Punktar

Þeir hlæja að okkur

Punktar

New York Times gerir stólpagrín að ríkisstjórn Íslands. Hvetur túrista til að flýta sér að skoða Þjórsárver og fossana í Þjórsá áður en ríkisstjórn auðgreifanna eyðileggur. Þyngra er orðið fyrir íslenzka kolbíta að brjóta og bramla, þegar útlendingar horfa á. Og nú er loksins búið að endursegja kjarnann í sannleiksskýrslunni á útlenzku. Í bókinni „Bringing Down the Banking System“ geta útlendingar lesið um heimsku Davíðs og Geirs. Spiegel bætir um betur. Gerir stólpagrín að viðhorfum Íslendinga. Segir aðra ekki geta lært af þeim, sem séu svona ruglaðir. Fyndin viðtöl þar, gott á okkur.

Vika loforðanna

Punktar

Loforð eru vinsæl þessa vikuna. Verzlunareigendur lofa að hækka ekki verð. Ríkisstjórnin lofar öllu fögru. Hún lofar að gera eitthvað ótilgreint í öllum áhyggjuefnum. Lofar að setja nefnd í málið og hún lofar jafnvel að hugsa málið. Verkalýðsrekendur Alþýðusambandsins eru voða kátir yfir öllum þessum loforðum. Eins og þeim hafi aldrei áður verið lofað neinu fögru. Þó er algengara en hitt, að loforð dragist úr hömlu og gleymist. Fólk með meira en daglangt minni getur upplýst það í smáatriðum. Einstæð fákænska gullfiska kemur mér sífellt á óvart. Hef ég þó fylgst með henni meira en hálfa öld.

Færumst nær Ragnarökum

Punktar

David Attenborough segir, að heimurinn færist nær Ragnarökum. Í viðtali við vefmiðilinn Reddit svarar hann spurningu um yfirvofandi heimsenda svona: „Ég er hræddur um það. Ekki er lengur hægt að vinda ofan af tjóni, sem maðurinn hefur valdið. Við útrýmum tegundum hraðar en nokkru sinni fyrr.“ Svo talaði hann um, að offjölgun fólks geri eyðslustefnuna of dýrkeypta. Attenborough hefur séð margt um ævina og er svartsýnn á framhaldið. Mannkynið er teymt fram af heimskum æðibunum á borð við ráðherra orkumála og umhverfis hér á landi. Vilja búa til úr sukki sem mesta veltu, en ráðast á helztu lífsgæði.

Kastljós á tvö fífl

Punktar

Bók Guðrúnar Johnsen: „Bringing Down the Banking System“ gefur skýra mynd af aðdraganda hrunsins. Hann hófst í ágúst 2007, þegar útlendingar áttuðu sig og buðu hjálp. Bretar buðust ítrekað til að taka yfir IceSave, en Geir H. Haarde og einkum Davíð Oddsson neituðu. Síðan áttuðu innlendir aðilar sig í febrúar 2008. Þá fóru innvígðir að reyna að bjarga eigin fjármálum og hófu að ræna og rupla í bönkunum. Geir fór að ljúga að þjóðinni að allt væri í himnalagi. Davíð fór að tæma Seðlabankann í vonlausar gjafir til bankabófa. Mesta ábyrgð á hrikalegri stærð hrunsins í október 2008 bera þessi tvö fífl.

Öfgar hatursofsans

Punktar

Hanna Birna Kristjánsdóttir og innanríkisráðuneyti hennar láku rakalausum lygum um hælisleitanda til að fegra framgöngu löggu og Útlendingastofnunar. Er nú kærð fyrir að hafa Tony Omos fyrir rangri sök í skjali, sem lekið var úr ráðuneytinu. Þar er fullyrt, að Omos sé grunaður um aðild að mansali og sé ekki barnsfaðir Evelyn Glory Joseph. Hvorugt á við nein rök að styðjast og er greinilega tilbúningur ráðuneytisins. Hanna Birna hefur verið kærð fyrir ærumeiðandi leka. Ofsafengið hatur löggunnar og Útlendingastofnunar á hælisleitendum hefur leitt ráðherrann og ráðuneytið út á hála glæpabraut.

