Punktar

Vægu orðin ekki vítt

Punktar

Bjarkey Gunnarsdóttir sagðist á alþingi í vikunni telja ríkisstjórnina hafa hag útgerðarmanna fyrir brjósti, frekar en heimilanna í landinu. Varla er nú hægt að fjalla með vægara orðalagi um kollsteypuna. Risavaxin loforð um gull til heimilanna voru sett í áralangar nefndir, en lægri auðlindarenta greifa sett í brýnan forgang. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður kvótagreifanna, vill þrengja að möguleikum þingmanna til að lýsa hegðun bófanna á alþingi. Vildi, að forseti alþingis vítti Bjarkeyju fyrir væg orð hennar, en ekki var orðið við því. En óskin bendir til, að bófar vilji efla mátt sinn og megin.

Taka niður grímuna

Punktar

Enn taka ráðherrar niður grímuna og sýna andlitin. Nú vilja Ragnheiður Elín og Sigurður Ingi fresta undirritun stækkun friðlands Þjórsárvera. Sem var í samræmi við rammaáætlun, samkomulag var komið og undirskrift boðuð í dag. Þá þeytir Hörður Arnarson í Landsvirkjun skiptilyklinum í gangverkið. Fjöldi fólks fer auðvitað af stað vegna þessa. Gerist, þegar 30.000 hafa skrifað undir áskorun um, að ríkisstjórnin láti auðlindarentuna í friði. Sigurði I. Jóhannssyni fannst á sínum tíma 15.000 undirskriftir jafngilda þjóðarvilja. En ekki lengur, gríma kvótaráðherrans er þegar fallin. Þetta eru bófar.

Misjafn er æsingurinn

Punktar

Fyrir kosningar fylgdust núverandi stjórnarsinnar á Alþingi með áskorunum á netinu. Hvöttu þáverandi stjórnvöld og forsetann til að taka mark á þeim. Núverandi kvótaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson sagði áskorun lýsa vilja þjóðarinnar, þegar undirskriftir urðu 15.000. Pétur Blöndal gat ekki orða bundist, þegar áskorun komst í 16.000 undirskriftir. Vigdís Hauksdóttir var orðin mjög æst, er áskorun komst í 26.000. Núverandi landsfeður, Sigmundur Davíð og Bjarni Benediktsson, töldu 30.000 vera rosalega háa tölu. Þegar áskorun gegn lækkun auðlindarentu fer núna yfir 30.000, hnussa þessir allir.

Íslenzka er að batna

Punktar

Þegar ég kenndi textastíl í símenntunardeild Háskólans í Reykjavík fyrir hálfum áratug, lét ég nemendur stytta texta. Skera leiðara úr 400 orðum í 200 orð og síðan í 100 orð án þess að tapa neinu. Nægur efniviður var, texti greina var almennt lélegur. Nú er ég aftur kominn af stað. Svo bregður við, að ég þarf að grafa eftir efnivið. Leiðarar duga ekki lengur og jafnvel ekki aðsendar greinar í blöðum. Eina skýringin, sem ég hef, er, að textagerð hafi almennt batnað svona mikið á stuttum tíma. Sé það rétt, þarf ekki að óttast um framvindu tungumálsins. Stofnanastíll er á undanhaldi fyrir alþýðustíl.

Ballið rétt að byrja

Punktar

Augljóst er nú, að við völd eru bófaflokkar, eins og ég benti oft á fyrir kosningar. Þeir setja fögur kosningaloforð í flókin og tímafrek ferli í alls konar nefndum. Vinda sér hins vegar beint í að þjónusta þá, sem borguðu kosningabaráttu Framsóknar og Sjálfstæðis. Fólk er nú loksins að fatta hið rétta, að þetta eru hreinir bófaflokkar. Sést vel af skarpri þáttöku fyrstu tveggja daganna í undirskriftasöfnun gegn lækkun auðlindarentu kvótagreifa. Hagi bófarnir sér eins gróft og þeir hafa gert eftir kosningar, má búast við, að þeir æsi meirihluta fólks gegn sér. Og þá er ballið rétt að byrja.

