Punktar

Barátta sjónhverfinganna

Punktar

Hvað sameinar nýju flokkana, sem mælast án fylgis í skoðanakönnunum? Hvað er eins hjá Dögun og Samstöðu? Það er stuðningur við einfaldar lausnir á vanda heimilanna. Fólk, sem trúir á sjónhverfingar, þarf ekki á þessum flokkum að halda. Það kýs bara Framsókn, sem hefur langa reynslu af yfirboðum af slíku tagi. Af flötum niðurskurði og pennastrikum út og suður. Sigmundur Davíð er nýjasti formaðurinn í langri röð sjónhverfingamanna Framsóknar. Hann hefur náð öllu fylgi einfeldninganna til sín. Ekkert er afgangs handa smáflokkum. Þeir hafa bara Andreu og Lilju, sem hvor hefur tíu manna hirð sanntrúaðra.

Hóta hamförum

Punktar

Hef á tilfinningunni, að landsfundarlið Sjálfstæðisflokksins telji flokkinn munu í kosningunum fá umboð til nýrrar hamfarastefnu. Ályktanir landsfundar eru að vísu marklausar að venju, en þar má finna stríðari tón en venjulega. Til dæmis samþykktu svefngenglarnir, að ekki megi setja viðræður við Evrópu á ís, heldur verði að slíta þeim formlega. Sennilega er yfirvaldið hrætt við evrópsk afskipti af fyrirhuguðu fjárhagsofbeldi Flokksins gegn venjulegu fólki. Flokkurinn er sannfærðari en áður um forgang og fríðindi auðsins og hótar lækkun hátekjuskatts. Ekki var minnst einu orði á “svokallað hrun”.

Fjögur ár til einskis

Punktar

Gunnlaugur Karl Hreinsson er nýjasta dæmið um kennitöluflakk. Hann á skipin Háey og Lágey. Stofnaði nýja kennitölu um skipin og skildi allar skuldirnar eftir á gömlu kennitölunni. Við gjaldþrotaskipti fundust alls engar eignir í því búi, en Gunnlaugur rekur skipin áfram á nýrri kennitölu. Á þessu rugli tapast fimm milljarðar króna, sem bankarnir afskrifuðu ljúfar en þeir svara vælinu í venjulegum skuldurum. Mig langar til að spyrja Jóhönnu og Steingrím  eftir fjögurra ára valdaskeið: Af hverju hafið þið ekki fengið Alþingi til að samþykkja einföld lög, sem banna siðlaust kennitöluflakk skuldagreifanna?

Merking orða flýtur

Punktar

Orðhengilsháttur lagaprófessora, hæstaréttardómara og annarra lagatækna er þeim mun undarlegri, þegar litið er til vanþekkingar þeirra á tungumálinu. Íslenzka þróast eins og önnur tungumál. Meiningar og merkingar breytast og umhverfast jafnvel. Þar á ofan er skilningur á orðum og setningum misjafn milli manna. Þess vegna er brýnt að kanna, hver var merking orðanna, þegar lög voru sett og hver var ÆTLUN höfunda laganna, það er alþingismanna. Þá ætlun má sjá í greinargerð og umræðu á alþingi. Þar liggja lögin, en ekki í fáránlegum orðskýringum hæstaréttardómara, sem fátt eitt kunna í íslenzku.

Okkur vantar kannanir

Fjölmiðlun, Punktar

Nú fer senn að verða áhugavert að sjá skoðanakannanir. Við erum að byrja að sjá, hvernig framboð skipast og getum farið að taka afstöðu. Við þurfum að sjá, hvaða ný framboð valda fjórflokknum mestum usla. Við þurfum á slíkum usla að halda, því að bófar fjórflokksins ganga fram af fólki. Ég vænti, að þeim fjölgi ört, sem sjá sorglegar pólitískar staðreyndir. Þegar ég tala um kannanir, á ég ekki við atkvæðagreiðslur á vefnum, sem hafa ekkert gildi. Við þurfum gamaldags kannanir, sem forðast kúnstir á borð við að þráspyrja um stuðning við einn flokk. Góðar kannanir auðvelda fólki að taka afstöðu.

