Punktar

Sérkennilegt fagfólk

Punktar

Rammaáætlanir um virkjanir og verndun eru tvær, sú fyrri og sú síðari. Báðar samdar af verkefnisstjórnum embættismanna og pólitíkusa, ekki af faghópunum. Það er firra að segja fyrri rammaáætlunina faglegri en hina síðari. Sú fyrri var frumstæðari. Samt ljúga formenn stjórnarflokkanna í síbylju. Undir það tekur ýmis ruslaralýður, sem kjósendur hafa valið til alþingis. Við komumst aldrei neitt áleiðis til lýðræðis, ef menn komast upp með að ljúga út í eitt og halda fast við bullið. Þótt talin séu upp nöfn verkefnisstjóra og spurt, hvers slags “faghópur” þeir séu. Og nú hyggst dýralæknirinn verða faghópur.

Vígdjarfur strigakjaftur

Punktar

Vigdís Hauksdóttir er helzti strigakjaftur Alþingis. Þar á ofan gengisfellir hún orð með því að segjast sæta einelti. Ruglar saman gagnrýni og einelti eins og hún ruglar öðru í íslenzku máli og málsháttum. Samt er hún feikileg söluvara í pólitík. Var núna endurkjörin með lúðraþyt í boði Reykvíkinga. Slær þar við formanni sínum, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, sem er þingmaður fyrir eyðibýli austur á Héraði. Sigmundur óttaðist samkeppnina við hinn vígdjarfa þingmann og meinaði henni ráðherrastólinn, sem hún girntist. Sá gerningur hans er ekki einelti frekar en annað sjálfskaparvíti Vigdísar.

 

Skrípó í héraðsdómi

Punktar

Erfitt verður að gera upp hrunið við bankavíkinga, ef dómsmál falla á þann veg sem héraðsdómur yfir Lýði Guðmundssyni. Í málinu var fjallað um fimmtíu milljarða króna, en úr því fæddist lítil mús, tvær milljónir króna. Þar á ofan heldur héraðsdómur áfram þeim nýja sið að láta ríkið borga málskostnað fyrir bankavíkinga. Standi þessi dómur fyrir Hæstarétti, má snarlega skrúfa fyrir frekari vinnu Sérstaks saksóknara. Hrunið verður þá áfram eins óuppgert og það er núna, fimm árum eftir að Seðlabankinn valt og ríkið féll á hnén. Svo þykist Arngrímur Ísberg meta umferðarlagabrot til refsiþyngingar! Skrípó.

Stóra áldellan

Punktar

Mesta áldellan er áratuga gömul, kenningin um, að þjóðin þurfi álver hér og nú. Sú della hefur spillt samkeppnisstöðu þjóðarinnar og valdið útsöluverði á orku til stóriðju. Stóra áhugamál álsinna er að útvega verktökum verkefni til skamms tíma. Úr þessu urðu blöðrur, sem risu og hnigu og trufluðu þróun atvinnulífs. Við græðum miklu meira á að efla aðra atvinnuvegi. Sem kosta bara brot af fjárfestingu í orku og leiða til margfaldra atvinnutekna. Þar eru fremst á blaði tölvutækni vegna magnaðra kjara og ferðaþjónusta vegna magnaðrar umsetningar. Slíkar greinar ættu að hafa forgang í fyrirgreiðslu.

Ríða mögrum hesti

Punktar

Íslenzku álbræðslusamtökin ríða ekki feitum hesti frá ritdeilunni við Andra Snæ Magnason. Ljúga, að 4.500 störf séu fölsk, á vegum Vinnumálastofnunar. Þau eru aðeins 1.300. Alvörustörfum hefur því fjölgað um  4.900 störf á tímabilinu frá fyrsta ársfjórðungi 2011 til fyrsta fjórðungs ársins 2013. Þessi aukning jafngildir tíu álverum. Tíu álverum, heyrið þið það. Engin aðferð við að búa til störf er eins dýr og seinleg og álver með tilheyrandi orkuverum. Samtök álbræðslnanna velja sér því einkar erfiðan vettvang fyrir glímu við Andra Snæ. Hraðar leiðir eru svo í tölvutækni og ferðaþjónustu.