Of ódýr orka til álvera

Punktar

Júlíus Jónsson, forstjóri HS Orku, viðurkennir í Viðskiptablaðinu , að ekki sé grundvöllur fyrir orkusölu til Helguvíkur. Álverð sé svo lágt og verði áfram svo lágt, að annað hvort hljóti álverið að tapa eða HS Orka. Hann segir: “Þetta er ekki að skapa nægar tekjur til að ganga upp.” Áður hafði formaður Sambands unga sjálfstæðismanna tjáð sig um málið. Davíð Þorláksson sagði ófært, að ríkið sjái stóriðju fyrir ódýrri raforku og skattgreiðendur séu teknir að veði til að niðurgreiða orkuna. Æðibunumenn stóriðjustefnu eru næsta heyrnarlausir, en neyðast til að taka mark á þessum heimildarmönnum.

Forneskja dómara

Punktar

Ekkert samband er milli réttlætis og dóma. Stundum er jafnvel ekkert samband milli laga og dóma, til dæmis í meiðyrðamálum. Hvað eftir annað verður ríkið skaðabótaskylt vegna sérkennilegs haturs hæstaréttardómara á blaðamönnum. Réttlæti sækir fólk ekki til Hæstaréttar, heldur til Mannréttindadómstóls Evrópu. Nýjasta dæmið um forneskju karlanna í Hæstarétti er dómurinn, sem sýknaði nauðgarana á sérkennilegri tækniforsendu í klaufagangi löggunnar. Markús, Árni, Claessen og Ólafur Börkur verða seint gleymdir. Yfir allan vafa eru mennirnir sekir um glæpinn, sem meirihluti dómara sýknaði þá af.

Tími geldinganna

Punktar

Eftirsjá er að Agli Helgasyni úr Silfrinu. Hefur borið uppi vitræna umræðu um pólitík. Yfirburðir hans eru slíkir, að honum hefur tekizt bezt upp, er hann hefur fengið áður óþekkt þungavigtarfólk í tveggja manna tal. Slíkt er auðvitað ávísun á magasár þeirra, sem óttast hlutdrægni í hverju horni. Í stað Egils munu koma tveir vinstri-hægri gaurar á borð við Mörð og Hannes Hólmstein sællar minningar. Þá verða öll ágreiningsmál leyst á þann hátt að fá tvo þrasara til að rífast um hvert mál. Niðurstaðan verður auðvitað núll og þátturinn missir áhorf. Líklega er að rísa geldingatími á ríkisútvarpinu.

Forseti í vanda

Punktar

Forseti Íslands skiptir” hraðar um skoðun en árlega. Fyrir ári sagði hann “fá mál jafn vel til þess fallin að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu eins og kvótamálin”. Hann getur haft þveröfuga skoðun núna, ef það hentar honum eða vinfengi hans við silfurskeiðunga. En fjölmenn áskorun um þjóðaratkvæði mun valda honum vandræðum, þegar hún fer að skipta tugum þúsunda. Eins getur verið, að hann bakki út úr bandalaginu við umboðsmenn kvótagreifa og fylgi heldur þjóðinni að málum. Því er útlit fyrir spennandi stjórnmálasumar að þessu sinni. Stendur Ólafur Ragnar við stóru orðin frá 13. maí í fyrra?

Blikkfast ofmat

Punktar

Egill Helgason er sendiherra Íslands í umheiminum, með aðsetri í Reykjavík. Við hann tala erlendir blaðamenn um stöðu mála. Egill reynir að leiðrétta ýmislegt ofmat. Í hruninu hafi byrðar verið lagðar á fólk, pólitíkusar og bankamenn hafi ekki verið fangelsaðir og hér hafi þjóðin ekki sett nýtízku stjórnarskrá. Tengsl séu að vísu við Wikileaks, IMMI-málfrelsisstofnun verið komið á fót og þingsályktun samin um upplýsingafrelsi. Framhald skorti á því stundaræði og allt sé við það sama og áður. Engin paradís upplýsingafrelsis fæddist hjá ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms. Þessu ná erlendir blaðamenn alls ekki. Og ný ríkisstjórn bófaflokka mun aldrei hjálpa Edward Snowden, né öðrum uppljóstrurum.

