Punktar

Kattarþvottur flugslysa

Punktar

Samkvæmt fréttum Vísis var rannsókn flugslyssins á Akureyri kattarþvottur Rannsóknanefndar samgönguslysa. Minnir á rannsókn flugslyssins í Skerjafirði á sínum tíma. Veruleg göt komu þá í ljós og enn koma göt í ljós. Formaðurinn virðist til dæmis ekki skilja mun á að missa flughæð og að lækka flug. Ekki traustvekjandi. Er ekki hægt að fá útlendinga til að kanna íslenzk flugslys almennt? Íslendingar eru ónýtir í eftirliti, meðvirkni á háu stigi. Fólk er vant að reyna fyrst og fremst að lægja öldur. Sannleikur skiptir engu, bara verkefnið að komast sem billegast frá öllu. Öll dýrin í skóginum eru vinir.

Komið af fjöllum

Punktar

Búsáhaldabylting hvað? Klóraði mér í fávísum hausnum, þegar fréttir bárust af slysum í uppþoti unglinga í og við Smáralind. Hafði ekki hugmynd um Vine og Jerome Jarre. Má þó teljast eins konar sagnfræðingur fjölmiðlunar. Létti síðan, þegar dr. Gunni sagðist á vefnum líka hafa komið af fjöllum. Sjálfur sagnfræðingur poppsins segir pass. Sumir voru farnir að halda, að með fésbók væri gamla heimsþorpið komið aftan úr grárri forneskju. En svo er aldeilis ekki. Þegar allir ruddust á fésbókina, flúðu börn og unglingar þaðan með sín sérmál á sérhæfða vefi. Heimsþorpið er ekki til, leyniklíkurnar blómstra.

Spamma aðra söguþræði

Punktar

Les ekki athugasemdir við veffréttir, tel þær ekki auka neinu. Ekki eins skömmóttar og fyrrum, en samt tímaeyðsla. Af sömu ástæðu les ég ekki heldur athugasemdir við blogg. Leyfi þær ekki við mitt blogg, nenni enda ekki að ritskoða nafnleysingja. Fésbókin er betri vettvangur athugasemda. Þar eru allir nafngreindir, sumir að vísu með gervinafni. Er farinn að strika þar út slík nöfn, finnist mér eigendur þeirra misnota minn vegg. Einnig strika ég út ákafa eins máls höfunda, sem spamma aðra söguþræði. Troða máli sínu inn í umræður um annað. Þá vantar áheyrendur. Þeir sjúga sig því á veggi annarra.

Kanínan í Undralandi

Punktar

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra gerði sitt bezta í frumvarpi til fjárlaga að rústa Landspítala og heilsugæzlustöðvum. Sjálfstæðismenn vilja, að einkaaðilar rísi upp af rústunum. Hann fékk þessu ekki ráðið, því alþingi tók fram fyrir hendur hans. Svo talar Kristján Þór eins og áform hans sjálfs hafi komið frá fyrri ríkisstjórn. Þar á meðal eru hærri gjöld og ný gjöld, sem fæla fátækt fólk frá heilsuþjónustu. Kristján Þór talar um, að rannsaka þurfi þessi gjöld, Eins og þau komi honum ekkert við. Segir þar á ofan, að kannski verði búið að skoða þau árið 2015. Hvíta kanínan í Undralandi Lísu.

Leita ekki læknis

Punktar

Þriðji hver Íslendingur frestaði brýnni læknisþjónustu í fyrra, mest vegna fátæktar. Afleiðing af aukinni hlutdeild fólks í kostnaði og af nýjum álögum á sjúklinga. Fátækt er orðin svo mikil, að fólk tímir ekki heilsuþjónustu ríkisins. Sáum þetta áður í versnandi tannhirðu, en nú er þetta að dreifast almennt um heilsuþjónustuna. Ein birtingarmynd gjárinnar, sem er að myndast milli ríkra og fátækra. Í orði segjast landsmenn styðja opinberan rekstur heilsuþjónustu, en í borði kjósa þeir bófaflokka, sem víkka gjána. Gráðugir telja það vera sér í hag, en vita ekki hvenær ógæfan snýr að þeim sjálfum.

