Punktar

Miskunnarleysi kannana

Punktar

Þótt skoðanakannanir séu ónákvæmar, einkum þegar svörun er léleg, er rétt að taka mark á meginlínum niðurstaðna þeirra. Eins og aðrar fréttir um þjóðmál koma skoðanakannanir fólki að gagni. Þess vegna er full ástæða til að hafa áhyggjur af pólitískri heilsu kjósenda. Þeir eru haldnir gullfiskaminni og trúa meira eða minna blint á stefnuskrár og kosningaloforð. Þó ætti reynslan að segja fólki, að þetta eru næsta marklaus fyrirbæri hjá hinum hefðbundnu flokkum. Reynslan gleymist og fólk er ætíð reiðubúið að trúa nýjum loforðum. Skoðanakannanir sýna nákvæmlega, að þjóðin kann ekkert með lýðræði að fara.

Silfurskeið formanna

Punktar

Tveir vinsælustu stjórnmálaflokkar landsins eru undir stjórn erfingja með silfurskeið í muni. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er Kögunarbarnið, Bjarni Benediktsson er laukur Engeyjarættar. Gæta hagsmuna auðstétta og einkum þó kvótagreifa. Báðir andvígir nýrri stjórnarskrá og öðrum inngripum í gróið mynztur valdanna. Í gamla daga var samstarf þessarra tveggja meginflokka kallað Helmingaskiptafélagið. Kjósendur virðast hafa ákveðið, að heppilegt sé að fá þetta bófafélag aftur til valda. Má hafa það til marks um, hversu illa ríkisstjórn Jóhönnu hefur tekizt til á ofanverðu kjörtímabili sínu.

Birtir yfir Styrmi

Punktar

Með hótun um hreinsanir á Rúv er Styrmir Gunnarsson að undirbúa betra veður í kosningabaráttu Flokksins. Sér nána framtíð svona: “Fara menn að velta því fyrir sér, hverja í embættismannakerfinu eigi að setja út í kuldann og hverjum eigi að umbuna.” Telur gott að hræða RÚV-fólk til að “skapa meira jafnvægi í umfjöllun þess fjölmiðils”. Hugarfar hans er eins og hann lýsti sjálfur í vitnaleiðslu fyrir rannsóknarnefnd Alþingis: “Þetta er ógeðslegt þjóðfélag, þetta er allt ógeðslegt. Það eru engin prinsipp, það eru engar hugsjónir, það er ekki neitt. Það er bara tækifærismennska, valdabarátta.“

Hringekjan snýst

Punktar

Kjósendur hugsa ekki út fyrir ramma fjórflokksins. Ný framboð hafa lítið sem ekkert fylgi í könnunum. Í síðustu kosningum refsuðu kjósendur Flokknum og Framsókn, en hossuðu Samfylkingunni og Vinstri grænum. Í næstu kosningum ætla þeir að refsa Samfylkingunni og Vinstri grænum, en hossa Framsókn. Því snýst hringekja heimskunnar áfram. Ýmist velja menn bjána eða bófa. Við því er sennilega ekkert að gera. Sjálfstæðisflokkurinn er sáttur við sitt litla fylgi. Orðinn digurbarkalegur, treystir á Framsókn. Styrmir Gunnarsson er þegar farinn að hóta að hreinsa kontórista, sem hann hefur á svörtum lista.

Gnarr og Grillo

Punktar

Beppe Grillo er hress útgáfa af Jóni Gnarr, grínisti, sem rekur kúbein í gangverk pólitískrar Ítalíu. Alexis Tsipras með sama hlutverk í Grikklandi, gefur skít í kerfið. Við munum eftir Pierre Poujade, sem lék fífl í franskri pólitík með góðum árangri. Já, kannski var Mogens Glistrup af sama meiði í Danmörku. Beppe Grillo er einkum andstæðan við Mario Monti, sem kerfiskarlar settu til valda með stuðningi evrópskra bankavina. Monti kaghýðir Ítali með svipu samdráttar, síðan Silvio bófa Berlusconi var sparkað sællar minningar. Stjórnleysinginn Grillo segist bara vilja rífa niður ónýtt kerfi. Gott mál.

