Punktar

Frá Undralandi

Punktar

Sigmundur Davíð er orðinn nánast alltaf pirraður, þegar hann talar. Er illa við, að menn fjalli um stórkarlaleg loforð hans og litlar sem engar efndir. Að menn fjalli um digurbarka hans, þegar hann talar niður til allra, sem sjá gegnum hann. Vill vera einn til frásagnar um fund með Barroso í Bruxelles. Hneykslast á, að Árni Páll Árnason vill ekki trúa. Sigmundur segist lumbra á hrægömmum, en gerir svo ekkert í því. Segir landið ekki til sölu, þegar hann er búinn að gefa það kvótagreifum. Segir Seðlabankann hafa „óumbeðið“ haft skoðun á verðbólgu af völdum aðgerða stjórnvalda. Drottningin í Undralandi.

„Af með hausinn“

Punktar

Davíð Oddsson lagði niður Þjóðhagsstofnun, því að hann vildi ekki heyra ráð hennar. Næst leggur Sigmundur Davíð Gunnlaugsson niður Seðlabankann, því að hann vill ekki heyra ráð bankans. Eins og drottning Undralands, sem hrópaði „af með hausinn“, ef menn sögðu ekki já við bulli. Seðlabankanum er skylt að meta hagþróun og vara við hættum á leiðinni. Veruleikafirrtum Sigmundi Davíð líkar það stórilla. Þess vegna kastar hann skít í Seðlabankann. Ástandið á Sigmundi er að verða þjóðhættulegt. Því firrtari, sem leið hans verður, þeim mun órólegri verður Bjarni Benediktsson. Þetta getur bara endað með ósköpum.

Ræðst á heilsu fólks

Punktar

Ríkisstjórnin neitar að staðfesta nýjan samning ríkisins við sjúkraþjálfara. Ekki var gert ráð fyrir honum í fjárlögum ársins. Það var nefnilega búið að skera niður tekjur ríkisins af tillitssemi við organdi kvótagreifa. Því geta fátæklingar ekki fengið sjúkraþjálfun, unz annað kemur í ljós. Heilsu margra er þegar farið að hraka. Eins og á Landspítalanum í haust. Kristján Þór ýtti honum fram á brún hengiflugs. Alþingi tók þá fram fyrir hendur hans. Nú ýtir Kristján öðrum sjúklingum fram á brúnina. Allt í þágu kvótagreifa. Kristján Þór er galinn eins og ríkisstjórn kvótagreifanna í heild. Í boði kjósenda.

Vilja prófa aftur

Punktar

Mig langar til að vitna í Pál Vilhjálmsson ofurbloggara: „Það er mælikvarði á dómgreind stjórnmálamanna hvort þeir taka mark á samtökum hrunverja. Dómgreind stjórnmálamanna er því verri sem þeir hlusta meir á ráð Samtaka atvinnulífsins og Viðskiptaráðs um menntamál.“ Hér slær Páll naglann í botn í einu höggi. En málið er verra en þetta. Svo höll er ríkisstjórnin undir málflutning hrunverja í Viðskiptaráði, að Sigmundur Davíð hefur sett það í frumvarp. Samkvæmt því ber alþingi að bera öll fyrirhuguð lög undir bófana. Hvorki ráðið né ríkisstjórnin hafa lært neitt af hruninu. Vilja prófa aftur.

Fyndnar tilvitnanir

Punktar

„Ríkissaksóknari ákvað, meðal annars að okkar undirlagi, að rannsaka málið frekar.“ Hanna Birna gefur í skyn, að hún og aðstoðarmenn hennar stjórni ríkissaksóknara. „Þá gætu menn bara stundað að viðhafa stöðugar rannsóknir og ráðherrar gætu aldrei mætt í vinnuna.“ Sigmundur Davíð telur að kærur fólks út í bæ jafngildi lögreglurannsókn á vegum ríkissaksóknara. „Það var eitthvað rangt, þegar við vorum ekki í ríkisstjórn. Eitthvað öfugt við það sem ætti að vera.“ Bjarni Benediktsson veit, að það er passar ekki við lýðræði að hafa Sjálfstæðisflokkinn utan stjórnar. Fyndnir ráðherrar vorir.

