Punktar

Don Kíkóti ferðast

Punktar

Hvaða örvænting grípur Don Kíkóta Íslands og tefur hann frá stríðinu við vindmyllur? Ekki setur Ögmundur á meðan upp “stofur” til að lemja hið illa. Varla stöðvar hann klám, tóbak, vændi, happdrætti og landakaup útlendinga. Ekki þegar hann frílistar sig í Kína og Indlandi. Er hann kannski að ná sér í ferðalög áður en starfið hans hverfur? Að ræða neytendamál við Kínverja og Indverja! Hlýtur að vera grín, varla á slíkt málsvara hjá þessum stjórnum. Nóg er, að Ólafur Ragnar nuddi sér utan í ofbeldisfursta þriðja heimsins. En kannski lærir Ögmundur hjá Kínastjórn að hefta upplýsingar á internetinu.

Tvöfalt tjón á þingi

Punktar

Tvöfalt er tjónið, ef Alþingi gefst upp á stjórnarskránni en samþykkir 20 ára eignarhald kvótagreifa á þjóðarauðlindinni. Tvöfalda tjónið er botninn á svikum fjórflokksins við þjóðina og hörmulegur endir á marklausu samstarfi vinstri flokkanna. Þeim verður ekki lengur treyst sem mótvægi við bófaflokka á vegum auðs og kvóta. Ríkisstjórnin fór af stað með glæsibrag, en hefur síðan koðnað niður í algeran aumingjaskap. Hvergi virðist bein í skrokki Samfylkingarinnar. Vinstri grænir hafa týnt öðrum hvorum þingmanni sínum á vertíðinni. Og hægri armur fjórflokksins rekur eindregna sérhagsmunapólitík.

Markaðurinn er stjórnlaus

Punktar

Evrópska hrossakjötshneykslið er enn ein sönnun þess, að frjálsi markaðurinn virkar ekki eftir kennslubók. Íslenzka hrunið var annað dæmi um, að skortur á eftirliti hefur geigvænlegar afleiðingar. Brezka stjórnin er núna í vanda, því að hún hefur verið að reyna að skera niður matvælaeftirlit. Svo kemur í ljós, að skortur á matvælaeftirliti æsir frjálsa markaðinn til óhæfuverka. Hvenær, sem hlekkir bresta á markaðsöflunum, fara þau út á yztu nöf, oftast fram af yztu nöf. Smám saman áttum við okkur á, að ekkert er sjálfvirkt við frjálsa markaðinn. Hann stýrir sér ekki sjálfur. Herða þarf allt eftirlit.

Lýðræðisvaktin birtist

Punktar

Mestur slægur er í Lýðræðisvaktinni, einkum vegna þess, að ríkisstjórnin er að gefast upp á stjórnarskránni. Þar er svo margt, sem leiðir þjóðina fram á veginn, þar á meðal atriði, sem eru mál Dögunar og Pírata líka. Þar hefur mér þótt vanta stjórnlagaráðsfólk, sem nú safnast fyrir á Lýðræðisvaktinni. Tek þó fram, að Hreyfingin, sem stóð sig vel á þingi, á aðild að Dögun og Pírötum, sem einnig eru jákvæð framboð. Nú er að sjá í næstu könnunum, hver af þessum framboðum hafa kjörþokka. Töluverður tími er enn til stefnu og enn hugsanlegt samstarf um framboð. Allt er betra en Fjórflokkurinn og Björt.

Góðviðrisfólkið bilar

Punktar

Margt Samfylkingarfólk sér umheiminn í notalegu ljósi. Finnst Ísland vera í Skandinavíu, þar sem kerfi þjóna vel og flestir vilja vel. Skilja ekki, að Ísland er ekki Skandinavía, heldur Villta vestrið. Svonefnd umræðustjórnmál ná hér skammt, þegar við niðurrifsöfl er að eiga. Jákvæðir vilja ræða mál, komast að sátt í hverjum hópi, þótt sáttin sé þvert á fyrri sátt. Svo sem um stjórnarskrá. Þar sýna sumir þingmenn Samfylkingar veika lund. Lélegt hald er í góðviðrisfólki, þegar við þurfum að fara í stórhríð milli staða. Þetta fólk er gagnslaust, er sérhagsmunamenn ryðjast fram með frekju og offorsi.

