Punktar

Aðild er ótímabær

Punktar

Þótt ég sé fylgjandi Evrópusambandinu, tel ég aðild ótímabæra. Sambandið er að fara gegnum erfiða tíma, sem gera því erfitt að taka inn nýja félaga. Erfiðleikarnir munu styrkja Evrópu, þegar til langs tíma er litið. Þá má aftur skoða möguleika á aðild. Össur Skarphéðinsson veit eins vel og aðrir um andstöðuna. Þorri þjóðarinnar mun fella hana og þá er verr af stað farið en heima setið. Við þurfum samt að breyta regluverki ríkisvaldsins meira til samræmis við Evrópusambandið. Við erum enn svo frumstæð í mörgu, til dæmis í neytenda- og umhverfismálum. Þess vegna þurfum við meiri áhrif frá Evrópu.

Endurskoðun: Dýr óþarfi

Punktar

Ólafur Hauksson hefur fært skýr rök að tugmilljóna tjóni, sem endurskoðunin Deloitte olli fjárfestum í Iceland Express með skrítinni uppáskrift pappíra. Hefur hins vegar ekki fengizt skoðað í alvöru hjá Sérstökum saksóknara. Þar starfar nú endurskoðandi, sem áður skrifaði upp á hvað sem var hjá Deloitte. Spillingin nær þannig gegnum kerfið. Áður var Deloitte frægt fyrir fáránlega skýrslu um hagsmuni kvótagreifa. Sagðist þá fara eftir alþjóðlegum reglum. Samt fela vinnubrögðin í sér, að endurskoðendur skrifa upp á hvaða rugl, sem er. Því er traustara og ódýrara að sleppa endurskoðendum úr dæminu.

Gullkorn á fésbókinni

Punktar

Í morgun voru sagðar hnitmiðaðar setningar á fésbók. Þær björguðu deginum hjá mér. Þórður Björn Sigurðsson segir: “Birtingarform pilsfaldakapítalisma: Fyrirkomulags, þar sem áhættan hefur verið fjarlægð úr rekstrarmódelinu, því ef allt fer á versta veg, kemur ríkið til bjargar.” Magga Rósa: “Einkavæðing gróðans og þjóðnýting tapsins er á ábyrgð stjórnmálamanna. Þess vegna þarf að skipta þeim út fyrir nýja.” Fyrstu verðlaun fær þó Kristján Þorvaldsson: “Gaman að sjá hvað Árni Páll hefur fengið snöggan skilning á efnahagsmálum við það eitt að vera ekki lengur ráðherra.” Þannig er Árni Páll fullræddur.

Auðræðið sigraði öfgana

Punktar

Feita söngkonan hefur sungið síðasta versið í óperu forkosninganna vestan hafs. Mitt Romney verður forsetaefni repúblikana í Bandaríkjunum. Enn einu sinni hafnar flokkurinn öfgaarminum, sem fylkti sér að baki Rick Santorum og Newt Gingrich. Í stað öfganna mun fjármagnið áfram stjórna repúblikönum. Kosningabarátta Romney er sú langdýrasta frá ómunatíð. Og flest bendir til, að framhald hennar verði enn dýrara. Fjármagnið hefur endanlega tekið völdin í Bandaríkjunum. Auðræði hefur leyst leifar lýðræðis af hólmi. Lýðurinn er kominn í hlutverk atkvæðavéla, sem hegða sér að stjórn almannatenglanna.

Ný vídd í þjóðmálum

Punktar

Sumt unga fólkið, sem styður forsetaframboð Þóru Arnórsdóttur, er komið út fyrir hefðbundin stjórnmál. Hefur ekki áhuga á fjórflokknum, vill hann bara burt. Getur ekki æst sig upp með eða móti Evrópusambandinu, með eða móti forseta Íslands, með eða móti ritstjóra Moggans. Hugsar á öðrum nótum en við þessi gömlu. Undir niðri hvílir sannfæring um, að hrunið í október 2008 hafi sett strik undir fortíðina. Strik undir fjórflokkinn, gamla sí-rifrildið í heild. Þetta fólk verður ekki stimplað eða flokkað með fornum merkimiðum. En það vill hreinsa út fortíðina, bófana, hræsnina, fjórflokkinn, þingmennina.

