Punktar

Ástir forseta og Framsóknar

Punktar

Ástin blómstrar milli forsetans og Framsóknar. Ólafur Ragnar Grímsson var kominn heim í þingsetningunni. Söng eins og turtildúfa. Raunar lítur hann svo á, að sáttmáli stjórnarflokkanna sé innblásinn af hans eigin sigurgöngu síðustu misseri. Svonefnd útflutningsleið hans og dálæti á spillingar- og mengunarríkjunum Kína og Indlandi mun sennilega móta utanríkisstefnu okkar. Einnig er líklegt, að þar muni einnig endurspeglast óbeit hans á Evrópu. Trúlegast finnst mér, að nýr og óreyndur utanríkisráðherra muni fá leiðsögn í þeim málum á Bessastöðum. Höfundur handritsins er Ólafur Ragnar Grímsson.

Ómerkilegur Höskuldur

Punktar

Höskuldur Þórhallsson er ómerkileg persóna. Ítrekar lygi um tilboð stjórnar til stjórnarandstöðu. Fyrrverandi stjórn bauð fyrrverandi stjórnarandstöðu formennsku í fleiri nefndum en núverandi stjórn býður núverandi andstöðu. Hins vegar var boðið ekki þegið í fyrra tilvikinu. Þáverandi andstaða kaus heldur að geta látið eins og fífl í ræðustóli á þingi. Makalaust er, hversu langt ómerkilegir pólitíkusar komast upp með að ljúga sig gegnum ferilinn. Hann var jafnvel í formannskjöri í flokknum. Erlendis væru fjölmiðlar fyrir löngu búnir að steikja Höskuld. Með sama framhaldi taka fleiri upp ósiðinn.

Misjöfn er gæfa flokka

Punktar

Áður hef ég bent á misjafna gæfu Samfylkingarinnar og Vinstri grænna í vali á nýjum formanni. Nú mælist Katrín Jakobsdóttir sem sá pólitíkus landsins, sem mest hefur traustið, 63% af heildinni. Ekki nóg með það, heldur ber Samfylkingarfólk meira traust til hennar en til eigin formanns, Árna Páls Árnasonar. 93% þeirra treysta henni bezt, en 77% þeirra treysta Árna Páli bezt. Slíkt er einsdæmi. Enda fer Samfylkingunni mjög illa að hafa formann, sem opinberlega vill færa flokkinn til hægri. Síðustu útskýringar hans á fylgishruni flokksins hafa ekki aukið trú flokksmanna á forustuhæfni hans.

Útgerð á ríkissjóð

Punktar

Einn nýrra þingmanna Framsóknar er útrásargreifi. Vísir hf. Páls Jóhanns Pálssonar og systkina fékk 1,7 milljarða afskrift eftir misheppnaða útrás til Kanada. Hann á líka fyrirtækið Marver, sem skuldar 200 milljónum meira en það á. Greinilega réttur maður í hinum séríslenzka kapítalisma, sem felst í að færa tap yfir á skattborgara. Annar höfuðpaur, formaður Framsóknar í Reykjavík, Jón Ingi Gíslason, sætir ákæru fyrir skattsvik. Framsóknarmenn eru þannig ekki síður kræfir í græðginni en höfuðpaurar í Sjálfstæðisflokki. Enda er allur rekstur auðmanna á Íslandi meira eða minna útgerð á ríkissjóð.

Endurheimtum Vatnsmýrina

Punktar

Ég er eindregið andvígur nýrri byggð á flugvallarsvæðinu í Vatnsmýrinni eins og raunar allri þéttingu byggðar. Tel hana valda þrengslum í samgönguæðum og skaða lífsgæði fólks, sem býr við svæðið. Mér leiðist að vísu flugvöllurinn og vildi helzt endurheimta mýrina gömlu. Sjaldgæft er að hafa aðgang að opnu og meira eða minna villtu svæði í miðbæ höfuðborgar. Í stóru landi, þar sem fyrirsjáanlegur íbúafjöldi fer ekki yfir hálfa milljón, er óþarfi að byggja þétt. Nema þá fyrir það fólk, sem vill búa í kös. Það getur búið þétt á nýju svæði, svo sem í Geldinganesi. En látið ofsóttan miðbæ Reykjavíkur í friði.

