Punktar

Ófagleg rammaáætlun

Punktar

Nýja ríkisstjórnin tekur gömlu rammaáætlunina um verndun náttúru og nýtingu auðlinda fram yfir þá yngri. Notar sem rök, að sú eldri hafi verið samin af fagfólki, en sú síðari af pólitíkusum á alþingi. Þetta er bara haugalygi. Sú gamla var samin af embættismönnum í iðnaðar- og umhverfisráðuneytum og var að mörgu leyti á skjön við niðurstöður í faghópum. Kominn er til skjalanna nýr ráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, sem fer með umhverfismál. Hann er einn harðasti andstæðingur þeirra mála á alþingi, vill virkja hvern foss og hvern hver. Stjórnarskiptin boða því illskeytt umskipti í umhverfismálum.

Minni stóriðjuofsi

Punktar

Stóriðjustefna fór af stað á Íslandi á sínum tíma á röngum forsendum. Átti að efla atvinnu um tíma, en minni áherzla lögð á orkuverð til langs tíma. Ríkið og ríkisfyrirtæki voru skuldsett upp í topp til að útvega verktökum verkefni. Þau voru öll til skamms tíma. Eftir sátu orkuver og stóriðja með tiltölulega lítinn mannskap, langdýrasta atvinnuöflun Íslandssögunnar. Stóriðjan reyndist svo hafa lítil margfeldisáhrif, kringum hana myndaðist enginn úrvinnsluiðnaðar. Við höfum núna þessa bitru reynslu. Hún temprar ofsa einstakra þingmanna, sem líta einkum á verktaka sem skjólstæðinga sína.

Árni Páll er týndur

Punktar

Össur Skarphéðinsson hefur fyllt tómarúmið í forustu Samfylkingarinnar. Fer mikinn í greinum og er stundum orðheppinn. Árni Páll Árnason flokksformaður er hins vegar að mestu týndur. Segir fátt minnisstætt og fjölmiðlar nenna ekki að vitna í hann. Enda skilja fáir það, sem hann segir. Samfylkingin þarf að losa sig við hann sem fyrst. Katrín Jakobsdóttir er mun gæfulegri hjá Vinstri grænum, segir sumt, sem tekið er eftir. Um stjórnarsáttmálann sagði hún, að hann svaraði fáum spurningum, væri almennt orðaður og þar væri lítið um útfærslur. Ég man eftir þessu en ekki eftir neinu frá Árna Páli.

Söguleg millifærsla

Punktar

Vondir, útlendir “hrægammar” borga ekki “forsendubrest” vísitölulána. Sýnd veiði, en ekki gefin. Stjórnarsáttmálinn játar þetta. Segir bilið verða brúað með óstofnuðum sjóði. Sjóði, hver á að borga? Ljóst er, að það verða skattgreiðendur og lífeyrisþegar. Skattgreiðendur borga fyrir Íbúðalánasjóð og lífeyrisþegar fyrir lífeyrissjóðina. Það verður söguleg millifærsla, sem mun flækjast fyrir ríkisstjórninni alla hennar tíð. Fyrir kosningar bentu margir á, að þetta hlyti að verða niðurstaða ofsafengins loforðs Framsóknar. Fjórðungur kjósenda valdi þó að treysta Framsókn. Það hefnir sín. Að venju.

Tómi kassinn temprar

Punktar

Stjórnarsáttmálinn sýnir, að stjórnarflokkarnir efna ekki kosningaloforðin. Enda voru sum þau háværustu svo mikið út úr kú, að ekki er hægt að efna þau. Eru og verða óuppgert mál milli Framsóknar og trúgjarnra kjósenda hennar. Margir eru samt fegnir, hversu varfærinn sáttmálinn er að þessu leyti. Minni líkur en ella eru á, að ríkisstjórnin leggist í óra, sem skaða ríkisfjárhag. Seinkun verður á ýmsum gæluverkum stjórnmálanna, svo sem nýjum landsspítala og vegagöngum gegnum fjöll. Og stóriðjuofsinn er minni en margir ætluðu, enda lítið lánsfé að hafa og alltof dýrt. Tómur ríkiskassi temprar æðibunu.