Ameríska martröðin

Punktar

Ameríski draumurinn er orðinn að martröð. Stéttaskipting harðnar ört og fólk færist síður milli stétta. Gæði lífsins ganga í erfðir. Bilið milli ríkra og fátækra eykst hratt í Bandaríkjunum og Bretlandi. Ameríski draumurinn lifir samt enn, annars staðar. Á norðanverðu meginlandi Evrópu og á Norðurlöndum. Þar er rekin velferð, sem ver alþýðuna fyrir ágangi gráðugs auðfólks, gefur fólki færi á að flytja sig upp kjarastigann. Íslendingar hafa á þessari öld færst frá jöfnuði Norðurlanda til stéttafrystingar Engilsaxa. Bilið milli ríkra og fátækra eykst og á hverju ári eru höggvin ný skörð í velferðina.

Hæfni á of fáum póstum

Punktar

Get hugsað mér að láta íslenzkan fagmann skera mig upp, semja fyrir mig hugbúnað, mála listaverk eða skrifa skáldsögu. Hæfni blómstrar á afmörkuðum sviðum. Finnst hins vegar skelfilegt að sjá fjármál og efnahagsmál í höndum íslenzkra hagfræðinga, peningafræðinga, lagatækna og pólitíkusa. Almennt séð eru þessar stéttir í tómu tjóni í samanburði við útlönd. Enda er flest hér í skötulíki á þessum sviðum. Bófaflokkarnir leika lausum hala í fjármálum og stjórnmálum. Fámenn þjóð ræður ekki við að manna sómasamlega alla mikilvæga pósta. Þegar hæfnin sogast í listir og bókmenntir, þarf útlendinga í annað.

Allir saman, ofurþjóð

Punktar

Samkvæmt síðustu forsetakosningum hefur þjóðrembdi loddarinn á Bessastöðum 36% kjósenda að baki sér. Samkvæmt síðustu skoðanakönnunum hefur þjóðrembdi loddarinn í Jökulsárhlíð 15% kjósenda að baki sér. Meirihluti kjósenda er á öðru máli, hafnar mestu loddurum landsins. Um áramótin fengum við enn einu sinni að heyra kjarnann í boðskap ÓRG og SDG: „Allir saman, ofurþjóð, gerum þjóðarsátt um mína stefnu, ekki þína.“ Fámenn og afskekkt minnimáttarþjóð er veik fyrir froðu. Samt er bara minnihluti svona þjóðrembdur og fákænn. Enda er markmið þjóðrembunnar helzt þetta: Haltu kjafti og láttu bófana í friði.

Kristján Þór lýgur líka

Punktar

Kristján Þór Júlíusson hagar sér eins og framsóknarráðherra. Segir blákalt, að svart sé hvítt. Sagði hækkun komugjalda á heilsustöðvar ekki vera hækkun. Í fylgiskjölum fjárlagafrumvarps sé góður vilji til að bæta hag fólks. Þetta er gamla lumman: Ég er svo góðviljaður, að ég má lemja þig, það tekur meira á mig en þig, að ég skuli þurfa að lemja þig. Verst við ruglið er, að í fyrsta skipti í stjórnmálasögu landsins nota ráðherrar skipulega Newspeak: Stríð er friður, minnkun er stækkun, hvítt er svart. Fávísir kjósendur fagna líklega. Pólitíkin komin á sitt lægsta plan. Svo kalla bófarnir á samstöðu.

Enn lýgur ráðherrann

Punktar

Enn lýgur umhverfisráðherra, að hann sé að stækka friðlandið í Þjórsárverum með því að minnka það. Sigurður Ingi Jóhannsson er hinn dæmigerði jarðvöðull Framsóknar. Lét verða sitt fyrsta verk sem ráðherra að stöðva friðun veranna og nú myndar hann pláss fyrir virkjun í verunum. Eins klikkaður og Framsókn úr sveit getur verið. Ráðherra flokksins stælir stóra loddarann. Sá hefur verið í læri hjá blaðurfulltrúa. Þaðan kemur vissan um, að bezt sé að ljúga út í eitt og tala ítrekað þvert á staðreyndir mála. Kjósendur flokksins séu hvort sem er svo ofurheimskir, að þeir muni alls ekkert fram í næstu viku.