 

Handóð borgarstjórn

Punktar

Umferð á Hringbraut hefur aukizt svo mikið, að Melatorg stíflast reglulega á annatímum. Hvernig væri ástandið, hefðu órar verktaka um byggðar eyjar út af Ánanaustum orðið að veruleika? Sama súpan og alls staðar, þar sem yfirvöld reyna að þétta byggð til að gleðja verktaka. Við höfum ekki heldur bitið úr nálinni á Hringbraut. Fyrirhugað er að byggja þétt í hverfinu við Mýrargötu og jafnframt þrengja sjálfa götuna. Ýta viðbótarumferð yfir á Hringbraut. Síðan á líka að byggja geðveikt í Vatnsmýri. Þá stíflast einnig Miklabraut í framhaldi af Hringbraut. Handóð borgarstjórn má ekki leika lausum hala.

Þjóðremba og fortíðarþrá

Punktar

Þjóðremba og fortíðarþrá að hætti Guðna Ágústssonar verður eitt stjórntækja Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Svokölluð efling íslenzkrar menningar og sögu er klippt frá menntaráðuneytinu og límd á forsætisráðuneytið. Ég sé fyrir mér þingsetningu í Almannagjá og skikkjuklædda þingmenn skröltandi á hvítum fákum. Hafin verði til vegs sagnaritun að hætti Hriflu-Jónasar. Orð á borð við “hrægammasjóði” koma bara í stað “hörmangara”. Hægri pópulistum vesturlanda þykir hentugt að dáleiða heimska kjósendur með fortíðarþrá og þjóðrembu. Rómantík í stað veruleika er þægilegt vopn í höndum pópulista.

Hrun greindarvísitölu

Punktar

Rannsókn bendir til, að ég hafi rétt fyrir mér um vaxandi heimsku fólks og að það sé vestrænn vandi. Greindar konur eigi færri börn en heimskar. Þannig hafi greindarvísitala á Vesturlöndum lækkað um heila fjórtán punkta frá miðri nítjándu öld. Það er rosalega mikil lækkun á aðeins hálfri annarri öld. Greinin í Intelligence er eftir Michael A. Woodley við háskólann í Bruxelles, Jan te Nijenhuis við háskólann í Amsterdam og Raegan Murphy við háskólann í Cork. Endar með, að meirihluti kýs Framsókn og slíka lýðskrumsflokka.

Ofsótt ráðherraefni

Punktar

Vigdís Hauksdóttir þingmaður er ofsótt. Segir það sjálf. Ég man það hófst upp úr búsáhaldabyltingunni. Þá sagðist hún óttast um öryggi sitt milli skrifstofu og fundarsalar. Síðan hafa menn linnulaust skráð spakmæli hennar og birt í bloggi og fésbók. Nú síðast hafa nafnleysingjar látið borga sér fyrir að níða hana. Hún segir það sjálf. Hver hefur ráð á að borga þessar ofsóknir? Böndin berast að Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni. Fækkaði ráðherrum Framsóknar um einn til að þurfa ekki að velja hana. Varð samt að velja óhæfa alþingiskarla sem ráðherra og lenti því í að vera ofsóttur fyrir karlrembu.

Þolanleg snjóhengja

Punktar

Lögfræðistofan Íslög hefur lagt fram athyglisverða tillögu um snjóhengjuna illræmdu: Alþingi setji lög um, að gjaldþrot gömlu bankanna taki gildi um næstu áramót, verði nauðasamningum þá ekki lokið. Skiptaráðandi tekur við búi og kröfuhafar missa ítök í bankaráði. Skiptastjóri selur erlendar eigur fyrir gjaldeyri, en greiðir kröfuhöfum út í krónum, sem eru fastar í skjóli gjaldeyrishafta. Í gjaldþrotalögum verði bannað að greiða út í annarri mynt en krónum. Einnig  verði bannað að yfirfæra vexti kröfuhafanna í erlendan gjaldeyri. Lagabreytingar af þessu tagi mundu gera snjóhengjuna þolanlega.