Minnkun er stækkun

Punktar

Hjá Lísu í Undralandi töluðu dýrin og hirðfólkið tóma vitleysu og fóru með öfugmæli. Sama gera ríkisstjórnin og Vigdís. Sigurður Ingi Jóhannsson segir, að virkjun í Þjórsárverum komi verunum ekkert við. Hún komi ekki heldur við Kjálkaversfossi, Dynk og Gljúfurleitarfossi. Hún sé bara Norðlingaölduveita. Minnkun Þjórsárvera sé í rauninni stækkun þeirra. Segir blákalt, að virkjun sé verndun. Þetta er svo vitlaust, að meira þarf en heimsku eina. Sennilega hafa pólitíkusar blaðurfulltrúa, er segir Íslendinga svo heimska, að bezt sé að bulla í þá. Eitt er að kvarta yfir heimsku, annað er að notfæra sér hana.

Allt á sömu bókina

Punktar

Ríkisstjórnin og þingmenn hennar minnkuðu framlög til rannsókna á hruninu um helming og hækkuðu framlög til Persónuverndar bófa um helming. Þetta sýnir í hnotskurn, hvar hjartað slær í hinum pólitísku bófaflokkum. Annars vegar er máttur dreginn úr uppgjöri þjóðarinnar við hrunglæpinn mikla. Hins vegar er gælt við stofnun, sem leitast við að byggja sem mest leyndó kringum bófana. Í vor höfnuðu kjósendur þeim, sem vilja gæta hagsmuna almennings. Kjósendur glæptust til að velja til valda þá, sem eingöngu gæta hagsmuna hinna allra ríkustu. Þeirra, sem stálu auði sínum með aðstöðu og ríkisfyrirgreiðslu.

Virkjun sögð verndun

Punktar

Kjósendum bófaflokkanna mun þykja það fagleg viðbrögð, að ráðherra ákveði að virkja í friðlandi Þjórsárvera. Að taka Norðlingaölduveitu úr verndarflokki og setja í virkjunarflokk. Að eyðileggja marga fossa í Þjórsá. Aðstoðarkona ráðherrans gaf í botn og sagði virkjun fela í sér verndun. Hver er þá munur verndarflokks og virkjunarflokks? Þessir bófar eru sýnilega bæði heimskir og illa innrættir. Allt er þetta slys í boði kjósenda bófaflokkanna tveggja. Kjósendur settu til valda flokka, sem áður hafa valdið skaða á þjóðfélaginu. Einkum með verndun sérhagsmuna og ofstækisfullu dálæti á rándýrri stóriðju.

Holskefla slagorða

Punktar

Við höfum heyrt um holskeflu afreksverka. Oddvitar ríkisstjórnarinnar héldu tímamótafundi. Þar boðuðu þeir ýmist heimsmet eða þáttaskil. Við höfum þó minna frétt af athöfnum. Gerbreytt vígstaða er hátt prísuð í fjölmiðlum, einkum á Pressunni. Hún dásamaði 2,8% afrek Gylfa Arnbjörnssonar og félaga hans í hópi verkalýðsrekenda. Upprisa millistéttar er yfirlýstur veruleiki, sem enginn sér. Tímamótafjárlög felast í samdrætti velferðar og fríðindum yfirstéttar. Slagorðin eru: Holskefla, afrek, tímamót, heimsmet, þáttaskil, góð vígstaða, jafnvel upprisa. Fjallið skalf, en fæddi ekki einu sinni mús.

Of fáir með fullu viti

Punktar

Willem Buiter prófessor var sagður þurfa fara í endurmenntun, svo mikill var hroki Íslendinga. Stungið var undir stól skýrslu hans um ástandið í febrúar 2008, átta mánuðum fyrir hrun. Hann sagði nefnilega sannleikann umbúðalaust. Enn segir hann núna: Íslendingar eru svo fáir, að þeir geta ekki mannað af viti brýnustu stöður. Annað hvort verðum við að fá útlendinga í þær eða fá aðild að evru og Evrópusambandi. Þetta segir sá, sem er einn allra virtasti hagfræðingur heims. Neitað var að hlusta á hann í febrúar 2008 og enn verður neitað að hlusta 2014. Fávís örþjóð full af rembu hlustar ekki, skilur ekki.