Meira eftirlit takk

Punktar

Þótt eftirlitsstofnun standi sig illa, er ekki rökrétt afleiðing að leggja eftirlit niður. Þótt Vigdís Hauksdóttir telji svo. Við þurfum til dæmis eftirlit með matvælagerð, þótt Matvælastofnun sé fúskari. Við þurfum bara að skipta um toppana, fá menn, sem ekki telja hlutverk sitt vera að sofa. Sjaldan fær fólk upplýsingar frá Matvælastofnun um hættuleg matvæli. Hún reynir að halda öllu slíku leyndu. Kjötlausa kjötvaran úr Borgarnesi er undantekningin, sem sannar regluna. Við þurfum Matvælastofnun, sem leggur spilin á borðið. Sem segir okkur nákvæmlega, hvaða fyrirtæki brjóta hvernig hvaða reglugerðir.

Saga úr villta vestrinu

Punktar

Pétri Einarssyni bankastjóra er meinað að reka fyrirtæki í Bretlandi næstu fimm ár. The Insolvency Agency ákvað þetta vegna fyrirtækis hans, Cbridge Ltd., sem varð gjaldþrota. Það skuldaði 40 milljónir króna í brezka skatta. Samt greiddi Pétur sér 20 milljónir króna út úr fyrirtækinu í aðdraganda greiðslustöðvunar þess. Brezkum yfirvöldum líkar það stórilla. Hér á landi líta menn allt öðrum augum á silfrið. Fjármálasnillingurinn er bankastjóri Straums með hálfa þriðju milljón króna á mánuði í laun. Þetta er munurinn á siðmenntuðu Evrópuríki og villta vestrinu hér. Við hreinsum ekki bankana.

Ekkert kjöt í kjötinu

Punktar

Alla mína starfsævi vakti athygli mína, hversu lygnir Íslendingar eru. Þeir horfa blákalt í augu þér og segja tóma lygi. Siðblinda lýsir sér til dæmis í, að engar íslenzkar innihaldslýsingar matvæla mælast réttar. Matvælastofnun segir  ekkert kjöt vera í einum nautakjötsrétti. Þjóðrembingar segja samt, að úti í Evrópu sé gölluð skráning á innihaldi matvæla. Dæmigerð remba. Hef oft sagt, að ég trúi ekki orði af lýsingum íslenzkra matvæla og kaupi þau varla. Tel þau vera lið í almennri og gróinni siðblindu kúgaðra þræla. Hugsa um það eitt að grilla og græða. Flokkurinn og útrásin byggjast líka á mögnuðu siðblindunni.

Tíu afskriftakóngar

Punktar

Spillingu stjórnmálaflokka má ráða af lista yfir afskriftakónga fyrrverandi og núverandi alþingismanna. Af þeim tíu efstu eru sjö sjálfstæðismenn, tveir framsóknarmenn og einn frá Samfylkingunni. Kratinn er Lúðvík Bergvinsson, sem fékk treikvartmilljarð afskrifaðan. Frá Framsókn eru Jónína Bjartmarz og Árni Magnússon, sem fengu hvort um sig kvartmilljarð afskrifaðan. Svo er það restin, Sólveig Pétursdóttir með hálfan fjórða milljarð, Þorgerður Katrín með hátt í tvo milljarða, Herdís Þórðar með milljarð, Ármann Kr. Ólafsson með kvartmilljarð, Bjarni Ben, Ásta Möller og Ólöf Nordal lægri. Flott lið.

Dulrænir umbar

Punktar

Við vitum, að dulræna umboðsmenn ógreiddra atkvæða er að finna í þingflokki sjálfstæðismanna. Þeir vita um hugsanir fjarstaddra og geta upplýst, hvernig þeir hefðu greitt atkvæði, hefðu þeir mætt. En umboðsmenn eru fleiri. Ragnar Arnalds hefur gerzt umboðsmaður brottfarinna atkvæða. Segir, að andstæðingar ályktunar á landsfundi vinstri grænna hafi verið farnir, þegar greidd voru atkvæði um ályktunina. Hefur sérstaka náðargáfu að vita um viðhorf þeirra, er ekki hirtu um að greiða atkvæði. Eins og Birgir Ármannsson alþingismaður. Dulræna hæfni þeirra félaga þarf að virkja til að víkka og breikka lýðræðið.