Rökvilla Björns Vals

Punktar

Þótt bloggið hafi batnað, sjást þar einstaka sinnum rökvillur. Björn Valur Gíslason er ósáttur við skoðanir Sighvats Björgvinssonar. Björn Valur segir Sighvat “ofmeta stórlega stöðu sína og áhrif.” Ég vil ekki blanda mér inn í efnisatriði í deilu tveggja fyrrverandi þingmanna. Samt þarf ég þó að koma að einu atriði. Menn skrifa ekki endilega af því að þeir telji sig hafa glæsta stöðu og knýjandi áhrif. Þeir skrifa til að segja skoðun sína, það er allt og sumt. Björn Valur segir efnislega Sighvat vera áhrifalausan og eiga því að halda kjafti. Þar á milli er samt ekkert sýnilegt orsakasamhengi.

Íslendingur meikar það

Punktar

Sigurður Ingi Þórðarson komst langt. Menn töluðu hér í alvöru um, að vondir kallar, sennilega Wikileaks, væru að hlera Alþingi. Þvílíkum ljóma stafaði af Sigurði Inga, að bandaríska alríkislögreglan, FBI, sendi hingað sveit til að læra af snillingnum. Með stuðningi ríkislögreglustjóra tók hún hann með sér vestur um haf til að fá nánari fréttir. Allsherjarnefnd Alþingis var svo hrifin, að hún fékk hann til fundar við sig. Sigurður Ingi er þó valinkunnur svindlari, er býr til ævintýri til að lifa á. Situr í varðhaldi eftir frækna braskslóð og bunka af kærum. Já Íslendingar, við erum skáld og meikum það.

Ég vanmat heimskuna

Punktar

Ný skoðanakönnun Gallup bendir til, að fylgið hangi að mestu enn á Framsókn. Hún tapar bara þremur prósentustigum, fer úr 24 í 21. Hveitibrauðsdagar hennar virðast standa enn, þótt komið hafi í ljós, að loforðin voru harla lítils virði. Út úr fésbókinni les ég hins vegar almennt neikvæða umfjöllun um fyrstu spor ríkisstjórnarinnar. Af því dreg ég þá ályktun, að fésbókin endurspegli minna en hálfan þjóðarvilja. Hingað til hef ég gizkað á, að pólitískt vakandi fólk sé um helmingur þjóðarinnar. Líklega vanmat ég heimskuna. Sennilega eru töluvert færri læsir á pólitískar staðreyndir.

Hrokafulli strámaðurinn

Punktar

Þegar forsætis gleymir að láta andstöðuna vita, hvenær sumarþing hefst, er við hæfi, að hann segi “afsakið”. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kaus fremur að segja meintan brandara, sem ég að vísu skildi ekki. Af því má ráða, að hann eigi bágt með að viðurkenna mistök. Þolir líka illa gagnrýni á loforð, er átti að efna “strax” og reyndust eiga að efnast seint og kannski. Fyrstu skref gefa þannig ekki vísbendingu um, að hann verði landsföðurlegur. Fremur hyggst hann haga sér strákslega. Verst er, að brandararnir hans eru næsta óskiljanlegir. Hegðun hans er leiðinlega hrokafull, en virkar vel á fífl.

503 milljarða Davíðs-hrun

Punktar

Smám saman næst betri sýn yfir tjón þjóðarinnar af Davíðs-hruninu. Dýrast var gjaldþrot Seðlabanka Davíðs, sem kostaði ríkissjóð 175 milljarða. Síðan kom Landsbanki Bjögganna með 122 milljarða á kostnað ríkisins. Þar næst var Íbúðalánasjóður með 90% Framsóknar-lánin, sem kostuðu ríkið 60 milljarða og Arion banki, sem kostaði ríkið 46 milljarða. Sögufrægt IceSave kostaði ríkið 35 milljarða, Íslandsbanki 28 milljarða, Lánasjóður landbúnaðarins kostaði 14 milljarða, Sjóvá Bjarna Ben 12 milljarða og Sparisjóður Keflavíkur 11 milljarða. Alls lentu því 503 milljarðar hrunsins á sjóði allra landsmanna.

