Punktar

Örþrifaráð á lokaspretti

Punktar

Ef Bjarni Benediktsson gefst upp fyrir Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, verður hann að píslarvotti. Hér á landi verða taparar ævinlega píslarvottar. Menn fara að muna eftir mannkostum Bjarna og pólitískir andstæðingar munu kynda undir. Hanna Birna verður sökuð um að slátra Bjarna á viðkvæmri stund, á svonefndu kortéri fyrir kosningar. Ekki mun duga að skipta um hest í miðri á og Hönnu Birnu verður kennt um ósigurinn. Reiðin í garð Bjarna mun að nokkru leyti yfirfærast á hana, gera henni erfitt fyrir í framhaldinu. Illskást er því að forðast að grípa til örþrifaráða síðustu metra kosningabaráttunnar.

Frá öðru sólkerfi

Punktar

Sigurður Már Jónsson skrapp hingað frá öðru sólkerfi og gaf sér tíma til að skrifa grein á mbl.is. Fjallar hún um mengunarvandann í Þingvallavatni og Mývatni og tengir hann helzt við ferðaþjónustu. Hefði hann skroppið hingað oftar frá sólkerfi sínu, hefði hann kannski vitað, að Nesjavallavirkjun er við Þingvallavatn og að til skamms tíma var Kísiliðjan við Mývatn. Ítrekað hefur komið fram, að þessar tvær stofnanir séu líklegustu mengunarvaldarnir. Kísiliðjan skaðaði vatnsbotninn í Mývatni og Nesjavallavirkjun dælir sífellt heitu affallsvatni með margvíslegum skaðsemdarefnum í Þingvallavatn.

Leynisamningurinn

Punktar

Leynisamningur Össurar Skarphéðinssonar við Kína er hættulegur, annars væri hann ekki leynisamningur. Arfur frá þeim tíma, þegar hrokagikkir á kontórum töldu sig geta skuldbundið heilar þjóðir í laumi. Var hægt í gamla daga, en er ekki lengur unnt. Nú vill fólk, að lýðræði sé gegnsætt. Hafnar því, að Össur geti skuldbundið þjóðina um atriði, sem eru svo skuggaleg, að enginn má fá að vita um þau. Leynisamningur Össurar er að sjálfsögðu ólöglegur og verður ógiltur, þegar hann hrekst úr ráðuneytinu. Einnig er samningurinn viðbótarástæða fyrir því að kjósa ekki Samfylkinguna í lok mánaðarins.

Perón vor og Napóleon

Punktar

Sagnfræði er skemmtileg dægradvöl. Nútíminn á sér hliðstæður í fortíðinni. Franska byltingin byrjaði í lýðræði, en endaði í Napóleon, sem olli falli nokkurra kynslóða Frakka í styrjöldum. Íslenzka búsáhaldabyltingin byrjaði í lýðræði, gekk lengi fyrir tali um stjórnarskrá, en endar í silfurskeiðungi. Sem á hundruð milljóna, veit ekkert um hlutskipti alþýðu og notar ráðgjafa úr fjármálabraskinu. Lofar að gefa eigendum íbúða glás af peningum eins og Juan Perón lofaði og olli þannig áratuga harmsögu og hruni Argentínu. Eins og Framsókn olli með baráttu sinni fyrir ofurlánum, sem knésettu alþýðuna.

Þingmenn nýflokkanna

Punktar

Pírötum gengur vel, komnir í fjóra þingmenn samkvæmt könnunum. Þeir fara hærra, ég vona að þeir fari upp í átta. Lýðræðisvaktin veldur mér hins vegar vonbrigðum. Hún læðist of hægt upp skalann. Samt með góða frambjóðendur og fer að mínu viti upp í þingmannafylgi. Hefði viljað sjá líka hana með átta þingmenn. Dögun situr föst nærri botni með Hægri grænum og er nánast kulnuð von, því að Framsókn á öll fíflin. Önnur nýframboð eru ekki í myndinni, enda eru þau aðeins yfirlýsingar um sérstöðu. Fái nýframboð alls sextán þingmenn, má það kallast þolanlegt hjá þursaþjóð, sem þekkir ekki sinn vitjunartíma.

