Punktar

Geta flúið þjóðrembuna

Punktar

Hafni meirihluti þjóðarinnar aðild að Evrópusambandinu, getur ungt fólk samt gerzt aðilar. Með því að flýja land, flýja þjóðrembuna. Komið sér fyrir í landi, þar sem vextir húsnæðislána eru lágir og óverðtryggðir. Þar sem matur er 25% ódýrari en hér og þar á ofan hollari. Þar sem skriffinnska er fagleg, ekki gerræðisleg. Þar sem gjaldmiðillinn er traustur til langs tíma. Þar sem götusóparar hafa 400.000 krónur á mánuði. Sem betur fer hefur fólk aðgang að Evrópu sem einstaklingar vegna Schengen og vegna evrópska efnahagssvæðisins. Það verður velkomið sem einstaklingar, þótt vargurinn velji áfram einangrun.

Stóri dópistinn

Punktar

Eina efnahagsstefna ríkisins undanfarna áratugi var að fá eiturlyfið sitt reglulega og undanbragðalaust. Áður var varnarliðið fíkniefnið og síðan tóku álverin við. Ekki voru það varnir eða álframleiðsla, sem skiptu máli, heldur verktaka við uppbyggingu. Gaf stundargróða braskara í helmingaskiptafélagi þjóðareigenda. Að verktöku lokinni var hægt að bægja timburmönnum frá með nýju álveri. Fávísir kjósendur gátu talið sér trú um uppgangstíma og stutt helmingaskiptafélagið til nýrra afreka. Senn taka bófarnir aftur við stjórn. Þá koma litlu dópistarnir hlaupandi úr Vaðlaheiði til að fá sprautu í æð.

Hótar öllu illu

Punktar

Bjarni Benediktsson hótar þjóðinni í áramótaauglýsingu. Segist munu mynda nýja ríkisstjórn í vor. Þá verði vikið af braut ríkisafskiptanna og tekið að nýju upp frelsi í efnahags- og einkum fjármálum. Hótar beinlínis annarri hrunstjórn. Hver einasti kjósandi með greindarvísitölu yfir sjötíu hlýtur að hlaupa annað í ofboði. Auðvitað flykkjast hinir til Bjarna, þar á meðal masókistar. Vænta þar nýrrar veizlu að hætti Geirs Haarde. Hvorki Bjarni né kjósendur flokksins hafa lært hið minnsta af hruninu. Telja það hafa verið smákreppa af völdum falls Lehman Brothers. “Svokallað hrun”, syngur kórinn.

Slæmar áramótahorfur

Punktar

Horfur eru slæmar um áramót. Gengishrun gerði sjávarútveginn að eina arðbæra atvinnuvegi landsins. Honum stjórnar bófaflokkur kvótagreifa, sem gerir út Moggann og nokkra vefmiðla og heila tvo stjórnmálaflokka til að passa upp á kvótann. Bófaflokkar stjórnmálanna taka við völdum í vor, þegar guðsvoluð ríkisstjórnin gefur upp öndina. Hún hélt að vísu sjó með atvinnu á fullum dampi, en það afrek er kjósendum löngu gleymt eins og hrunið sjálft. Eftir stendur, að núna nær hún engu fram, sem máli skiptir, ekki stjórnarskrá eða fyrningu kvótans eða rammaáætlun um auðlindir. Orðin líkið af sjálfri sér.

Eitruð Samfylking

Punktar

Krafa Samfylkingarinnar um aðildarviðræður við Evrópu gerði ríkisstjórnina smám saman óstarfhæfa. Myllusteinn Samfylkingarinnar sligaði samstarfið. Hrakti hvern þingmann Vinstri grænna á fætur öðrum á pólitískan vergang. Þannig missti Jóhanna meirihluta á Alþingi og hangir á aðvífandi atkvæðum aumingjagóðs flóttafólks úr Borgarahreyfingunni. Björgunarsveitin er raunar eini stuðningsflokkur stjórnarinnar um þessar mundir. Fjórflokkurinn allur er önnum kafinn við að raða upp í stjórnarmynztur. Ætli útkoman verði ekki frjálshyggjustjórn Árna Páls með álverum og öðru rugli í útblásinni blöðru.

