Punktar

Villihrossin á Hrunaheiði

Punktar

Neðan við afréttargirðingu Hrunamanna og ofan við efstu bæi hreppsins er Hrunaheiði, einskismannsland í eigu Hrunakirkju. Landlitlir menn setja fé og hross á heiðina. Vegna lélegrar smölunar hafa safnast fyrir villistóð, sem ganga laus árið um kring. Mest eru þau upprunnin í Skollagróf. Að vetri og að vori fer sumt af þessum stóðum um skafla yfir girðingar efstu jarða og hirðir með sér heimahross í djammið. Kannski verður þarna til hrossastofn í líkingu við fjárstofninn, sem var í Tálkna. Hreppsnefndin hefur eitthvað kveinkað sér út af þessu, en vegna meðvirkni hefur minna verið um aðgerðir.

Einfaldað skrifræði

Punktar

Í Bretlandi geta menn sótt á pósthúsið öll eyðublöð um rekstur gistingar. Hér þurfa menn að fara á marga staði. Kerfið þarf að einfalda aðkomu fólks að skrifræðinu. Eyðublöðin eiga líka að sýna, hvaða hlutir þurfi að vera í lagi til að rekstur gistingar sé heimill. Smákóngar eiga ekki heldur að hafa færi á að vísa hver á annan eða upp og niður í kerfinu. Ráðuneytin eiga að stöðva það með handafli. Úrskurða til dæmis samdægurs, hvort heilsukostnaður falli á Landsspítalann eða Tryggingastofnun. Smákóngar mega ekki segja, að gat sé í kerfinu eins og gat sé náttúrulögmál. Ráðuneyti eiga strax að stífla göt.

Kaffihús dagsins

Punktar

Ég læri margt á kaffihúsum. Í gær var mér bent á, að aldrei væri gat í leit björgunarsveita. Ef lík finnst seint og um síðir í Krísuvík, segja sveitarforingjar ekki: Það er gat í leitarkerfinu. Hins vegar dettur ýmsum embættismönnum í hug að segja: Það er gat í kerfinu. Til dæmis á snertifleti Landspítalans og Tryggingastofnunar. Þeir tala um gat eins og náttúrulögmál. Fréttamenn ýta undir ruglið með því að spyrja ekki í botn. Eiga að spyrja ráðuneytið, hvernig götin séu hunzuð og hver beri ábyrgð. Smákóngar geta ekki vísað hver á annan eða upp og niður. Björgunarsveitir gera það ekki.

Hættulegri en múslimar

Punktar

Flest helztu hryðjuverk í Bandaríkjunum hafa verið framin af hægri sinnuðum öfgamönnum á teboðsarmi repúblikana. Þar á meðal eru morðin í musteri Sikha í Wisconsin, Georg Tiller morðið, skotárásin við Únitarakirkju í Knoxville, John Britton morðið, sprengjutilræðið á olympíuleikunum í Atlanta, Barnett Slepian morðið, Brookline sprengjutilræðið, árásin á IRS húsið í Austin, Alan Berg morðið og Oklahoma City sprengjutilræðið, þar sem 168 dóu og 600 slösuðust. Öfgahægrið og teboðshreyfingin eru hættulegri en múslimar. Samt beinist vænisýki bandarísku forsetaskrifstofunnar eingöngu að múslimum.

Eftirlit í skötulíki

Punktar

Eftirlit með atvinnulífinu hefur jafnan verið í skötulíki. Lög og reglur um eftirlit skortir frambærileg viðurlög. Forstjórar eftirlitsstofnana valdir til að tryggja, að eftirlitið gangi skammt. Dæmi um ömurlegt eftirlit eru Matvælastofnun, Umhverfisstofnun, Fjármálaeftirlit, Samkeppniseftirlit og Landlæknisembætti. En þetta ófremdarástand nægir ekki ríkisstjórninni. Hún ráðgerir að draga þær fáu tennur, sem enn eru í skolti eftirlitsstofnana. Aftökusveit undir forustu Vigdísar Hauksdóttur hyggst skera niður framlög til eftirlits. Auka þannig svigrúm viðskiptabófa til að efna í nýtt hrun.

