Punktar

Sautján bjartar síður

Punktar

Sautján síðna starfsauglýsingar í Fréttablaðinu í dag. Bara orðið eins og fyrir hrun. Skráð atvinnuleysi komið varanlega niður fyrir 6%. Þýðir í raun jafnvægi í heildina milli framboðs og eftirspurnar, þótt staðan sé misjöfn eftir greinum. Mest er auglýst eftir sérhæfðu starfsfólki í blaðinu í dag, háskólamenntuðum sérfræðingum á ýmsum sviðum. Segir okkur, að framtíð unga fólksins sé í langskólamenntun og kemur ekki á óvart. Segir okkur líka, að svonefnd “hjól atvinnulífsins” snúast á fullu. Varhugavert að verðbólgast framúr sér á því sviði, eins og bófaflokkar vinnumarkaðarins eru að heimta.

Bannar allt það ljóta

Punktar

Undir stjórn aðstoðarmannsins hefur Ögmundur Jónasson tekizt á hendur að banna allt, sem ljótt finnst. Andvígur klámi á netinu og vill setja þar upp girðingar og lokanir. Næst segir aðstoðarmaðurinn honum, að áfengi sé ljótt. Ögmundur sendir þá út frumvarp um bann við landa og gambra. Á meðan getur hann ungað út frumvörpum um bann við vændi, svefnlyfjum og bann við heimsku. Fleira verður freistandi hjá rugluðu fólki, sem telur ríkið geta leyst allan samfélagsvanda. Afskaffað allt, sem ljótt er, ósiðlegt og helzt það, sem er fitandi. Ögmundur gerir minna af sér, meðan hann dundar við svona endaleysu.

Eimskip fjarar út

Punktar

Eimskip virðist vera að gefa upp öndina. Getur ekki séð um, að skip sín láti vera að flytja hælisleitendur til Bandaríkjanna. Og hvað gera pilsfalda-kapítalistar í slíkum aðstæðum? Veina og æpa á Stóra bróður. Ríkið á að koma til hjálpar og passa, að Eimskip flytji ekki hælisleitendur vestur um haf. Þetta er einkavæðingin og einkavinavæðingin, útrásin og hrunið, Flokkurinn og gæludýrin í hnotskurn. Ekkert framtak, engar lausnir. Bara ákall á þann aðila, sem hingað til hefur útvegað sofandi gæludýrum fyrirhafnarlausan gróða. Er ekki rétt, að “einkaframtakið” fari senn að standa á eigin fótum?

Öskur yfirstéttarinnar

Punktar

Skemmtilegasta frétt vikunnar kom ekki í fréttum fjölmiðla. Snýst um, að stjórnarskrárfrumvarpið skapi hættu á að fólk fái ekki að njóta sólar. Og verði að fá leyfi til að anda að sér lofti. Kom fram í sérkennilegu áliti nefndar lögfræðingafélagsins. Sýnir vel ruglið, sem öskur yfirstéttarinnar er komið í. Kjörið var fyrir fjölmiðla að kanna málið. Spyrja nefndarmenn, hvernig álitið hafi orðið til, hversu drukknir nefndarmenn voru, þegar þeir skrifuðu þetta. En miðlarnir gæta hagsmuna yfirstéttarinnar og þögðu háværu hljóði. Blogg og fésbók urðu að dreifa þessu, en fjölmiðlarnir eru á útleið.

Kemur engin Dögun?

Punktar

Dögun er komin í vanda sem stjórnmálaflokkur. Áhugamenn úr stjórnlagaráði og ýmsir þjóðkunnir menn hafa dregið sig í hlé. Lýður Árnason farinn, Gunnar Tómasson farinn, Jóhannes Björn Lúðvíksson farinn, Þorvaldur Gylfason kom aldrei inn. Afleitt, eftir sitja Hreyfingin og Hagsmunasamtökin. Mig skortir trú á, að Dögun komist á skrið með þessu framhaldi. Kannski Pírataflokkurinn verði betri kostur, en nafnið á flokknum fælir fólk. Tæpast er nóg að hafa málefnin góð, einnig þarf að hugsa fyrir sölu þeirra. Kjósendur eru upp til hópa svo andvana, að leitun er að leiðum til að vekja þá til lífs og vits.