Dularfullir hringir skoðaðir

Punktar

Góð frétt af Seltjarnarnesi. Bærinn samdi við Þjóðminjasafnið og Háskóla Íslands um fimm ára rannsókn hringjanna við Nesstofu. Björn Rúriksson, flugmaður og ljósmyndari, tók eftir hringjunum fyrir tveim áratugum og myndaði þá. Grafið var í hringina og kom þá í ljós, að þeir voru hlaðnir af mannavöldum, misjafnir að ummáli, en nákvæmir að hringmáli og afar gamlir. Ekkert framhald varð af málinu, enda hafa fræðingar löngum átt erfitt með að kyngja óútskýrðum fornminjum. Eftir tveggja áratuga þögn um dularfullan þátt í sögu landsins hafa menn loksins brotið odd af oflæti sínu. Og kanna málið.

Hafa vit fyrir fólkinu

Punktar

Skipulagssinnar borgarinnar segjast vilja bæta umhverfi borgarbúa, en spyrja þá sjaldnast um vilja þeirra. Skipulagssinnar vilja þétta byggð í gömlum borgarhlutum. Spyrja samt ekki íbúa þessara hverfa, hvort þeir vilji meiri þéttingu og minna útsýni. Skipulagssinnar vilja víkja einkabílum til hliðar fyrir almannasamgöngum. Spyrja samt ekki fólkið, hvort það vilji færa sig yfir í strætó. Skipulagssinnar vilja reka fólk úr dreifðum hverfum í turna niðri í bæ. Spyrja samt ekki einbýlisfólkið, hvort það vilji heldur búa í þessum háu miðbæjarblokkum. Skipulagssinnar vilja skipuleggja fólkið.

Auðræði og þjófræði

Punktar

Þótt lýðræði sé hér gallað, er það þó hátíð miðað við ýmis lönd, sem þó hafa frjálsar kosningar. Bandaríkin og Rússland eru dæmi um afleitt lýðræði. Í Bandaríkjunum styðja kjósendur auðræði. Allir þingmenn og forsetinn gæta aðeins hagsmuna auðmanna og stórfyrirtækja. Hér stefnir lýðræðið í sömu átt með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki. Í Rússlandi styðja kjósendur svo þjófræði. Vladimír Pútín og gæludýr hans ræna og rupla samfélagið að hætti íslenzkra útrásarvíkinga. Þjófræðið er þar eins augljóst og auðræðið í Bandaríkjunum. Kjósendur á báðum stöðum láta sér það í léttu rúmi liggja.

Strax þýðir seint

Punktar

Oft hefur Framsókn logið, en aldrei eins stíft og fyrir þessar kosningar. Loforðin voru skýr og eru núna öll fokin. Frosti Sigurjónsson var spurður á Bylgjunni fyrir kosningar, hvenær ætti að efla loforðin. Hann svaraði skýrt: Strax. Ég vissi, að þetta var lygi og margir fleiri. Við vöruðum kjósendur sérstaklega við Framsókn. Kjósendur völdu samt að láta ljúga að sér, enda með afbrigðum heimskir. Frá upphafi var ljóst, að loforð Framsóknar voru óframkvæmanleg. En kjósendur vildu heldur heyra notalega lygi en óþægileg sannyrði. Það er vandamál lýðræðis í þjóðfélagi hinna pólitískt ólæsu.

Stóra loforðið fokið

Punktar

Snögg breyting varð kosninganóttina á stefnu núverandi stjórnarflokka. Til nefnda er vísað öllum fyrri forgangsmálum, sem varða lítilmagnann. Hæst ber þar afnám vísitölu á húsnæðislán. Í staðinn voru settir í forgang hagsmunir kvótagreifa og annarra auðstétta. Jafnvel áður boðuðum breytingum á lífeyri aldraðra og öryrkja verður breytt í fjárstyrk við gamla fjármagnseigendur. Sumarþingið verður notað til að gera auðlindaskattinn marklausan. Íslenzk móðir Theresa með “hagsmuni heimilanna” hefur ummyndazt í skrímsli, sem setur hagsmuni auðs og kvóta á oddinn. Allt er það í boði heimskra kjósenda.