Allt er við það sama

Punktar

Fylgi færist af Sjálfstæðisflokknum yfir á Framsókn og af Samfylkingunni yfir á Bjarta framtíð. Engar fréttir, því þær fela ekki í sér tilfærslu milli pólitískra fleka. Fólk kýs áfram hina þekktu flokka og til viðbótar flokk, sem fæddist gamall, með tvo þingmenn og án stefnuskrár. Enginn nýju flokkanna fær enn neitt út úr skoðanakönnunum. Það er stóra og alvarlega fréttin. Þótt mikið framboð sé af alls kyns sjónarmiðum, sem eru á skjön við fjórflokkinn, kveikir ekkert þeirra. Með sama vitfirrta áframhaldi verður landinu stjórnað af sams konar bófum og bjánum og stjórnað hafa um áratugi.

Yfirstéttin parkerar

Punktar

Yfirgengileg var frekja fulltrúa á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Lögðu jeppum upp á viðkvæmt gras í leysingum og spilltu gróðri. Lögðu á stéttum og hindruðu umferð gangandi fólks. Hjólastólafólk komst ekki nærri landsfundi græðgisliðsins, sem hélt sinn tíma vera kominn. Parkeringar yfirstéttarinnar endurspegla flokkinn og frekju hans. Snýst alls ekki um hagsmuni heimilanna, heldur hagsmuni (hei!) millanna. Eigendur 100 jeppa fengu sekt. Tími þeirra, sem græða á daginn og grilla á kvöldin, var ekki enn kominn. Kannski verða sektirnar afskrifaðar eftir kosningar. En kosningaspáin hefur snarversnað.

Aukinn vandi Flokksins

Punktar

Sjálfstæðisflokkurinn býr við aukinn vanda. Stefnan sérvitrari en hún var, andstaða við Evrópu eindregnari og stuðningur við kvótagreifa eindregnari. Flokkurinn hefur engan veginn gert upp fortíðina, hamfarastefnu  Davíðs og Hannesar Hólmsteins. Raunar lætur flokkurinn eins og fortíðin sé ekki til. Þjóðarsagan hafi byrjað árið 2009 eftir hrun Geirs H. Haarde. Flokkurinn staðfestir flokksformennsku þátttakanda í svikamyllum hrunverja, í Vafningi, Sjóvá, N1, BNT og Mætti. Kannski löglegt, en án efa siðlaust. Fatti þjóðin þessa veikleika flokksins, verður hann ekki upp á marga fiska í kosningunum.

 

Skynsemin ræður

Punktar

Landsfundarályktun Vinstri grænna um Evrópuviðræður stingur gat á þjóðrembu Ögmundar Jónassonar. Hann hefur blaðrað frá sér allt vit um glerperlur og eldvatn, logandi eldhaf í Evrópu og þrá Þjóðverja eftir lífsrými á Íslandi. Mér er minnisstætt, að þetta voru orðin, sem hann notaði. Ályktunin stingur líka gat á þjóðrembu Jóns Bjarnasonar skemmtikrafts, sem sí og æ tönnlast á, að Vinstri grænir hafi svikið stefnu flokksins. Vissulega eru Vinstri grænir enn andvígir Evrópuaðild, en þeir vilja klára viðræðurnar. Heimalningarnir Styrmir og Björn eru sótsvartir af bræði, telja sig svikna í tryggðum.

Ofstæki og einangrun

Punktar

Stríðari ómur í ályktunum landsfundar Sjálfstæðisflokksins vakti athygli um helgina. Flokkurinn var nær búinn að samþykkja trúarofstæki að hætti hinnar illræmdu teboðshreyfingar í Bandaríkjunum. Þá ályktun tókst að stöðva, en í gegn fór sérkennilega þjóðrembd ályktun um, að lokað verði fyrir viðræður um aðild að Evrópusambandinu. Vel hefði verið hægt að orða þá ályktun rólegar. Virtist af ásettu ráði orðuð til að fæla evrópusinna úr flokknum. Minnir mig á fyrri landsfund, sem baulaði náttúruvernd úr ræðustóli og út af fundi. Hér er flokkur á hraðri ferð til aukins ofstækis og einangrunar á ýmsum sviðum.