Vísitala er sanngjörn

Punktar

Þar sem krónan er ónýtur gjaldmiðill, er ekki sanngjarnt, að fólk greiði til baka höfuðstólinn á gömlu verðgildi. Fólk á að endurgreiða skuldir sínar á núverandi verðgildi, þótt tölurnar séu miklu hærri en áður. Á þessu eru tvær undantekningar. Rýrni krónan meira en sem nemur hækkun launa, á að miða við vísitölu launa, ekki vísitölu benzíns og brennivíns. Og hafi banki fíflast til að bjóða meira en 80% húsnæðislán, á hann að bera tjónið af mismuninum. Og herkostnaðinum af rangri vísitölu eiga lánari og skuldari að skipta með sér jafnt. Að öðru leyti er sanngjarnt og heilbrigt, að vísitala ráði skuld.

Spilla menningarsögu

Punktar

Nútíma öfga-íslam er ógeð. Ofsatrúarmenn vaða um í nafni Allah, eyða fornum minjum. Hafa eyðilagt fornu grafhýsin í Timbuktu í Malí. Voru ekki Allah þóknanleg að sögn Abou Dardar forsprakka. Að vísu múslímsk, en líklega ekki af þeirri tegund, sem er ofsatrúarmönnum þóknanleg. Öfgamenn múslima spilltu líka kletta-höggmyndunum í Bamlyan í Afganistan með dínamíti. Fleiri ráðast á menningarsöguna en talíbanar og ofsatrúarmenn einir. Bandaríski herinn í Írak eyðilagði fjölda minja um fornar menningar í Mesópótamíu. Ekki vegna ofstækis, heldur vegna virðingarskorts menningar-öreiga fyrir fortíð okkar.

Evrópa hætti við Ísland

Punktar

Þótt ekki segist með berum orðum, þá ákvað Evrópusambandið að hætta við að semja við Ísland um aðild. Ráðamenn þess sáu seint og um síðir, að umsóknin um aðild var bara plat. Enginn stuðningur var fyrir málinu og það verður kolfellt í þjóðaratkvæði. Því ákvað sambandið að opna ekki síðustu kaflana,  um landbúnað og sjávarútveg. Þeir verða ekki opnaðir til viðræðu fyrr en eftir kosningar og þá aðeins, ef landið liggur þannig. Evrópusambandið hefur nóg með önnur verkefni að sinni. Þarf að komast yfir vendipunkta í fjármálum ríkja við Miðjarðarhafið og taka afstöðu til fimmtu herdeildar Bretlands.

Sérstakur er sérstakur

Punktar

“Við munum vega og meta niðurstöðu dómsins en þetta er mjög jákvætt.” Fyrstu viðbrögð Sérstaks saksóknara við aumkunarverðum Glitnisdómi. Virðist hafa að markmiði að koma bankabófum í samfélagsþjónustu á Lex. Sérstakur þreytist seint á að koma mér á óvart. Nokkrum sinnum hefur hann svikið loforð um að koma málum inn í dómskerfið. Þau eru enn býsna fá. Fjórum árum eftir hrun er hann bráðum orðinn tveimur árum á eftir áætlun. Ég held, að eitthvað meira en lítið sé að á þeim bæ eins og raunar víðar í kerfinu. Held, að hann hafi þjóðina að fífli eins og dómarar, sem líta á tugmilljarða bankarán sem grín.

Vodkaflösku-dómurinn

Punktar

Mér sýnist íslenzk dómahefð vera þessi: Fyrir að stela einni vodkaflösku á veitingahúsi ferðu á Hraunið í þrjá mánuði. Fyrir að stela þér tvisvar til matar í 10-11 ferðu á Hraunið í fimm mánuði. Allt óskilorðsbundið. Hvað fær þá bankastjórinn, sem rændi þrjátíu milljörðum af bankanum sínum. Hann fær auðvitað þrjá mánuði á Lex í samfélagsþjónustu. Það jafngildir semsagt varla vodkaflösku að mati dómaranna Ólafs Ásgeirssonar, Símonar Sigvaldasonar og Skúla Magnússonar. Ísland í dag, fjórum árum eftir hrun. Bófar og bjánar gefa oss enn á kjaftinn. Lögin gilda bara um aumingjana, ekki um hákarlana.