Hártoganir lagatækna

Punktar

Vinsælt væri, að kófrugluðum lagatæknum væri sem mest haldið utan umræðu um stjórnarskrána. Reynslan sýnir, að þeir hártoga út í eitt. Nýjasta útspilið er, að ákvæði nýrrar stjórnarskrár um þjóðareign náttúrugæða virki öfugt. Þau feli í sér, að hægt sé að banna fólki að njóta sólarljóssins og þrengja möguleika fólks til þess. Ennfremur verði hægt að banna fólki að anda að sér lofti. Samt stendur í skránni, að allir hafi rétt til hreins lofts. Hvers vegna sendir Lögfræðingafélagið í umræðuna útúrfyndna lagatækna að skemmta sér með hártogunum. Er menntun lagatækna út úr kú? Er þetta boðleg hegðun?

Meðsekir stjórnarliðar

Punktar

Örlög stjórnarskrárinnar réðust, þegar stjórnarliðið ákvað að leyfa Alþingi að vera í fríi allan fyrri hluta janúar. Ákvörðunin var tekin, því að ekki var áhugi á að keyra málið áfram. Stjórnarliðið varð stjórnarandstöðunni samsek um að lýsa frati á þjóðaratkvæðið. Andstaðan ber þyngri ábyrgð, því að Sjálfstæðisflokkurinn hefur markvisst verið þversum gegn stjórnarskrá í heil fjögur ár. En stjórnarliðið er meðsekt. Eins og gerðist í þjóðareign auðlinda hafsins. Tveir sjávarútvegsráðherrar klúðruðu því máli með ýmsum hliðarsporum, sem stefndu málinu í tímahrak. Fjórflokkurinn stinkar allur.

Beðið eftir brennuvörgum

Punktar

Svo andvana er vænn hluti þjóðarinnar, að hann telur bezt, að fjárglæframenn stjórni landinu. Fremstur sé í flokki fyrrum formaður fyrirtækis, sem með glæfrum kom sér í 4,3 milljarða gjaldþrot. Í hirð hans séu stallarar á jaðri velsæmis, skattsvikari, kúlulánsþegi, byggingavöruþjófur, brasksjóðstjóri úr hruninu, mútuflytjandi. Flokkskjósendur láta sér það í léttu rúmi liggja. Ekki er von á góðu í þjóðfélagi, þar sem mikilvægir innviðir eru sorglega úti að aka. Ekki er von að vel gangi að hreinsa til eftir hrunið, þegar menn bíða óþreyjufullir eftir, að gömlu brennuvargarnir komi fljótt í brunaliðið.

Tíu milljarðar manns

Punktar

Boða ykkur gleðitíðindi. Þótt fólki hafi fjölgað ört síðustu áratugi, spanni núna sjö milljarða manns, fer fjöldinn ekki yfir tíu milljarða. Vegna mikils fjölda ungs fólks mun fólki fjölga næstu árin. En svo fáir fæðast í flestum og fjölmennustu ríkjum heims, að mannkynið staðnæmist í tíu milljörðum. Hans Rosling, prófessor við Karolinska hefur sýnt fram á þetta með því að rekja fólksfjölgun einstakra ríkja. Í stóru ríkjunum, Kína og Indlandi, snarfækkar fæðingum á hverja konu. Þegar við áætlum orkuþörf mannkyns, þurfum við ekki að gera ráð fyrir stærra mannkyni en tíu milljörðum. Unnt að brauðfæða það.

Umboðssvik pólitíkusa

Punktar

Bankastjórar eru sakaðir um umboðssvik. Fínimannsorð um þjófnað. Bankastjóri stelur fé frá eigin banka og afhendir gæludýrum. Einkum eigendum bankans, sem misnota hann þannig. Samt eru stjórnmálamenn ekki sóttir til saka fyrir umboðssvik. Stela fé umbjóðenda sinna, almennings, og afhenda sérhagsmunum. Eins og þegar Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn stálu auðlindum hafsins og afhentu kvótagreifum. Eins og Bjarni Benediktsson hyggst stela Landsvirkjun og afhenda lífeyrissjóðum, sem afhenda hana áfram til erlendra vogunarsjóða. Allt eru þetta umboðssvik, ein tegund þjófnaðar. Gæti heitið auðlindarán.

