Punktar

Álfur út úr hól

Punktar

Gunnar Bragi Sveinsson ráðherra er dæmigerður Íslendingur. Getur ekki beitt rökum og mundi ekki skilja rök, þótt þau væru útskýrð. Fullyrðingar eru það eina, sem hann getur beitt fyrir sig. Hallgrímur Helgason rithöfundur birti pistil, sem auðvelt var að gagnrýna efnislega. En Gunnar Bragi gerði það ekki. Í staðinn lýsti hann persónu Hallgríms og stuðningi við Samfylkinguna. Og þörfinni á skipulögðu jafnvægi í aðgangi stjórnmálanna að Ríkisútvarpinu. Fór í manninn og stofnunina, ekki í málefnið. Hinn dæmigerði Íslendingur og hinn dæmigerði Framsóknarmaður er álfur út úr hól í allri vitrænni umræðu.

Spenna tveggja tíma

Punktar

Fyrir öld voru Tyrkland og Egyptaland, Sýrland og Grikkland deigla jaðarins milli kristni og íslams. Tvær skyldar menningar lifðu samhliða og kölluðust á. Með Mústafa Kemal tók Tyrkland forustu í að hefja evrópska siði, viskí og jakkaföt. Engin samlegð varð, spennan hélzt og Tyrkland missir af aðild að Evrópusambandinu. Samt er Evrópa sterk í hinum forna Miklagarði og í hinni gömlu Kairó. Ungt menntafólk heimtar vestrænt lýðræði á torgunum Taksim og Tahrir, en afturhaldsklerkar stjórna fylgi fjöldans í kosningum. Við höfum vasaútgáfu hér í spennu milli búsáhaldabyltingar og afturhalds-framsóknar.

Ósjálfbær atvinnugrein

Punktar

Íslenzkur landbúnaður er ósjálfbær. Helmingur tekna hans kemur frá ríkinu, skattgreiðendum. Þar getur Vigdís Hauksdóttir sparað. Enn keyra sjálfhverfir bændur sauðfé sitt á sanda og auðnir, sem reynt hefur verið að friða. Þar á meðal eru Almenningar í Þórsmörk og Mývatnsöræfi. Bændaforingjar halda uppi stríði við viðskiptafólk sitt á mölinni. Kalla það latte-lepjandi aumingja, sem er dálítið fyndið, því latte þýðir mjólk. Tolla innflutta búvöru út af kortinu, til dæmis góða osta. Bjóða í staðinn íslenzka gúmmíosta. Íslenzkur landbúnaður er ekki heiðvirður atvinnuvegur, heldur félagsmálastofnun.

Að festa rætur

Punktar

Sjálfsagt er að hafna svínakjöti í skólamat. Ekki af trúarástæðum múslima, heldur er þetta varhugaverð verksmiðjuvara. Sjálfsagt er að reisa moskur í Reykjavík, því að hér á að vera trúfrelsi. Hins vegar á ekki að leyfa notkun hátalara til að kalla múslima til bæna, ef það raskar ró fólks síðla nætur. Hér er gróið samfélag, gott eða vont eftir atvikum. Vilji fólk koma hingað út til að festa rætur, þarf það að laga sig að helztu siðum og venjum. En um leið þurfum við að laga okkur hóflega að fjölmenningu. Aðflutning fólks ber að stórauka, en þá eingöngu þeirra, sem vilja fella slæður og festa rætur.

Efnir hótanir sínar

Punktar

Bjarni Benediktsson laug ekki fyrir kosningar. Sagðist mundu leggja niður álagið á auðlindarentu kvótagreifa. Sagðist vilja einkarekstur ýmissa þátta opinberrar þjónusta. Núna er hann bara að gera það, sem hann hótaði fyrir kosningar. Það er heiðarlegt. Öðru máli gegnir um Sigmund Davíð Gunnlaugsson og 300 milljarða loforð hans. Þau voru út í bláinn og hafa síðan bara verið sett í nefndir. Verða vonandi aldrei efnd. Eftir kosningar styður Framsókn það, sem Sjálfstæðis hótaði fyrir kosningar. Enda er Framsókn þjóðrembd útgáfa af Sjálfstæðis. Þjónustustofnun gæludýra pilsfalda-kapítalismans.