Engir hveitibrauðsdagar

Punktar

Hveitibrauðsdagar ríkisstjórnarinnar verða engir. Voru raunar búnir, áður en hún fæddist formlega í gærkvöldi. Stjórnarsáttmálinn hlaut slæmar viðtökur í netheimum strax í gær. Hefðbundnir fjölmiðlar verða að vísu til friðs fram eftir sumri, enda hallir undir Sjálfstæðisflokkinn. En völd þeirra eru minni en áður var. Frumkvæði í pólitík hefur flutzt frá fjölmiðlum til fámiðla á veraldarvefnum. Sjálf stjórnarandstaðan er dösuð í bili, en mun vakna til lífs á sumarþinginu. Fámiðlar munu lemja hana til verka. Verður að vísu ekki eins grimm og sú síðasta, en minni ofsi jafngildir ekki hveitibrauðsdögum.

Stutt útgáfa sáttmálans

Punktar

Haltu kjafti og vertu sæt. Þannig hefst stjórnarsáttmálinn; ekki orðrétt, en meiningin er sú. Ríkisstjórnin varar við “sundurlyndi og tortryggni” og heimtar “samtakamátt þjóðarinnar” sér til handa. Á móti lofar hún að “stefna að” sumu, “skoða” annað, “vinna að” ýmsu, “bæta” hitt og þetta, “leggja áherzlu á” sitt lítið af hverju, “yfirfara”, “gera úttekt á”, “leitast við”, “greina”, “kanna”, “yfirfara”, “skipa starfshóp”, “stuðla að” og “standa vörð”. Semsagt samfellt prump. Það eina, sem hún boðar ekki, er að “líta alvarlegum augum á” að hætti Geirs Hallgrímssonar sællar minningar. Gott á gullfiskana.

Kosningaloforðin týndust

Punktar

Lítið sést af kosningaloforðunum í sáttmálanum. Helzt, að ekki þurfi að efna þau, því þau efnist af sjálfu sér. Þannig þurfi ekki að afnema lánavísitölu, því að góð efnahagsstjórn muni gera afnámið óþarft. Ekki á að efna loforð um að kjósa um framhald Evrópuviðræðna, því þeim sé sjálfhætt. Engin útfærsla er á loforðinu feita um lausn á svonefndum skuldavanda heimilanna. Aðeins lofað að hugsa stífar um framkvæmdina. Kannski verður bara hugsað og hugsað út kjörtímabilið. Ljóst er altjend, að enginn tékki kemur í pósti þetta ár. Allt fyrirséð, enda höfðu lýðskrumarar lofað stórkarlalega upp í ermina.

Forgangsmálin þrjú

Punktar

Í morgun var þetta kunnugt úr stjórnarsáttmálanum: 1. Sjálfstæðisflokkurinn fær viðbótarráðherra, enda frjálslyndastur í meðferð opinbers fjár. 2. Strax verður afturkallaður auðlindaskattur á kvótagreifana, sem fjármagna flokkana tvo. 3. Umhverfisráðherra verður lagður niður, gerður að skúffu í ráðuneyti hefðbundinna sérhagsmuna landbúnaðar og sjávarútvegs. Fúl er byrjunin, enda við engu góðu að búast, þegar kjósendur hafa talað. Dæmigerð hugsjónamál hægri öfgaflokka. Innan tveggja vikna verður helmingur gullfiska Framsóknar búinn að gleyma atkvæði sínu. Kemur af fjöllum, þegar minnst er á pólitík.

Marklítill sáttmáli

Punktar

Reynslan segir okkur, að takmarkað hald sé í stjórnarsáttmálanum. Við erum ekki vön, að farið sé eftir slíkum plöggum. Ekki merkilegri en loforðin, sem verðandi stjórnarflokkar gefa fyrir kosningar. Eitthvað grisjast þó burt af ruglinu, en nóg stendur samt eftir. Sáttmálar segja fyrst og fremst, hvað ný ríkisstjórn telur sig komast upp með að segja á líðandi stundu. Rétt á meðan hún er að máta stólana. Því hefur takmarkað gildi að fara í textaskýringar á plaggi, sem ekki verður farið eftir. Eitthvað verður samt hægt að finna út um, hvað sé innan og hvað sé utan áhugasviðs formanna stjórnarflokkanna.