Tugþúsundir Framsóknar

Punktar

Vægi Framsóknar hafði minnkað niður í 10% kjósenda, þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kom til skjalanna. Með ævintýralegum loforðum tókst honum að lyfta fylginu upp í 25% í kosningunum í fyrra. Afar grófar tölur eins og þær, sem hér fylgja eftir. Til viðbótar 20.000 hefðbundnum kjósendum hins dauðvona flokks komu 25.000 aðrir kjósendur með glýju í augum. Þegar í ljós kom, að loforð SDG voru hreinn þvættingur, fóru þessir nýju kjósendur hans að rjátlast burt. 15.000 eru þegar farnir samkvæmt könnunum, en 10.000 sitja enn eftir. Það eru þeir, sem eru svo tregir, að þeir hafa ekkert fattað enn.

Tillaga um þjóðarsátt

Punktar

Ég er tilbúinn í þjóðarsátt. Hætti ÓRG að rugla um byltingu norðursiglinga, flytji Dorrit aftur á Bessastaði, hverfi SDG af eyðibýlinu, auðlindarenta verði hækkuð, auðlegðarskattur endurreistur, greidd verði atkvæði um Evrópu, loddarar hætti að þrugla og þjóðrembast út í eitt, forsætis samræmi orð og gerðir. Annað er það ekki, ég er sáttfús. Þjóðarsátt að hætti Kim Jong Un í Norður-Kóreu væri hins vegar ósiðleg. Jafnvel þótt biskup gangi í lið með þeim, sem flagga hugsjónum Mussolini um einhuga þjóð að baki Il Cavaliere. Hef fengið upp í kok af loddurum, er vefja sig fánanum og kyrja þjóðsönginn.

Átta mánaða ránsferð

Punktar

Ráðamenn okkar vissu í febrúar 2008 að hrunið var að koma. Viðvaranir fóru að berast frá sérfræðingum. Þá hófust tölvusamskipti ráðherra og fyrirmæli til ráðuneytisstjóra um að leyna ástandinu fyrir almenningi. Lykilmenn í þessu ferli voru Geir H. Haarde og Davíð Oddsson. Á sama tíma hófu innvígðir að undirbúa einkafjármálin. Bankarnir fóru að lána eignalausum fyrirtækjum eigenda sinna og gæludýranna. Ráðuneytisstjóri lenti síðar á Kvíabryggju út af innherjasvindli. Hundruðum milljarða af gervifé var skipt í gjaldeyri og komið undan til Tortola. Hrunið kom í október, eftir átta mánaða ránsferð.

Fanginn í spilavítinu

Punktar

Gegn vilja þínum lifir þú í spilavíti, þar sem rangt er gefið. Kjaramælingar sýna, að gjáin milli ríkra og fátækra hefur aukizt síðustu tvo áratugi. Í stað hærri launa fékkstu aukið lánasvigrúm. Þér leið eins og þú hefðir bætt kjörin, unz hrun og forsendubrestur dundi á þér. Ný ríkisstjórn stöðvaði þá frekari gliðnun gjárinnar. Með valdatöku auðgreifa í fyrra var aftur efnt í gliðnun. Umbar auðgreifanna veittu þeim afslátt af auðlindarentu og afnámu auðlegðarskatt þeirra. Byrðar hrunsins hvíla núna á afkomendum þínum og þú fattar ekki neitt. Þú ert svo skuldum vafinn að þú tímir ekki að rísa upp.

Engin virðing í sigti

Punktar

Við skulum tala hreint út um traust og virðingu í samfélaginu. Hálf þjóðin fyrirlítur forsetann af gefnum tilefnum. Hálf þjóðin fyrirlítur forsætis af gefnum tilefnum. Nú hefur biskup tekið undir kröfuna um hlýðni fólks við yfirvaldið. Flaggar nauðsyn trausts og virðingar. Margir vita eigi að síður, að forseti og forsætis eru lýðskrumarar eingöngu. Kjósendur þeirra mega bera virðingu fyrir þeim, en enga kröfu er hægt að gera á aðra. Þeir sjá gegnum ruglið, þokuna, lygina og rembuna. Um loddarana munu þeir áfram segja það, sem sker í augu þeirra. Loddarar vinni sjálfir fyrir trausti og virðingu.