Punktar

Endurlífgum Austurstræti

Punktar

Til að koma lífi í Austurstræti þarf að losna við Landsbankann, Héraðsdóm og innihald gamla Pósthússins. Þetta eru dauðir lengdarmetrar við götuna. Innrétta þar moll smábúða með merkjavöru. Á götunni þarf að losna alveg við bíla, setja glært þak yfir hana og koma fyrir eins konar Kolaporti á miðri götu. Gott væri líka að koma lífi í Búnaðarbankann og Austur, sem nú eru dauðir lengdarmetrar. Hingað til hefur hálflokun Austurstrætis verið misheppnuð. Þetta er rokgjá og fólk setur sig í herðarnar, þegar það kemur fyrir Apótekið. Göngugötur erlendis eru betur heppnaðar. Með fjölgun túrista er hægt að endurlífga Austurstræti.

Neitum lambakjöti

Punktar

Yfirgangur sauðfjárbænda tekur engan enda. Þeir hyggjast áfram beita sauðfé á Almenninga, þvert gegn öllum vísindum. Ómagar á framfæri ríkissjóðs geta það bara til að sýna, að þeir geti það. Beit á Almenningum inn af Þórsmörk skiptir landbúnað engu máli. Sauðfjárbændur eru bara að ögra fólki. Við þurfum að losna við ómagana af ríkissjóði, hætta að kaupa afurðir þeirra, einkum lambakjöt. Nóg er öðrum mat í landi, til dæmis allur fiskurinn. Í leiðinni er rétt að flytja ríkisrekinn kontór landbúnaðarins af hótelinu í Reykjavík. Við þurfum að nýta plássið í hótel. Kontórinn fari norður og niður í afdalaplássið á Sauðárkróki.

HÉR er grein eftir Ólaf Arnalds prófessor um þetta mál.

Húmor í frétt

Punktar

Eðlilegt er, að fjölmiðlar slái upp fullyrðingu um, að Hæstiréttur hafi farið mannavillt, þótt sögumaður sé hagsmunaaðili. Málgagn útrásarvíkings getur líka slegið því upp eins og aðrir fjölmiðlar. Þetta er óneitanlega fyndið og er því fréttnæmt. Er þetta frétt? -er ætíð marklaus spurning. Hins vegar gef ég lítið fyrir þessa fullyrðingu maka sakamanns, sem birtist eftir dúk og disk. Ég þarf betri heimild til að trúa en fjölmiðill þarf til að birta. En fréttin sú arna lífgaði altjend upp þessa síframlengdu ótíð. Veturinn er kominn á fimmta mánuð og hefur því nóg að gert. Oft var þörf á húmor í fréttum, en nú er nauðsyn.

Síbreytileg lygi

Punktar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson á mjög erfitt með að koma sér niður á eina lygi um námsferilinn. Tjáði Mogga 2009, að hann væri um það bil að verja doktorsritgerð sína við Oxford. Á tengslavefnum Linked-In lýsir hann sér sem Oxford-menntuðum „Independent Architecture and Planning Professional“ 1995-2007. Á þingmannavef Alþingis segist hann hafa stundað „framhaldsnám í hagfræði og stjórnmálafræði við Oxford-háskóla“. Ekkert af þessu reyndist vera rétt. Ekkert er við það að athuga að vera enginn doktor, en ámælisvert er að ljúga til um nám og gráður. Fáránlegt er svo að geta ekki komið sjálfum sér saman um eina heildstæða lygi.

Maður, sem er margsaga um tötralegan námsferil sinn, er áreiðanlega ófær um að greina milli ímyndana og veruleika. HÉR er samantekt ýmissa fullyrðinga SDG um námsferil sinn.

Ólæsir þingmenn

Punktar

Alþingi setti nýlega lög um, að þrettán ára börn megi próflaust aka rafknúnum hjólum á umferðargötum á fullum umferðarhraða. Áður máttu þau aðeins aka á gangstéttum og hjólabrautum á 25 km hraða. Þetta er greinilega lífshættuleg breyting. Bendir til, að alþingismenn séu ekki hæfir til starfsins. Þeir lesa að minnsta kosti ekki það, sem þeir samþykkja, enda má efast um læsi sumra þeirra. Þingmenn segir við börnin: Gerið svo vel, farið út í umferðina og djöflist þar eins og ykkur lystir. Tími er kominn til að setja mörk um lágmarksgreind alþingismanna, svo alvarlegt er ástandið orðið þar á bæ.

Óhæfur og óþolandi

Punktar

Sigmundur Davíð er óþolandi í hvert skipti, sem hann tjáir sig. Byrjaði feril sinn sem forsætis á að skrúfa fyrir fjárveitingar til smíði Árnasafns. Holan við Hótel Sögu er minnisvarði um hörmuleg afskipti hans af opinberri framkvæmd. Síðan reynir hann að tefja framkvæmdir við endurreisn Landspítalans, sem áttu að byrja núna. Það gerir hann með því að fara að mæla með annarri staðsetningu á of lítilli lóð á útvarpsreitnum í Efstaleiti. Það tefur framkvæmdir um áratug og er bein árás á heilsu þjóðarinnar. Sigmundur Davíð er ítrekað týndur vikum saman og reitir svo fólk til reiði, þegar hann rís úr rekkju. Algerlega óhæfur.

