Punktar

Svefnganga sjóðavinarins

Punktar

Guðmundur Gunnarsson verkalýðsrekandi er dálítið þreytandi. Virðist hafa gengið í svefni síðan fyrir hrun. Fattar hvorki, að fólk hatar lífeyrissjóði né veit hann hvers vegna. Fólk sér þar sömu bófa og voru þar fyrir hrun. er þeir leyfðu útrásar- og bankabófum að taka almenning í rassgatið. Létu þá valda sjóðunum hundrað milljarða tjóni. Sjá þessa sömu sjóðabófa skipa bófa til að stýra fjárfestingarsjóði, hvar þeir afhenda gömlum bófum fyrirtækin á nýjan leik. Lífeyrissjóðirnir hafa ekkert lært af hruninu og eru enn í sama bófagírnum. Þess vegna græða pólitíkusar á að hóta sjóðunum eignaupptöku.

Einkamál braskaranna

Punktar

Undir forustu kauphallarstjórans veina gjaldeyrisbraskarar út af frumvarpi, sem heimilar Seðlabankanum betri vörn gegn gjaldeyrisbraski. Við heyrum sömu gömlu lummurnar og fyrir hrun. Seðlabankinn er sagður munu hnýsast í afar viðkvæm einkamál gjaldeyrisbraskara. Þessir greifar hafa ætíð sagt, að allt eftirlit sé af hinu illa. Þeir framleiddu hugtakið persónuvernd, sem þýðir á íslenzku persónuvernd bófa. Ekki kemur á óvart, að þingmenn Flokksins taka undir kveinstafi gjaldeyrisbraskara. Eru jafnvel farnir að hóta að vinda ofan af öllu hertu eftirliti, sem lamið hefur verið í gegn síðustu árin.

Biskupaleiðin fundin

Punktar

Fundin er forn þjóðleið um Ódáðahraun. Hún er vörðuð og liggur frá Kiðagili yfir Suðurárbotna. Um einstigið Bræðraklif í Hafragjá norðan Herðubreiðar til Ferjufjalls við Jökulsá á Fjöllum. Við Ferjufjall andspænis Möðrudal var ferja fyrir margt löngu. Síðar var ferja sett upp mun norðar, við Ferjuás andspænis Víðidal. Og enn síðar og enn norðar andspænis Grímsstöðum. Vörður leiðarinnar hafa verið staðsettar í GPS, leiðin kortlögð og ítrekað farin síðustu ár, enda birt í bókum. Við gefum okkur, að þetta sé Biskupaleið hin forna, þótt ekki sé unnt að sanna það. Engin önnur leið virðist mér álitleg.

Fátt verður fyrirgefið

Punktar

Ótímabærar eru tillögur um að fyrirgefa bófum, sem leiddu yfir okkur hrunið í októberbyrjun 2008. Meðan þeir biðjast ekki afsökunar er ekki ljúft að fyrirgefa. Meðan þeir sýna ekki minnstu viðleitni til sjálfsskoðunar verður seint fyrirgefið. Tæpast útrásarbófum, bankabófum, Seðlabankabófaum og varla pólitískum bófum, sem einkum eru í Sjálfstæðisflokknum. Meðan allir þessir ábyrgðarlausu bófar eru í hreinni afneitun verður ekki fyrirgefið. Hvernig á að fyrirgefa þeim, sem ekkert þykjast hafa gert af sér? Meðan allir bófarnir ganga enn lausir og fá þar að auki afskrifað villívekk hjá nýjum bankabófum?

Landráð gegn bófum

Punktar

Sammála Bjarna Benediktssyni. Fjármálaeftirlit af hálfu evrópskra samtaka væri stórkostlegt valdaframsal. Hugsið ykkur evrópska kontórista horfa yfir axlir íslenzkra bankabófa síðasta árið fyrir hrun. Þá hefðu verið þröngir kostir við að stela tugum milljarða. Þá hefði verið þungt í vöfum að vefja vafninga í Macau til að koma Sjóvá á hausinn á kostnað fátækra. Völd hefðu verið stórskert hjá Davíð í Seðló og Jónasi í Eftirlitinu. Í staðinn hefðu baneitraðir kontóristar evrópskir verið með nefið niðri í hvers manns koppi. Ojbara. Við sjáum eins og Bjarni, að svoleiðis landráð koma ekki til greina.

