Punktar

Þeir nýju fá rödd

Punktar

Af þjóðarpúlsinum sé ég, að tvö af nýju framboðunum eru að byrja að hreyfast upp. Því miður er púlsinn tekinn samfellt yfir heilan mánuð, svo að hluti af upplýsingunum er of gamall. Nær illa páskasveiflunni, vanmetur hana. Píratar og Lýðræðisvaktin fá örugglega þingmenn og enn er von bæði í Hægri grænum og Dögun. Önnur ný framboð eru vonlítil enn sem komið er. Stjórnarflokkarnir eru sem fyrr í botni og Framsókn rakar fylgi frá Flokknum. Flest bendir til helmingaskiptastjórnar öldnu bófaflokkanna undir forustu silfurskeiðunganna. Nýju flokkarnir fá bara rödd á Alþingi, en engin völd. Svona er þjóðin bara.

Umræða um Nígeríubréf

Punktar

Góð var sjónvarpsumræða flokksformanna í gærkvöldi. Formenn nýju flokkanna komu yfirleitt vel fyrir. Vonandi hraðar fundurinn fylgisaukningu þeirra, sem var að byrja að taka við sér um páskana. Að öðru leyti fór umræðan fyrir ofan garð og neðan. Fólk heyrði þó, hvernig menn segjast munu galdra kanínur upp úr hatti fyrir heimilin. Meiningin er að framleiða hundruð milljarða með sjónhverfingum að hætti Framsóknar. Hinir flokkarnir hafa uppgötvað, að mest fylgi fæst með því að gefa út slík Nígeríubréf. Fátt gleður marga kjósendur meira en að fá send slík bréf, þótt bitur reynsla eigi að segja þeim annað.

 

Grænan flokk vantar

Punktar

Okkur vantar grænan flokk, sem ver landið og þjóðina fyrir ofstæki stóriðju, Landsvirkjunar, HS Orku og kjördæmapots. Fráfarandi formaður vinstri grænna gengur fram fyrir skjöldu að knýja fram ríkisstyrk til stóriðju á Húsavík. Í meðlag Steingríms eiga að fara þrír og hálfur milljarðar skattgreiðenda. Án tillits til áhrifa orkuvers í Bjarnarflagi á Mývatn og á verðgildi vatnsins sem miðstöðvar ferðaþjónustu. Þetta er svo vitlaust og vanhugsað, að jaðrar við geðveiki. Vinstri grænir eru því ekki grænir fremur en aðrir flokkar hér á landi. Við þurfum flokk, sem berst fyrir nýju umhverfismati við Mývatn.

Étum brauð og eigum það

Punktar

Í þjóðfélagi fáráðlinga er sniðugt að leysa mál með því að afnema eignarétt vondra eigenda. Því er hampað orðunum vogunarsjóður og hrægammasjóður. Til að sýna fram á, að rétt sé að leysa skuldavanda á kostnað þeirra. Skrítið er, að hinir sömu snjöllu sjónhverfingamenn flagga einnig hugmyndum um að efla hagvöxt, soga hingað erlent lánsfé. Til að reisa orkuver fyrir stóriðju við Húsavík og Keflavík, til að bora göng í Vaðlaheiði, til að reisa spítala í Reykjavík. Spyrja má, hvort erlent lánsfé fáist í kjölfar eignaupptöku. Þá muldra þeir um lífeyrissjóðina, telja rétt að hirða líka eignir sjóðfélaga.

Ríkir gegn fátækum

Punktar

“Flestir af þeim sem stjórna okkur eru sjálfhverfir fábjánar. … Við erum einfaldlega að upplifa efnahagslegan hernað ríkra gegn fátækum.” Segir einn þekktasti blaðamaður Guardian um áform ríkisstjórnar Breta. Íhaldsflokkurinn og Frjálslyndir hyggjast lækka skatta á hátekjufólki og spara á móti velferð á borð við húsaleigubætur og velferðarbætur. Í stíl við harða stefnu hægri hugmyndafræðinga á Vesturlöndum. Þetta mun koma sterkt til álita hér, þegar Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn taka völdin í vor. Fæddir með silfurskeið í munni halda formenn, að auður hátekjufólks sáldrist niður til fátækra.