Bankar eru stóra bölið

Punktar

Álitsgjafar á Vesturlöndum eru eins og hér að fatta, að kreppan stafar af bönkum, sem leika lausum hala. Þeim var og er enn stýrt af siðblindum og stjórnlaust gráðugum eigendum og stjórnendum. Á kostnað skattgreiðenda, þegar ríkið borgar. Afnema þarf ríkisábyrgð á bönkum, setja þeim þrengri reglur og stórauka opinbert eftirlit með þeim. Annars fáum við bara kreppu á kreppu ofan, hrun á hrun ofan. Bankaeigendur og bankastjórnendur eru ekki skárri í dag en forverar þeirra voru í gær. Jafnan eru siðblindingjar settir þar til valda, það er náttúrulögmál. Og hér voru engir bankar hreinsaðir út.

 

Burt með verndartolla

Punktar

Landbúnaður kostar innflutt tæki og olíu eins og önnur framleiðsla. Allt í erlendum gjaldeyri. Þetta er tjón, því að innlent vinnsluvirði landbúnaðar felst helzt í opinberum styrkjum á kostnað skattgreiðenda. Mataröryggi hans er ekkert, því að hann stöðvast um leið og olía og benzín kemur ekki hingað. Þótt landbúnaður skapi vinnu, er hún að mestu leyti dulbúið atvinnuleysi, sem seinkar þróun okkar til nútíma atvinnuhátta. Og aðalatriðið er, að afnám tolla eflir kaupmátt neytenda. Hnattstaða og loftslag kalla á samdrátt í hefðbundnum landbúnaði. Því ber að afnema verndartolla landbúnaðarins.

Vissi vel um stöðuna

Punktar

Fyrir kosningar sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, að fjárlög ársins gæfu fegraða mynd af stöðunni. Eftir kosningar segir hann, að þessi fegraða staða hafi komið sér á óvart. Á óvart? Hann sem hafði sagt það sjálfur! Sigmundur Davíð er að reyna að selja fólki þá hugmynd, að hann geti ekki staðið við ævintýraleg loforð sín. Hann hafi gefið þau í skjóli rangrar vitneskju um erfiða stöðu ríkissjóðs. Mér segir þetta hins vegar, að Sigmundur Davíð hafi frá upphafi vitað, að loforð hans voru út í hött. Var bara að ljúga sig inn á þing. Vissi um heimsku fólks og notaði sér hana. Er bara pólitískur bófi.

Þakkað fyrir kosningafé

Punktar

Annað mál Silfurskeiðarinnar eftir fjölgun ráðherra er að láta ríkið greiða kosningaslag bófaflokkanna. Sérstakur skattur á kvótagreifa verður afnuminn í sumar. Silfurskeiðungar vilja, að gömlu gæludýrin haldi fríum aðgangi að þjóðarauðlindinni. Kvótagreifarnir fjármögnuðu hernað pólitískra bófa fyrst fyrir prófkjörin og svo í kosningabaráttu Sjálfstæðis og Framsóknar. Kjarni íslenzkra stjórnmála er hernaður um auð og völd. Snýst ekki um uppdiktaða loforðalista, hvort þeir séu nálægt áhugaefnum þínum eða ekki. Þetta var ykkur margsagt og þið vilduð ekki trúa. Nú sjáið þið fíflin veruleikann.

Dansað á gráa svæðinu

Punktar

Ellisif Tinna Víðisdóttir er dæmi um einstakling, sem dansar um gráa svæðið milli ríkiseftirlits og einkabrasks. Hún varð fræg sem ríkisforstjóri, þegar hún beindi viðskiptum Varnarmálastofnunar til ættingja og tengdafólks. Enn frægari varð hún fyrir hörkuna, sem hún beitti Falun Gong meinleysingja. Hún hefur nú dúkkað upp sem forstjóri ECA á Íslandi. Kyndugs hernaðarfyrirtækis í eigu Melville Peter ten Cate, sem vildi aðstöðu til hernaðarumsvifa á Keflavíkurvelli. Fyrirtækið hefur málaliða til útleigu fyrir hernað á vegum vafasamra gaura í þriðja heiminum. Kannski verður hún aftur ríkisforstjóri.