Færiband rasistanna

Punktar

Útlendingastofnun tróð lélegasta lagatækni okkar upp á unglinga í hælisleit. Unnar Steinn Bjarndal veit ekkert um lög og nennir ekki að fletta þeim upp. Vísaði meðvitundarlausum dómara því ekki á ákvæði, sem fría þessa unglinga við fangavist. Gunnar Aðalsteinsson er einn af þessum frægu dómurum Héraðsdóms. Unnar kærði rugl Gunnars ekki einu sinni til Hæstaréttar. Allt gerðist þetta í leyni án þess að Barnaverndarstofa og Rauði krossinn fengju neitt að vita. Svo kemur þriðja mannvitsbrekkan, lögreglustjóri, sem telur dóminn byggjast á grunsemdum um aldur unglinganna, sem alls ekki var vefengdur fyrir dómi.

Stríðshanzki bankanna

Punktar

Sammála Lilju Mósesdóttur: Bankarnir hafa kastað stríðshanzkanum í þjóðina. Með ólíkindum er framganga þeirra í kjölfar hæstaréttardóma um ólögmæta innheimtu. Jafnvel í kjölfar ítrekaðra hæstaréttardóma. Finna dómunum allt til foráttu og heimta ný og ný fordæmismál. Fá að hafa samráð um endalausa siðblinda hegðun. Ætla greinilega að tefja málin næstu áratugi og rukka fólk jafnframt. Eftir hrun hafa bankastjórar verið valdir af Capacent í prófum, sem siðblindingjar einir geta staðizt. Því er siðleysið i bönkum og öðrum fjármálastofnunum þremur árum eftir hrun alveg eins og það var fyrir hrun.

Þjóðremban er tryllt

Punktar

Svo tryllt er þjóðremba Íslendinga, að við megum ekki einu sinni til þess hugsa að losna við okkar versta bölvald, krónuna. Séum við króaðir af úti í horni, megum við ekki heyra evru nefnda. Frekar viljum við afskekkta mynt á borð við kanadískan dollar. Auðvitað vilja þjóðrembdir Íslendingar alls enga aðild að Evrópusambandinu, enda kunnum við margar sögur af skelfingu þess. Til dæmis almenna matareitrun og herskyldu Ásmundar Einars Daðasonar. Allt telja þjóðrembingar vera bezt á Íslandi, þótt okkur hafi tekizt að kollkeyra landið árið 2008. Erum dæmigerðir eyjarskeggjar með ofurást á eigin nafla.

Þegar draumar floppa

Punktar

Vildi ekki þurfa að reka ferðaþjónustu Huang Nubo á Grímsstöðum. Er enginn sérfræðingur í ferðanýjungum. Veit, að ýmsir ferðadraumar Kínverja floppuðu, svo sem í Svíþjóð og Wales. Spái, að græðgiskarlar Norðurþings verði fyrir vonbrigðum með væntanlega innspýtingu í hagkerfið. Kínverjar munu vinna við uppbyggingu og rekstur Grímsstaða. Síðan gefast þeir upp einn góðan veðurdag og risavaxið draugaþorp blasir við. Væri ég að semja við Nubo mundi ég vilja tryggingu gegn hrakförum á borð við þær, sem alræmdar urðu annars staðar. Er hlynntur ævintýrum annarra, en tregur til að borga fyrir afleiðingar tjóns.

Eigendur Íslands í sókn

Punktar

Undir forustu kvótagreifa eru eigendur Íslands að herða tökin. Ránsfengurinn úr þjóðarauðlindinni er notaður í sífellt dýrari auglýsingaherferðir. Þær segja fávitunum, að allt fari fjandans til, fái þjóðin aukna auðlindarentu. Á sama tíma eru hin ýmsu samtök auðsins að sameinast í ein samtök. Þar ráða kvótagreifar ferðinni eins og áður í Samtökum atvinnulífsins. Með milljörðum úr ránsfengnum, með Mogga, Sjálfstæðisflokki og efldum samtökum auðsins eru greifar Íslands að afskræma lýðræðið. Í skjóli ótrúlegrar heimsku fólks er sett hér upp auðræði, þar sem ránsfé örfárra stjórnar vitund og vilja fólks.

