Punktar

Hrædd við fólkið

Punktar

Feneyjanefndin vill draga úr völdum, sem almenningi eru falin í drögum að nýrri stjórnarskrá. Telur heppilegra að aukinn meirihluti Alþingis ákveði breytingar á stjórnarskrá, fremur en að þjóðaratkvæði geri það. Svo hefur hún ýmsar tæknilegar athugasemdir við stöðu forsetans. Stingur upp á, að stjórnmálamenn og sveitarstjórnamenn velji forseta, en ekki þjóðin. Hvorugt tel ég að hafi hljómgrunn hér, enda er Feneyjanefndin óþarflega hrædd við aukin áhrif almennings. Ég held, að fólk vilji sjálft ráða stjórnarskrá sinni og vali á forseta landsins. Vilji ekki fela það í hendur fínimanna.

Feneyjanefndin segir OK

Punktar

Feneyjanefndin gerir ýmsar tæknilegar og ekki alvarlegar athugasemdir við frumvarpið um stjórnarskrána. Rétt er að taka tillit til þeirra og umorða ýmis ákvæði. Alvarlegustum augum lítur nefndin á pólitíska reiptogið. Sú hótun er nefnilega uppi, að við hver stjórnarskipti hefjist reiptog um að hafna gildandi stjórnarskrá. Í næsta tilviki að hafna breytingunni og taka upp gömlu stjórnarskrána að nýju. Íslenzkt fyrirbæri, sem hangir á sérstæðri umræðuhefð, orgi og ópum í þingsölum. Heimska umræðuhefðin er í skralli, en ekki sjálft frumvarpið um stjórnarskrá. Orgið og ópin á alþingi eru vandinn.

Pólitískir analfabetar

Punktar

“Fólk er fífl”, sagði þekktur kaupsýslumaður í tölvupósti. “Þið eruð ekki þjóðin”, sagði þekktur pólitíkus við aðgerðasinna. Bæði höfðu þau rétt fyrir sér. Meirihluti fólks er svo skyni skroppinn, að hann sér ekki fótum sínum forráð í pólitík. Meirihluti fólks er svo skyni skroppinn, að hann hafnar tilraunum til að breyta auðræði í lýðræði. Einnig ég hef verið skammaður fyrir að tala illa um þjóðina. En ég hef bara sagt satt. Kjarni málsins er, að stór hluti Íslendinga er alveg ófær um að sinna pólitískum skyldum sínum. Þeir eru pólitískir analfabetar eins og sést af stuðningi við fjórflokkinn.

 

Ögmundur spillir frelsinu

Fjölmiðlun, Punktar

Frelsi veraldarvefsins er eitt allra mikilvægasta grein upplýsingafrelsis. Frjálst internet styrkir almenning og þjóðir heims til frelsis. En voldug öfl, einkum harðstjórar þriðja heimsins og Bandaríkjastjórn, reyna að koma böndum á allt frelsi. Ögmundur Kínafari er í þessum flokki, sem vinnur gegn hagsmunum og réttindum almennings. Ekki í fyrsta skipti sem Ögmundur fiktar í málum, sem hann skilur ekki og ræður ekki við. Það eitt kemur úr krafsi hans, að Ísland missir af nethýsingu stofnana, sem flýja Bandaríkin. Síðan veltur Stóri bróðir út úr ráðuneytinu og við getum varpað öndinni léttar.

Steingrímur er baggi

Punktar

Steingrímur J. Sigfússon er þáttur í vanda Vinstri grænna. Hefur ekki verið farsæll ráðherra. Tók ákvarðanir um IceSave og um björgun sparisjóða, sem reyndust illa. Skorti leiðtogahæfni til að halda saman stjórnmálaflokki án þess að helmingur þingliðsins tvístraðist út um allt. Linur í stuðningi við kröfur þjóðarinnar um þjóðareign fiskimiða og um nýja stjórnarskrá. Orðinn baggi á flokknum. Því miður vill hann frekar vera kóngsnefna í krummaskuði en stórvezír í konungsríki. Það gæti bjargað því, sem bjargað verður, yrði Katrín Jakobsdóttir formaður. Hefur teflon-húðina, sem Steingrím vantar.