Svona gerir maður ekki

Punktar

Björn Zoëga skortir mannasiði. Forstjóri Landspítalans virðir ekki hefðina um, að forustumenn launþega séu látnir í friði. Til að fyrirbyggja grun um, að verið sé að hefnast á þeim fyrir störf í þágu launþega. Þegjandi sátt er  við samningaborð um slíkar forvarnir. Björn hefur alls ekki skilið það. Ekki frekar en hann skilur sumt annað. Svo sem, að hann má ekki gera einkasamning við ráðherra um hærri laun sín, þegar spítalinn er skorinn niður við trog. Hvað eftir annað fellur kusk á hvítflibba forstjórans. Kemur vel fyrir í sjónvarpi, en bilar, þegar mest á reynir. Er ekki tími hans útrunninn þarna?

Formið er án innihalds

Punktar

Ýmis dæmi sýna, að andmælaréttur er innfluttur frá Evrópusambandinu. Er hér bara formsatriði án innihalds. Þekkt er fyrri Rammaáætlun um virkjanir og verndun. Faghópar sömdu skýrslur, en síðan smíðuðu embættismenn pólitíska heildaráætlun. Þetta ferli kallar nýja ríkisstjórnin faglegt. Fleiri dæmi: Skerðing ferðaleiða við Vatnajökul fór í umsagnarferli. Ekkert mark tekið á ótal athugasemdum, sumar ekki einu sinni ræddar og engu var breytt. Nýtt dæmi er svo vegur um Gálgahraun. Vegagerðin og Garðabær neyddust til að taka við athugasemdum, en lásu þær ekki. Kontóristarnir héldu fast við sinn keip.

Léleg landskjörstjórn

Punktar

Ekki mæli ég með, að þingkosningarnar verði ógiltar. Tel hins vegar rétt að erlendar stofnanir fái þær til rannsóknar. Píratar hafa kært ýmis atriði við framkvæmdina. Mun alvarlegri en pappakassarnir, sem ollu því, að Hæstiréttur ógilti kosninguna til stjórnlagaráðs. Léleg landskjörstjórn lærði ekkert af dómi Hæstaréttar. Lætur viðgangast margvíslegt lauslæti við framkvæmdina, svo sem opnar kjördeildir, óinnsiglaða og illa innsiglaða kjörkassa, svo og talningu atkvæða fyrir opnum dyrum. Fari þetta svínarí til hins pólitíska Hæstaréttar lendir hann í vanda vegna fyrra fordæmis. Það er gott á dólgana.

Eiturgufur höfuðborgar

Punktar

Brennisteinstvíoxíð er orðið vandamál í nágrenni varmaorkuvera. Stálmöstur stóru raforkulínanna tærast óeðlilega hratt í nágrenni orkuversins við Kolviðarhól. Orkuveitan hefur lengi látið undir höfuð leggjast að fylgjast í alvöru með því umhverfisslysi. Fnyk af brennsteinstvíoxíði leggur þaðan til höfuðborgarsvæðisins og bætist þar við brennisteinsvetni, sem leggur frá álverinu í Straumsvík. Bilanir eru að byrja í tölvubúnaði vegna tæringar. Mengun af þessu eitri er margfalt meiri og hættulegri í Reykjavík en í öðrum borgum heimsins. Við erum andvana á leiðinni til stórfellds heilsutjóns.

Kunna ekki á stefnuljós

Punktar

Athugun á akstri 900 ökumanna bendir til, að tveir af hverjum þremur noti ekki stefnuljós, þegar þeir fara úr hringtorgum. Kemur heim og saman við mína reynslu. Meirihluti ökumanna notar ekki stefnuljós og margir nota þau of seint. Sýna, hvað þeir voru að gera, en ekki það sem þeir ætla að gera. Notkun stefnuljósa og rétt notkun þeirra eykur öryggi í umferðinni. Akstur verður rólegri, ef maður þarf ekki sífellt að vera á varðbergi gagnvart fyrirvaralausum beygjum annarra. Blása þarf til herferðar um þetta í útvarpi og sjónvarpi. Eins og þær tíðkuðust hjá Umferðarstofu fyrir mörgum árum.