Punktar

Ragnheiður Elín vakni

Punktar

Lítið heyrist af Ragnheiði Elínu Árnadóttur ráðherra. Hún virðist mest sofa, en rjúka stundum upp með andfælum. Hrópar þá: Ég styð stóriðju fram í rauðan dauðann. Slík slagorð virðast gefast vel í frama innan Sjálfstæðisflokksins. Hjálpa hins vegar lítið við lausn verkefna á skrifborði ráðherra. Hún á til dæmis að vera búin að setja á flot meitlaða tillögu um fjármögnun fjölsóttra ferðamannastaða. Enn er málið á einhverju stigi hugleiðinga um vaskprósentu, ferðapassa eða aðgangseyri. Einfaldast er að hækka vask af gistingu upp í almennan vasko. Ráðherrann þarf að vakna. Kerið er farið og röðin er komin að Geysi.

Burt með Bretland

Punktar

Gott væri að losna við Bretland úr Evrópusambandinu. Aðild þess er framhald aldagamallar Evrópustefnu Bretlands að deila og drottna. Vera með fótinn í gáttinni og spilla eins mikið fyrir og hægt er. Raunar eiga bara evruríki að vera í sambandinu. Brottfall Bretlands mundi fækka ágreiningsefnum innan sambandsins um meira en helming. Sambandsríkin gætu einbeitt sér að brýnasta málinu, framtíð evrunnar og peningastefnunni. Ríkin gætu lagt aukna áherzlu á hallalausan ríkisbúskap og fráhvarf frá aukinni viðskiptaveltu, sem Bretar kalla hagvöxt. Brezk-bandarískur hallarekstur er eitur í nútíma ríkisbúskap.

Ríkið á Geysi og Strokk

Punktar

Ríkið á Geysishverina og getur ekki látið viðgangast gjaldtöku aðliggjandi landeigenda. Því miður hefur ríkið sofið á verðinum og misst frumkvæðið úr höndum sér. Ákvörðun aðliggjandi landeigenda um gjaldtöku hlýtur að vekja stjórnvöld. Þau verða að banna fyrirhugaða gjaldtöku og ljúka þess í stað langvinnri hugleiðingu um ferðapassa eða aðgangseyri. Setja þarf upp einfalt kerfi, sem veldur sem minnstri fyrirhöfn og minnstum ágreiningi. Eðlilegur vaskur á gistingu mundi útvega fé til framkvæmda við alla ferðamannastaði. Ragnheiður Elín Árnadóttir ber ábyrgð á, að þetta mál fari ekki úr böndum.

Góður fótaferðartími

Punktar

Samkvæmt gamla eyktakerfinu eru náttmál klukkan 21, miðnætti klukkan 24 og rismál klukkan 06. Svefntími var þannig níu stundir frá 21 til 06. Samkvæmt réttum sólargangi samsvarar það tímanum 22:30-07:30, sem er gott. Samt vilja morgunsvæfir þingmenn færa klukkuna aftar til að geta sofið fram á morgnana. Leitaði í Wikipedia að vísindalegum rökum fyrir breytingunni og fann engin. Sumir eru bara latir og vilja láta heiminn snúast um leti sína. Málið er að fara fyrr að sofa. Færa má byrjun skólatíma til klukkan 09. En alþingi hefur ýmislegt þarfara að gera en að breyta klukkunni. Hún er fín eins og hún er.

Stéttaskipting vex hér

Punktar

Dreifing auðs á íbúa er jöfnust á Norðurlöndum. Samkvæmt Gini-stuðli er misræmið þar um 25 stig. Hér er það hærra, um 28 stig, sem jafngildir meiri ójöfnuði. Við stefnum í átt til Bretlands, þar sem misræmið er 34 stig. Og til Bandaríkjanna, þar sem misræmið er 45 stig, hæst iðnvæddra ríkja. Betra fyrir okkur væri að færast nær Norðurlöndum og draga þannig úr spennu milli stétta. Hún byggist á, að láglaunafólk verður jafnan útundan í samkomulagi á vinnumarkaði. Alþýðusambandið rekur stefnu ójafnaðar, sem hefur hingað til leitt til vaxandi munar á ríkum og fátækum. Við þurfum að stokka þar upp.

