Punktar

Lyginn Frosti á flótta

Punktar

Frosti Sigurjónsson nefndarformaður hrökklaðist úr einni lyginni í aðra á flótta undan gagnrýni á spillingu hans. Fyrst kannaðist hann ekki við neitt, sagði svo frískuldamark MP-banka komið úr ráðuneytinu. Bjarni Benediktsson neitaði. Þá sagði Frosti, að 50 milljarða markið hefði fæðst úr lausu lofti á fundi efnahags- og viðskiptanefndar alþingis. Loks játaði Frosti að hafa fundið upp á þessu sjálfur og lætt inn í fjárlagafrumvarpið. Engin efnisleg skýring fékkst á nefndarfundinum í dag. Enn er leyndó, hvers vegna Frosti bjó til 200 milljóna gjöf til vina og ættingja Sigmundar Davíðs í MP-banka.

Útlendir forðast loddarann

Punktar

Fréttastofan REUTERS segir, að traust á Íslandi hafi hríðfallið við innreið Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í forsætisráðuneytið. Batinn mikli, sem var sýnilegur fyrir tveimur árum, sé horfinn. Vextir á ríkisbréfum Íslands hafi rokið úr 4,1% í 6,4%. Á sama tíma og nýir peningar flæða til kreppulanda á borð við Írland og Portúgal og jafnvel Grikkland, fari ekkert til Íslands. Jafnvel tombóluverð á rafmagni freistar ekki. Afleiðing af rugli og vaðli Sigmundar Davíðs út og suður. Útlendir fjárfestar telja hann lýðskrumara og hafa litla trú á þjóð, er kýs yfir sig loddara. Svona er að vera bananaþjóð.

Lagatæknar götunnar

Punktar

Lagatæknar götunnar, Brynjar Níelsson og Jón Steinar Gunnlaugsson, reyna að hrella Hæstarétt til hlýðni með gagnrýni á dóma í héraði. Vilja fá Hæstarétt til að snúa við dómum, sem ganga gegn bankabófum. Lagatæknar flytja mál sín í auknum mæli utan dómsala í fjölmiðlum. Með blaðagreinum reyna þeir að búa til andrúmsloft meðvirkni með bankabófum og öðrum, sem áttu þátt í hruninu mikla. Jafnframt vara þeir við öðrum aðilum að umræðu götunnar. Tilfærsla málflutnings lagatækna úr dómstólum út á götuna er býsna athyglisverð. Aðild Brynjars og Jóns Steinars að götunni auglýsir mikilvægi dómstóls hennar.

Hættulegi ráðherrann

Punktar

Sem þingmenn og ráðherrar eru Kristján Þór og Gunnar Bragi sendisveinar kvótagreifa. Kristján Þór er sendisveinn Samherja, Gunnar Bragi sendisveinn Kaupfélags Skagfirðinga. Þótt mikið sé hlegið að heimsku hins síðari, hefur sá fyrri reynzt miklu hættulegri í starfi. Hann er svo ofsafenginn í óbeit á ríkisrekstri og ást á einkarekstri, að hann reynir hvað eftir annað að rústa stofnunum. Alþingi rétt tókst að bjarga Landspítalanum fyrir horn á síðustu stundu, þegar Kristján Þór var að ýta honum fram af brúninni. Síðan tóku við heilsugæzlustöðvarnar. Nú reynir hann af megni að stúta sjúkraflutningunum.

Sagnfræðikvörnin malar

Punktar

Sagnfræðin malar án afláts, þvert á tilraunir málsaðila til að endurskrifa söguna. Í bókinni: „Bringing Down the Banking System“ kemst Guðrún Johnsen að þeirri niðurstöðu, að pólitíkusar beri mesta ábyrgð á hruninu. Þeir lögðu línurnar, einkavæddu bankana í þágu bófa og skipulögðu skortinn á eftirliti. Geir H. Haarde hrökklaðist úr pólitík eftir hrun, fékk vægan dóm og slapp fyrir horn. Öðru máli gegnir um Davíð Oddsson, sem ber ábyrgð á einkavæðingu og eftirlitsleysi. Bætti svo um betur með að gera Seðlabankann gjaldþrota, þegar hrunið var óumflýjanlegt. Reigir sig enn óforbetraður á fjóshaugnum.