Kurteisi betri en bandalag

Punktar

Kosningabandalag nýflokka er síðbúin hugmynd, þegar kosning utankjörstaðar er þegar hafin. Hún getur strandað á sérvizku kjörstjórna hér og þar, sem taka hóflegt mark á leiðbeiningum ráðuneytis. Vissara er fyrir nýflokkana að halda sínu striki, hver undir sínu merki. Vinna á þeim grundvelli, sem þegar er mótaður. Ekkert hindrar nýflokkana í að gæta hófs í innbyrðis átökum í kosningabaráttu. Sameiginlegur óvinur er fjórflokkurinn, sem heldur þjóðinni í gíslingu. Almenn kurteisi í garð hver annars í aðdraganda kosninganna er heppilegra leiðarljós nýflokka. Gefur þeim annað yfirbragð en fjórflokksins.

Uppþot við Mývatn?

Punktar

Svokallað mat á umhverfisáhrifum var marklaust á valdatíma Sjálfstæðisflokks og Framsóknar. Framleitt af starfsmönnum Landsvirkjunar og öðrum, sem voru þóknanlegir. Væri það neikvætt, komu framsóknarkerlingar til skjalanna, Siv Friðleifsdóttir og Valgerður Sverrisdóttir. Þær völtuðu bara yfir matið, svo einfalt var það. Vegna þessarar fortíðar er marklaust að nota tíu ára gamalt umhverfismat á orkuveri í Bjarnarflagi við Mývatn. Þar þarf nýtt mat, sem er óháð Landsvirkjun og óháð ráðherra hverju sinni. Hugmynd Harðar Arnarsonar forstjóra um notkun tíu ára gamals mats er fráleit og mun valda uppþotum.

Þrælaþjóðin

Punktar

“Það er álitið að fáar þjóðir hafi þolað kúgun og yfirgáng af meiri kurteisi en Íslendíngar. Um aldaraðir alt fram á þennan dag lifðu þeir í skilníngsríkri sáttfýsi við kúgun, án þess að gera nokkru sinni tilraun til uppreistar. Eingri þjóð var byltíngarhugtakið jafn hulið. Ævinlega voru Íslendíngar reiðubúnir að kyssa þann vöndinn er sárast beit og trúa því að kaldrifjaðasti böðullinn væri sönnust hjálp þeirra og öruggast skjól.” Orð Halldórs Laxness hæfa vel, þegar íslenzkir kjósendur láta sig stjórnarskrá engu varða, hunza pólitískt gegnsæi og kalla gerspillta hrunverja til valda.

 

Kosningabandalag

Punktar

Sumir hafa efasemdir um, að pennastrik virki vel í stórpólitískum málum. Nú síðast er deilt um aðferðir við að láta hluta af íbúðaskuldum hverfa bara si svona. Var helzta ástæða þess, að sumt stjórnlagaráðsfólk og gegnsæisfólk taldi sig ekki geta verið í Dögun. Stofnaði annars vegar Lýðræðisvaktina og hins vegar Pírata. Lýðræðisvaktin og Píratar gætu hugsanlega sameinast. En ég held, að kosningabandalag við Dögun liggi ekki í augum uppi. Andstaða við skítamix kosningabandalaga rís ekki á of fyrirferðarmiklum persónum, heldur á ágreiningi um lykilmál. Betra er, að sérhvert sjónarmið sitji að sínu.

Allt er eins og ævinlega

Punktar

Ekkert hefur gerzt í þessu landi, hér varð ekkert hrun. Stjórnarskráin er gleymd og grafin. Niðurgreiðsla skattgreiðenda til stóriðju hafin að nýju. Kvótagreifar eiga þjóðarauðlindina sem fyrr. Hrossakaup og kjördæmapot eru í blóma. Einkavinavæðing bankanna verður endurtekin. Kjósendur ætla að ákveða, að hér færist allt aftur í gamla stílinn. Enga nýja flokka takk, segir fólk, gamla góða Framsókn er nógu góð fyrir mig. Fjórflokkurinn stígur menúettinn, sem stiginn hefur verið um áratugi. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur taka við stjórninni í vor. Allt verður þá eins og ævinlega hefur hér verið.

