Punktar

Ráðherra ruplar kassann

Punktar

Ragnheiður Elín Árnadóttir stelur 700 milljónum af skattgreiðendum og afhendir frænda Bjarna Benediktssonar til bleikjueldis. Þeir, sem fyrir eru í greininni, hafa ekki fengið slíka fyrirgreiðslu. Hún felst í afslætti af ótal sköttum og gjöldum, helmings afslátt af tryggingagjaldi og fasteignagjaldi, undanþágu frá aðflutningsgjöldum og sérstakan þjálfunarstyrk upp á hundruð milljóna. Þetta er ekki bara úldin spilling, heldur hreinn þjófnaður. Vonandi verður glæpakvendið sjálft látið endurgreiða þetta, þegar hún hefur verið hrakin frá völdum. Óbeit sjálfstæðismanna á frjálsri samkeppni keyrir meira um þverbak en nokkru sinni.

Sátt um nýtt Ísland

Punktar

Í nýju stjórnarsamstarfi eftir næstu kosningar verður ekki meirihlutasátt um ýmis atriði, sem eru sumum hugfólgin. Til dæmis verður engin sátt um Evrópu, fyrr en skoðanakannanir sýna mikinn stuðning. Ekki verður sátt um afnám kvóta og frjálsar veiðar, þótt sumir vilji setja slíkt á oddinn. Fremur má búast við sátt um nýju stjórnarskrána, uppboð á kvóta og öllum fiski, verndun velferðar, auðlindarentu og auðlegðarskatt, hækkun lágmarkslauna, opnun upplýsinga um stjórnsýslu, stjórnmál og fjármál. Fyrir kosningar verða kjósendur að gera sér fulla grein fyrir, hvaða frambjóðendum má treysta til að fylgja slíku eftir.

Aukinn Evrópuvandi

Punktar

Þótt ríkisstjórnin hafi rækilega klúðrað viðræðuslitum við Evrópu, er engin umræða um hugsanlega aðild þessi misserin. Evrópusambandið er í ýmsum vanda. Þar hafa um skeið verið undirmálsmenn við völd og nýir undirmálsmenn hafa tekið við. Sambandið hefur færst frá alþýðuvináttu til stórbokkavináttu, hrikalegasta dæmið eru TISA-viðræðurnar. Sambúðin við glæfrapólitík Grikklands hefur einnig leikið sambandið grátt og vandséð er, hvernig hún endar. Innviðir fjármála og fjárstrauma hafa reynzt of veikir og spillingarríki hafa misnotað aðstöðuna. Þá er þungbært að hafa Bretland innbyrðis, ævinlega með rýtinginn uppi í erminni.

Þér að kenna

Punktar

Þriðja flokks pólitíkusar eru í boði vonlausra kjósenda, sem hrífast af hressum siðblindingjum. Rannsóknablaðamennsku er hafnað af lesendum, sem nenna ekki að láta truflast. Framgangur í viðskiptum og fjármálum næst aðeins með siðblindu. Eftirliti með siðblindu er hafnað af vonlausum kjósendum, sem vilja „kötta krappið“. Einn hæstaréttardómur gegn siðblindu og tvö fréttablöð í rannsóknum mega síns lítið gegn massífri heimsku alls almennings. Flest, sem aflaga fer í samfélaginu, er á ábyrgð fólks, sem er ekki hæft til að lifa við lýðræði. Við getum endalaust skammað siðblindingja, en vandann er að finna hjá almenningi.

Alþingi er óþarft

Punktar

Hverjar um aðrar þverar neita valdakonur Sjálfstæðisflokksins að verja gerðir sínar í viðkomandi þingnefndum. Alvarlegast er, að Ragnheiður Elín Árnadóttir neitar að svara atvinnumálaefnd þingsins. Getur nefnilega ekki rökstutt að hafa gefið Matorku, fyrirtæki frænda Bjarna Benediktssonar, 700 milljónir af fé skattgreiðenda. Um Hönnu Birnu þarf ekki að ræða, hún mun aldrei mæta hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd alþingis til að ræða lekamálið. Á sama tíma segir Bjarni Benediktsson, að óþarft sé að ræða mál á þingi, því ríkisstjórnin hafi þar meirihluta. Er þá ekki bezt að leggja alþingi niður milli kosninga?