Býður upp á steypu

Punktar

Forsætisráðherra segir í sjónvarpinu, að fjölskyldur og heimili geti fundið STRAX fyrir lofaðri skuldaleiðréttingu: „Vegna þess að þau geta út frá þeim upplýsingum, sem lagðar hafa verið fram, skýrslu sérfræðihópsins, áætlað af talsverðri nákvæmni, hver leiðréttingin verður. Þegar hún er svo komin inn á yfirlitið hjá fólki nú þá væntanlega hefur það ýmis jákvæð efnahagsleg áhrif í för með sér, en þó ekki þau neikvæðu áhrif sem ýmsir óttuðust – til dæmis að menn myndu nýta tækifærið til þess að skuldsetja sig aftur og meira.“ Svo má skilja þessa nýju steypu hans, að vont sé, að fólk fái peninga, það eyði þeim bara.

Smotterí og svínarí

Punktar

Málaferli gegn banksterum heyjast ekki bara fyrir hefðbundnum dómstólum. Merkari eru málaferlin fyrir dómstóli götunnar. Þau voru fyrir löngu flutt og dómar upp kveðnir. Almenningur hefur úrskurðað bankstera seka um svindl og svínarí, dæmt þá „non grata“. Þeir megi fara til andskotans og ekki koma aftur. Lagatæknum bankstera líkar þetta stórilla. Eru enn að verja þá fyrir dómstóli götunnar. Segja jafnvel, að pupullinn pyndi bankstera. Ekki vegna merkra lögbrota, heldur vegna skattasniðgöngu, ferðalaga á svig við lög eða umboðssvika, semsagt vegna smotterís. Þess sem pupullinn kallar réttilega svindl og svínarí.

Hressi sjúklingurinn

Punktar

Ekki linnir fréttum af hörmungum evru. Á sama tíma hefur hún áfram eflzt og er langtum verðmætari en dollarinn, sem margir elska. Einnig birtast stöðugt fréttir af hörmungum evrópska myntsambandsins. Staðreyndin er þó, að stoðir evrunnar styrkjast í sífellu. Ríki víða um álfuna tóku upp harðari stefnu jafnvægis í fjármálum að ráði og fyrirmynd Þjóðverja. Þeirri stefnu er nú teflt fram gegn brezk-bandarískri hallastefnu. 350 milljónir manna búa í ríkjum, sem nota evru eða myntir, sem hanga á gengi evrunnar. Lettland var að gerast aðili. Með Póllandi fer fjöldinn senn upp í nærri tvö Bandaríki.

Um viðræður og um aðild

Punktar

Engar áhyggjur af Evrópuaðild. Á tíma Sigmundar hefur fylgi við aðild vaxið úr 32% í 42% og andstaða við aðild hrunið úr 68% í 58%. Með sama framhaldi missir ríkisstjórnin meirihluta gegn aðild að Evrópusambandinu fyrir árslok. Sigmundur þarf þá að finna annað trikk gegn kosningu. Nú segir hann umræðuna snúast um andstöðu eða viðræður, ekki um aðild. Því óvinsælli sem forsætis verður, því vinsælli verður Evrópa. Brátt neyðist Sjálfstæðis til að svíkja loforð um þjóðaratkvæði um viðræður. Þá er of seint fyrir forsætis að hafa kosningu um aðild. Hún yrði samþykkt, því verður engin atkvæðagreiðsla, því miður.

Magnús grátinn inn

Punktar

Ýmsir atvinnuleysingjar sendu inn umsókn um starf Útvarpsstjóra. Fáir þeirra eru frambærilegir og ekkert af því verður tekið til greina. Stefán Jón Hafstein sendi inn góða umsókn. Því dugir ekki að ráða bílasölumann, þótt Framsókn mundi detta það í hug. Aðeins dugir að draga fram sæmilega persónu, með handafli, ef ekki vill betur. Flestir hæfir sögðu pass við boðinu. En hvað gerir fólk ekki fyrir flokkinn sinn, þegar Illugi grætur. Ráðherrann mun aldrei ráða utan flokks, slíkt væri pólitískt sjálfsvíg á þeim spillta mafíubæ. Því er Magnús Geir Þórðarson sá eini vel frambærilegi í boði.

