli orðið að Persónuvernd bófa. Þeir, sem vísa þangað málum, eru fyrst og fremst bófar, sem reyna að verjast gegn kröfum um upplýsingaskyldu. Í þeim hópi eru núna lýtalæknar og læknafélagið. Leggja ætti niður þessa stofnun.

Lykill að utanríkisstefnu

Punktar

Með loftárásum losuðu Vesturveldin Líbýumenn við Gaddafi. Af því að þar er nóg af olíu. Gera ekki slíkt hið sama í Sýrlandi, því að þar er ekki olía. Bandaríkin losuðu Íraka við Saddam Hussein og tóku landið hernámi. Af því að þar er olía. Bandarísk stjórnvöld klæjar í puttana að gera slíkt hið sama í Íran, því að þar er olía. Sádi-Arabía er talið vinsamlegt stórveldi, þótt það sé argasta miðaldaríki. Þar er nefnilega olía. Næst olíunni að mikilvægi er vopnasala. Grikkjum var að gert að spara, nema í hergagnakaupum. Gráðugir Frakkar Þjóðverjar og Svíar selja bláfátæku Grikklandi nefnilega vopn í dag.

Gamla Ísland er skrípó

Punktar

Gamla Ísland hélt einn af þessum skrítnu þingfundum í alþingishúsinu í nótt. Ekki var hægt að greiða atkvæði um að vísa stjórnarskrármálinu til nefndar, því að þingmenn stjórnarandstöðunnar hlupu úr þinghúsinu. Það virtist koma illa skipulögðu stjórnarliði í opna skjöldu. Verkstjórn á þeim bæ er með afbrigðum léleg, bæði hjá þingflokksformönnum, nefndarformanni og forseta Alþingis. Þegar lélegri verkstjórn slær saman við klækjabrögð morfísinga, er ekki von á góðu. Eins og ég hef áður sagt mun stjórnarskrá fólksins falla á tíma. Um hana verða ekki greidd atkvæði samhliða forsetakosningum 30. júní.

Framsókn bannar glæpi

Punktar

Framsóknarflokkurinn hefur fundið snjalla aðferð við að afnema glæpi. Bara með því að banna skipulagða glæpastarfsemi. Skrítið er, að engum skuli hafa dottið þetta fyrr í hug neins staðar í heiminum. Að hægt sé að afnema glæpi með banni. Ég sé fyrir sér lögbrjótana leggja niður skottið í kjölfar nýrra laga af þessu tagi. Framsókn telur, að virðing lögbrjóta fyrir lögunum sé slík, að þetta gerist bara bingó. Tæplega hugsa þingmenn hennar út frá eigin reynslu. Erfiðlega hefur gengið að fá þekkta fjáraflamenn Framsóknar til að fara að lögum. Spurning er, hvort þingmenn Framsóknar séu með fullu viti.

Sofandi Matvælastofnun

Punktar

Um áramótin tók gildi hin margfrestaða reglugerð um merkingar erfðabreyttra matvæla. Síðan eru liðnir þrír mánuðir og enn er ekkert eftirlit. Engin slík matvæli eru merkt. Matvælastofnun á að hafa eftirlitið, en gerir ekkert. Hún stendur sig ekki í þessu stykki frekar en öðru eftirliti, Bannar ekki notkun Mjólkursamsölunnar á norrænu skráargatsmerki án vottunar. Leyfði líka notkun iðnaðarsalts í mat meðan birgðir Ölgerðarinnar entust. Og notkun kadmíums í áburði frá Skeljungi. Dæmi um davíðskan eftirlitsskort. Heldur niðurstöðum líka leyndum. Aflar ekki einu sinni upplýsinga frá erlendum systurstofnunum.

Stjórnin sveik þjóðina

Punktar

Þegar ríkisstjórnin var mynduð, skildi ég hana svo, að hún ætlaði að fyrna fiskkvótann um ótiltekna prósentu á hverju ári. Hún fékk töluvert fylgi í síðustu kosningum, meðal annars út á loforð af þessu tagi. Eftir kosningar þótti henni ekki eins brýnt að sættast við þjóðina um auðlindir hennar. Hún fór í staðinn að reyna að sættast við kvótagreifana. Jón Bjarnason böðlaðist í því og Steingrímur J. Sigfússon hélt því áfram eftir brottrekstur Jóns. Frumvarp Steingríms felur í sér ónýta tilraun til að sættast við bófa, sem ekki vilja sættast. Stjórnin hefði fremur átt að efna loforðið við þjóðina.