Þverstæða Frosta

Punktar

Frosti Sigurjónsson framsóknarþingmaður á aðild að lækkun auðlindarentu sjávarútvegs og virðisaukaskatts ferðaþjónustu. Samtímis kvartar hann um stórvanda í heilbrigðismálum og kjörum aldraðra og öryrkja. Honum dettur ekki í hug að útskýra þessa þverstæðu. Hins vegar vill hann fresta þegar hafinni smíði fangelsis á Hólmsheiði fyrir útrásargreifa. Slær þannig tvær flugur í einu höggi, gætir hagsmuna gæludýra og minnkar líkur á, að greifar hljóti makleg málagjöld. Þetta er mjög framsóknarleg þverstæða, er einkennir Frosta umfram aðra ábyrgðarlausa og grófa lýðskrumara flokksins á alþingi.

Án raka eða dæma

Punktar

Varð starsýnt á fyrirsögn í bloggi: “Eru grænfriðungar að drepa kúluskítinn í Mývatni?” Sá fyrir mér vonda kalla kafa í Mývatni til að eyðileggja eitt mesta náttúruundur landsins. Texti bloggsins fjallaði þó ekkert um, hvernig grænfriðungar koma að vandanum. Kristinn Pétursson bloggari var bara orðinn fangi eigin ímyndana um vonzku grænfriðunga. Bloggið var dæmigert fyrir þann vanda, að margir Íslendingar bulla út í eitt. Jafnvel um mál, sem þeir hafa ekki hundsvit á og skeyta engu um rök eða dæmi. Sem betur fer hefur lítið borið á slíku undanfarið. Athugasemdir við veffréttir eru þó enn mest þvæla.

Bloggað eftir dauðann

Punktar

Var án netsambands á fjöllum í tvær vikur í júlí. WordPress sá um að dæla niðursoðnu bloggi á netið. Kannski hef ég það svona, þegar ég er dauður. Dæli áfram pistlum eins og enginn hafi orðið héraðsbresturinn. Í mörgum okkar býr fortíðarþrá hundrað kynslóðir aftur í tímann. Þá áttu forfeður okkar heimili sitt á hrossum, fluttu sig daglega í nýjan haga við nýtt vatnsból. Maður, hestur, slóð og sjóndeildarhringur renna saman í eina heild.  Allt annað verður óraunverulegt og hverfur. Enginn bíll og ekkert hús. Svo svík ég fortíðardrauminn og fer beint á kaffihús í hverfi 101.

Fordómar stofnunar

Punktar

Þegar ég hef lítið að gera, freistast ég til að lesa tilkynningar, sem hanga uppi á opinberum stöðum. Umhverfisstofnun hefur athyglisverða áminningu á sundstöðum. Þar er gert upp á milli þjóða. Allar eru þær hvattar til að þvo sér án sundfata, en síðan skilja leiðir. Danir eru svo hreinlátir, að þeir þurfa ekki fleira. Íslendingar og Bretar eru sóðalegri að mati hinnar ágætu stofnunar og verða að þvo sér “vandlega”. Það þurfa Frakkar og Þjóðverjar líka að gera, en þurfa að “nota sápu” að auki. Fróðlegt væri að frétta af þeim rannsóknum á mismunandi hreinlæti, sem þessi áminning endurspeglar.

Fisklausnir og buxnalausnir

Punktar

Í gamla daga fór ég í Kassagerðina og keypti kassa, þegar ég þurfti. Það var enginn vandi. Svo komu til sögu markaðsfræðingar, sem litu á viðskipti sem lausn vandamála. Nafni Kassagerðarinnar var breytt í Umbúðalausnir. Eins og umbúðir væru vandi. Nafni rakarastofu var breytt í Hárlausnir og tölvubúðar í Tölvulausnir. Vantaði bara Fiskilausnir og Buxnalausnir. Svo liðu tímar og menn föttuðu ruglið. Nú heitir Kassagerðin bara Kassagerðin og allir rata þangað. Datt það í hug, þegar ég las, að einhver hugsaði ekki í vandamálum, bara lausnum. En til að hugsa í lausnum, þarf að líta á lífið sem vandamál.