Skynsöm afsögn

Punktar

Afsögn Steingríms J. Sigfússonar formanns er skynsöm. Fulltrúi þankagangs hins gamla Íslands, sem hefur einkennt ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir eins og fyrri ríkisstjórnir. Stýrði leið þjóðarskútunnar af strandstað ríkisfjármála eftir gjaldþrot Davíðs Oddssonar og Geirs H. Haarde. Hjól atvinnulífsins á fullu, atvinna næg og skuldatryggingaálag nær horfið. Gat þó ekki mætt tíma nýrrar stjórnarskrár og fyrningar kvóta. Gat ekki heldur haldið flokknum saman, nær hálfur þingflokkur vinstri grænna horfinn. Tími er kominn til að víkja fyrir yngri kynslóð Vinstri grænna, Katrínu Jakobsdóttur. Tími karlanna er liðinn.

Gamla Ísland dafnar

Punktar

Þrátt fyrir hrun og búsáhaldabyltingu og fögur orð um nýtt Ísland er flest við það sama. Dómstólar og embætti og pólitíkusar eru gamla Ísland. Heilir stjórnmálaflokkar starfa fyrir bófaflokka auðmanna og ríkisstjórnin lætur ítrekað undan síga. Dómarar breikka gjána milli réttlætis og dómahefðar, en lögum er samt ekki breytt til að laga stöðuna. Þótt heilar stofnanir skaði samfélagið, svo sem Persónuvernd og Úrskurðarnefnd um upplýsingamál, er ekki breytt lögum og reglum. Alþingi er áhrifalaus klúbbur, sem málþófsbófar hafa tekið herskildi. Og kjósendur vilja fá verstu bófana aftur til valda í vor.

Siglt af strandstað

Punktar

Skuldatryggingaálag okkar komst í tíu prósent ofan á vexti í dauðateygjum ríkisstjórnar Geirs H. Haarde. Það er nú komið niður í 1,8 prósent ofan á vexti. Segir fullkomna sögu um, að tekizt hefur að sigla þjóðarskútunni af strandstað. Jafnframt hefur atvinnuleysi nánast horfið, er orðið minna en víðast í Evrópu. Segir okkur, að svonefnd hjól atvinnulífsins snúast á fullu og hafa lengi gert. Ríkisstjórnin býr samt við vanda, efndi ekki loforð um fyrningu kvóta og ýtti nýrri stjórnarskrá í tímahrak. Það stafar af, að hún hefur tæpast lengur starfhæfan meirihluta. Dauðþreytt er hún að gefast upp.

Nóg er stjórnarskrá rædd

Punktar

Kortéri fyrir afgreiðslu máls er alltaf kortéri fyrir afgreiðsluna. Þegar búið er að tala um mál í fjögur ár, rennur alltaf upp sú stund, að kortér sé til afgreiðslu. Þá er tilgangslítið að tala um, að ekki megi afgreiða málið, því bara kortér sé til stefnu. Hafi Flokkurinn og Framsókn í fjögur ár látið undir höfuð leggjast að ræða nýja stjórnarskrá, varðar það ekki okkur hin. Séu þingmenn þessara flokka enn að tala um að tala þurfi um að tala þurfi um stjórnarskrá í meira en kortér, geta þeir leitað sér hjálpar hjá viðeigandi sálfræðingum. Afgreiðið nú þessa blessuðu stjórnarskrá, nóg er hún rædd.

Rugludallar í Hæstarétti

Punktar

Hæstiréttur verður sér ítrekað til skammar. Um daginn sagði hann, að munur væri á samheitunum að skoða og að rannsaka! Er þó slíkur munur ekki bundinn í lögum. Á grundvelli sérkennilegs orðhengilsháttar dæmdi rétturinn rangindi upp á milljónir króna. Um daginn sagði hann, að nauðgun hefði ekki verið nauðgun, því að gerandinn hefði ekki upplifað hana sem slíka! Dómarar sanna þannig heimsku sína ítrekað. Mikilvægt er, að rugl Hæstaréttar verði strax kært til æðri dómstóla í Evrópu. Þar fær Hæstiréttur kerfisbundið á baukinn. Stofna þarf samtök um að fjármagna réttlætið, sem bara kemur frá útlandinu.

