Punktar

Réðist á eigin nefnd

Punktar

Forsætisráðherra fékk að þrugla þindarlaust í fréttum Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi. Réðist á eigin nefnd og þóttist vera að skamma stjórnarandstöðuna á alþingi. Fréttamaðurinn gerði enga tilraun til að koma loddaranum upp á sporið. Nefndin taldi, að ekki væri að sinni hægt að afnema verðtryggingu og Sigmundur Davíð var reiður yfir því. Ég skildi ekkert í málflutningi hans, annað en að hann var að rífast við eigin nefnd. En svona er forsætis, talar út og suður eins og hann sé í öðru sólkerfi. Og viðkomandi fjölmiðill gerði engar athugasemdir, rétt eins og sjónvarpið sé bara hundur hjá rugludalli.

Yfir jökulfljótið

Punktar

Varlega ber að ríða vatnsmiklar jökulár. Finna þarf vað út að fyrstu eyri, taka síðan stöðuna og velja leið út á þá næstu. Varast þarf sandbleytur og pytti. Leiðin getur orðið krókótt áður en yfir er komið. Svipað er með hina hötuðu verðtryggingu. Losa þarf um hana í áföngum og gæta vel að hættum á leiðinni. Meta þarf stöðuna hverju sinni og velja síðan næsta áfanga. Ekki dugir, að forsætis segi: „Hér förum við beint yfir, það er einfalt.“ Loddari yrði aldrei gerður að forstjóra í hestaferð. En þúsundir kjósenda ímynduðu sér, að Sigmundur Davíð mundi leiða þá beint til réttlætis handan fljótsins.

Loforðunum slátrað

Punktar

Þá hefur báðum kosningaloforðum Framsóknar verið slátrað. Samt átti að vera svo sáraeinfalt að framkvæma þau. Bara sveifla kylfunni og láta hrægammana borga 300 milljarða af húsnæðislánum fólks. Og banna síðan verðtrygginguna með pennastriki. Eftir kosningar voru skipaðar nefndir í málin. Niðurstaðan er nú komin í ljós: Ekki er hægt að framkvæma loforð Framsóknar. Sigmundur Davíð sló þannig „heimsmet“, svo notað sé orð hins siðblinda formanns. Fyrst var það heimsmet í kosningaloforðum og síðan varð það heimsmet í sviknum kosningaloforðum. Gráðugir kjósendur loddarans sitja eftir með sárt ennið.

Stórkostlega skrefið

Punktar

Verðtryggingarnefndin tileinkaði sér rembu forsætis. „Aldrei hafa jafn stór skref verið stigin til afnáms“ verðtryggingar stóð á glærunni. Svona mundi Sigmundur Davíð nákvæmlega hafa orðað það. Ekki er þó ljóst, hvort nefndin á við heimsmet eða Íslandsmet. SDG hefði sagt „heimsmet“. En efnislega felst metið í, að verðtrygging verður ekki afnumin að sinni. Met í svikum. En málið verður vinsamlega skoðað eftir tvö ár. Þannig fauk það kosningaloforð í átt á eftir loforðinu um barsmíðar á erlendum hrægömmum. Eftir sat svikinn Vilhjálmur Birgisson með eitursúran svip í sjónvarpinu og skilaði séráliti.

Ekki rétti maðurinn

Punktar

Efast um, að Frosti Sigurjónsson sé lyginn að eðlisfari. Mér finnst hann ljúga gegn vilja sínum. Hann er svo raunalegur á svipinn, þegar hann flytur okkur nýjar og nýjar útgáfur af 50 milljarða málinu. Ekta lygarar trúa hins vegar lygum sínum um leið og þeir segja þær. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er fagmaður. Lætur sér aldrei bregða, þótt allt, sem hann segir, sé í kross við allt, sem hann áður sagði. Geislar ætíð eins og sól í heiði, er hann lýgur. Líklega hefur hann þvingað Frosta út í þennan krappa dans, sem ekki hentar heiðarlegum. Sigmundur á bara að hafa siðblindingja kringum sig, hinir bila.

Kúgað eftirlit

Punktar

Just Mariiam siglir um landið og safnar brotajárni á svörtum. Ekkert gerðist fyrr en ljósmyndari Ríkisútvarpsins kom á vettvang í Hafnarfirði. Þá kom í ljós, að ekkert eftirlit er með tilfærslu brotajárns og spilliefna. Svo kúgaðar eru íslenzkar eftirlitsstofnanir af hatri Davíðunga á eftirliti, að þær þora ekki að vinna vinnuna sína. Fimmtán ár eru síðan þjóðin losnaði við Davíð úr forsætisráðherrastóli. Samt skjálfa menn enn, þegar skammaryrðið EFTIRLITSIÐNAÐUR heyrist. Þarna brutu margir lög, útlendir og innlendir. Þeir, sem selja spilliefni á svörtum. Og mest þeir, er svíkjast um eftirlit.

Missti jarðasambandið

Punktar

Alþýðusambandið og einkum Gylfi Arnbjörnsson fara illa út úr kjarasamningum áramótanna. Gylfi missti samband við veruleikann og var orðinn að deild úr Samtökum atvinnulífsins. Svo langt gekk það, að alþýða manna vaknaði óvænt og reis upp gegn kvölurum sínum. Samningarnir voru víða felldir, eru orðnir ónýtir. Við búum í þjóðfélagi, þar sem hinir allra ríkustu hirða allan vöxt á efnahag. Ekkert nema mínusinn verður afgangs handa puplinum. Vonandi er þetta merki um, að fólk fari að hætta að láta endalaust hafa sig að fífli. Nokkuð vantar þó á, að pupullinn nenni út á torg að berja potta og pönnur.

