Punktar

Nefndir – ekki efndir

Punktar

“Engar efndir, bara nefndir” er góð lýsing Katrínar Júlíusdóttur þingmanns á afdrifum loforða um afskriftir skulda heimilanna. “Strax” var lofað á sínum tíma, þegar spurt var um efndir. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætis lagði í gær fram tillögu til þingsályktunar í tíu liðum. Þeir fjalla allir um, að nefndir verði skipaðar í einstökum þáttum málsins. Þær eru stundum kallaðar hópar eða sérfræðingahópar eða verkefnisstjórnir. Mál verða réttlega skoðuð og margir aðilar koma þar að. Því má ekki búast við neinum afskriftum næstu árin. Sem betur fer. Ferlið í heild kallast: “Engar efndir, bara nefndir”

Skipbrot verkfræðinga

Punktar

Glannafengnir verkfræðingar bera mikla ábyrgð á jarðvarmavirkjunum. Teymdu pólitíkusa á asnaeyrunum, í Kröflu fyrst og síðan Hellisheiði. Þóttust þar á ofan geta kennt útlendingum allt um jarðvarma. Á Hellisheiði hefur komið í ljós, að orkan er ekki endurnýtanleg, heldur rýrnar hratt. Þar á ofan hafa verið framkallaðir hættulegir jarðskjálftar með niðurdælingu vatns. Eitraðar brennisteinsgufur leggur um fjarlægar sveitir og valda skaða, sem enginn veit enn, hversu mikill verður. Vopnaðir óðagoti verkfræðinga gengu pólitíkusar berserksgang og ramma-skipulögðu jarðvarmaver kruss og þvers.

Samanburður leiðtoga

Punktar

Þegar ég komst á netið í dag, sá ég atkvæðagreiðslu dv.is um frammistöðuna í eldhúsumræðu. Óttar Proppé var talinn beztur, sem kom mér ekki á óvart. Enga frétt sá ég um innihald ræðunnar, rétt minnst í einni setningu á íkorna efst í tré. Blaðamenn eru vanir að lýsa froðu, þeim fallast hendur við innihald. Næst kom Katrín Jakobsdóttir, sem kom mér ekki heldur á óvart. Sá þriðji var Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sem velti sér að venju upp úr froðu þjóðrembu. Að hætti Jónasar frá Hriflu, Ólafs Ragnars Grímssonar og Guðna Ágústssonar. Fífl elska froðu. Mögrum hestum riðu Bjarni Ben, Árni Páll og Steingrímsson.

Námskeið fyrir Davíð

Punktar

Eitt námskeiða minna er nánast sérhannað fyrir margreyndan Davíð Oddsson. Námskeið í ritstjórn, sem sýnir, hvernig ritstjórar eiga að vera. Reynsla þeirra á öðrum vettvangi kemur ekki sjálfgefið að gagni á ritstjórn. Ég kenni, hvernig þeir eiga að hafa hendur í vösum og halda þeim í vösunum, þegar þeir skoða gölluð handrit blaðamanna. Sýni, hvernig ritstjórar eiga að halda uppi góðum anda á ritstjórn, hvernig þeir kenna blaðamönnum að kenna sér sjálfum. Þar að auki fjalla ég rækilega um ritstjórn tímarita og ýmsar tegundir leiðara. Og um erfiðleikana, sem steðja að hefðbundnum fjölmiðlum.

Pólitíska fagfólkið

Punktar

Eru sveitarstjórnafólkið Svanfríður Jónasdóttir Elín R. Líndal og Unnur Brá Konráðsdóttir fagmenn í verndun og virkjun? Eru framkvæmdastjórarnir Friðrik Dagur Arnarson, Hjörleifur B. Kvaran, Kristín Linda Árnadóttir og Þorbjörg Eva Erlendsdóttir fagmenn í verndun og virkjun? Þetta fólk skipaði “faglegu” verkefnisstjórnina, sem samdi fyrri rammaáætlun um verndun og virkjun. Hvað eftir annað segja nýir ráðherrar, að þetta hafi verið faglega ferlið, sem hafi skort í síðari rammaáætlun. Stjórnarsinnar endurtaka í síbylju, að þeir vilji færa málið í þetta fyrra “faglega” ferli. Lygin er þeirra leiðarljós.

