Punktar

Dónar vaða uppi

Punktar

Hægri dónar vaða uppi í samfélaginu. Forstjóri Moggans neitaði föruneyti kínverska forsætisráðherrans um að fá að skoða Kerið í Grímsnesi. Sagðist vera andvígur ríkisstjórnum Kína og Íslands. Á sama tíma neitaði útrásarbófi í Þróunarfélagi Eyjafjarðar Birni Vali Gíslasyni þingmanni um að mæta á fund félagsins til að skýra kvótafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Hægri jaðarinn er farinn á límingunum. Brýtur aldagamlar siðareglur íslenzka samfélagsins um framkomu í garð gesta. Wen Jiabao er að vísu ekki fínn pappír, en á samt að fá að njóta almennra siðareglna meðan hann er opinber gestur hér á landi.

Kerið er öllum frjálst

Punktar

Eigendur Kers í Grímsnesi hafa vælt út peninga ríkisins til að borga fyrir bílastæði og göngustíga við gíginn. Samt þykjast þeir hafa vald til að mæla fyrir um, hverjir megi nota þessi bílastæði og göngustíga. Ég geri engar kröfur til mannasiða forstjóra Moggans, en hafna túlkun hans á víðfeðmi einkaeignar. Um eignarhald á landi hafa frá örófi alda og gilda enn reglur í lögum. Þessi ákvæði eru nákvæm og rekja, hvað landeigendur mega ekki gera. Þeir mega til dæmis ekki hefta för manna utan túna. Frjáls er ferð fólks um óræktað land. Líka um land þeirra, er hafa brenglaða trú á mátt einkaeignar.

Pólitískur jarðskjálfti

Punktar

Hér verður nánast jarðskjálfti, þegar ómerkilegur íhaldsþingmaður brezkur á Evrópuþinginu bullar um samskipti Íslands og Evrópu. Yrði jarðskjálfti úti í heimi, ef Vigdís Hauksdóttir þingmaður talaði þannig um evrópsk deilumál? Aldeilis ekki, sumir bulla bara og það er viðurkennt sem slíkt. Enda tala stakir þingmenn ekki fyrir hönd ríkja eða ríkjasamtaka. Hvenær mundu ummæli Árna Johnsen fá útlendinga til að froðufella um íslenzk málefni? Því miður veður allt á súðum í umræðu pólitískra sértrúarsafnaða hér á landi. Fólk með yfirsýn hefur varla geð í sér til að skjóta inn orði við slíkar aðstæður.

Danskan reyndist vel

Punktar

Fyrir hálfri öld líkaði mér illa kennsla í ritmáli nokkura þjóða, einkum í dönsku. Lærði ekkert í dönsku talmáli. Tíu árum síðar hafði ég skipt um skoðun. Kunnátta í dönsku ritmáli veitti mér um leið aðgang að norsku og sænsku. Gat umgengist fólk víðs vegar um Norðurlönd með því einu að breyta tóni og áherzlum í minni dönsku. Gagnaðist fleirum og gagnast enn, því að Norðurlönd eru uppspretta háskólanáms fjölmargra Íslendinga og atvinnutorg margra á erfiðum tíma. Nú tel ég, að gamla, lélega kennslan í dönsku ritmáli hafi raunar alls ekki verið svo léleg. Sama var að segja um námið í þýzku.

Þráhyggja Jóhönnu

Punktar

Ofuráhersla Samfylkingarinnar, einkum Jóhönnu, á Evrópusambandið eitraði tilveru ríkisstjórnarinnar frá upphafi. Vinstri græn eru í bóndabeygju út af Evrópuferðinni og geta ekki á heilum sér tekið. Því hefur kvarnast svo úr fylgi stjórnarinnar, að hún hefur tæpan meirihluta, sem dugar alls ekki til afgreiðslu allra mála. Sjálfur styð ég aðildina, en hafna offorsi Jóhönnu. Hún getur ekki troðið aðild upp á þjóð, sem er í vaxandi andstöðu við aðild. En Jóhanna er svo einþykk, að hún skilur þetta ekki. Jóhanna og Evrópa eru eitrið í stjórnarsamstarfinu, sem hindrar hvert stjórnarmálið á fætur öðru.