Geymd í frysti

Punktar

Séu viðræðurnar komnar aftur á byrjunarreit, þarf næsta atrenna að byrja á, að sérhvert ríki Evrópusambandsins samþykki viðræður. Ef þær eru bara komnar í frysti, þarf sambandið þá ekki að leita samþykkis. Getur byrjað viðræður, þar sem frá var horfið. Á þessu er mikill munur. Fyrstu viðbrögð sambandsins eru að telja loðið bréf Gunnars Braga fela í sér frystingu. Slík túlkun er í samræmi við heilbrigða skynsemi. Af því má sjá, að ríkisstjórnin hefur dregið verulega úr andstöðunni við Evrópusambandið. Telur varhugavert að brenna brýr að baki sér. Skárri afstaða en hatursfrumvarp Gunnars Braga að þingsályktun í fyrra.

Svik – léttvægt plagg

Punktar

Ráðherra eða ríkisstjórn geta gefið út yfirlýsingar. Geta líka borið þær undir alþingi. Getur líka borið þær undir þjóðina. Aðferðirnar hafa misjafnt vægi, sú fyrsta er léttvæg, sú síðasta þungvæg. Síðasta ríkisstjórn bar aðildarviðræður við Evrópusambandið undir alþingi. Þessi ríkisstjórn bar bréf Gunnars Braga Sveinssonar hvorki undir alþingi né þjóðina. Á þessu tvennu er eðlismunur, þótt ég telji bezt að bera hvort tveggja undir þjóðina, aðildarviðræður og söltun aðildarviðræðna. Mestu máli skiptir þó að standa við loforð flokkanna og það hafa Framsókn og Sjálfstæðis alls ekki gert. Svik eru sérgrein stjórnarinnar.

Slatti í poka

Punktar

Greinar mínar hér á heimasíðunni orðnar 20.000, -tuttugu þúsund. Það er slatti í poka. En þær ná yfir langt tímabil, nærri hálfa öld. Flestar eru þær stuttar, einkum bloggið, sem ég hef skrifað allt frá 2002. Næst að fjölda koma leiðarar í Vísi, Dagblaðinu og DV allt frá 1973. Þarna eru greinar í Eiðfaxa 2003-2005 og kaflar úr ellefu bókum um erlendar ferðaborgir 1981-1996. Lítið er enn komið inn af efni úr fjórtán hestabókum 1989-2002. Þarna eru komnir blaðamennsku-fyrirlestrar mínir í Háskólanum í Reykjavík 2006-2008, en þó ekki starfssagan, sem kom út 2009. Er að setja inn leiðir úr „Þúsundogeinni þjóðleið“ frá 2011 og eru þegar komnar inn 700 leiðir. Ævistarfið er drjúgt að magni, hvað sem segja má um gæðin. Senn fer að linna.

Þeir flækja málin

Punktar

Hef heyrt lagatækni segja, að tungumál þeirra sé svona þvælið, svo að ljóst sé, hvað þeir meini. Enginn vafi sé um innihaldið. Því er skrítið að lesa texta lögfræðinga. Sá texti er oftast torskilinn. Það er svo sem ekkert nýtt, gamla stjórnarskráin er svona, forsetinn túlkar hana út og suður. Bréf Gunnars Braga Sveinssonar til Evrópusambandsins er af þessum toga. Engir tveir skilja bréfið eins. Sambandið telur, að viðræður hafi verið settar í salt að sinni. Gunnar Bragi telur bréfið þýða viðræðuslit. Fátt verður þó um svör, sé hann spurður um innihald. Líklega er skýringin sú, að markmið höfundanna sé að flækja málið.

Valdaránið mesta

Punktar

Mig langar til að frétta meira af þessu valdaráni stjórnarandstöðunnar. Er búið að handtaka Gunnar Braga Sveinsson? Hvernig kom hann skilaboðunum á framfæri? Er búið að hertaka brýnustu stofnanir landsins, Pylsuvagninn og Kaffifélagið? Af hverju er Ríkisútvarpið ekki með beina útsendingu frá byltingunni? Hver er nýr forsætis? Maður situr bara í myrkrinu heima hjá sér og fær ekkert að vita. Mikilvægt er að vita, hvernig Gunnar Bragi slapp og hvar hann felur sig. Flúði hann úr þingballinu norður á Krók. Er búið að byrgja glugga benzínsjoppunnar heimsfrægu. Er kaupfélagsstjórinn búinn að sprengja veginn um Vatnsskarð?

