Punktar

Þjóðaratkvæði í vor

Punktar

Frábær er sú hugmynd að hafa þjóðaratkvæði um núverandi frumvarp að nýrri stjórnarskrá samhliða alþingiskosningum í vor. Þar með væri slegið föstu, hvort þjóðin vill þessa nýju stjórnarskrá eða ekki. Nýtt alþingi fengi að vísu tækifæri til að sparka enn einu sinni í þjóðina. En sú ákvörðun er þá bara vandi þess alþingis. Of mikið hefur verið fullyrt í allar áttir á þingi um kosti og galla þessa nýja frumvarps. Því er gott, að þjóðin fá tækifæri til að segja sitt álit. Frumvarp um það má afgreiða samhliða afgreiðslu stjórnarskrárinnar. Í því skyni má lengja þingtímann til næstu mánaðamóta.

Mývatni slátrað næst

Punktar

Þetta er verk pólitíkusa, sem voru geðbilaðir af frekju. Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson ákváðu að valta yfir Skipulagsstofnun. Hún hafði varað við flutningi Jökulsár yfir í Lagarfljót. Fljótið “var eyðilagt vísvitandi af spilltum stjórnmálamönnum”, segir Andri Snær Magnason um Davíð og Halldór “ofbeldismenn”. Það er rétt lýsing á hrottafenginni frekju og yfirgangi, sem höfundar hrunsins sýndu landi og þjóð. Kominn er tími til að setja dólgana bak við lás og slá. Fá loksins frið í landinu fyrir dólgum, sem blindast af sínu pólitíska valdi. Næsta skref næstu frekjudólga verður að eyða Mývatni.

Nægur tími á alþingi

Punktar

Ekkert í lögum bannar fundi alþingis allt fram að kjördegi. Engin lögmál segja, að þingmenn eigi að hafa styttri vinnutíma en aðrar stéttir. Þeir hafa fátt þarfara að gera en að ræða nýja stjórnarskrá næstu fimm vikur. Ákveði þeir að fara í frí löngu fyrir kjördag, eru þeir að misnota aðstöðu sína. Stjórnarskráin hefur verið meira en nógu lengi í vinnslu. Á öllum stigum málsins verið tekið tillit til meintra sérfræðinga. Nú síðast til vitringa frá Evrópu. Á öllu þessu hefur þegar verið tekið. Alþingi er því ekkert að vanbúnaði að fara í fimmtíu stunda málþóf og greiða síðan atkvæði.

Hástig sjónhverfinga

Punktar

Afkastamesti sölumaður snákaolíu á landinu er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Getur haft tvö gagnstæð trix á lofti samtímis. Í fyrsta lagi hyggst hann stela peningum erlendra fjárfesta til að borga skuldir fólks í of stórum íbúðum. Í öðru lagi hyggst hann laða erlenda fjárfesta til landsins til að fjármagna gæluverk Framsóknar. Mikla hæfileika til sjónhverfinga þarf til að ná báðum markmiðum samtímis. En hann veit, að aldrei hefur neinn tapað á að vanmeta greind almennings. Þess vegna flykkist fylgið þeim mun meira til Framsóknar sem Sigmundur Davíð lofar fáránlegri pennastrikum út og suður.

Stóri bróðir blankur

Punktar

Um daginn var fjallað um aðgang að lyfjum, sem kosta nokkra tugi þúsunda króna á ári og hægja bara á sjúkdómi. Því hökti það í tryggingakerfinu. Samt eru þetta smáaurar í samanburði við ýmsar varnir eða frestanir gegn ýmsum sjúkdómum, bæði lyf og síur. Geta lyfjafræði og læknisfræði við að búa til lyf og síur vex margfalt hraðar en geta samfélagsins við að borga aukinn sjúkrakostnað. Kostnaður við suma sjúkdóma verður svo hár, að fyrr eða síðar setjast kerfismenn niður við að velja og hafna. Ekki getur ríkið endalaust borgað ofsadýrar nýjungar. Sumu verður hafnað, því Stóri bróðir er blankur.

 

Hundrað milljörðum stolið?