Ábyrgð Samfylkingarinnar

Punktar

Sumir þingmenn og álitsgjafar Samfylkingarinnar telja sér trú um, að hún sé saklaus af ógöngum stjórnarskrárinnar. Vilja kenna stjórnarandstöðunni um klandrið. Vilja gleyma þætti Samfylkingarinnar. Verkstjórar hennar á þingi hafa ítrekað trassað að fylgja stjórnarskránni fast eftir. Misstu til dæmis niður allan fyrri hluta janúar. Samt var þá vitað, að hún væri að falla á tíma. Einstakir þingmenn flokksins hafa líka grafið undan stjórnarskránni. Ber þar frægastan að telja nýjan formann flokksins. Hefur rætt við formenn stjórnarandstöðunnar um að láta allan þorra málsins liggja að þessu sinni.

Bjarni er búinn

Punktar

Bjarni Benediktsson verður að víkja sem flokksformaður. Í fyrsta lagi gengur ekki, að fólkið hafi fjöldagjaldþrot fyrirtækja fyrrverandi vafnings að háði og spotti. Í öðru lagi mistókst honum í landsfundarræðunni að slá út formann Framsóknar í sjónhverfingum og þjóðrembu. Bjarni er enginn Sigmundur Davíð, bara óvinsæll pólitíkus. Flaggar enn helgisögu um, að lægri auðskattar leiði til velmegunar. Og segist redda skuldum banka og stórfyrirtækja með því að banna þeim að greiða erlendar skuldir. Skemmtileg fjárfestingarleið, sem að minnsta kosti gerir honum ókleift sem forsætisráðherra að krækja í lánsfé.

 

Lækkar skatta og skuldir

Punktar

Bjarni Benediktsson segist lækka skatta, þegar hann komist til valda í vor. Byrja á tryggingagjaldi og fara síðan í hátekjuskatt og fjármagnstekjuskatt. Tekjurnar, sem ríkið tapar á þessu, hyggst hann bæta upp með því að lækka skuldir ríkisins. Bíðið við, hver er rökhyggjan í þessu: Lækka skatta, lækka skuldir? Þetta er einfaldlega samkeppni við Sigmund Davíð Gunnlaugsson um að sprauta froðu í andlit grunnhygginna kjósenda. Formaður Sjálfstæðisflokksins er sannfærður um, að fulltrúar á landsfundinum séu svo skyni skroppnir, að þeir klappi fyrir töfralausninni. Og það gerðu þeir raunar svikalaust.

Lögmaður upplýsir nafn

Punktar

Meirihluti Stúdentaráðs gaf yfirlýsingu um meðferð fyrri framkvæmdastjóra og hagsmunafulltrúa á krítarkortum. Höfðu heimild til að nota litla upphæð og fóru hálfa milljón framúr. Heitir venjulega kortamisferli. Ákveðið var, að þeir endurgreiddu féð. Því seinkaði, svo að tölurnar komu fram í bókhaldi. Hvellur varð, féð var loks endurgreitt og ekki gerðar frekari kröfur. Allt samkvæmt Stúdentaráði. Heimir Hannesson, ekki áður nefndur, sagður umræddur hagsmunafulltrúi, lætur svo Vilhjálm H. Vilhjálmsson hrl. senda hótanir um lögsóknir. Vegna ærumeiðinga um sig, sem fram að því hafði verið nafnlaus.

Tefja og tæta til dauðs

Punktar

Óþjóðalýðurinn á alþingi hefur svikið þjóðina verr en nokkru sinni fyrr. Í upphafi kjörtímabilsins komst til valda ný stjórn út á skrifleg loforð um stjórnarskrá og fyrningu kvóta. Þau loforð voru aðeins gefin til að ná kjöri og geta myndað stjórn. Fyrning kvótans var sent beint í allsherjar klúður, en stjórnarskránni var fleygt í feril fólksins. Svo kom í ljós, að sá ferill skilaði árangri. Stjórnlagaráð náði eindrægni um nýja stjórnarskrá og þjóðin samþykkti útkomuna yfirgnæfandi í þjóðaratkvæði. Óþjóðalýðurinn á alþingi hefur síðan beitt alls konar brögðum til að tefja og tæta málið til dauðs.

