Punktar

Fjölmiðlar úti á túni

Punktar

Allur þorri Íslendinga hefur það flott. Utanferðir hafa stóraukizt og eru orðnar tíðari en árið 2004. Allur þorri fólks hefur vinnu og launin hafa braggazt. Hagtölur eru jákvæðar, atvinna eykst og hagvöxtur er meiri en víðast annars staðar. Skuldir hafa í mörgum tilvikum verið lækkaðar og skuldabyrði minnkuð. Þessi lýsing á ekki við allar íslenzkar fjölskyldur, en þetta er eindregin meginlína lífskjaranna. Skuggalegar lýsingar fjölmiðla stinga í stúf við veruleikann. Einkum er Mogginn úti á túni, en einnig er Rúv hallt undir ýkta svartsýni. Ástand þjóðarinnar er bara nokkuð gott.

“Ég tek þær allar”

Punktar

Fyrir rúmu ári keypti þekktur kvótagreifi þrjár áfengisflöskur í Fríhöfninni fyrir 800.000 krónur. “Ég tek þær allar” sagði greifinn, þegar honum var bent á flöskurnar. Við þekkjum greifana, einn notaði þyrlu til að skreppa milli húsa eða ná sér í pylsu. Þeir nota ekki arðinn, sem þeir hafa stolið af þjóðinni, til að byggja upp sjávarútveginn. Þeir nota hann í svona rugl eða fela hann í aflandsfélögum á Tortola. Og svo svindla þeir arðinum undan lögum og rétti með því að selja fiskinn á undirverði til erlendra fyrirtækja sinna. Kvótagreifar eru ekki sjávarútvegurinn. Hann kemst af án blóðsugna.

Gula Guggan – nýr kafli

Punktar

“Guggan verður áfram gul” sagði Þorsteinn Már Baldvinsson, þegar hann keypti frystitogara Ísfirðinga. Hann var að friða fólkið, þegar hann náði kvótanum til sín. Hann sveik auðvitað loforðið. Guggan landaði ekki á Ísafirði, kom ekki þangað aftur í höfn. Þannig er Þorsteinn, veður um land með yfirgangi. Segir það, sem segja þarf til að ná sínu fram. Nú hefur hann tekið Dalvík í gíslingu til að kúga Seðlabankann til að hætta rannsókn á brotum skattalaga og gjaldeyrislaga. Þorsteinn Már hefur sagt sig úr lögum við samfélagið og þykist vera hafinn yfir lög. Ekkert pláss á að vera fyrir slíka í rekstri.

Bloggfurður Alþingis

Punktar

Furðulegasta spilling stjórnmálanna þessa dagana er greiðsla Alþingis til tveggja ómerkra bloggara. Björn Bjarnason og Styrmir Gunnarsson hafa krækt sér í 50.000 króna styrk út á hvert blogg. Þar að auki virðast þeir hafa ótakmarkaðan aðgang að ferðasjóðum Alþingis. Fá utanferðir sínar greiddar upp í topp. Björn hefur meðal annars fengið greidda tugi þúsunda króna fyrir yfirvigt á farangri. Yfirvigt! Ég fæ ekki séð, að þjóðin hafi minnsta gagn af skrifum þeirra. Alls er rugl þeirra félaga komið upp í 4,5 milljónir króna á kostnað skattgreiðenda. Eru ráðamenn Alþingis drukknir eða hvað?

Bófarnir sjá um sína

Punktar

Brynjólfur Bjarnason var forstjóri Símans og Skiptu árin 2002-2010. Þar var hann sekur um ítrekuð samkeppnisbrot að mati Samkeppnisstofnunar. Fjórum sinnum var fyrirtækið dæmt, síðast sektað um hálfan milljarð. Kalla má þetta eindreginn brotavilja. Þar á ofan á Brynjólfur einkahlutafélagið Lamba, sem skuldar heilan milljarð án þess að eiga krónu upp í það. Hann er þannig dæmigerður útrásarvíkingur. Glæpafélög verkalýðsrekenda og vinnuveitenda, lífeyrissjóðirnir, hafa ráðið hann til að stjórna voldugum og áhrifamiklum Framtakssjóði þeirra. Kemur ekki á óvart, þetta eru allt sams konar bófar.