Þjóðrembdir sérhagsmunir

Punktar

Framsóknarflokkurinn rekur jafn ógeðfellda sérhagsmuni og hann hefur löngum gert. Framsóknarmenn eru eins ógeðfelldir og venjulega. Þjóðremban vall um sali á landsfundinum. Flokkurinn vill lög gegn erlendu fé inn í íslenzka stjórnmálabaráttu, eins og ekki séu til slík lög, frá 1978. En Sigmundur Davíð Gunnlaugsson vill hafa flokkinn svona. Á þjóðrembu nærast bófar mest. Því að þeir vefja um sig fánanum og kyrja þjóðsönginn til að villa á sér heimildir. Flokkurinn afrekaði að lýsa yfir fylgi við mál, sem hann berst gegn á alþingi. Svo sem stjórnarskrá og þjóðareign kvóta. Svei þessu pakki.

Skattar eru ekki háir

Punktar

Sum ykkar munið gera á fésbókinni athugasemdir við þetta blogg. Þá ætla ég að biðja ykkur um að tyggja ekki aftur ruglið um, að lífeyrisgreiðslur séu skattur. Þær eru sparnaður til elliáranna, ekki skattur. Þessi sparnaður er að vísu illa höndlaður af atvinnurekendum og verkalýðsrekendum, en hann er samt sparnaður. Þegar ég segi, að skattar á Íslandi séu lægri en annars staðar á Norðurlöndum nema í Finnlandi, komið þá ekki með gömlu lummuna. Skattar eru 59% í Svíþjóð, 52% í Danmörku, 48% í Noregi og 46% hér á landi og í Finnlandi. Norrænir skattar eru háir, því að það eru það góð samfélög.

Níutíu er of mikið

Punktar

Ríkinu er ofviða að borga níutíu milljarða í vexti af lánum. Hrunið fól samt í sér þennan bagga, svo honum verður að sinna. Efast um, að nóg hafi verið unnið að lækkun vaxta og lengingu lánstíma. Við hefðum þurft að lækka árlega vaxtabyrði vegna hrunsins um tuttugu milljarða. Þá væri staða velferðar ögn skárri og Landsspítalinn ekki að hruni kominn. Þýðir að vísu töluvert lengri skuldatíma, en þetta er bara of mikil byrði á stuttum tíma. Stjórnin þarf að flýta sér að leita allra leiða til að teygja og lækka árlega greiðslubyrði. Svo þarf hún að hætta öllu leyndó og gera þennan vanda gegnsæjan almenningi.

Íslenzk og ítölsk dauðaþrá

Punktar

Dauðaþrá íslenzkra kjósenda minnir á Ítali. Þeir hyggjast kalla enn einu sinni yfir sig Silvio Berlusconi, sem setti Ítalíu á höfuðið. Elska sinn ofurbófa eins og Íslendingar elska sína bófa. Á báðum stöðum er svo að sjá, að hrunverjar taki völdin að nýju eftir minniháttar hreingerningu. Ferill Berlusconi er ljós, samfelld hörmungarsaga spillingar og hruns fjármála ríkisins. Minnir mikið á íslenzka hrunverja. Nú vilja íslenzkir sauðir aftur kalla yfir sig hrunverja. Fela þeim að blása blöðru til að sprengja. Þótt umsýsla hrunverja í þágu sérhagsmuna gæludýra sinna sé öllum skynugum ljós.

Sauðunum smalað í vor

Punktar

Í vor verður sauðunum smalað af fjalli. Hafa í fjögur ár lifað í harðindum frelsis og líkað misvel. Fyrir fjórum árum véku þeir bófum frá stjórn og tóku sér bjána til valda í staðinn. Sumir dunduðu á fjalli við að smíða sér stjórnarskrá, sem fjórflokkurinn hlær að. Í staðinn á að negla einkarétt kvótagreifa á auðlindum sauða til 20 ára. Nú líður senn að nýjum réttum. Nú vilja sauðir taka bófana aftur í sátt og refsa bjánunum. Fjórflokkurinn fær að halda völdum eins og ævinlega. Þeir, sem ætíð voru harðastir í að rýja og flá sína sauði, munu fá umboð sauðanna í fjögur ár til að ræna og rupla.