Fjórum árum eftir hrun

Punktar

Fjórum árum eftir hrun hefur ekki verið úr því skorið, hvort Björgólfsfeðgar séu tengdir. Fjórum árum eftir hrun hefur ekki verið úr því skorið, hvort galin endurskoðun Landsbankans sé lögleg. Fjórum árum eftir hrun hefur ekki verið úr því skorið, hvernig fallandi vídeóleiga gat fengið 300 milljónir að láni 2007. Fjórum árum eftir hrun hefur ekki verið úr því skorið, hvernig ráðherra gat fengið tæpan milljarð að óafturkræfu kúluláni. Fjórum árum eftir hrun hefur ekki verið úr því skorið, hvort bankastjóri geti lánað einum og sama einbeitta skuldakónginum út á sautján kennitölur hans í röð.

Tímavél í ráðhúsið

Punktar

Glæsilegt og nákvæmt er líkan Finns Arnar Arnarsonar og Þórarins Blöndal af Aðalstræti ársins 1905. Svo lík er tímavélin fyrirmyndinni, að trén eru í réttri hæð þess tíma og lóðir fullar af ýmsu dóti. Svo ekki sé talað um þakrennur og gluggaumbúnað. Reykjavíkurborg á að kaupa þetta líkan og fá það víkkað út til Kvosarinnar allrar eins og hún var á þessu merkisári. Víkkað líkan á heima í aðalsal ráðhússins í stað Íslandskortsins. Tímavélin getur þar gagnast bæði skólum og ferðafólki til að sýna aðstæður í borgarmiðjunni fyrir rúmlega hundrað árum. Áður en arkitektar eyðilögðu heildarsvipinn.

Ein regla betri en tvær

Punktar

Vont er, að flokksfélög hafi misjafnar reglur um kosningarétt. Sums staðar bundinn við greidd félagsgjöld og annars staðar opinn öllum, sem hann vilja. Stjórnmálaflokkur á að hafa festu á slíku og það hefur Samfylkingin ekki. Læt liggja milli hluta, hvort sé betra. Mikilli kjörsókn fylgir auglýsing, en um leið aðgangur margra, sem ekki styðja flokkinn. Sérstaklega er slík siðblinda algeng meðal sjálfstæðismanna eins og öll önnur siðblinda. Opinn aðgangur eykur áhrif siðblindingja. Vegur upp á móti auknu lýðræði aukinnar þátttöku. Utan Samfylkingar telur fólk lífsgæði ekki þurfa að vera ókeypis.

Slappur skilorðsdómur

Punktar

Dómurinn yfir stjórnendum Íslandsbanka veldur svartsýni á dóma yfir þeim, sem skófu bankana innan. Svonefnd umboðssvik virðast ekki alvarleg að mati Héraðsdóms Reykjavíkur, þótt milljarðatjón hafi orðið. Margir undarlegir dómar hafa þar verið kveðnir upp. Þessi gefur tilefni til að ætla, að þeir muni snúast mest um skilorð. Tæplega lætur Sérstakur hjá líða að kæra þetta til Hæstaréttar til að fá fordæmi í dómum umboðssvika. Annars getur hann alveg eins pakkað saman kontór sínum, því að allt tilstandið er þá án mikils tilgangs. Annað hvort gefst hann upp eða ekki, það er málið í þessari stöðu.

Leyndó Össurar og Kína

Punktar

Allt leikur á reiðiskjálfi vegna opinna samninga Íslands um fulla aðild að Evrópu. Á sama tíma er utanríkisráðuneytið að gera leynilegan samning um fríverzlun við Kína. Ég finn hvergi uppkast af þeim mikilvæga samningi. Má þó ljóst vera, að Kína er með undarlega áráttu til heimsyfirráða. Hefur til dæmis breitt úr sér á Grænlandi. Ýmsir erlendir fræðimenn hafa skrifað um fríverzlunarsamninga við Kína. Hafa bent á, að Kínastjórn skilur texta öðru vísi en annað fólk. Er ekki hægt að fá góð ráð við samningsgerðina? Er Össur kannski bara í taumi Kínverja að ana með okkur út í einhverja vitleysu?