Verndum Snowden

Punktar

Edward Snowden er einn af merkismönnum áratugarins, þar í hópi með Bradley Manning. Báðir láku upplýsingum úr kerfinu um ofurglæpi Bandaríkjastjórnar. Snowden um hleranir Barack Obama og Manning um stríðsglæpi George W. Bush í Afganistan og Írak. Afleiðingin er sú, að ríki, sem áður var talið fyrirmynd Vesturlanda, er nú fyrirlitið af öllu heiðarlegu fólki. Sjálfgefið er, að Wikileaks, IMMI og Píratar reyni að fá Ísland til að veita Edward Snowden hæli áður en glæpalýður CIA klófestir hann. Þröskuldur er þó þar í vegi, þar sem er ný ríkisstjórn Íslands, sem af eðlisávísun hefur óbeit á kerfisleka.

Orkuver veslast upp

Punktar

Hellisheiðarvirkjun er byrjuð að veslast upp. Ósjálfbær, dregur upp meiri hita en bætist við. Frá áramótum hefur framleiðslan minnkað um 30 megavött. Fréttablaðið skúbbaði þessu í morgun. Þetta gerist, þegar hófs er ekki gætt, er menn göslast án fyrirhyggju. Í örvæntingu hyggst Orkuveitan leggja þangað þriggja milljarða rör frá borholum ráðgerðrar Hverahlíðarvirkjunar. Sem þá verður væntanlega ekki reist. Hvað verður þá um álvers-órana í Helguvík? Vitfirringar álvæðingar eru búnir að semja um orku, sem ekki er til, og nú kemur að skuldadögunum. Er hægt að stöðva stjórnlaust ofstæki álvæðingar?

Umhverfisóbeit meirihlutans

Punktar

Nú þarf ekki lengur umhverfisráðherra. Málefni hans hafa verið færð undir hagsmunaráðherra hefðbundinna atvinnugreina. Og Sigurður Ingi Jóhannsson framsóknar telur sérstakt ráðuneyti óþarft. Endurspeglar óbeit núverandi stjórnarflokka á umhverfismálum. Telja þau tefja fyrir umsvifum verktaka á vegum orkuvera og stóriðju. Landsbyggðarfólk Framsóknarflokksins telur umhverfismál vera lúxusmál latté-lepjandi langskóla-letingja hverfis 101 í Reykjavík. Þjóðin skiptist í tvö horn og umhverfissóðarnir hafa tekið völdin. Auðvitað í samræmi við vilja meirihluta kjósenda.

Ein lygi kallar á aðra

Punktar

Versti gallinn við að ljúga er, að þú verður að halda áfram að ljúga. Þegar veruleikinn kemur í ljós og stingur í stúf við sýndarveruleika þinn, verður þú að spinna nýja lygi. Vefur þinn verður alltaf flóknari og þú getur ekki ætíð haft alla að fífli. Á endanum nær veruleikinn í skottið á þér. Þetta er vandamál Framsóknar, sem sigraði í þingkosningunum með því að ljúga að fólki, búa til sýndarveruleika. Almenningur hélt að hægt væri að afskrifa skuldir sínar eins og hægt var að afskrifa skuldir nokkurra höfðingja. Nú er næsta skref Sigmundar Davíð að útskýra, hvers vegna þetta gerist ekki strax.

Krónan er vandinn

Punktar

Davíðs-hrunið var bankahrun og gengishrun. Atvinnulífið hélt áfram á næstum fullum dampi, en lánsfé þraut. Hin frægu “hjól atvinnulífsins” snerust vel. En landið varð bara að lifa á afurðum sínum, ekki á ímyndunum. Laun lækkuðu, velferð minnkaði og ríkið tók á sig 500 milljarða. Einkum urðu Seðlabankinn og viðskiptabankarnir þungbærir. Fimm árum síðar er flest komið á eðlilegt ról. Vöruskipta- og viðskiptajöfnuður hafa lengi verið afar hagstæðir, smám saman saxast á skuldirnar. Eftir stendur svonefnd snjóhengja, sem felst í að kröfuhafar vilja alvörufé, en engar krónur. Vandi krónunnar vofir því enn.