Rekstur er skrípó

Punktar

Til hvers er að hafa atvinnurekstur, sem borgar launafólki helminginn af því, sem borgað er í nálægum löndum? Rekstur, sem felur tekjur sínar í skattaskjólum og skilur lítið eftir hér? Rekstur, sem lifir fremur á kennitöluflakki, fáokun og aðstöðubraski en á góðum rekstri? Þurfum að losna við þennan atvinnurekstur eins og hverja aðra óværu. Við þurfum að rýma til fyrir rekstri, sem treystir sér til að búa við sömu skilyrði og alvörufyrirtæki í nálægum löndum. Og til hvers er að hafa hagspekinga og peningaspekinga, sem rembast við að reyna að telja okkur trú um, að sultarlaun séu að drepa atvinnulífið og valda verðbólgu.

Fagrar hugsanir

Punktar

Eygló Harðardóttir hefur ekki gert handtak síðan hún varð ráðherra. Hefur hins vegar hugsað rosalega mikið og fallega til fátæka og húsnæðislausa fólksins. Ekki bara veltir hún vöngum, heldur skoðar líka mál og sum jafnvel alvarlega. Meira að segja gengur hún svo langt að undirbúa mál. Næst á dagskránni verður að „taka umræðuna“ um málin. Þá verður á endanum hægt að skipa nefnd, afsakið starfshóp, verkefnisstjórn eða hvaða annað heiti, sem verður í tízku á þeim tíma. Einhvern tíma í lok áratugarins verða komin einhver plögg, sem ráðherra reynir að kynna sér og byrja annan snúning á að velta vöngum og hugsa fallega.

Píratar eru framtíðin

Punktar

Skoðanakönnun Fréttablaðsins um fylgi stjórnmálaflokka sýnir, að bófaflokkarnir hafa fyrir löngu fundið sinn botn. Fara ekki niður í þriðjung heildarfylgis, þótt allt gangi á afturfótunum. 35%-38% kjósenda eru svo skyni skroppnir, að þeir styðja bófana gegnum þykkt og þunnt. Þetta var áður vitað. Nýstárlegra er, að könnunin sýnir fylgi Pírata komið upp í 22% atkvæða og fjórtán þingmenn í stað þriggja. Sóknin er ekki á kostnað bófaflokkanna, heldur frá óákveðnum og stjórnarandstöðunni, mest frá Bjartri framtíð. Vekur samt vonir um, að réttlát reiði fólks fái góðan byr hjá Pírötum. Og að þeir muni leiða næstu ríkisstjórn.

Skapandi bókhaldið

Punktar

Einstæðu endurskoðendurnir með gamaldags vinnubrögð sáust ekki í hruni banka og víkinga. Þar komu að málum bara stóru, alþjóðlegu skammstafanirnar, PWC, KPMG og svo framvegis. Þær komu sér fyrir á gráum svæðum og stuðluðu að meiri háttar sjónhverfingum í bókhaldi. Þeim líkaði illa að sjá staka endurskoðendur hokra í sjálfstæðum hornum. Pressuðu stjórnvöld til að setja reglur um endurskoðun, sem eru snikkaðar að fjölmennum endurskoðunarstofum. Einstæðu endurskoðendurnir þráuðust við að taka upp þessar reglur. Endurskoðendaráð vill nú taka af þeim starfsleyfið, svo að þeir flækist ekki fyrir hinum stóru í „skapandi bókhaldi“.

Björk í fáum orðum

Punktar

Ég gef Björk Guðmundsdóttur söngkonu orðið í GUARDIAN. Þetta er kjarninn: „Fólk stóð fyrir utan þinghúsið og barði potta og pönnur og kom ríkisstjórninni frá völdum. … Vinstri stjórnin fórnaði síðan fjórum árum í að hreinsa upp óreiðuna, en þá hafði mikið af fólki tapað öllum sínum pening og heimilum sínum. … Síðan komst hægrisinnaði bændaflokkurinn til valda, því að hann lofaði að þurrka burt skuldir allra, sem hann auðvitað gat ekki gert. Þetta er vitfirrt ríkisstjórn sem gerir allt hræðilega rangt. Hlutirnir eru orðnir eins og fyrir bankahrun, en fimm sinnum verri. … Vonandi verður bylting til að losa okkur við hana.“