 

Burt með ríkisstjórnina

Punktar

Vantrauststillaga Þórs Saari er réttmæt. Ríkisstjórnin ætlaði sér ekki að fá nýja stjórnarskrá samþykkta á þessu þingi. Hún hefur dregið málið á langinn. Til dæmis með því að hafa alþingi í fríi fyrri hluta janúar. Mér hefur lengi verið ljóst, að hún er bara að leika rullu. Er ekki að fylgja málinu eftir af neinum þrótti. Ríkisstjórn, sem hunzar eindregna þjóðaratkvæðagreiðslu, á að fara frá hið bráðasta, annað er siðlaust. Enda er hún með allt niðri um sig. Hefur ekki bara klúðrað stjórnarskrá, heldur einnig þjóðareign á kvóta. Ekki gengur að þykjast stjórna, þegar enginn meirihluti er fyrir stjórninni.

Skuldastaðan er bærileg

Punktar

Skuldastaða heimila er skárri en hagsmunasamtök þeirra láta í veðri vaka. Um 80% fólks standa í skilum. Hlutfallið var um 90% fyrir hrun 2008. Staðan er að vísu tvöfalt verri en hún var fyrir hrun, en samt bara minnihluti fólks. Út frá þessum grófu tölum má halda fram, að 10% séu ætíð í vanda með fjármál sín, jafnvel í froðuhagkerfi fyrirhrunsáranna. Viðbótin vegna hrunsins sé bara 10%. Auðvitað er það vandi, en langt frá því vandi allra heimila. Ég held, að fólk skilji. Það skýri ekkert fylgi Samstöðu og Dögunar og ekkert fylgi fulltrúa Hagsmunasamtaka heimilanna í forsetakosningunum í haust.

Vandi Dögunar

Punktar

Dögun og Lýðræðisvaktin hafa sömu stefnuskrá nema í málum Hagsmunasamtaka heimilanna. Kunnir stjórnlagaráðsmenn sættu sig ekki við þann kafla í stefnu Dögunar. Ég hef líka bent á, að ekki sé skynsamlegt að hafa hagsmunasamtök innan pólitísks flokks. Stefna Hagsmunasamtaka heimilanna er umdeild. Til dæmis óttast margir, að markmiðin lendi á herðum skattgreiðenda. Þeir hafa sízt efni á að bæta á sig byrðum. Ég er viss um, að stefna Dögunar blandast óskhyggju og sjónhverfingum. Þær fela í sér, að hægt verði að láta vandamál hverfa með töfrasprota. Málamiðlun milli óskhyggju og veruleika er vandasöm.

Ást og hatur

Punktar

Íslendingar eiga í ástar- og haturssambandi við Evrópu. Flest fer úrskeiðis hér og þá þykir sjálfsagt að kæra í evrópska yfirdómstóla. Jafnframt hafna þjóðrembingar, að Evrópa dragi okkur inn í eldhafið í sínu skelfilega húsi. Gott er talið, að evrópskur fríverzlunardómstóll dæmi okkur í hag í IceSave, þótt ÓRG telji hann marklausan. Telja sjálfsagt, að mannréttindadómstóllinn evrópski verndi fólk fyrir vondum Hæstarétti. En mega ekki til þess hugsa að taka þátt í Evrópu og fá evru í stað verðbólgu. Og nú vill hin hataða Evrópa jafnvel banna verðtryggð neytendalán. Hvað næst, glerperlur og eldvatn?

Svínsleg fortíð

Punktar

Svínslegt er sagt af fjölmiðlum að tala um Bjarna Benediktsson og andvana fortíð hans. Sem sendiboða hjá N1, BNT, Mætti, Vafningi, Sjóvá. Félög tengd formanni Sjálfstæðisflokksins hafa kostað ríkið og skattgreiðendur rúmlega 66 milljarða króna. Í heild nemur gjaldþrot þeirra um 150 milljörðum króna. Olli þannig öðrum fyrirtækjum miklu tjóni. Að Sjálfstæðisflokkurinn geti notað sendiboða með fortíð úr svínastíunni sem formann er mér torskilið. Skrítnara er, að hann telji sig munu innleiða heilbrigð fjármál í kerfið. Eftir aðild að 150 milljarða gjaldþroti og 66 milljarða tjóni skattborgara.