Eldhús moka salti

Punktar

Óeðlilegt er að þurfa að þamba vatn síðdegis eftir saltaustur í hádeginu. Þannig var Dill í Norræna húsinu í gær. Fiskibollur voru of saltar og eins kartöflufroða, en saltastar voru steiktar hvítkálsreimar. Ekkert bragð var af matnum utan saltbragðið. Svipað kom fyrir mig á Höfninni í síðustu viku, en þó í vægara mæli. Fiskurinn var í lagi, en steikta grænmetið ofsaltað, einkum kartöfluteningar. Í gamla daga var meira notað salt í veitingahúsum, en sjaldan úr hófi í seinni tíð. Ég set mörkin, ef óviljandi saltát leiðir til óeðlilegrar vatnsdrykkju í kjölfarið. Tel það vera bilun í matreiðslu.

Nei við Nupo

Punktar

Þegar sala Grímsstaða á Fjöllum varð fjölmiðlaefni, hallaðist ég að jákvæðu viðhorfi. Sá ekki muninn á henni og annarri sölu til útlendinga, sem hefur yfirleitt gefizt vel. Mikið vatn er síðan runnið til sjávar og aukin ástæða til að horfa samtímis á útþenslustefnu Kína. Einar Benediktsson sendiherra vakti nýlega athygli á henni. Kína haslar sér völl víðs vegar um heiminn og lætur sums staðar digurbarkalega. Með landhelgiskröfu upp í fjörur annarra ríkja. Í opinberum heimsóknum koma þeir hingað í hundrað manna hópi. Mér er hætt að lítast á blikuna. Mæli nú með, að við veitum Nupo ekki fótfestu hér.

Burt með Breta

Punktar

Evrópusambandið þarf að losna við Bretland, sem frá upphafi hefur verið þar til vandræða. Ítrekað með alls konar úrslitakosti, sem hafa hægt á Evrópu og leitt til of flókinna lausna. Evrópa á ekkert að dekstra Breta til að vera áfram inni. Segja bara bless við þá, eins og það var tilbúið að segja bless við Grikki, sem einnig eru aðilar á röngum forsendum. Evrópa meginlandsins þarf að treysta innviðina og ekki eyða tíma í ólátabelgi. Enn síður á hún að taka í mál að fá Ísland inn. Kverúlantar eiga bara vera úti í kuldanum. Við yrðum bara leiðinlegri en Bretar. Miðað við þennan margfræga fólksfjölda.

Myrkur af mannavöldum

Punktar

Í kosningunum í vor verður kosið um myrkur af mannavöldum. Þögull meirihluti þjóðarinnar á þá kost á að hleypa pólitískum bófaflokkum að völdum. Þeim sem settu okkur á hausinn með trylltri einkavinavæðingu fjármála, eftirlitsleysi með gæludýrum þeirra í bönkunum og furðulegri stjórn Seðlabankans. Næst munu bófaflokkarnir ryðjast með stórvirkar vinnuvélar á Reykjanesskagann og eyða fegurstu stöðum á mesta ferðamannasvæði landsins. Þeir munu stöðva tilraunir til gegnsæis í stjórnsýslu, svo ekki verði hróflað við gamalkunnu gerræðinu. Stjórnarskráin verður fryst af sömu ástæðu. Myrkur verður af mannavöldum.

Samanburður við siðmenningu

Punktar

Aðildarviðræðurnar við Evrópu gagnast, þótt þær séu komnar á ís. Búið er að bera saman íslenzkt og evrópskt regluverk á fjölda sviða. Gefur okkur færi á að losna úr neti gerræðis, sem Flokkurinn og Framsókn hafa fléttað okkur um áratugi. Þriðjungi samningsatriða er lokið og helmingur til viðbótar er í gangi og verður áfram. Þótt þeim helmingi verði ekki lokað, stendur þó svart á hvítu, hvar við höfum dregizt aftur úr. Samanburður við siðmenninguna er stórfínn, þótt aðild að henni sé fjarlægur draumur. Við eigum ekki að gera lítið úr árangrinum, sem náðst hefur í trássi við yfirþyrmandi þjóðrembu.