Punktar

Tvær ógnir vesturlanda

Punktar

Bandaríkin og Bretland eru meiri ógn við mannréttindi en harðstjórar þriðja heimsins samanlagðir. Bæði ríkin hafa fjölmennar og tæknivæddar stofnanir til að njósna um borgarana, óvini sína. Brave New World kominn til að vera. Glæpur Edward Snowden var að koma upp um hluta af þessari iðju stjórnvalda. Fyrir utan ríkisstofnanir á borð við NSA í Bandaríkjunum og GCHQ í Bretlandi reka einkafyrirtæki öflugar njósnir, svo sem HBGary, Palantir, Berico og Team Themis. Grafa undan áhugahópum á borð við andstæðinga Kárahnjúkavers með því að dreifa lygum. Hindra fólk í að fá réttar fréttir af stórmálum.

Með naglbít í vasanum

Punktar

Samkvæmt 23. grein gildandi náttúruverndarlaga frá 1999 er óheimilt að girða fyrir gamlar leiðir. Byggist á eldfornum lögum, sem leystu ágreining landeigenda og ferðamanna. Eignarhald á landi felur ekki í sér afskipti af ferðum gangandi og ríðandi fólks. Þess vegna er lokun Kersins og gjaldheimtan þar beinlínis ólögleg. Eignarhald á landi veitir engan rétt til innheimtu gjalds af umferð fólks. Þar, sem svona vitleysa hefur komið upp á reiðleiðum, hafa hestamenn einfaldlega klippt girðingar. En nú verður ástandið þannig á gönguleiðum, að sennilega þarf almenningur að taka með sér naglbít í sumarleyfið.

Ekki er allt sem sýnist

Punktar

Equador er engin háborg mannréttinda og upplýsingafrelsis. Þvert á móti er verið að þrengja þar að upplýsingafrelsi. Samt hefst Julian Assange við í sendiráði Equador í London til að verjast aðför Bretlands og Svíþjóðar að Wikileaks. Og Edward Snowden, sem kom upp um persónunjósnir Bandaríkjanna, er sagður á leið í skjól í Equador. Heimurinn virðist vera flóknari en við héldum. Bandaríkin og Bretland þóttust lengi vera handhafar alls réttlætis. Eru samt að hrapa niður á svipað alræðisstig og tíðkast í þriðja heiminum. Meira að segja Svíþjóð þumbast við að gæta hagsmuna alræðis gegn almenningi.

Skáldið emjar hástöfum

Punktar

Landsins mesta skáld, sem lofaði þjóðinni gullregni strax eftir kosningar, emjar hástöfum í grein í Morgunblaðinu. Hvergi fjallar hann þar um málsefni, heldur eingöngu um, hversu vondir menn séu við sig. Sennilega orðinn svo forstokkaður, að hann trúir eigin órum. Telur sig sæta ofsóknum óbilgjarnra efahyggjumanna. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson gat í fjögur ár hrópað eins og hver annar ábyrgðarleysingi. Svo þegar hann er loks kallaður til ábyrgðar, emjar hann eins og stunginn grís: Þið eruð vondir við mig. Erfitt hlýtur að vera að hafa fátt til málanna að leggja annað en vænisýki um ofsótt sjálf.

Feigðarsöngur endurtekinn

Punktar

Forseti Íslands hótaði okkur í gær í Berlín. Sagði Íslendinga vera á góðri leið með að endurheimta sjálfstraustið, sem þeir höfðu fyrir hrun. Skelfileg tilhugsun, á þá allt að fara aftur til fjandans? Sízt af öllu vantar þjóðina sjálfstraustið, sem var meginþáttur hrunsins. Þá dró Ólafur Ragnar Grímsson upp afskræmda mynd af þjóð, sem skorti sjálfsaga. Sem taldi sér trú um, að umfram aðrar þjóðir hefði hún arfgenga hæfni til viðskipta og nýsköpunar. Hann byrjar aftur sama feigðarsönginn. Auðvelt er að telja Íslendingum trú um, að veruleikaflótti sé rétta leiðin til að græða skyndilega glás af fé.