Hverfi nýbúa í Evrópu

Punktar

Þótt Bandaríkjunum hafi gengið misjafnlega að bræða svertingja saman við þjóðfélagið, hefur þeim gengið betur með flesta aðra hópa. Þar laga menn sig að því, sem fyrir er. Og mörgum gengur bærilega að komast áfram í lífinu, til dæmis fólki frá Austur-Asíu. Alveg eins og Indverjum gengur vel í Bretlandi. Í heild standa Bandaríkin betur að vígi en Evrópa, þrátt fyrir fleiri hælisleitendur. Í Evrópu eru stjórnvöld of feimin við að krefjast aðlögunar þeirra, sem vilja njóta gestrisni nýja landsins. Í Evrópu hafa myndast hverfi aðfluttra, sem ekki tala ríkismálið og enga atvinnu hafa.

Loksins heyrist vit

Punktar

Hugmyndir Halldórs Halldórssonar borgarstjóraefnis um framtíð Reykjavíkur eru betri en núverandi meirihluta. Að svo litlu leyti sem taka ber mark á orðum pólitíkusa. Segist vilja fleiri mislæg gatnamót, Miklubraut í stokk og þéttingu byggðar utan miðbæjarins. Þetta eru akkúrat þau mál, sem núverandi meirihluti setti í skammarkrók. Við þurfum liprari umferð, svo bílar hangi ekki lengi mengandi í gangi á gatnamótum. Við þurfum því mislæg gatnamót, neðanjarðargötur og nóg af bílastæðum neðanjarðar. Einkum þarf að hlífa oss við þéttingu eldri byggðar með því að rýra lífsgæði þeirra, sem fyrir búa.

Ráðherra svarar engu

Punktar

Á Eyjunni/Pressunni svarar innanríkisráðherra gagnrýni á lygi í leka með því að svara engu. Hvergi er efnislegur biti í svarinu, sem er samfellt væl um, að hún sæti óhróðri. Klykkir svo út með hefðbundnu orðalagi bófanna um „fólkið í landinu“: Hanna Birna segist „halda áfram með mikilvæg verkefni fyrir fólkið í landinu!“ Í samanburði við Danmörku ríkir botnlaust siðleysi í íslenzkri pólitík. Í Danmörku féllu embættismaður og ráðherra. Og forsætis var þar í fimm tíma yfirheyrslu í þinginu í gær. Hér segja menn ekki múkk og jafnvel stærstu fjölmiðlarnir þegja. Þetta er ógeðslegt og í boði kjósenda.

Einkunn fyrir ábyrgð

Punktar

Vafalaust er vel meint af menntaráðuneyti að útskrifa nemendur með vottorði um skýra sjálfsmynd, ábyrga afstöðu í lífi og virðingu fyrir umhverfi. Flott væri að virkja börn til ábyrgðar í samfélaginu. Ekki veitir af, eins og sést af klúðri foreldra og foreldra þeirra. Gallinn er bara, að ekki er til neinn mælikvarði á dyggðir fólks. Slíkt mundi enda með, að kjósendur Framsóknar og Flokksins misstu atkvæðisrétt. Geðþótti kennara getur ekki verið staðgengill mælikvarða. Meðan hann er fjarri, geta áðurnefndir kjósendur andað léttar. Misráðinn góðvilji ráðuneytis verður ekki að veruleika og er bezt gleymdur.

Frosti stamar bara

Punktar

Mesta geimvera alþingis er formaður efnahags- og viðskiptanefndar. Á síðustu metrum fjárlaga fyrir jól flutti nefndin tillögu um 50 milljarða frítekjur banka. Klæðskerasaumuð fyrir MP-banka, sem tengist forsætisráðherra vina- og fjölskylduböndum. Frosti Sigurjónsson gefur enga vitræna skýringu. Stamar bara í útvarpsviðtölum, eins og Auðunn Georg, fréttastjóraefni Framsóknar í gamla daga. Spilar fávita og vísar á fjármálaráðuneytið. Ef til vill er hann svona þunnur. Gaman hefði verið, ef hann hefði varið spillinguna með því, að loksins væri verið að efna loforð SDG um skuldaleiðréttingu hinna efnameiri.