Þjóðin er snargalin

Punktar

Sigmundur Davíð veit þetta. Þriðjungur fólks er glórulaus og helmingur hefur gullfiskaminni. Honum er óhætt að leggja fram lagafrumvarp um, að hrunverjar Viðskiptaráðs megi breyta lögum frá Alþingi. Óhætt að setja skólagjöld til að meina fátækum að brjótast í háskólanámi, helmingur þjóðarinnar vill það. Honum er óhætt að lofa hvaða rugli sem er fyrir kosningar, fólk kýs hann bara unnvörpum. Honum er óhætt að setja loforðin í langvinnar nefndir meðan hann veitir auðbófunum fyrirgeiðslu strax. Hann getur lofað þjóðinni stjórn fyrir hana og síðan myndað stjórn fyrir 1% hennar. Því þjóðin er snargalin.

Löggjafarvald bófaflokks

Punktar

Viðskiptaráð stýrði hruninu. Lét Tryggva Herberts semja skýrslu um, að allt væri glæst á Íslandi, þegar landið var að sigla í strand. Viðskiptaráð berst fyrir hag auðgreifa, þá bankagreifa og nú kvótagreifa. Baráttumál þess núna er, að háskólar verði kostaðir með skólagjöldum. Markmiðið er, að fátækir fái ekki háskólamenntun, heldur bara börn greifanna og aðstoðarfólks þeirra. Sigmundur Davíð og tryllt ríkisstjórn hans þjónusta bófaflokkinn. Nú síðast með lagafrumvarpi, er skyldar Alþingi til að bera ný lög undir Viðskiptaráð. Bófaflokkur Viðskiptaráðs og Samtaka auðgreifa á að verða Háyfiralþingi.

Mesta ógn mannkyns

Punktar

Heimsbyggðin telur sér stafa meiri ógn af Bandaríkjunum en nokkru öðru ríki. Kannaðar voru skoðanir fólks í 65 ríkjum og töldu 24% Bandaríkin vera mestu ógnunina við heimsfriðinn. Í öðru sæti var Pakistan með 8%, svo Afganistan, Íran, Ísrael og Norður-Kórea. Drómaárásir víða um heim hafa leitt til mikils mannfalls óbreyttra borgara. Þær hafa hleypt illu blóði í fólk og einangrað Bandaríkin á fjölþjóðavettvangi. Bandaríkin eiga tæpast neina vini lengur. Halda valdastöðu sinni með ofbeldi, innrásum, loftárásum á óbreytta borgara. Hernaður þeirra í Írak, Afganistan og víðar skilur samfélög eftir í rústum.

Bjarni er svartsýnn

Punktar

Bjarni Benediktsson skýrir þrásetu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í embætti ráðherra á sérkennilegan hátt. Valda muni ruglingi, verði ráðherra að víkja í hvert sinn, sem ráðuneyti er kært. Hingað til hafði ekki verið kært. Ekki heldur, að ríkissaksóknari tæki upp kæruna og heimtaði skýringar ráðuneytis. Enn síður, að hann vísaði málinu til lögreglu. Svo virðist sem Bjarni telji, ráðuneyti sitt vera mannað slíkum bófum, að það óþekkta verði hversdagslegt brauð. Hann þekkir Hönnu Birnu, Sigurð Inga Jóhannsson og annað heimafólk sitt. Lízt ekki á blikuna, telur verk þeirra munu sæta stöðugum rannsóknum.

Stela stjórnmálunum

Punktar

Mig langar til að leyfa Páli Skúlasyni prófessor að hafa orðið að þessu sinni. Tilvitnanirnar eru úr helgarblaði DV: „Það er mjög erfitt í þessu stjórnkerfi, sem við búum við, að koma á nokkurri vitiborinni umræðu um sameiginlega hagsmuni. Kerfið eins og það er kallar á fólk, sem hefur unun af valdi og þráir að beita völdum, en hefur ekki að sama skapi áhuga á skynsamlegri umræðu.“ … „Það er rétt eins og stjórnmálunum hafi verið stolið frá almenningi og gerð að leikvelli örfárra einstaklinga.“ Almannamál eru orðin að einkamálum, til dæmis fundur Sigmundar Davíðs með Barroso hjá EBE.