Álitsgjafar úti á túni

Punktar

Undarlegt er að lesa texta álitsgjafa, sem misskilja staðreyndir og fabúlera út frá röngum forsendum. Misskilji þeir niðurstöður skoðanakannana, byggja þeir hátimbraðar kenningar á sandi. Til dæmis þeim, að formenn Framsóknar og Sjálfstæðis hafi jákvæðar fylgistölur. Svo er alls ekki, þótt fylgistölur Samfylkingar og Vinstri grænna séu enn lakari. Þegar nánast helmingur hinna spurðu veitir engin svör, er það ósigur allra fjögurra flokkanna. Til dæmis er ekki gott í ljósi fyrri blómaskeiða, að Framsókn hafi 8% fylgi. Og 23% fylgi Sjálfstæðis er alveg út af kortinu, engin auglýsing fyrir formanninn.

Ríkið yfirtaki kvótaveð

Punktar

Ekki væri öll nótt úti, þótt Hæstiréttur mundi úrskurða ríkið skaðabótaskylt vegna taps bankabófa af fyrningu veðsetts kvóta. Ríkið hefur að vísu pungað fé í bankana, taka ber tillit til þess. Einnig gæti ríkið greitt skaðabætur með því að kalla veðin til sín. Þar með hefði ríkið eignast veðin og gæti boðið upp kvótabófana. Þannig heimkominn kvóti verði síðan boðinn upp til nokkurra ára og hluti teknanna notaður til bað borga bankabófunum. Ríkið hefur alla sénsa á að höndla kvótaveð bankanna til hags fyrir samfélagið. Altjend er ljóst, að kverkataki kvótabófa á sjávarútvegi verður að linna.

Einn á lúðurinn

Punktar

Dólgsleg er yfirlýsing forstjóra Landsbankans um, að bankinn tapi þrjátíu milljörðum á kvótafrumvarpinu. Hið rétta er, að hann tapar fénu á ólögmætum veðum, sem hann hefur tekið í þjóðareigninni. Ríkisstjórnin á strax að nota tilefni yfirlýsingar bankastjórans til að gefa út yfirlýsingu. Hún vari þar bankadólga við að afskrifa meira án yfirtöku veða. Bendi á, að slíkt verði ekki gert á kostnað ríkisins með skaðabótakröfum á hendur því. Einnig verði þar lýst ábyrgð bankanna á þegar framkvæmdum afskriftum skulda greifanna án yfirtöku veða í kvóta. Ríkið þarf að gefa bankadólgunum einn á lúðurinn.

Ráðherra óttast greifa

Punktar

Bastarður kvótafrumvarpsins byggist á ótta Steingríms J. Sigfússonar við kvótagreifa. Þeir eru yfirgnæfandi atvinnurekendur í sjávarplássum, einkum í kjördæmi Steingríms. Auðræðið er miskunnarlaust. Samherji tók fyrst Dalvík í gíslingu og síðan Norðfjörð. Beitir síðan fyrir sig bæjarstjórnum, sem kátar hafa þegið mola af svignandi borðum greifanna. Þeir fjármagna aflóga dagblað og stjórnmálaflokk til að gæta hagsmuna sinna. Þorsteinn Már er sterkari en Steingrímur og misbeitir valdinu. Því er frumvarp ráðherrans hvorki fugl né fiskur. Efnir ekki loforðið um fyrningu kvótans. Auðræðið stjórnar ferðinni.

Enga sátt við bófana

Punktar

Samtök kvótagreifa standa fyrir breiðri herferð gegn kvótafrumvarpinu. Þar eru Mogginn og Sjálfstæðisflokkurinn í fremstu víglínu, svo og sjávarpláss, sem kvótagreifarnir halda í gíslingu. Um leið fréttist af átta milljörðum, sem Samherji faldi á Kýpur. Í gerningaveðrinu gleymist, að frumvarpið er misheppnuð tilraun til að ná sátt við trylltan bófaflokk, sem vill enga sátt. Betra væri að efna kosningaloforð um fyrningu aflaheimilda á nokkrum árum. Og hafa útboð á fyrndum heimildum til þeirra, sem hæst bjóða hverju sinni. Ekki semja frið við bófa, sem eru sturlaðir af græðgi og frekju.