Hamslaus ráðherra

Punktar

Óeðli margra ráðherra kemur sífellt betur í ljós. Nánast daglega er einhver þeirra í fréttum fyrir heimsku, hatur, undirferli eða tuddaskap. Hanna Birna hélt sig fyrst til hlés sem ráðherra. Var áður fræg fyrir að nota dylgjur í leka til að reyna að ryðja borgarstjóra sínum frá og síðar gegn formanni flokksins í sama skyni. Nú notar hún sem ráðherra lygi í leka til að ofsækja hælisleitanda. Svo beitir hún löggunni til að hætta við kæru á Árna Johnsen og félaga fyrir að höggva borgartré í Breiðholti. Sama dag lætur hún lögguna kæra þekkta borgara fyrir tilraun til verndar Gálgahrauns. Hamslaus tuddi.

Engar skyldur við þig

Punktar

Samkvæmt leiðara Davíðs Oddssonar hefur Morgunblaðið sem einkarekinn miðill bara skyldur við eigendur, það er kvótagreifa. Þveröfugt segja siðareglur, sem koma frá Bandaríkjunum og hafa rutt sér til rúms: „Blaðamennska veitir fólki upplýsingar, sem gera það frjálst. Skuldbinding hennar er fyrst og fremst við sannleikann. Hollusta hennar er við borgarana. Eðli hennar er leit að staðfestingum. Hún er sjálfstæð gagnvart þeim, sem fjallað er um. Hún er óháður vaktari valdsins. Hún er torg gagnrýni og málamiðlana.“ Hér mætast svart og hvítt, íslenzkur Moggaáróður og bandarískur heiðarleiki.

Geimverur við Austurvöll

Punktar

Einn bankastjóra MP banka er Sigurður Hannesson, nánasti ráðgjafi Sigmundar Davíðs og formaður sjónhverfingar skuldbreytinga. Annar bankastjóri MP banka er Sigurður Atli Jónsson, kvæntur systur Sigmundar Davíðs. Fyrri bankastjóri MP banka er ráðgjafi Bjarna Benediktssonar. Þetta skýrir kannski hvers vegna geimverur læddu frímarki banka á síðustu stundu inn í fjárlög. Frímarkið er sniðið að MP banka, sparar honum 200 milljónir á árinu. Ábyrgð ber formaður efnahags- og viðskiptanefndar alþingis, Frosti Sigurjónsson. Þykist vitvana, vísar á fjármálaráðuneyti. Þar yppta menn öxlum, vísa á Frosta. Við búum í Undralandi.

Óbeit framsóknardólga

Punktar

Mjög í framsóknarstíl, að Ásmundur Einar Daðason hótar þjóðinni öllu illu, ætli hún að samþykkja framhald viðræðna við Evrópusambandið. Til Bruxelles verði þá send samninganefnd, sem hleypi viðræðum í strand. Dólgshátturinn leynir sér ekki, dæmigerður fyrir jarðvöðla Framsóknar. Sterkast kemur hann fram í óbeit framsóknarmanna á náttúrunni, sem einkum einkennir bændasyni á mölinni. Fremst fer þar jarðvöðull í umhverfisráðuneytinu, sem rífur lög og reglur eins og honum þóknast. Í óbeit sinni á náttúru og fagmennsku stöðvar Sigurður Ingi Jóhannsson jafnvel vinnu fagfólks við rannsókn á vatnsmengun.

Hugmyndaskorturinn

Punktar

Hefðbundnir fjölmiðlar heita eitthvað, sem þú skilur. Vísa gjarna til þess starfs, sem þar er unnið. Þeir heita Guardian, Independent, Spiegel og El Pais. Eða Morgunblaðið, Saga og Pressan. Þegar ljósvakinn kom til skjalanna var hins vegar lítið um hugmyndaflug á þeim bæjum. Þess vegna heita þessar stöðvar einhverju rugli á borð við BBC eða CNN, ARD eða ZDF. Ríkisútvarpið fór að elta ruglið að ráði markaðsfræða, kallast núna RÚV. Ljósaskilti yfir dyrum Efstaleitis auglýsir hugmyndaskortinn. Mín vegna má þetta heita RÚV og hafa neon-skilti upp á það. Samt telur SDG skammstafanir vera skammaryrði.