Langir dómar bankabófa

Punktar

Brynjar Níelsson alþingismaður er skemmtilegur dellukarl, en fer því miður stundum rangt með einfaldar staðreyndir. Rangt er, að Ísland taki harðar á banksterum en önnur ríki. Bandaríkin hafa dæmt tugi bankstera í fangavist. Sholam Weiss fékk 835 ára fangelsi og Keith Pound fékk 740 ára fangelsi. Margir muna eftir Bernie Maddoff, sem fékk 150 ára fangelsi. Skjólstæðingur Brynjars Níelssonar í Kaupþingi fékk mun vinsamlegri meðferð í Héraðsdómi. Svo er annað, sem Brynjar ætti að passa. Hann hefur ekki skráð hagsmuni sína á vef alþingis, þótt skylt sé sem verjandi bankamanns, er hann fjallar um.

Taumleysi og refsileysi

Punktar

Viðskiptahættir bankanna í aðdraganda hrunsins einkenndust af „Impunitus“. Í taumleysi, skorti á eftirliti og refsileysi settu bankarnir þjóðina á hvolf. Í bókinni „Bringing Down the Banking System“ eftir Guðrúnu Johnsen notar hún um þetta latínu: Impunitus. Gervifyrirtækjum með nánast ekkert eigið fé voru lánaðir milljarðar án veða. Hún bendir á 20 milljarða lán Glitnis til Stíms. Afleiðing einkavinavæðingar, þar sem siðblindingjum voru afhentir bankarnir og tekið upp eftirlitsleysi. Allt framið í samræmi við snarbilaða pilsfalda-frjálshyggju Davíðs Oddssonar, í fjárhættuspili á kostnað skattborgaranna.

Grínast með offitunga

Punktar

Sjónvarpsstöð gerir grín að tólf persónum, sem þjást af offitu. Beitt verður hefðbundnum sjónvarpslátum. Frægðarfólk segir „eru ekki allir hressir í dag, samtaka nú“. Þetta er tólf sinnum verra en Gaui litli á sínum tíma. Svona megrun með hópefli og sviðsljósi er gamalkunn. Leiðir til skammtímaárangurs. Sum fórnardýrin munu léttast mikið á skömmum tíma, sem er svo ávísun á tapað stríð. Eftir einn mánuð eða ár mun offitan síga hratt á ógæfuhliðina, verður verri en fyrrum. Fáar megrunarleiðir hafa langtímaáhrif eins og ég bendi á í fyrirlestrum mínum á vefnum um megrun. Leið sviðsljóssins er versta leiðin.

Spuni og blaður

Punktar

Spunakerling ráðuneytis setur á blað tilbúnar ávirðingar um hælisleitanda. Upp komst um spunann. Blaðurfulltrúi ráðuneytisins segir, að fyrirspurnum um málið verði ekki svarað. Fer síðan á fund í dómnefnd verðlauna fyrir ársins beztu blaðamennsku. Ákveður þar, að fréttir af skandalnum séu ekki hæfar til verðlauna. Þannig er Ísland í dag, fúlt fiskabúr fyrir spuna og falsanir. Í öðru ráðuneyti er spunnið, að minnkun friðlands sé stækkun. Ráðherra stöðvar eldri stækkun og slakar henni svo laskaðri í gegn. Dæmigerður spuni á ferð. Ráðherrar snúast um fals og lygi. Því er gert grín að Íslandi í NY Times.

Vanhæfir dómnefndarmenn

Punktar

Annar hver félagsmaður Blaðamannafélagsins hverfur til annarra starfa. Þeir gerast einkum blaðurfulltrúar fyrirtækja, stofnana og samtaka til að eiga fyrir salti í grautinn. Í nýju starfi felst krafa um að blekkja blaðamenn og afvegaleiða. Ætli blaðurfulltrúar til baka, reynast þeir oft skemmd epli. Því er fráleitt, að félagið feli blaðurfulltrúum að sitja í dómnefnd um ársins beztu blaðamennsku. Sem blaðurfulltrúi ráðherra sendir Jóhannes Tómasson dómnefndarmaður út erindi um að hætt verði að svara fyrirspurnum um leka á spuna úr ráðuneyti Hönnu Birnu. Er þar með ófær um að gæðameta blaðamennsku.