Punktar

Því meira sem reynt er að hindra birtingu símtals Davíðs og Geirs 6. október 2008, þeim mun meira stækkar málið. Enda snýst það um 500 milljón evrur, sem gætu numið 100 milljörðum króna á réttu gengi. Snýst um meira fé en kostnað við nýja Landspítalann. Alvarlegar spurningar hafa birzt í fjölmiðlum: Hver var tilgangur fjárveitingar Seðlabankans á hrundeginum? Í hvað átti aurinn að fara? Hvers vegna fór peningurinn til Deutsche Bank, en ekki til London? Átti ekki að bjarga fyrirtæki Kaupþings þar? Hvað varð um peninginn, stal einhver honum? Kannski smámál fyrir Davíð, en stórmál fyrir kvalda þjóð.

Kerfið forheimskar fólkið

Punktar

Mary Luz Suarez Ortiz sjónvarpskokkur fær ekki ríkisborgararétt af dulinni ástæðu. Mál hennar hefur verið í fréttum í tvo sólarhringa án þess að okkur sé sagt frá ástæðunni. Kerfinu er nánast fyrirmunað að gefa upplýsingar. Annað dæmi er símtal Davíðs Oddssonar og Geirs H. Haarde 6. október 2008, þegar hundrað milljarðar hurfu út í buskann. Búið er að fjalla um þetta í mörg ár, en kerfinu er fyrirmunað að gefa upplýsingar. Því er ekki skrítið, þótt þjóðin sé úti að aka í pólitík. Hún fær ekki að vita neitt um það, sem máli skiptir. Kerfið telur það vera hina mestu ósvinnu að uppfræða fólkið.

Ilmurinn af útlöndum

Punktar

Staða Íslendinga gagnvart umheiminum og Bruxelles sérstaklega er tvíeggjuð. Minnir mig á stöðu mína fyrir rúmum fimm áratugum gagnvart umheiminum og Þýzkalandi sérstaklega. Eftir stúdentspróf valdi ég milli þess að fara vel troðinn stíg í háskólanum eða finna ilminn af hinum stóru útlöndum. Ég valdi síðari kostinn og hef síðan ekki verið samur. Fattaði, að Ísland er ekki nafli alheimsins. Og að flestu er betur fyrir komið í útlöndum. Síðan hef ég verið Evrópusinni. Vil nota Evrópu til að losna úr þrælakistu innlendra yfirstéttarbófa. Sú þrælakista er skálkaskjól bófanna og heitir þjóðremba.

Stríðið gegn neytendum

Punktar

Á sama tíma og landbúnaðurinn gælir við hugmyndir um aukinn útflutning á kjöti hamast hann gegn innflutningi. Þar á bæ ímynda menn sér, að séríslenzk einstefna á þessu sviði gangi upp. Eftirlitsstofnun EFTA er þó farin að hafa afskipti og heimtar rök fyrir hinni íslenzku óskhyggju. Raunar er óskhyggjan ekki íslenzk, því hún andstæð hagsmunum neytenda, sem vilja og þurfa aukna fjölbreytni. En pólitíkusarnir hugsa aldrei um hagsmuni neytenda, bara um sérhagsmuni. Steingrímur J. Sigfússon segir, að við “tökum þetta stríð alveg til enda”. Hyggst berjast gegn neytendum alveg til enda. Það er dæmigert.

Inngróin leyndarhyggja

Punktar

Leyndarhyggja er versti vandi þjóðarinnar. Vanþekking hennar á gangverki þjóðfélagsins gerir henni ókleift að gegna skyldum frjálsborinna borgara. Hundrað milljarða símtal Davíðs og Geirs í hruninu er enn leyndó. Heilar stofnanir passa, að fólk fái ekkert markvert að frétta. Fremstar fara þar Persónuvernd bófa, sem bannar birtingu kennitalna. Og Úrskurðarnefnd um upplýsingamál, sem hafnar birtingu hvers kyns ríkisskjala. Allir bankar fela illvirki sín að baki bankaleyndar, jafnvel Seðlabankinn. Kontóristar ríkis og ríkisverndaðra stofnana telja öll opinber gögn vera sitt eigið prívatmál.