Engar bætur fyrir fyrningu

Punktar

Ríkisstjórnin hefur lofað að bæta kröfuhöfum bankanna skaða vegna aðgerða stjórnvalda. Loforðið er sagt standa í vegi þess, að stjórnin efni loforð sitt úr stjórnarsáttamálanum. Ég sé hins vegar ekki, að ríkissjóður beri neina ábyrgð á ólöglegum gerðum bankanna. Þeir tóku veð hjá kvótagreifum í auðlind, sem þeir eiga ekki. Auðlindir hafsins eru eign þjóðarinnar samkvæmt lögum. Hafi bankarnir tekið veð í þessari auðlind fyrir óráðsíu kvótagreifa, er það lögbrot, sem ríkissjóður má ekki styðja. Þess vegna getur ríkið fyrnt kvótann eins og lofað var. Dómstólar verða svo að ákveða, hvort lög standi.

Fresta sjokki til kosninga

Punktar

Ímyndi ráðamenn Sjálfstæðisflokksins sér, að þeir hafi 43% fylgi kjósenda, munu þeir sofa áfram. Rýni þeir hins vegar í tölurnar og sjái, að þeir hafa bara 23% fylgi, vakna þeir við vondan draum. Styrmir og Björn Bjarna hafa báðir bent á, að flokkurinn “verður að gera hreint fyrir sínum dyrum”. Það hefur hann ekki gert. Hefur ekki beðið þjóðina afsökunar á stjórnarfari sínu árin fyrir hrunið. Hefur ekki rekið formanninn, sem er hrunverji. Hefur ekki skipt út þingmönnum sínum. Hefur ekki lagað stefnuna að breyttum aðstæðum eftir hrunið. Með sama framhaldi verða næstu kosningar sjokk fyrir Flokkinn.

Fjórflokkur gegn þjóðinni

Punktar

Leyndarhyggja ríkisstjórnarinnar er hin sama og leyndarhyggja fyrri slíkra. Össur Skarphéðinsson heldur leyndum mikilvægum þáttum í samskiptum Íslands og Evrópusambandsins. Missti óvæntar upplýsingar þó út úr sér í lok fundar í gærkvöldi í utanríkismálanefnd Alþingis. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segist hafa misst andlitið við það tækifæri. Sem vissulega hefði verið gaman að sjá. En við í fáfróðum almúganum fáum ekki neitt að vita. Samt eigum við að taka alls konar upplýstar ákvarðanir í alþingiskosningum og nú orðið líka í þjóðaratkvæðagreiðslum. Leyndarhyggjan sameinar fjórflokkinn gegn þjóðinni.

Faldi féð á Kýpur

Punktar

DV upplýsir í dag, að Samherji faldi átta milljarða í skattaskjóli á Kýpur. Pússluspil Samherja er smám saman að koma upp á yfirborðið. Þorsteinn Már Baldvinsson selur dóttfyrirtæki Samherja í Þýzkalandi aflann á undirverði. Snuðar um leið ríki og sjómenn um þeirra hlut. Síðan rennur féð , ekki til baka, heldur áfram í felur til aflandseyja. Þetta er rosalegur glæpur gegn þjóðinni. Þorsteinn Már og lagatæknar hans rífa samt kjaft og þykjast ekki skilja upp né niður í innrás Seðlabankans. Kvótabófar halda sjávarútveginum og þjóðinni í gíslingu. Beita Mogganum og Sjálfstæðisflokknum gegn þjóðinni.

Fylgislausir nýflokkar

Punktar

Um þessar mundir höfða nýir flokkar ekki til kjósenda. Í síðustu könnun voru 46% kjósenda án flokks. Vildu af ýmsum ástæðum ekki styðja neinn þeirra. Útreið fjórflokksins kemur ekki á óvart. En nýir flokkar fengu sömu útreið. Flokkur Guðmundar Steingrímssonar var með fylgi upp á tvo þingmenn og sama er að segja um flokk Lilju Mósesdóttur. Aðrir nýir flokkar komast ekki á blað, þar á meðal ekki stækkaða Hreyfingin. Tilkoma þessara flokka hefur ekki leitt til fækkunar óákveðinna kjósenda. Þvert á móti hefur þeim fjölgað á sama tíma. Enn á eftir að koma það glæsta framboð, sem hrífi kjósendur.