Lagatæknar rústa dómskerfi

Punktar

Dómskerfið er í rúst, takist Gesti Jónssyni og Ragnari H. Hall lagatæknum að tefja mál með því að neita að mæta. Kerfið má ekki við miklu, fyrirlitning á dómurum hefur farið vaxandi. Dómarar hafa dæmt fjármálabófa með hálsbindi í brot af refsingum, sem alþýðumenn þurfa að sæta. Hafa jafnvel dæmt ríkið til að greiða málskostnað fyrir dæmda bankabófa. Geti Gestur og Ragnar vafið dómskerfinu um fingur sér, er það áminning til kjósenda, að staða þjóðmála sé enn í megnasta ólagi. Uppgjörinu við hrunið sé ekki lokið og verði ekki lokið. Kjósendur þurfa að mæta þessu með því að skipta út bófunum á Alþingi.

Blóðþyrstar yfirlýsingar

Punktar

Æsingurinn í Norður-Kóreu gagnast Bandaríkjunum til skamms tíma. Treystir hernaðarbandalag þeirra við Suður-Kóreu og Japan. Gerir þeim kleift að auka hernaðarmátt sinn í Austur-Asíu á kostnað Kína, hins trega stuðningsaðila Norður-Kóreu. Enda geta þau skotið niður eldflaugar frá Norður-Kóreu í tæka tíð. Fækkun í herliði Bandaríkjanna í Afganistan gerir þeim kleift að beina meiri herbúnaði að Norður-Kóreu. Munu samt ekki sæta gagnrýni vegna þessa, yfirlýsingar Norður-Kóreu eru svo furðulega æstar og beinlínis blóðþyrstar. Verða varla túlkaðar á annan veg en þann, að þar sé geðsjúklingur á ferli.

Þjóðin er bara svona

Punktar

Tilgangslaust er að ergja sig út af ákvörðun þjóðarinnar um að halla sér að landsins liprasta sölumanni snákaolíu, Framsókn. Meirihluti þjóðarinnar sér ekki út fyrir box fjórflokksins. Þarf að refsa annars vegar Samfylkingunni og Vinstri grænum og hins vegar Sjálfstæðisflokknum. Við megum ekki gleyma, að aldagamall skortur á gegnsæi hefur gert meirihluta fólks ókleift að átta sig á lýðræði. Jákvætt er, að þriðjungur þjóðarinnar hefur augun opin. Þess er að vænta, að drjúgur hluti hans greiði einhverjum nýflokki atkvæði sitt. Þannig verða kosningarnar 27. apríl nokkurs virði, til langs tíma litið.

Bófahasar lagatækna

Punktar

Kræfir lagatæknar bankstera Kaupþings ætla að hleypa upp réttarhöldum í máli Sigurðar Einarssonar og Hreiðars Más Sigurðssonar. Skrópa í aðalmeðferðina, nota síðan verjendaskort bankstera til að fá málinu spillt. Áður voru þeir búnir að afreka að bera málaferlin saman við Ciesielski-málið. Annars vegar eru stórhveli með hirð okkar kræfustu lagatækna og hins vegar voru bláfátæk ungmenni með dómkvaddan verjanda. Það er aldeilis aðstöðumunur. Ljóst er, að málið fer illa hjá banksterunum, nema þeim Gesti Jónssyni og Ragnari H. Hall takist að finna enn frumlegri króka en notuð voru við vörnina í Baugsmálinu.

Skiptingin skiptir engu

Punktar

Engu máli skiptir, hvernig fylgið skiptist milli Flokksins og Framsóknar. Hvernig sem þenkjandi minnihluti þjóðarinnar rembist og ragnar, þeim mun ljósara er, að bófaflokkarnir munu ráða. Annað hvort undir forsæti Flokksins eða Framsóknar. Hvor tveggja mun fyrst og fremst gæta hagsmuna kvótagreifa og auðstéttar. Munu svæfa nýja stjórnarskrá og halda kerfinu lokuðu og læstu fyrir almenning. Að þessu sinni lýgur Framsókn lipurra en Flokkurinn, sem játar fækkun skattþrepa og niðurskurð velferðar. Framsókn hefur vit á að lofa öllu fögru og samkvæmt venju fagnar lýðurinn Nígeríubréfinu ótæpilega.