Lamaði þriðjungurinn

Punktar

Vænn hluti þjóðarinnar, kannski þriðjungur, er ekki borgarar, sem skipta sér af pólitík. Eru þegnar, sem hlýða yfirvaldinu, eru trúir fjórflokknum. Þeir biðja ekkert um stjórnarskrár eða afslætti af húsnæðislánum, hvað þá aukið gegnsæi og upplýsingafrelsi. En þeir móðguðust margir við hrunið og refsuðu Sjálfstæðisflokknum. Nú lízt þeim illa á rifrildið, vilja hafa frið. Sumir hafna enn fjórflokknum, nema þeir styðji Framsókn. Sumir fara yfir á Bjarta framtíð, því að hún snýst um aukna kurteisi í rifrildinu, ekki um andstöðu við fjórflokkinn. Þessi þriðjungur verður ekki vakinn til pólitísks lífs.

Orðnir enn ógeðslegri

Punktar

Allur fjórflokkurinn og varadekk hans ættu að fara illa út úr kosningunum. Vinsælustu hlutar hans gæta þröngra sérhagsmuna á ógeðslegri hátt en nokkru sinni fyrr. Stjórnarhlutinn sveik á lokasprettinum allt, sem gæti fyrirgefið honum fjögurra ára völd. Eins og Styrmir ritstjóri hef ég í hálfa öld fylgst með pólitíska mynztrinu, sem hann átti mikinn þátt í að búa til. Hann segir: “Ég er búinn að fylgjast með þessu þjóðfélagi í 50 ár. Þetta er ógeðslegt þjóðfélag, þetta er allt ógeðslegt. Það eru engin prinsipp, það eru engar hugsjónir, það er ekki neitt. Það er bara tækifærismennska, valdabarátta.”

Ekki er öll nótt úti enn

Punktar

Skekkjumörk í könnunum eru því áhrifameiri, sem flokkurinn er minni. Segjum, að skekkjumörkin séu fimm prósentustig. Flokkur, sem reiknast með 30% fylgi, gæti þá í raun verið einhvers staðar á bilinu 25% til 35%. Flokkur með 2% fylgi í könnunum gæti þá verið með frá 0% upp í 7%. Það þýðir, að hann getur komið mönnum á þing, ef skekkjan er í þá áttina. Píratar hafa mælst í 3,5%, enda hafa þeir verið ötulir í kosningabaráttunni. Kunna greinilega betur á pólitíkina heldur en til dæmis Lýðræðisvaktin, sem höktir enn. Þegar þessir og fleiri nýflokkar eru komnir vel á skrið, er ekki öll nótt úti enn.

Spáð í fylgið

Punktar

Lágar fylgistölur Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Vinstri grænna breytast tæpast að ráði fram að kosningum. Þessir flokkar hafa á ýmsan hátt brugðist fjölmennum hópum fylgismanna. Framsókn hins vegar á skilið minna fylgi, enda eru loforð hennar vanstilltari en nokkru sinni fyrr. Framsókn er og verður þröngur sérhagsmunaflokkur, er lifir á að ljúga að fólki, sem fattar fátt. Um fylgi hennar má endurtaka orð Vigdísar Hauksdóttur: “Það hálfa væri nóg”. Sé farið út fyrir fjórflokkinn og varadekk hans, er of snemmt að spá í nýflokka. Tveir eða þrír þeirra gætu komið fólki á þing. Sem er brýnt mál.

Rétt skal vera rétt

Punktar

Geirfinnsmálið er óleyst og verður óleyst. Engin lík fundust og engin sönnun fyrir glæp neins. Bara ógildar játningar og líkur, sem núna væru ekki taldar nægja til að fella dóm. Réttarfari í landinu hefur sem betur farið fram á þessum áratugum. Því er rétt að taka það formlega upp að nýju til að hreinsa loftið. Við verðum þó að viðurkenna, að kerfi þess tíma var barn þess tíma. Og dómar þess tíma voru barn þess tíma. Vitum núna meira og viljum strangari skilyrði til sakfellingar. Þetta er eins og með hrunið. Þjóðfélagið hefur gott af að stanza um stund og hugleiða gerendur og þolendur fyrri mistaka.