Tilvistarvandi í Evrópu

Punktar

Tilvistarvandi Evrópusambandsins og evrunnar mun halda áfram næstu misseri. Grikkland er ekki eini vandinn, Ítalía kemur næst og enn eru ótrygg Spánn og Portúgal. Írland er vonandi komið fyrir horn. Sambandið og Evrópubankinn verða önnum kafin við að verjast áföllum. Annars vegar þarf að efla sjóði, sem tryggja fjárhagsöryggi Miðjarðarhafsríkja og hins vegar þarf að verja sjóðina fyrir áhlaupum fjölþjóðlegra vogunarsjóða. Menn eru ekki sammála um lausnir, Þjóðverjar vilja meiri sparnað, þjóðir Miðjarðarhafsins vilja meiri útgjöld til að starta sveiflu. Evrópa skríður því frá einni krísu til næstu.

Hinir heilu og hreinu

Punktar

Nýfátækir á hægri jaðrinum eru öðru vísi en gamalfátækir á vinstri jaðrinum. Þeir nýfátæku telja minnihlutahópa, valdastéttir, Evrópusambandið og múslima sækja að heilli og siðferðilega hreinni þjóð. Anders Breivik er yzt á jaðri í þessu varnarliði þjóðrembunnar. Hér á landi hefur Framsókn verið að færast nær þjóðrembunni, undir stjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, rómaðasta lýðskrumara landsins. Búast má við, að einhverjir nýrra flokka sæki inn á þennan markað fyrir kosningar að ári. Fordæmin sjáum við erlendis, í flokkum Marine le Pen, Victor Orbán, Geert Wilders, Umberto Bossi og Pia Kjærsgård.

Hástig vænisýkinnar

Punktar

Þjóðrembingar flytja okkur sögur um tilganginn með leigu á Grímsstöðum á Fjöllum. Þar eigi að reisa hafskipahöfn, þótt jörðin sé í 400 metra hæð langt inni í landi. Þar eigi að hefja hrísgrjónarækt í samkeppni við hinn heilaga islenzka landbúnað. Þar eigi að koma upp fjarskiptamiðstöð í samkeppni við netþjóna. Þar eigi að búa til alþjóðaflugvöll með kínversku landamæraeftirliti. Þar eigi að koma fyrir offjölgun Kínverja heima fyrir. Að baki er sú vænisýki þjóðrembinga, að Kínverjar hyggist yfirtaka Ísland. Ögmundur Jónasson spilar hlutverk Jóhönnu af Örk í varnarstríði vænisjúkra.

Fjölmiðlar þegja

Punktar

Til skamms tíma var bandarísk fjölmiðlun sú bezta í heimi. Hástigi náði hún í Watergate 1972, þegar Nixon varð að segja af sér. Síðan hefur hún dalað, enda samþjöppun í eignarhaldi. Þetta sáum við, þegar flestir bandarískir fjölmiðlar þögðu um Occupy Wall Street hreyfinguna. Jafnvel New York Times þagði. Eins og þeir íslenzku þögðu fyrst um búsáhaldabyltinguna. Upp úr miðju síðasta ári, þegar ofsóknir lögreglunnar mögnuðust, dró enn úr fréttum af Occupy hreyfingunni. Almennt taka bandarískir fjölmiðlar hagsmuni hinna ríkustu fram yfir almenning. Sama mun gerast í Evrópu, einkum hér á landi.

Íslenzka auðræðið

Punktar

Auðræði er ríkjandi þjóðskipulag á Vesturlöndum. Lýðræði er bara þykjusta. Peningavaldið ræður öllu, pólitíkusum, sveitarstjórnum, fjölmiðlum. Erlendis eru það mest bankarnir, sem ráða, hér eru það kvótagreifarnir. Þeir gera út pólitíkusa, Moggann og Flokkinn, jafnvel forsetann. Hóta áhöfnum og plássum öllu illu, ef einhver fer út af línunni. Samherji reynir tæpast lengur að fela sig að baki fagurgala um lýðræði. Engu máli skiptir, hverjir eru í ríkisstjórn og hverju er andmælt í bloggi eða fésbók. Kvótagreifarnir eiga peningana í krafti kvótans og láta þjóðina sitja og standa sem þeim sýnist.