 

Baráttan um spunann

Fjölmiðlun, Punktar

Ört eykst tækni blekkingafólks við að hafa fólk að fífli. Á félagsmiðlum svokölluðum sjáum við meira um auglýsingar og kynningar. Alls staðar læðist inn áróður. Spuni hefur í áratug verið mikið notaður í pólitík vestanhafs. Hópur bloggara, tístara og fésbókara tekur sig saman um að setja flökkusögur á flot og blása í segl þeirra. Aðrir eru seinir að átta sig og bera spunann til baka. Mikilvægt er í aðdraganda næstu alþingiskosninga, að bloggarar, tístarar og fésbókarar séu vakandi fyrir meinsemdum slíks spuna. Taki sig saman um að stöðva hann með réttum upplýsingum í tæka tíð. Fyrir lýðræðið.

Gagnslausar hindranir

Punktar

Nýjar hraðahindranir í Reykjavík eru skondnir járnkassar rétthyrndir. Gerðir að ósk Strætó, svo að breiðgengir vagnar geti hindrunarlaust klofað yfir. En svo langt er milli þeirra, að bílar skjótast milli þeirra án þess að minnka hraðann. Breiðir jeppar geta það í Ánanaustum, alkunnri kappakstursbraut nátthrafna. Úr því að þeir geta það, þá geta það líka bílarnir, sem nýtast í spyrnu. Sífellt fjölgar bílstjórunum, sem beygja milli þessara hindrana. Skapar hættu fyrir umferð, sem kemur á móti, og getur ruglað þá bílstjóra í ríminu. Loðin hugsun og mikil útgjöld skila engu í stríði gegn næturspyrnu.

Alger Feneyjaþögn

Punktar

Þvert ofan í spá mína hefur engin umræða orðið um álit Feneyjanefndarinnar á frumvarpi um nýja stjórnarskrá. Enginn sér hag í að nudda andstæðingum upp úr álitinu. Það styður nefnilega hvorki stuðningsfólkið né andstæðingana. Er eins konar limbó utan við íslenzka umræðu. Enginn tekur undir tillögu hennar um, að þjóðin fái ekki lengur að kjósa forsetann. Tillagan um að minnka flækjustig ákvæða um forsetann fær ekki heldur neinn hljómgrunn hjá hvorugri fylkingunni. Fjögurra ára rifrildið um stjórnarskrána getur því haldið áfram nákvæmlega eins og það var fyrir aðkomu langþráðrar skýrslu Feneyjanefndar.

Þjóð eða þegnar?

Punktar

Feneyjanefndin telur eins og ég, að fólk sé fífl. Eins og raunar ýmsir hópar lagatækna gera líka, svo sem nefnd lagatækna Alþingis og félags lagatækna. En við drögum mismunandi ályktanir af þessu. Ég vil auka völd fólks, svo að það verði einhvern tíma fullorðið og geti tekið pólitískar ákvarðanir. Vil, að þjóðin ali sig þannig upp sem fullgildir borgarar. Feneyjanefndin er hins vegar hrædd við völd þjóðar, telur þau auka sundrungu í þjóðfélaginu, vill takmarka þau. Telur til dæmis, að fólk eigi ekki að kjósa forsetann, heldur pólitíkusar á Alþingi og í sveitarstjórnum. Vill, að þjóðin verði þegnar.

Feneyjavalsinn dunar

Punktar

Hugmyndir Feneyjanefndar henta vel íslenzkri þjóðmálaumræðu. Þar getur hver séð það, sem hann vill sjá, alvarlegar eða lítilvægar athugasemdir. Og allir éta áfram upp úr sínum poka. Ég skipti hugleiðingum nefndarinnar í þrennt. Sumar eru bara hugleiðingar. Aðrar eru efnislegar breytingar um, að dregið verði úr auknum völdum kjósenda. Þeir kjósi til dæmis ekki forsetann sinn. Nefndin er þannig hrædd við kjósendur, enda skipuð yfirstéttarfólki. Svo eru þarna tæknilegar tillögur, sem má taka upp. Merkilegast er, að fréttastofa Ríkisútvarpsins tók í gær forustuna af Mogganum í andstöðu við frumvarpið.