Samherji tekur gísla

Punktar

Þorsteinn Már Baldvinsson hefur tekið Dalvíkinga í gíslingu til að hindra rannsókn Seðlabankans á “hækkun í hafi”. Á fínu máli er Samherji grunaður um “transfer pricing”, sem felst í að fara kringum gjaldeyrislög og skattalög. Sakarefni eru ljós, þótt Þorsteinn reyni að halda öðru fram. Hann er reyndar mesti frekjudallur landsins, varð frægur sem stjórnarformaður Glitnis, þegar bankinn féll. Samherji hefur lengi fengið nánast frían aðgang að auðlindum okkar og þakkað fyrir sig með hækkun í hafi. Frekjudallurinn hefur nú sagt sig úr lögum við samfélagið og verður vonandi látinn sæta afleiðingunum.

Karisma forsetaefna

Punktar

Tvær frambærilegar konur hyggjast bjóða sig fram til forseta Íslands. Styð þær báðar. Bíð bara eftir alvöru könnunum á fylgi þeirra. Þær kunna að hafa misjafnt karisma í hjarta venjulegra kjósenda. Atkvæði mitt mun falla á þá, sem hefur meiri líkur á að fella núverandi forseta. Þótt þær séu jafnar að kostum og báðar meira en hæfar, verð ég að styðja þá, sem höfðar betur til fólks. Sú þeirra stendur auðvitað nær okkur sem forseti okkar. Bezt væri, að kannanir leiddu til, að önnur félli frá framboði og styddi hina til sigurs. Og að sjálfsögðu er nú þegar ekki pláss fyrir fleiri forsetaframbjóðendur.

Bullað um fylgi flokka

Punktar

Tölur fjölmiðla um fylgi flokka eru kolrangar eins og venjulega. Í síðustu könnun Capacent-Gallup neitaði þriðjungur þjóðarinnar að svara, segist engan flokk styðja, ekki ætla að kjósa eða hyggjast skila auðu. Þýðir, að tölur fjórflokksins og Lilju eru miklu lægri en þær, sem fávísir blaðamenn hafa birt. Raunverulega er Sjálfstæðisflokkurinn með 25% fylgi, Samfylkingin með 14% fylgi, Framsókn, Vinstri græn og Lilja með 6-8% hver fyrir sig. Enginn þessara flokka getur hampað könnun Capacent-Gallup, hvað þá flokksbrot, sem ekki komust á blað. Stóra framboðið hjá hinu nýja Íslandi er ekki komið enn.

Ferðaþjónusta er toppurinn

Punktar

Ferðaþjónusta er orðinn stærsti atvinnuvegur landsins, hvort sem reiknað er í mannfjölda eða tekjum. Vinnsluvirði ferðaþjónustu er 5,5% hagkerfisins, heldur meira en sjávarútvegs, sem er 5%. Álið stendur langt að baki vegna mikils erlends tilkostnaðar. Og ferðaþjónustan stækkar grimmt. Fyrstu þrjá mánuði þessa árs hefur erlendum ferðamönnum fjölgað um rúm 22%. Enginn endi virðist vera á þessum blóma. Engin atvinnugrein magnar atvinnu í landinu eins mikið með eins litlum tilkostnaði. En við þurfum að fara að gæta okkar. Ferðamenn þyrpast of mikið á fáa staði, en vita ekki af öðrum jafn glæstum.

Bófaflokkurinn eflist

Punktar

Svarhlutfallið í nýjasta þjóðarpúlsi Gallup er lágt sem fyrr. Niðurstaðan kemur ekki fram í hinum birtu tölum, heldur í þeim, sem haldið er leyndum. Hún er, að hvorki fjórflokkurinn né ný framboð njóta frambærilegs fylgis. Ný framboð hafa ekki náð til fólks. Nýja Ísland bíður, kannski efir framtaki fólks úr stjórnlagaráði. Nýir flokkar þingmanna, Lilju Mósesdóttur og Guðmundar Steingrímssonar trekkja ekki, arftaki Hreyfingarinnar ekki heldur. Fréttin í birtu tölunum er svo, að bófaflokkurinn bætir við sig, þótt hann hafi sett þjóðina á hausinn fyrir þremur árum. Það gerir gullfiskaminnið.