Húsavík í ruglinu

Punktar

Húsvíkingar þurfa að fara að gá að sér. Verða að hreinsa til eins og aðrir, sem hafa gert fúl mistök. Fyrrverandi bæjarstjóri þarf að fara að átta sig og vitgrannur presturinn líka. Hætta að bulla út í eitt. Listi nauðgunarvina er engin ný frétt, hefur lengi gefið málsaðilum tækifæri til að endurskoða viðhorf sitt. Húsvíkingar eru of oft í fréttum út af rugli og græðgi, til dæmis um meðferð Þeistareykja, Gjástykkis og Bjarnarflags. Þar hefur verið sama ruglið ráðandi og í afstöðu þeirra til nauðgunarinnar, sem fjallað var um í Kastljósi í gær. Húsvíkingar þurfa að biðjast afsökunar. Í einlægni.

Fortíðin hvarf snöggt

Punktar

Á vefsíðu Framsóknar er fortíðin skyndilega horfin. Ekkert er þar lengur að finna eldra en frá marz 2009. Strikað er út minnisstætt grobb Framsóknar út af 90% lánunum, sem tröllriðu þjóðfélaginu. Framtak flokksins varð til, að fólk reisti sér hurðarás um öxl og getur ekki borgað lánin. Því er eðlilegt, að Framsókn vilji núna afskrifa þessa dauðasynd sína. Framsókn ætti auðvitað sjálf að borga brúsann. Gallinn er, að skattgreiðendur verða látnir gera það, þegar millispilið um “hrægammasjóðina” og lífeyrissjóðina hefur gengið sér til húðar. Aldrei er Framsókn of sein að strika út glæsta fortíð sína.

Mislukkað bragð lagatækna

Punktar

Tveir lagatæknar endurtaka leikinn úr Baugsmálinu. Þá töfðu verjendur málið eins lengi og framast var unnt. Heimtuðu síðan mildari dóm út af töfunum. Dómari sá að þessu sinni við gamalkunnu bragði Gests Jónssonar og Ragnars H. Hall. Þeir sögðu sig frá AlThani-máli Sigurðar Einarssonar og Hreiðars Más Sigurðssonar Kaupþingsstjóra. Dómarinn neitaði að taka afsögnina gilda og heldur málinu áfram án frekari tafa. Gestur hefur mikla reynslu af töfum úr Baugsmálinu og mun vafalaust reyna ný brögð til að tefja fyrir framgangi réttvísinnar. Síðan verða tafir verjenda notaðar til að heimta mildari dóm.

Einfaldar fylgissveiflur

Punktar

Fróðlegt graf í Fréttablaðinu sýnir færslu fylgis milli flokka. Sýnir vel, að mikill hluti fylgisaukningar Framsóknar kemur frá Sjálfstæðisflokknum og fer ekkert annað, nema þá til baka. Sýnir líka, að Björt framtíð dregur frá Samfylkingu og Píratar frá Vinstri grænum. Aðrar hreyfingar eru óverulegar. Að baki er sú staðreynd, að fylgi við nýja stjórnarskrá og aukið gegnsæi er einkum hjá fyrri kjósendum Samfylkingar og Vinstri grænna. Hægra fólk hefur takmarkaðan áhuga á slíku. Önnur könnun leiddi um helgina í ljós, að flestir kjósendur hafa áhuga á íbúðaskuldum fólks, heilbrigðismálum og atvinnumálum.

Árásin á heimilin

Punktar

Erfitt verður fyrir Sjálfstæðisflokkinn að reka kosningastefnu, sem felur í sér augljósa árás á heimili landsins. Niðurskurður velferðar af völdum hrunsins er orðinn nægur. Þurfum ekki hrunflokk til að magna hann enn frekar. Ennfremur er skattstig hátekjumanna og stórfyrirtækja skammarlega lágt í vestrænum samanburði. Þurfum ekki hrunflokk til að lækka þetta lága skattstig. Vitum, að það verður á kostnað smælingja. Svigrúm skortir til að predika villtustu drauma Hannesar Hólmsteins og Davíðs Oddssonar um paradís kvótagreifa og slíkra Tortólagreifa. Flestum er ljóst, að græðgisstefnan er löngu sprungin.