Láta sér flest um finnast

Punktar

Mín reynsla af umræðuhefð er þveröfug við reynslu Gerðar Kristnýjar og Ólínu Þorvarðardóttur. Hef fylgst með henni og tekið þátt í henni í hálfa öld. Hún hefur þvert á móti batnað. Einkum eftir innreið internetsins og fylgifiska þess, bloggs, fésbókar og tísts. Fólk veit núna margfalt meira um framvindu mála en áður fyrr. Ríkiskerfið er orðið að gatasigti, sem lekur upplýsingum. Fólk trúir ekki lengur, að pólitíkusar og kontóristar vinni að almannaheill. Fólk veit einfaldlega betur. Það er að segja þeir, sem nota hina nýju miðla. Nýfrjáls almenningur lætur sér ekki lengur fátt um finnast. Sem betur fer.

Falleinkunn tíu punktanna

Punktar

Stofnanir og samtök hafa almennt gefið tíu skuldapunktum ríkisstjórnarinnar falleinkunn. Kemur ekki á óvart. Jafnvel Sjálfstæðisflokkurinn taldi fyrir kosningar sjónhverfingar Sigmundar Davíðs og Frosta Sigurjóns vera óráð. Og það er ekki falleinkunn frá stjórnarandstöðu, heldur stofnunum og samtökum. Ekkert þýðir fyrir Frosta sjónhverfingamann að segja þessar athugasemdir Seðlabankans og fleiri aðila vera misskilning. Sjónhverfingarnar sjálfar eru hættulegur misskilningur, sem getur leitt til ríkisgjaldþrots. Erum komin með glórulausa stjórnarstefnu, sem mest er kjósendum Framsóknar að kenna.

Bannað að pissa

Punktar

Hef stundum farþega, sem þarf sérfæði og getur ekki nýtt sér mat í sjoppum við þjóðvegi. Mér hefur verið bent á, að varhugavert sé að koma með slíkt fólk í skálana Baulu í Borgarfirði og Vegamót á Snæfellsnesi. Þar sé því kastað út, reyni það að pissa eða borða með ferðafélögum sínum, sem kaupa mat. Náttúrlega vegavillt græðgi staðarhaldara, sem þarf að berast á netinu, svo fólk geti forðast staðina. Vegagerðin á að setja upp viðvörunarskilti utan við þá staði. Þannig verður hindrað, að græðgin valdi óþægindum. Nóg er af skálum með mannasiði, þótt keyrt sé framhjá skálunum Baulu og Vegamótum.

Ekkert uppeldisgildi

Punktar

Hef aldrei talið skrif mín hafa neitt uppeldisgildi. Diplómatísk sjónarmið ráða engu um skrif mín. Hef til dæmis aldrei reynt að ljúga að fólki, að það sé fært um að taka þátt í lýðræði. Læt mér ekki detta slíkt í hug. Grikkir eru alltaf Grikkir, þótt þeir séu þvegnir með salmíaki. Og sama er að segja um okkur. Tugþúsundir skrifa undir áskorun um að lækka ekki auðlindarentu kvótagreifa. En fáir láta það hafa áhrif á hegðun sína í kjörklefanum. Því segi ég, að fífl kjósi bófa. Dæmin sanna það. Auðvitað er dónalegt að tala svona um fólk. En einhverjir þurfa að segja sannleikann um auma Íslendinga.

Forsendubrestur allra

Punktar

Margir urðu fyrir miklu tjóni í hruninu. Sumir misstu allt sitt, sumir vinnu og aðrir eignir. Aldraðir og öryrkjar töpuðu miklu. Sömuleiðis námsmenn og skuldarar hárra húsnæðislána. Allt má kalla þetta forsendubrest, ef menn vilja. Engir 300 milljarðar af almannafé finnast til að leiðrétta tjón bara eins hópsins. Samt trúðu skuldarar íbúðalána, að það væri hægt. Framsókn lofaði meira gullregni en sem nemur öllum samanlögðum loforðum pólitíkusa frá upphafi fullveldis. Hafa má kosningarnar til marks um pólitíska heimsku fjölmargra og ósvífni vinsælasta bófans í pólitíkinni um þessar mundir.