Þeir nautheimsku

Punktar

Af könnunum má ætla, að mikill fjöldi Íslendinga sé nautheimskur. Styður pólitísku bófana, sem settu okkur á hausinn 2008. Styður þá, sem rústuðu gengi krónunnar og lífskjörum þjóðarinnar. Styður þá, sem tóku fjármagnið fram yfir fólkið og mögnuðu atvinnuleysið. Styður þá, sem berjast gegn eign þjóðarinnar á auðlindum sínum og gegn nýrri stjórnarskrá. Þótt landið rísi núna án aðildar bófaflokksins, hagvöxtur og atvinna eflist. Samt vill fólk efla hrunverja til valda að nýju. Í von um nýja bólgu með nýju lánsfé og skuldum, nýjum viðskiptahalla, nýjum sjónhverfingum og nýjum draumórum.

Apríl ekki hlaupinn

Punktar

Með tímanum brenglast stundum gamlir siðir. Til dæmis týnist upphafið. Svo er um 1. apríl gabbið. Hefðbundið er, að fólk sé látið hlaupa apríl. Felur í sér, að það sé ginnt til að fara eitthvert. Sumir fjölmiðlungar hafa gleymt þessu eða telja hefðina ekki skipta neinu máli. Hvort tveggja er ámælisvert. Einkum var áberandi núna, að sumir fjölmiðlar í Reykjavík létu hefðina liggja, en fjölmiðlar úti á landi héldu henni. Ef til vill eru Reykvíkingar komnir lengra frá rót sinni en landsbyggðarfólk. Reykvískir fjölmiðlungar kalla vafalaust mig kverúlant fyrir að nefna þetta. En mér finnst það hrós.

Hver ákvað hvernig?

Punktar

Brynjar Níelsson, forsprakki félags lagatækna, upplýsir, að “hefðbundið” tímakaup lagatækna sé 20.000 krónur á mánuði. Hann notar loðið orðalag, sem einkennir stéttina. Ekki fylgir sögunni, hver ákvað hvernig hvert tímakaup lagatækna skyldi vera. En þannig er vinna lagatækna. Hún felst í að snúa út úr texta loðinna laga, sem lagatæknar ráðuneyta semja. Brynjar er að þessu sinni að kvarta yfir lækkun ráðherra á tímakaupi lagatækna sem dómskipaðra verjenda. Segir það “fullkomlega fráleitt” og “hreina aðför” að lagatæknum. Gaman er að reikna, að “hefðbundna” tímakaupið gerir 3,4 milljónir á mánuði.

Ummyndanir Framsóknar

Punktar

Á hálfri öld hefur Framsókn ummyndazt tvisvar. Þegar ég man fyrst eftir mér, var hún íhaldssamur sveitaflokkur hefðanna, rótfastur í krepputíma Eysteins Jónassonar. Valtað var yfir þessa Framsókn á viðreisnartímanum. Hún gekk í endurnýjun lífdaga sem braskflokkur bændasona sem verktaka í blöðruhagkerfi frjálshyggjunnar. Náði toppi sem slíkur á valdaskeiði Halldórs Ásgrímssonar og Finns Ingólfssonar. Hrunið jarðaði þessa Framsókn. Upp reis hún í annað sinn sem lýðskrumsflokkur að hætti Sigmundar Davíðs og Vigdísar Hauksdóttur. Þau fiska í gruggugu vatni þjóðrembunnar, hvar sem það finnst hverju sinni.

Gangráðinn vantar

Punktar

Flestir hafa innbyggðan gangráð í heilanum, sem segir þeim, hvenær komið sé nóg af mat. Hjá öðrum öðrum dofnar gangráðurinn með aldrinum og þeir fara að bæta á sig. Sumir þyngjast um kíló á ári eftir fertugt, ef ekkert er að gert. Svo eru sumir, sem hafa ekki þennan gangráð, vita alls ekki, hvenær þeir eiga að hætta að borða. Þetta hvort tveggja skýrir mikið af ofþyngd og offitu í nútíma samfélagi kyrrsetufólks. Þeir, sem ekki hafa gangráðinn í heilanum, verða að koma sér upp ytri aðferðum til að hafa hemil á sér. Verða að fatta matarþörf sína, koma sér upp kaloríutalningu og breyta hugarfarinu.