Græðgin var minni

Punktar

Sjálfstæðisflokkurinn var annar í gamla daga, þegar ég var á þrítugsaldri. Á tíma Bjarna Ben eldri voru verkalýðsleiðtogar áhrifamiklir í flokknum. Þar voru Pétur Sigurðsson, Björn Þórhallsson og Guðmundur Garðarsson. Stétt var með stétt. Auðmenn flokksins skildu, að sátt þurfti milli þjóðfélagshópanna. Flokkurinn var ekki grimmur. Þetta breyttist með aðkomu Davíðs Oddssonar og Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar. Græðgin varð að stefnu og hugsjón. Græðgi er góð, sagði Hannes. Taumlaus græðgi varð leiðarljós auðgreifa flokksins. Sjónarmiðum verr stæðra var svo kastað út á hafsauga í tíð Bjarna Ben yngri.

Sjálfbærir lífeyrissjóðir

Punktar

Hægt og raunar sanngjarnt er að gera lífeyrissjóðina sjálfbæra. Vegna hærri lífaldurs er eðlilegt að hækka eftirlaunaaldur upp í 70 ár, einnig hjá opinberum starfsmönnum. Líka er eðlilegt að lækka útgreiðslur til opinberra úr 76% í 56% meðalævitekna eins og hjá öðrum lífeyrissjóðum. Í þriðja lagi ber ríkinu að standa við árlegar skuldbindingar sínar. Að svo miklu leyti sem þessar ráðstafanir duga ekki, er til viðbótar hægt að auka inngreiðslur í sjóðina umfram þessi 12%, sem nú gilda. Þar sem hlutfall vinnandi fólks lækkar sífellt, er gegnumstreymi hins vegar óráð. Það verður ósjálfbært og vinnandi fólk mun að lokum segja: Við borgum ekki.

Óttinn við Láru Hönnu

Punktar

Yfirgengileg er hræðsla pólitísku bófaflokkanna við Láru Hönnu Einarsdóttur. Hún var efst á lista pírata yfir fyrirhugaða útvarpsráðsfulltrúa. Allt fór í gang. Vanhæf, görguðu þeir, sem rækta vanhæfni upp fyrir haus í vali í allar nefndir. Hún þýðir The Bold and the Beautiful í verktöku fyrir Stöð 2, jesús pétur. Pírata brast kjarkur og þeir settu Láru Hönnu niður í varasæti. Nægði þó ekki Illuga Gunnarssyni ofsóknastjóra menningarmála. Sendi henni einni af átján fulltrúum kröfu um, að hún afsanni vanhæfnina. Bófarnir fá martröð af klippum hennar af fjölbreyttri framgöngu þeirra í sjónvarpi. Hún er ofurhæf.

Dauður maður dæmdur

Punktar

Þótt flautublásari hafi fengið tímabundið skjól á flugvelli í Moskvu, eru mannréttindi á útleið í Rússlandi. Dæmi um alræðisfíkn Pútíns eru ofsóknir lögreglu hans gegn rannsóknablaðamanninum Alexei Navalny, sem býður sig fram til borgarstjóra í Moskvu. Skrítnasta dæmið er þó dómsmálið gegn braskaranum Sergei Magnitsky. Hann lézt nefnilega fyrir nokkrum árum í fangelsi Pútíns vegna ósæmilegrar meðferðar og skorts á læknisaðstoð. Reiði Pútíns nær því yfir gröf og dauða. Á Vesturlöndum falla mál niður við andlát sakbornings. En í ríki alræðis er Pútín eins og Stalín herra yfir lifandi og dauðum.

Gróði handa gráðugum

Punktar

Við höfum fordæmið frá Bandaríkjunum, þar sem fólk borgar 100.000 krónur á mánuði í einkareknar sjúkratryggingar. Þar er langdýrasta heilbrigðiskerfi í heimi. Við höfum líka fordæmið hér, þar sem tannlækningar eru einkareknar og kosta of mikið fyrir fátæka. Við höfum fordæmi Eirar og Hraðbrautar, þar sem græðgiskarlar moka fé úr opinberum rekstri. Þess vegna hefur Sjálfstæðis ákveðið, að gott sé að einkareka heilsugæzlustöðvar og hluta af sjúkrahúsum. Það gefur gráðugum gæludýrum gróða. Sjálfstæðismenn kunna það eitt í bisness að láta einkarekstur liggja uppi á ríkissjóði. Skattgreiðendur borga tapið.