Hrunið var íslenzkt

Punktar

“Svokallað efnahagsundur á Íslandi var rakið til meintra yfirburða Íslendinga í alþjóðaviðskiptum sem áttu síðan að eiga rætur sínar í arfleifð frjálsra víkinga, landkönnuða og skálda. Fátt var fjær sanni og dramb er falli næst.” Þetta segir Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur um söguskoðun Ólafs Ragnars Grímssonar og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Bankahrunið og krónuhrunið voru íslenzk framleiðsla. Þáverandi stjórnvöld leituðu skjóls hjá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum. Hættulegt er að kenna útlendingum um hrunið, þótt það henti forsætisráðherra með þjóðrembu að lifibrauði og leiðarljósi.

Ráðherrann lýgur

Punktar

Ofan á aðrar skrautlegar gerðir og yfirlýsingar er umhverfisráðherra orðinn ber að lygi í máli Þjórsárvera. Hvorki Rangárþing ytra né Skagafjörður hafa gert alvarlegar athugasemdir við friðlýsingu. Rangárþing ytra hefur engar athugasemdir við friðlýsinguna, segir Guðmundur Ingi Gunnlaugsson oddviti. Skagafjörður samþykkti friðlýsingu með níu atkvæðum gegn engu, segir Bjarni Jónsson oddviti. Sigurður Ingi Jóhannsson umhverfisráðherra er landsins mesti hatursmaður náttúru og umhverfis. Kann sér ekki hóf, er hann skáldar  ástæðu til að fresta framkvæmd friðlýsingar eins merkasta svæðis landsins.

Tyrkland stimplar sig út

Punktar

Harka forsætis og lögreglu í Tyrklandi gegn andófsfólki hefur nánast fórnað aðild landsins að Evrópu. Angela Merkel og jafnvel François Hollande hafna Tyrklandi. Carl Bildt frá Svíþjóð segir hins vegar, að Tyrkir muni haga sér betur innan Evrópu. Þetta er gamalkunnur vandi, á að taka inn ríki með því að hliðra til skilyrðum? Stundum gefst það vel, til dæmis Eystrasaltsríkin og Pólland. Stundum miður, eins og Ungverjaland og nærri allur Balkanskagi. Miðjarðarhafsríkin hafa líka verið tæp og falsa hagtölur. Grikkland er bófi. Bakslagið er komið og Tyrkland er nærtækt fórnardýr hertra inngönguskilyrða.

Handarbök og þumlar

Punktar

Erfiðust hefur byrjunin verið hjá ráðherra gæludýranna. Sagðist stefna að afnámi umhverfisráðuneytis og bakkaði síðan. Sendi boðskort til veizlu í tilefni af stækkun friðlands í Þjórsárverum. Dró það til baka á veizludegi, þegar Landsvirkjun kvartaði að útrunnum kvörtunarfresti. Fékk aðstoðarkonu, sem er gift smálánafyrirtæki, einu óvinsælasta fyrirtæki landsins. Sú sendi yfirmanni ríkisstarfsmanns frétt um fund hans með ráðherra í vinnutíma. Varð svo að útskýra, að þetta væru ekki atvinnuofsóknir. Sigurður Ingi Jóhannsson ráðherra þarf að fara gætilegar með fjögur handarbök og tíu þumalfingur.

Aftastir í röðinni

Punktar

Öflugustu ríki Vesturlanda og Efnahagsþróunarstofnunin OECD hafa ákveðið að vinna saman gegn skattaskjólum. Ákváðu líka að nota tvær milljónir gagna, sem Alþjóðasamband rannsóknablaðamanna ICIJ aflaði með leka. Athyglisvert er, að Bandaríkin eru í þessum hópi, þótt þau berjist af alefli gegn leka úr kerfinu og þeim, sem afla lekans. Ekkert bendir til, að Ísland sé aðili að þessu samstarfi. Helzt heyrist, að Ríkisskattstjóri og Skattrannsóknastjóri bíði eftir gögnum frá Bretlandi, sem þeir hafa þó ekki leitað eftir. Og með ríkisstjórn bófanna aukast líkur á, að Ísland verði aftasta ríkið í röðinni.