Orð eru ekki steinar

Punktar

Orð er ekki úr steini, það flýtur eins og vatn. Hreyfingin gerir tungumálið flott. Blæbrigði eru á merkingu orðs eftir stöðu þess í setningu, málsgrein, málslið, efnisheild. Einnig er munur eftir áherzlu í framsögn og á rökrænu samhengi orðanna. Þess vegna er villandi, að segja klippt og skorið, orð þýði þetta og ekki hitt. Íslenzk lögfræði og dómvenja eru meingölluð af ofuráherzlu á orð. Til dæmis gera dómarar greinarmun og gæfumun á orðunum “skoða” og “rannsaka”. Orðskýringar lögfræði og dómstóla eiga sér litla stoð í málvenju. Þær leiða til orðhengilsháttar, sem einkennir íslenzka dómvenju.

Álfamálaráðuneytið

Punktar

Allt sem varðar álfa og huldufólk á heima í þjóðremburáðuneyti eins og allt séríslenzkt og bezt. Þar ætti að fjalla um hvalveiðar og annað, sem er betra hér á landi en í útlandinu. Svo sem um Ögmund og Jón Bjarnason og Ásmund Einar, sem yrðu sendiherrar í eldhafinu. Í ráðuneytinu mundi Sigmundur sitja í lopapeysu í hásæti. Með uppstoppaðan lunda og mynd af skotnum hvítabirni sem veldissprota. Meðan starfsmenn syngja “Fram unga fólk undir Framsóknar merki”. Þeir annast svo útflutningsuppbætur og niðurgreiðslur á kokteilsósu og tvöföldum asna, bæjarins beztu og hamborgurum. Framsókn verður alfriðuð.

Hveravellir til skammar

Punktar

Hveravellir hafa árum saman verið til skammar. Nýir aðilar hafa tekið við, sem betur fer. Ekki virkar, að ferðastaðir séu í umsjón sveitarfélaga. Gullfosssvæðið tekur af myndarskap við tugþúsundum gesta á góðum helgardegi, en Hveravellir stynja undir hundruðum. Þar var allt í skralli og jafnan vatnslaust, þegar ég kem þar. Hrákasmíði heimamanna er yfirgnæfandi, samanber klósettvirkið á miðju svæðinu. Furðulegt er, að ekki skuli vera hægt að hafa leiðslur og dælur í lagi. Ótækt er, að veðurhúsið sé notað sem sumardvalarstaður kontórista, þar á að vera gisting ferðafólks. Ástæða er til að ætla, að ástandið muni skána við stjórn Allrahanda á Hveravöllum.

Teboð Frosta á vefnum

Punktar

Frosti Sigurjónsson framsóknarþingmaður er einn virkasti félaginn í vefhópi um “Eftirlit með hlutleysi RÚV”. Hann lemur þar á Ríkisútvarpinu og heimtar flokkapólitíska ritskoðun á efni þess. Hinn virkasti félaginn í þessum hópi er Hafþór Gunnarsson, sem lýsir andstöðu við múslima, mosku og innflutning útlendinga. Aðrir liðsmenn hópsins saka útvarpið um ómaklegar fréttir af Ísrael og andstöðu við bandarísku teboðshreyfinguna. Frosti fer semsagt fyrir svartasta afturhaldinu í umræðunni. Mér fannst hann koma skuggalega fyrir í kosningaskrumi Framsóknar, en virðist þó verri núna en ég hélt þá.

Hvað höfðingjarnir hafast að

Punktar

Í fimm ár eftir hrun hefur almenningur séð kvótagreifa og útrásargreifa fá skuldir sínar afskrifaðar. Fólk sér, að hvers kyns greifar, stóri og smáir, fá syndirnar fyrirgefnar. Að þeir fá fyrirtækin aftur á silfurfati í sínar hendur. Að þeir haga sér eins og fyrri daginn, eyða og spenna villt og galið. Um svona ástand gildir gamla spakmælið: Hvað höfðingjarnir hafast að, hinir ætla sér leyfist það. Fólk vill sömu úrlausn mála og greifarnir hafa fengið. Spakmæli þess er einfalt: Við borgum ekki. Því er engin furða, þótt ósvífnir pólitíkusar græði fylgi á loforði um afskrift skulda strax á línuna.