Arftakar fundnir

Punktar

Fylgi Bezta flokksins í borgarkosningunum 2010 dreifist samkvæmt könnun á Bjarta framtíð og Pírata. Björt framtíð fær tvo þriðju af fylginu og Píratar þriðjung. Samfylkingin stendur í stað í fimmtungi fylgis. Fylgisbreytingar eru fyrst og fremst hjá Sjálfstæðisflokknum, sem lækkar úr þriðjungi niður í fjórðung. Og hjá Vinstri grænum, er magnast úr sjö upp í ellefu af hundraði. Framsókn fær tveimur prósentum meira en í vor, en nær þó ekki inn manni. Þetta segir mér, að arftakar Bezta flokksins séu Björt framtíð og Píratar. Og að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki enn fundið botninn, sem bíður hans.

Þokubakkar þingnefndar

Punktar

Þokan liggur enn eins og mara á Viðskipta og efnahagsnefnd alþingis. Ekki er vitað, hvernig 50 milljarða tala spratt úr höfði Frosta Sigurjónssonar. Ekki er heldur vitað, hvaða nefndarmenn fengu að vita hvað og hvaða meðferð málið fékk í nefndinni. Auðvitað eiga fylgiskjöl að vera skráð og opin og fundir geymdir á myndskeiðum. Í rekstri alvöru fyrirtækja eru verkferli á hreinu og eru rekjanleg. En í þessari nefnd grúfir bara þokan ein. Við vitum samt, að formaðurinn rambaði meðvitundarlítill í þokunni miklu. Þannig virðist ástand hans vera enn. Flóttasvipurinn er að minnsta kosti ekki horfinn í sjónvarpi.

Leyndó lifir góðu lífi

Punktar

Íslenzkt leyndó kristallast vel í lekamáli Hönnu Birnu Kristjánsdóttur. Enn er ekki upplýst, hver samdi lygi í leka og hver kom lekanum á framfæri við trúgjarna fjölmiðla. Sennilega hefur aðstoðarfólk ráðherrans verið að verki fremur en fast starfsfólk ráðuneytisins. Liggur í augum uppi. Vitum ekki um aðild Hönnu Birnu að lyginni. Í Danmörku hefði hún sagt af sér, því ráðherra ber ábyrgð lygum starfsfólks. En hér ber enginn ábyrgð á neinu, allra sízt ráðherra. Erlendir blaðamenn mundu samkvæmt erlendum siðareglum segja, hver laug í þá. En hér ríkir leyndó á lyginni hjá fjölmiðlum eins og hjá kerfinu.

Í faðmlögum við bófa

Punktar

Fimmtíu milljarða málið varpar kastljósi á ástarsamband pólitíkusa og bankabófa. Rakin hafa verið margvísleg tengsli Sigmundar Davíðs við æðstu bankstera. Frosti er greinilega í svipuðum faðmlögum við banka. Í tíð fyrri ríkisstjórnar var gantast með, að Árni Páll væri bankavinurinn bezti. Þarna sjást angar af fjármálamafíunni, sem að völdum gengur næst kvótamafíunni. Þorri þingmanna er meira eða minna í ósiðlegum faðmlögum við helztu óvini þjóðarinnar, kvótagreifa og peningagreifa. Ekki er von, að lýðræðið komi að neinu gagni, þegar banana-kjósendur leyfa spilltum faðmlögum að viðgangast.

Bara til að þykjast

Punktar

Fyrir kosningarnar borgaði Ísland sömu vexti og Írland af ríkislánum, 4,1%. Síðan reis Írland úr öskustónni og borgar bara 1,8% vexti. Ísland sökk hins vegar dýpra og borgar 6,4% vexti. Ástæðan er ein, loddarinn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Lofaði þjóðrembdum kjósendum að láta útlenda hrægamma borga húsnæðislán. Meinti ekkert með því og hefur ekkert gert í því síðan. Bara á að efna brot af loforðinu og fólk látið borga það sjálft í skatti. Svo borga ríkissjóður og skattgreiðendur milljarða á ári aukalega í ofurvexti af því að loddari veifaði þjóðrembu framan í banana-kjósendur, bara í þykjustunni.

Gengur betur næst

Punktar

Eftir viku undanbrögð og flótta úr einu vígi í annað játaði Frosti Sigurjóns að hafa logið um 50 milljarðana. Frískuldamark MP banka og 50 milljarðarnir voru frá honum sjálfum komin. Samt mannaði hann sig ekki upp í að biðjast afsökunar. Enda leggja pólitíkusar slíkt ekki í vana sinn. Eðlilegt er að telja þetta gert fyrir vini og vandamann Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í bankanum. Hafi SDG andmælt því án frekari útskýringa, er ærin ástæða til vantrausts. Man ekki eftir, að SDG hafi sagt satt orð árið 2013. Og ekki er sennilegt, að hann taki upp á því árið 2014. Mottóið er: Gengur betur næst.

Mislukkuð aðlögun

Punktar

Að mestu hefur Vesturlöndum mistekizt að laga múslima að siðum og lögum nýja landsins. Sést bezt af fjölda róttækra íslamista, sem fara þaðan til að berjast við trúvillinga í löndum múslima. Til dæmis núna í Sýrlandi. Flestir nýbúar aðlagast nýju landi og reyna að komast þar áfram. En það gildir ekki um alla múslima. Sumum gengur verr að festa rætur, Lenda því í andstöðu við kerfið. Leiðir til, að gestgjafalöndin þurfa að taka múslima öðrum tökum en venjulega hælisleitendur. Sumir þeirra þurfa meiri aðlögun, meira eftirlit. Annars lendum við í svipuðum vanda og einkennir hópa múslima á Vesturlöndu