Samsærið finnst ekki

Punktar

Flestir vita sjálfir, hvers vegna þeir hyggjast styðja einhvern frambjóðanda umfram aðra í kosningum. Þar á meðal í forsetakosningum. Stuðningsfólk Þóru Arnórsdóttur veit nákvæmlega um það eins og aðrir vita um sínar ástæður. Það veit, hvort það gerir það vegna Samfylkingarinnar, Evrópusambandsins eða einhvers annars. Raunverulegu forsendurnar smitast ört út. Mun örar en andóf Eyjunnar, Pressunnar og Páls Vilhjálmssonar gegn framboði Þóru. Það sáum við hvellt og skýrt um páskana. Því er vonlaust að reyna að breiða út vænisjúkar samsæriskenningar. Sem fólk veit sjálft tugþúsundum saman, að eru rangar.

Barátta góðs og ills

Punktar

Gamla og spillta Ísland nýtur enn stuðnings fjölmenns minnihluta kjósenda. Þar með tel ég alla kjósendur Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og helming kjósenda Samfylkingarinnar og Vinstri grænna. Samtals eru þetta að mínu viti tæplega helmingur kjósenda. Hef þá í huga þann tæpa þriðjung kjósenda, sem lætur ekki flokka sig. Neitar að sinna könnunum, neitar að gera upp hug sinn í þeim eða segist munu skila auðu. Dreg þann hluta ekki frá eins og Capacent gerir og fjölmiðlarnir éta upp. Sá hluti er Nýja Ísland, örlítið fámennara en gamla og spillta Ísland. En ekki eins fámennt og sumir láta í veðri vaka.

Gróa biskup á Leiti

Punktar

Biskupinn hefur ekkert dæmi til stuðnings páskasögu sinni um svívirðingar, sem dynji á fermingarbörnum. Enn síður hefur hann röð dæma, sem geri vandann umræðuverðan. Ég hef ekkert dæmi heyrt, er kannski í skárri félagsskap en Karl Sigurbjörnsson. Líklegast er þó, að hann hafi í predikun sinni gengið í hlutverk Gróu á Leiti. Fer bara vel manni, sem hefur setið á dýrðarstóli á hnignunarskeiði ríkiskirkjunnar. Ódýrt fjas um ofsóknir og einelti minnir á grátkór kvótagreifanna. Nú fer hver dagur að verða síðastur hjá Karli á hans dýrðarstóli. Síðustu forvöð hans að mata safnaðarlömbin á grófum skáldsögum.

Formannaböl stjórnarflokka

Punktar

Vesælt gengi ríkisstjórnarinnar í könnunum stafar ekki af efnahagsstöðunni, sem er tiltölulega góð, miðað við hrunið. Það stafar fremur af formannaböli stjórnarflokkanna. Jóhanna Sigurðardóttir er engin landsmóðir. Kemur lítið fram og baular þá mest eins og á útifundi um miðja síðustu öld. Steingrímur J. Sigfússon er ekki heldur neinn landsfaðir, ekki einu sinni flokksfaðir. Honum mistókst að halda flokknum saman, æsti upp jaðarþingmenn hans, jafnvel suma ráðherra. Hvorugur formaðurinn gegnir skyldum sínum við að þjappa saman liði. Stjórnarflokkarnir þurfa sem fyrst að finna sér heppilegri formenn.

Þóra með almannafylgið

Punktar

Atkvæðagreiðsla DV um fylgi forsetaframbjóðenda er ekki marktæk samkvæmt fræðireglum skoðanakannana. Eigi að síður gefur hún grófa vísbendingu um, að Þóra Arnórsdóttir ein geti fellt Ólaf Ragnar Grímsson. Hún hefur karisma, sem fellur að almennum kjósendum. Herdís Þorgeirsdóttir hefur líka karisma, en það er meira yfirstéttar, karisma dugnaðar og sjálfstrausts. Hún yrði frábær forseti. En það verður Þóra einnig. Alvöru kannanir munu senn leiða í ljós, að Þóra nýtur fylgis nánast helmings þjóðarinnar. Segir mér, að Herdís skuli draga vonlítið framboð sitt til baka. Verður annars óvinafagnaður.