90 orða þjóðfélagsfræði

Punktar

Þjóðskipulagið á Íslandi felst í eignarhaldi auðgreifa á tveimur pólitískum flokkum og nokkrum pólitíkusum í þremur öðrum flokkum. Umboðsmenn greifanna mynda ríkisstjórn og hafa á oddinum landsins mesta lygara og skrumara. Hann segir ævinlega eitt og gerir annað. Rugl, þoka, lygi og remba eru vopn hans við að kúga þjóðina. Yfir þessu svífur svo landsfaðir, sem flaggar þjóðrembu og draumórum um happdrættisvinninga, allt frá útrás víkinga til dagrenningar norðurslóða. Undir úldnu þjóðskipulagi skjögrar hálf þjóðin, sem ekki botnar neitt í neinu. Fíflin njóta í botn að fá kjass frá landsföður og loddara.

Landsnet-Mannvit ljúga

Punktar

Jarðstrengur fyrir rafmagn kostar í Danmörku 40 milljónir íslenzkra króna á kílómetrann. Ekki 88 milljónir eins og Landsnet og Mannvit ljúga hér uppi á Íslandi. Fullfrágenginn kostar strengurinn 93 milljónir í Danmörku og ekki 150 milljónir eins og Landsnet og Mannvit ljúga. Verkfræðistofur íslenzkar eru óvenjulega ósvífnar, þegar þær berjast fyrir loftlínum og eignarnámi. Það er líka lygi hjá Landsneti, að jarðstrengir afkasti bara 250 megavöttum. Þeir gera tvöfalt betur við íslenzkar aðstæður eins og aðrar. Afleitt er að geta aldrei treyst neinum „sérfræðingum“. Þeir ljúga hver um annan þveran.

Stilling og festa

Punktar

Í gær fékkst staðfest, að fjölmargir Íslendingar eru fávitar. Ég hef raunar lengi gizkað á þriðjung þjóðarinnar. Meirihluti Íslendinga telur bófaflokka bezt fallna til að stýra fjármálum og efnahagsmálum. Einmitt þá bófaflokka, sem settu þjóðina á hausinn í aðdraganda hrunsins mikla. Eitt er að ginnast til að kjósa slíka flokka aðeins fimm árum eftir hrun. Annað að hafa ekki lært milligramm eftir eins árs stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Það er nánast ævintýraleg auglýsing um fávizku. Ekki er von á góðu á næstu árum, þegar meirihluti kjósenda stefnir með stillingu og festu á næsta hrun.

Hin leka Hanna Birna

Punktar

Starfsmenn í innanríkisráðuneyti tóku sig saman um að biðja Hönnu Birnu ráðherra um óháða rannsókn á lekamálinu. Rannsókn óháðs aðila mundi klára málið, fá það út úr heiminum. Hanna Birna hafnaði þessu, segist hafa falið rekstrarfélagi Stjórnarráðsins að kanna. Ekkert er vitað um slíka rannsókn, ef einhver er. Rekstrarfélagið hefur ekki staðfest neina rannsókn. Málið er hjá Ríkissaksóknara, sem hefur haft það með höndum í tvo mánuði. Hefur nú sent það í löggurannsókn. Reyndi þó tvívegis að fá ráðherra til að svara spurningum, en tókst ekki. Ráðherra óttast greinilega að fá botn í lekann.

Verður þjóðin steindauð?

Punktar

Enn einu sinni hefur hægra fólk burstað vinstra fólk í kosningum stúdenta í Háskóla Íslands. Þrátt fyrir hrun og hugmynda-gjaldþrot hægri stefnunnar í kreppu Vesturlanda. Fólk hugsar um sinn rass, þótt það ætti að vera úti á götuvígjum að bylta sukki og svínaríi valdakerfisins. Mér er sama, þótt vinstra liðið sé aumt og fast í femínisma og öðrum kreddum. Svona burst á ekki að vera mögulegt, þegar allir hafa séð öfgar græðginnar. Verra er, að hvergi örlar á stuðningi við ný sjónarmið. Þarna ná gamla hægrið og gamla vinstrið kjöri. Hvar eru píratar, stjórnleysingjar og aðrir speglabrjótar?