Fátækir í fullri vinnu

Punktar

Mér er fyrirmunað að skilja heljartök Gylfa Arnbjörnssonar verkalýðsrekanda á samtökum launþega. Hann gengur undir gróðafíklum forstjóranna, sem skipta þjóðarauðnum milli auðgreifa. Að því búnu heimta þeir stöðugleika á kostnað launafólks. Þjóð með gífurlega landsframleiðslu á mann hefur efni á að lyfta láglaunafólki upp í 1.500 króna dagtímalaun. Vitlaust er gefið í þríhliða viðræðum ríkisvaldsins og aðila vinnumarkaðarins. Launþegar verða fyrst að brjótast undan Gylfa, ef þeir vilja ná fyrri hlut sínum af þjóðarkökunni. Fráleitt er, að fólk í fullri vinnu þurfi að lifa á gjöfum góðgerðasamtaka.

Haltu-kjafti boðorðið

Punktar

„Íslendingar eru ofurþjóð, er berst við vonda Evrópu. Þrömmum í takt að einu marki, mínu en ekki þínu.“ Inntakið í boðskap landsfeðganna, Ólafs Ragnars Grímssonar og Sigmundar Davíð Gunnlaugssonar. Bófarnir vilja, að við þénum undir þá. Eðlilegt er, að mesti sundrungarpólitíkus landsins vilji hafa frið og sátt um sig á Bessastöðum. Þriðja hjólið var Agnes Sigurðardóttir biskup, er tók undir ógeðfelldan boðskap um samstöðu með bófum. Samt virðum við ekki þjóðrembinga, sem hafa helming kjósenda að fífli. „Haltu kjafti, hlýddu og vertu góður“ hentar bófum og biskupi. Verður aldrei regla fyrir frjálsborna.

Undirmálsmenn

Punktar

Halldór Ásgrímsson þótti öflugur á Íslandi, en floppaði sem framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar. Einangraðist á fínum kontór, starfsmennirnir tóku völdin og tengdu framhjá. Öðruvísi var ekki hægt að reka kontórinn. Erlendis þurfa menn nefnilega að hafa eitthvað til brunns að bera til að fá ábyrgð. Hér velja kjósendur hins vegar vitleysinga til ábyrgðar. Halldór var bara pólitísk Framsókn frá Íslandi, sem átti lítið erindi í alvörustarf í útlandinu. Vandi Íslands er, að hér skortir pólitíska hæfni til að manna sómasamlega ábyrgðarstöður samfélagsins. Samanber núverandi ríkisstjórn.

Sjóðstjórar fíflaðir

Punktar

Lífeyrissjóðir almennings sýndu aftur í vor, að þeir eru ófærir um að gæta hagsmuna lífeyrisþega. Á versta tíma keyptu sjóðirnir mikið af pappírum í Vodafone, sem óðar hröpuðu í verði. Meðal fagmanna eru þetta talin verstu viðskipti ársins. Áður var komið í ljós í hruninu, að forstöðumenn sjóðanna höfðu látið bankabófa og útrásarvíkinga spila með sig. Þeir hafa ekki enn tekið afleiðingum gerða sinna og sitja sem fastast. Höndla enn með drjúgan hluta af eignum landsmanna og kunna ekkert með að fara. Betra er að þjóðnýta sjóðina og fela hámenntuðum og hlutlausum útlendingum að gæta fjöreggsins.

Segir eitt – gerir öfugt

Punktar

Annan daginn sker forsætis niður framlög til kvikmyndagerðar um nær helming. Hinn daginn sker hann upp herör opinberrar fyrirgreiðslu við kvikmyndagerð. Ekkert samband er milli verka og orða Sigmundar Davíðs. Gerðir hans ganga raunar þvert á orð hans. Það er raunar megineinkenni loddarans. Hann lifir í draumaheimi, þar sem orð hans jafngilda gerðum. Að þeim sögðum finnst honum hann geta brugðið niðurskurðarhnífi. Hann ímyndar sér, að hann vilji vel og geti því unnið óhæfuverk. Svo lofar hann bara meiru. Sigurganga SDG er dæmi um þann skaða, sem kjósendur loddara valda á viðkvæmu kerfi lýðræðisríkis.