Enn laug Sigmundur

Punktar

Sigmundur laug í gær um Vaðlaheiðargöng: “… sérstakt við þetta verkefni var þetta mikla frumkvæði heimamanna og að þeir væru  tilbúnir til þess að leggja í þetta áhættufé og borga jafnvel fyrir …”. Forsætis opnar ekki svo munninn, að hann segi satt. Í raun leggja heimamenn ekki fram krónu. Allt fé og allar ábyrgðir koma frá ríkinu. Sigmundi tókst svo vel að ljúga Framsókn inn á þjóðina í kosningabaráttunni, að hann heldur auðvitað áfram. Að vísu hrynur fylgið af flokknum, þegar loforðið var bara sett í nefndir. En allt verður gleymt og grafið. Sigmundur mætir í næstu kosningar með nýjar lygar.

Lögbrot varð skylda

Punktar

Aukin vernd flautublásara snýst um, að samfélagið þarf leiðir til að rjúfa þagnarmúr um glæpi í viðskiptum og pólitík. Víða á vesturlöndum hafa verið sett lög til að vernda þá fyrir hefnd hinna spilltu kerfa. Þar á meðal hér á landi. Stríðsglæpadómstóllinn í Nürnberg hóf þennan feril með orðunum: “Einstaklingum ber skylda til að brjóta gegn landslögum til þess að hindra glæpi gegn mannkyninu og heimsfriði.” Samkvæmt hinu fjölþjóðlega siðalögmáli ber að vernda Edward Snowden flautublásara gegn ofsóknaræði Bandaríkjanna. Sem undir stjórn hins vænisjúka Barack Obama eru orðin mesta ógn mannkyns.

 

Gæludýrið afturgengið

Punktar

Afreksmaður í öflun peninga á snertifleti ríkisrekstrar og einkarekstrar er kominn í gang eftir nokkurra ára hlé. Ólafur H. Johnson vill endurreisa menntaskólann Hraðbraut í skjóli Illuga Gunnarssonar menntaráðherra. Undir verndarvæng Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur náði hann prívat tugmilljónum úr tapi skólans, að mati Ríkisendurskoðunar. Pilsfaldakappi einkarekstrar mjólkaði skattgreiðendur og vangreiddi kennurum laun. Telur Ríkisendurskoðun hafa brugðið fæti fyrir vel heppnað sukk. Hefur lengi beðið eftir ráðherra Flokksins til að hefja aftur fyrri iðju. Fylgist vel með þessu gæludýri.

Hvalur er skrípó

Punktar

Hvalaskoðun er bisness, sem gefur evrur, alvörupening. Ekki skrípó eins og flótti á hvalkjöti undir dulnefni milli hafna við Norðursjó. Kjötinu var svo snúið aftur til Íslands. Verðlaus afurð, sem enginn vill flytja, enginn vill geyma og enginn vill kaupa. Hrefnan er skrípó. Hvalveiðar eru að vísu ekki ógnun við náttúru, heldur ógnun við bisness. Síðan þrengir Sigurður Ingi ráðherra að hvalaskoðun til að efla hvalveiði. Situr svo undir bandarískum hótunum um viðskiptaþvinganir. Þrautseigur karl eins og Kristján Loftsson, eins og Bjartur í Sumarhúsum, eins og þjóðin sjálf. Alveg fram í andlátið.

Eigum verulega bágt

Punktar

Mikill hluti þjóðarinnar studdi nýja stjórnarskrá og ferlið, sem lá að baki uppkasti stjórnlagaráðs. Samt studdi meirihlutinn flokkana, sem voru alveg andvígir þessari nýju stjórnarskrá. Þannig drap fólkið nýju stjórnarskrána í kosningunum. Mikill hluti þjóðarinnar studdi þjóðareign auðlinda í könnunum. Samt studdi meirihlutinn flokkana, sem börðust fyrir hag kvótagreifa. Þannig drap fólkið þjóðlindarentuna í kosningunum. Þótt þjóðin gæli við umbætur, telur hún vissast að velja gömlu bófaflokkana sína, þegar á reynir. Ginnist jafnframt af furðulegum loforðum út í hött. Þessi þjóð á því verulega bágt.