Hundrað milljarða símtal

Punktar

Stærsta einstaka tjón okkar í hruninu varð 6. október 2008. Þá töluðu Davíð Oddsson og Geir H. Haarde saman í síma. Umræðuefnið var veðlaust lán Davíðs seðlabankastjóra til Kaupþings upp á 500 milljónir evra eða 100 milljarða króna. Símtalið var tekið upp í Seðlabankanum. Alþingi hefur ítrekað reynt að komast yfir símtalið, en ekki fengið enn. Hlýtur það þó að segja mikla sögu um, hvor bófinn ber meiri ábyrgð á þessu stjarnfræðilega tjóni okkar. Lánið var veitt án veða og án pappíra eða skjala. Engar forsendur voru til fyrir slíkri óreiðu. Seðlabankinn varð gjaldþrota á kostnað skattgreiðenda.

Þorrinn verður langur

Punktar

Fyrir löngu hafði krónan gengi. Gátum farið með hana í banka og skipt fyrir evru. Blöðruhagkerfi Davíðs sprengdi himnaríkið í loft upp. Nú er krónan verðlaus, hefur ekkert gengi. Réttar sagt alls kyns gengi eins og á tíma bátagjaldeyris. Seðlabankinn skammtar evrur á ýmsu verði, á aldrei nægar, of margir bítast um þær. Slík verður staðan í mörg ár. Þurfum að taka upp evru, en höfum ekki burði, uppfyllum ekki skilyrðin. Verðum enn að þreyja þorrann, fara varlega í að lina höft. Á meðan fáum við lítið af lánum, hver lánar fávitum? Verðum að treysta á ferðaþjónustu, sem kostar litla fjárfestingu.

Hagvöxtur er blásin blaðra

Punktar

Hagstofan segir okkur, að fjárfesting í fyrra hafi verið svipuð og hún var árið 1997. Mörgum finnst 1,6% of lítið, hefðu viljað 3,4%. Miðuðu þá við Helguvík, Landspítala og Vaðlaheiði, sem hefur seinkað. Allt ríkisdrifnar framkvæmdir, sem sýna íslenzka kapítalismann í hnotskurn, ríkisdrifinn pilsfaldakapítalisma. Kostunarmenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar hafa alltaf lifað á pólitíkinni, en ekki á eigin verðleikum. Gjafakvóti útgerðar og uppgrip verktaka eru þar stærstu liðirnir. Þótt ríkisdrifnar framkvæmdir reiknist í hagtölum, er það marklaus hagvöxtur, blásið lofti í blöðrur.

Dramatísk pennastrik

Punktar

Framsóknarflokkurinn ber mesta pólitíska ábyrgð á því, sem hagsmunaaðilar kalla forsendubrest í skuldum heimila. Barðist fyrir 90% íbúðalánum, þótt vita mætti, að slíkt væri æðislega áhættusamt. Framsókn hefur ætíð verið fyrir dramatísk trix. Eins og þegar hún ætlaði að afnema fíkniefni með einu pennastriki. Minnir á Ögmund Jónasson, Stóra bróður í klámmála-ráðuneytinu. Dramatísk árátta Framsóknar magnaðist í innreið Kögunarbarnsins í formennsku flokksins. Nýja pennastrikið felst í afskrift skulda heimilanna. Á kostnað hverra? Auðvitað er trixið á kostnað skattgreiðenda, eins og önnur dramatík.

Dýrasti potarinn

Punktar

Hratt breytist fyrrum landsfaðir í ýkta mynd Kristjáns Möllers. Steingrímur J. Sigfússon er orðinn kjördæmapotari af dýrustu sort. Draumur Húsvíkinga um stóriðju í túngarðinum á að rætast. Til þess að svo megi verða þarft þú að borga hálfan fjórða milljarð. Það er rétt, skattgreiðendur eiga að punga út þessari upphæð. Stóriðjan verður nefnilega á kostnað almennings eins og þær hinar fyrri. Þetta verða styrkir í höfn og vegi, lagfæringu lóðar og einkum þó í svokallaða “innviði”. Þá verða þarna niðurgreiðslur á þjálfun og fleira fyrir bláfátæka stóriðju, sem skattgreiðendur borga auðvitað með glöðu geði.