Fullveldið og ábyrgðin

Punktar

Ekki reynir á forseta Íslands að svo miklu leyti sem hefðbundin stjórnmál vísa þverpólitískum deiluefnum til þjóðarinnar. Aðild að Evrópusambandinu fer til þjóðarinnar, sem ákveður niðurstöðuna. Ný stjórnarskrá þarf að fara í þjóðaratkvæði, enda hafa hefðbundin stjórnmál ekki getað samið hana. Sé torleystur pólitískur ágreiningur um þjóðareign á veiðikvóta og arð hennar, á hann að fara í þjóðaratkvæði. Ýmis mál hafa verið, eru og verða svo illvíg og þverpólitísk, að þjóðaratkvæði er brýnt. Hvort sem þjóðin er heimsk eða greind, þá er fullveldið þar. Og ábyrgðin, þegar öllu er á botninn hvolft.

Heljartök siðblindingja

Punktar

Erfiðleikar okkar í samskiptum við siðblindingja felast í, að þeir eiga svo auðvelt með að dyljast. Þeir gera sér upp viðmót og heilar persónur eftir þörfum hverju sinni. Eiga til dæmis fremur auðvelt með að heilla þá, sem starfa að mannaráðningum. Frægt er, hversu oft Capacent hefur ráðið slíka í ábyrgðarstöður stórfyrirtækja og lykilstofnana, til dæmis Bankasýslunnar. Eftir hrunið sáum við afrek siðblindingja gömlu bankanna. Samt hefur slíkt fólk verið ráðið til að stjórna nýju bönkunum. Sjáum þetta sama hjá Samherja og kvótagreifum. Siðblindingjar gamla Íslands hafa enn heljartök á þjóðinni.

Gamla og Nýja Ísland

Punktar

Gamla Ísland er rányrkjubú, svo notað sé orð Stefáns Jóns Hafstein. Líkist ríkjum Afríku, þar sem klíkuveldi rænir auðlindir kerfisbundið. Rányrkjubúið varð gjaldþrota í október 2008 og síðan hafa arftakar rifizt kringum líkið. Fjórflokkurinn reynir að endurreisa rányrkjubúið með arðráni auðlinda nánast án rentu til þjóðarinnar. Gamla Ísland heimtar meiri stóriðju og framhald á sjálftöku kvótagreifa. Gamla Ísland stjórnar Sjálfstæðisflokknum og Framsókn og hefur ítök í Samfylkingunni og Vinstri grænum. Í forsetakosningunum og í öllum kosningum hér eftir þarf Nýja Ísland að brjóta rányrkjuna á bak aftur.

Fjölmiðlar úti á túni

Punktar

Allur þorri Íslendinga hefur það flott. Utanferðir hafa stóraukizt og eru orðnar tíðari en árið 2004. Allur þorri fólks hefur vinnu og launin hafa braggazt. Hagtölur eru jákvæðar, atvinna eykst og hagvöxtur er meiri en víðast annars staðar. Skuldir hafa í mörgum tilvikum verið lækkaðar og skuldabyrði minnkuð. Þessi lýsing á ekki við allar íslenzkar fjölskyldur, en þetta er eindregin meginlína lífskjaranna. Skuggalegar lýsingar fjölmiðla stinga í stúf við veruleikann. Einkum er Mogginn úti á túni, en einnig er Rúv hallt undir ýkta svartsýni. Ástand þjóðarinnar er bara nokkuð gott.

Vaðlaheiðar-blekkingin

Punktar

Einkaframkvæmd Vaðlaheiðarganga er dulbúin ríkisframkvæmd. Göngin eru sett fram fyrir önnur göng með blekkingu um einkaframkvæmd. Þegar smáa letrið er lesið, er ljóst, að ríkið ber alla ábyrgð á þessum göngum. Þess vegna gera Guðfríður Lilja Grétarsdóttir og Ólína Þorvarðardóttir rétt í að andmæla blekkingunni á Alþingi. Hún er samsæri nokkurra pólitíkusa, embættismanna, ráðgjafa, kjördæmispotara og háskólakennara gegn þjóðinni. Vaðlaheiðargöng eru hluti hins gamla Íslands, sem gekk fyrir fölsunum, blekkingum, excel-skrám og sjónhverfingum. Losum okkur út úr þessari bóndabeygju gamalla tíma.