Sérhagsmunir sigra á þingi

Punktar

Ríkisstjórnin hefur endanlega gefizt upp fyrir stjórnarandstöðu, sem gengur erinda kvótagreifa. Hætt við að fylgja eftir þjóðarviljanum, sem kom skýrt fram í þjóðaratkvæði um nýja stjórnarskrá. Eins ömurlegt og það getur orðið. Þjóðaróvinir standa uppi sem sigurvegarar á Alþingi, því að ríkisstjórnin hefur ekki lengur þrek til að skúra eftir hrunið. Í stað stjórnarskrár á að afhenda kvótagreifum tuttugu ára eignarhald á stóru þjóðarauðlindinni. Og kjósendur horfa bara á og virðast harla fegnir. Leitun er öðrum eins aulum og íslenzkum kjósendum. Flykkjast í faðm þeirra, sem lengst ganga í að taka sérhagsmuni fram yfir almannahagsmuni. Íslenzka þrælslundin er söm við sig.

 

Þar er fall hans falið

Punktar

“Ég get ekki annað en fagnað í dag þegar Baugsmálinu lýkur loks eftir 11 ára málaferli.” Viðbrögð Jóns Ásgeirs Jóhannessonar við dómi um skattalagabrot hans eru fyndið dæmi dagsins um spuna. Maðurinn fékk 62 milljón króna sekt og dæmist því hafa verið sekur. Hvernig getur það verið sigur? Er það sigur, að dómari leyfði lögmönnum að tefja út og suður árum saman, meðan þættir málsins féllu á tíma. Það er auðvitað ósigur dómarans, en ekki sigur Jóns Ásgeirs. Hann var dæmdur fyrir skattalagabrot. Orðið þýðir skattsvik á máli alþýðunnar. Hann var dæmdur til fangavistar, þótt hann hafi fengið skilorð.

Þetta er hægri bylgja

Punktar

Hægri sinnaðir stúdentar bökuðu þá vinstri sinnuðu í kosningunum í Háskóla Íslands. Unnu með yfirburðum í öllum deildum skólans. Hlutu samtals 21 af 27 fulltrúum í Stúdentaráði. Man ekki eftir öðrum eins yfirburðum frá því ég fór að fylgjast með. Áður var oftast mjótt á mununum milli fylkinganna. Mér segir þetta, að unga fólkið um og upp úr tvítugu velji sér varanlega stöðu á hægri væng. Skil loks, hvers vegna hver stjórnmálaflokkurinn á fætur öðrum stillir sér upp við hlið Flokksins mikla. Samfylkingin er í hraðferð þangað. Einnig Björt framtíð. Jafnvel Hægri grænir eru farnir að mælast með fylgi.

Dómara skortir málvitund

Punktar

Les á fésbók, að dómarar verði að dæma eftir texta laganna, ekki eftir ætlun alþingismanna, sem afgreiddu textann. Galli er á kenningunni, að íslenzkir dómarar, þar með hæstaréttardómarar, hafa undarlega málvitund. Túlka orðin öðruvísi en vant er og öðruvísi en gert er í opinberum orðabókum. Ljótt dæmi um slíkt er í nýjum dómi um nauðgun. Lagatæknar og dómarar búa til ný orð og skrítna flokkun orða til að hagræða meiningunni. Magna upp mun á “skoða” og “rannsaka”, telja “fallinn” ekki þýða endurnýjaðar reykingar. Dómarar hanga á fráleitum orðhenglum eins og hundar á roði. Mega fáfróðir stýra málvitund?

Blair genginn aftur

Punktar

Íslenzkir kratar voru á sínum tíma afar hrifnir af Tony Blair. Sóttu jafnvel landsþing brezkra krata. Blair er þekktastur fyrir Blair-isma. Einkenndist af frjálshyggju og ást á auðmönnum. Þannig vann Blair sigur á íhaldinu. En týndi sál flokksins, sem hefur síðan ekki borið sitt barr. Sumum krötum fannst völd vera næg umbun fyrir glataða sál, en það var skammvinn nautn. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir innleiddi Blair-isma frjálshyggju og ástar á auðmönnum í Samfylkingunni og í hrunstjórninni. Margir áhrifamenn í flokknum þjást enn af þessum gamla Blair-isma. Þeir hafa aftur náð völdum í flokknum.