Ráðherra fullveldismála

Punktar

Samkvæmt forsætisráðherra er orðið til nýtt hlutverk í stjórnsýslunni. Það er ráðherra fullveldismála, Ólafur Ragnar Grímsson forseti. Auk þess sagði forsætisráðherra í gær, að Evrópusambandið heyrði undir fullveldismál. Áður var flokksbróðir hans, utanríkisráðherra, búinn að segjast ráða Evrópumálum. Því eru misvísandi útgáfur í gangi. Útgáfa forseta og forsætisráðherra felur í sér stjórnarbyltingu: Þingræði er breytt í forsetaræði að bandarískum og frönskum hætti. Framhjá stjórnarskrá. Veigamestu mál eru á vegum forsetans, en fyrirgreiðsla gæludýra á vegum forsætisráðherra og viðkomandi ráðherra.

Þjóðaratkvæði sagt óþarft

Punktar

Ofan á önnur svik loforða, hyggst ríkisstjórnin sleppa þjóðaratkvæðinu um, hvort halda eigi áfram aðildarviðræðum við Evrópu. Meirihluti er þó fyrir því, þótt minnihluti vilji sjálfa aðildina. Samkvæmt Sigurði I. Jóhannssyni ráðherra þarf ekki þjóðaratkvæðagreiðslu, því þjóðin sé á móti aðild. Þetta sagði hann ekki kjósendum fyrir kosningar, en gerir það núna, þegar öllu er óhætt. Framsókn fer létt með þessi svik eins og svikin um skjótar afskriftir íbúðaskulda. Sumarþingið fer ekki í þessi mál né önnur mál, sem snerta hag almennings. Þar verður bara fjallað um hag kvótagreifa og annarra auðgreifa.

Ölvaður af velgengni

Punktar

Forseti Íslands er orðinn svo ölvaður af dálæti þjóðarinnar, að hann ruglar út í eitt. Hafði í einni og sömu þingsetningarræðu tvær gagnstæðar skoðanir á afstöðu Evrópusambandsins til Íslands. Í fyrsta lagi fullyrti hann, að Evrópusambandið hefði engan áhuga á aðild Íslands. Í öðru lagi, að það yrði Evrópusambandinu áfall ef Íslendingar höfnuðu aðild að Evrópusambandinu. Annað getur verið rétt, en ekki hvort tveggja. Vinsælt ruglið í forsetanum hefur því miður haft töluverð áhrif á lélega pólitíkusa. Í auknum mæli fara þeir með órökstutt bull og komast upp með það hjá fjölmiðlum og kjósendum.

Útgerð á ríkissjóð

Punktar

Einn nýrra þingmanna Framsóknar er útrásargreifi. Vísir hf. Páls Jóhanns Pálssonar og systkina fékk 1,7 milljarða afskrift eftir misheppnaða útrás til Kanada. Hann á líka fyrirtækið Marver, sem skuldar 200 milljónum meira en það á. Greinilega réttur maður í hinum séríslenzka kapítalisma, sem felst í að færa tap yfir á skattborgara. Annar höfuðpaur, formaður Framsóknar í Reykjavík, Jón Ingi Gíslason, sætir ákæru fyrir skattsvik. Framsóknarmenn eru þannig ekki síður kræfir í græðginni en höfuðpaurar í Sjálfstæðisflokki. Enda er allur rekstur auðmanna á Íslandi meira eða minna útgerð á ríkissjóð.

Friðlaus er græðgin

Punktar

Vikulega fréttum við af óseðjandi græðgi. Slitastjórnir banka eru sífellt undrunarefni. Hækka laun sín 50% milli ára og einstakir stjórnarmenn taka allt að sjö milljónir króna á mánuði. Þetta er helsjúkt, en samt var engum lögum breytt um þetta efni í fjögur ár vinstri stjórnar. Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur nefnir í Skessuhorni annað dæmi frá Stykkishólmi, sem er auglýstur gamall menningarbær. Samt eru leyfðir spíttbátar og skiltaskógar, svo og sjoppa við minnisvarða látinna sjómanna. Fyrirtæki í ferðaþjónustu nota erlend heiti, Harbour Hostel og Ocean Safari. Græðgin rýrir söluvöruna.