Jón Steinsson skilst

Punktar

Jón Steinsson hagfræðingur hjá Colombia hefur lag á að fjalla á einfaldri íslenzku um vú-dú hagfræðina. Stjórnarandstaðan ætti að halla sér að rökum hans og ekki tapa sér í skerjagörðum. Auðlindir hafsins á að leigja út eins og hvert annað hús. Leigan á að ákvarðast af markaði, ekki af mati leigðra umboðsmanna kvótagreifa. Á þessu flaskaði stjórnarandstaðan, þegar hún var fjögur ár í stjórn. Veiðikvótann á einfaldlega að bjóða út eins og einboðið er í allri hagfræði markaðshyggjunnar. Á því mun þjóðin græða margfalt meiri auðlindarentu en hún fær núna. Lesið grein Jóns Steinssonar og notið hana.

Ekkert víkingaþorp

Punktar

Því fer fjarri, að hér búi afkomendur frjálsra víkinga. Hér eru hins vegar afkomendur hælisleitenda, sem hrökkluðust hingað undan ófriði víkinga. Litlum sögum fer af aðild Íslendinga að svaðilförum suður um Evrópu, enda hafa þeir þá ílenzt þar. Ferðabransinn reynir að selja útlendingum þá firru, að hér hafi risið víkingaþorp. Þeir trúa auðvitað öllu, það gera Íslendingar líka. Á síðustu árum hefur þjóðsagan öðlast pólitískt gildi. Skálkarnir sáu, að þjóðremba er allra greiðasta leiðin að hjörtum vitgrannra afkomenda tuga kynslóða af kúguðum kotkörlum. Hjá þeim er Hákot voldugt og vinsælt orð.

Úlfarnir og sauðirnir

Punktar

Ein dæmisaga Esóps snýst óbeint um hagsmuni heimilanna, sagan um úlfana og sauðina: “Af hverju er allur þessi ótti og allt þetta dráp okkar í milli?” sögðu úlfarnir við sauðina. “Þessir vondu hundar bera ábyrgðina. Þeir gelta ætíð, þegar við komum, og ráðast á okkur, áður en við gerum neitt af okkur. Ef þið segðuð þeim upp, mundu fljótt komast á samningar okkar í milli um sátt og frið.” Af því að sauðir eru sauðir, létu þeir sannfærast og sögðu upp hundunum. Síðan réðust úlfarnir á sauðina og átu þá. Og úti er ævintýri.

Láta raska ró sinni

Punktar

Skrítið pláss Akureyri. Alltaf að reyna að draga til sín sumargesti og þá yfirleitt með einhver skrílslæti. Frægar eru ofdrykkjuhátíðir, sem haldnar voru niðri í bæ, þar sem þær valda mestum næturófriði fyrir heimamenn. Til viðbótar eru nú komnar hátíðir kappaksturs og reykspóls. Geðveikir ökumenn spóla um nætur í svefngötum, framleiða hávaða. Ég veit enga aðra, sem vilja kalla svona yfir sig. Akureyri er eiginlega bara þorp, hefur enga fiskbúð. Þrjú veitingahús á Húsavík eru betri en bezta veitingahúsið á Akureyri. Hér verður hins vegar ekki þverfótað fyrir skyndibita. Höfuðstaður Norðurlands?

Næsti bær við Adolf

Punktar

Þjóðrembdasta þjóðhátíðarræða lýðveldistímans í dag. Sigmundur fylgdi orðum Samuel Johnson: “Þjóðremba er höfuðvígi skálksins.” Auðvitað var útlandið fremst í skotlínu. Sallaði á Evrópusambandið og Alþjóða gjaldeyrissjóðinn. Sleppti Schengen og glæpalýð frá Austur-Evrópu, Vigdís sér um það. Forsætis mundi þó eftir forréttindapakkinu í hverfi 101. Vigdís afgreiðir alla aðra minnihlutahópa, einkum velferðarþegana, sem sliga kvótagreifana. Vitgrönnum afkomendum norskra hælisleitenda finnst ljúft að láta ljúga í sig, að þeir séu afkomendur frjálsra víkinga. Næsti bær við Adolf Hitler. Gefst hér vel.