Réttur til mótmæla

Punktar

Þótt við séum hálfgerðir þrælar fóla og fífla, höfum við rétt til að mótmæla á á götum og gangstéttum. Skiptir þá engu, hvað sumum eða mörgum finnst fáránlegt við tilefnið. Gildir líka um mótmælastöðu á Landspítalalóð gegn fóstureyðingum. Þau hafa vissulega fengið að standa í meira en heilt ár. Þar hafa stundum verið mótmæli gegn mótmælunum. Allt hefur sem betur fer farið friðsamlega fram. Þetta er partur af lýðræðinu. Gott er, að til sé fólk, sem lætur ekki allt yfir sig ganga þegjandi og hljóðalaust. Sama gildir um mótmælastöðu utan við sendiráð Bandaríkjanna. Fasismi var af lögreglu og dómstólum að berja þau mótmæli niður.

Allt önnur Ella

Punktar

Sigmundur Davíð er alveg ómenntaður í skipulagsfræðum, þótt hann hafi flaggað fölskum doktor frá Oxford. Endurreisn Dresden er engin fyrirmynd tilgátuþorps í miðbæ Selfoss eða skrifstofuhúss Alþingis, þótt hann telji það. Í Dresden voru dómkirkja og miðbær endurreist í nákvæmlega sama formi og á sama stað og þau höfðu áður verið. Á Selfossi vill SDG fá hugmyndir úr ýmsum áttum og reisa þar Disneyland. Nær væri að gera vel við gömlu húsin á Eyrarbakka og Stokkseyri þar sem þau eru og hafa ætíð verið. Einnig er plat að draga upp úr skúffu gamla og misráðna hugmynd Guðjóns Samúelssonar að skrifstofu Alþingis. Engin Dresden er þar heldur

Við lambhúshettufólkið

Punktar

Var að setja á mig lambhúshettuna í hesthúsinu, þegar útvarpið upplýsti, að Ingibjörg Sólrún vildi banna lambhúshettur. Hvað gera hestamenn þá, sagði ég. Svipaður vandi er kveðinn að drápurum lambhúshettusveitar, þegar þeir næst ná geðsjúklingi í herkví. Ætli múslimahatarar komi þá með haglarana til að freta á lambhúshettumenn? Eitthvað nánar verður að skilgreina, hvað við er átt með banni við lambhúshettum. Er ekki nóg að banna búrkur? Ingibjörg Sólrún vill sem betur fer ekki banna slæður, enda eru þær þjóðbúningur, sem íslenzkar konur báru utan dyra fyrir fáum áratugum. Þær voru þá ekki tákn um kúgun kvenna.

Gabb eða gubb

Punktar

Enn er ég ekki viss um, hver voru aprílgöbb og hver voru aprílgubb. Mér fannst þrefalt fleira vera grunsamlegt en viðurkennt var að lokum. Lifi í samfélagi samfellds aprílgubbs, ímynduðum heimi, þar sem ég set spurningamerki við aðra hverja frétt. Forsætis fer eingöngu með annað hvort aprílgabb eða aprílgubb. Þetta rennur allt í móðu hjá mér, hver er að grínast og hver talar í fúlustu alvöru. Mörk skáldskapar og veruleika eru að mást út hér á landi. Ég get hins vegar notað erlenda fjölmiðla og áttað mig á þarlendum veruleika. Íslenzka er orðin að undarlegu Newspeak, þar sem þvættingur einn er tungumál þjóðlífsins.

„Með því vinna kynslóðir fullveldisstofnunarinnar með kynslóðum samtímans við uppbyggingu til framtíðar. Um leið og horft er til framtíðar er fortíðinni sýnd virðing og draumar fyrri kynslóðar uppfylltir í þágu framtíðarkynslóða.“ Gabb eða gubb?

Helzt von í pírötum

Punktar

Fæstir núverandi flokka eru vísir til að hreinsa til eftir bófana, þegar þeim verður sparkað. Formlega þarf að lögleiða nýju stjórnarskrána, sem þjóðlagaráð samþykkti einróma og þjóðin afgreiddi. Koma ber velferð í fyrra horf og einkum lappa upp á heilsukerfið. Lögfesta þarf lágmarkslaun og minnka stéttaskiptingu. Bjóða út kvótann. Setja reglur um opna stjórnsýslu, pólitík og fjármál, þar með skatta. Skipta út banksterum og setja þar inn fólk með mannasiði. Setja lög, sem hindra dómara í að telja ósiðleg fjármál vera lögleg. Píratar komast næst því að vilja fylgja slíku eftir, hætti þeir að telja skattskrár vera einkamál.

Bókstafur er hættulegur

Punktar

Róttæk bókstafstrú sumra múslima er til vandræða, einkum undarlega herskáar túlkanir á kóraninum. Heift múslimahatara eru líka til vandræða, eins og til dæmis ofsinn vegna lóðar mosku í Reykjavík. Þetta tvennt er orðið að eins konar vítahring, þar sem hvorar öfgar rækta hinar. Þetta er jarðvegur síversnandi sambúðar innan vestrænna samfélaga. Mikilvægt er að rannsaka, hvort múslimar aðlagist að meðaltali verr en aðrir aðkomumenn á vesturlöndum. Svo sem vegna trúartengdar karlrembu. Og sé svo, hvað valdi því. Mér finnst skorta heimildir um þess háttar atriði og það gerir okkur erfitt fyrir við að meta stöðuna.

Nýting þekktra nafna

Punktar

Oft hafa framgjarnir puðað við að koma sér á framfæri sem höfundar/stjórnendur leikhúsverka. Hafa stundum gripið til þess að nýta sér þekkt nöfn, sem kalla á leikhúsgesti. Búa til nútíma samsetningar og skella á þær gömlum nöfnum höfunda og leikverka. Þannig hefur einkum Shakespeare verið misnotaður. Ég man óljóst eftir Jónsmessunæturdraumi rússnesks leikstjóra (Dmitry Krymov?). Það var fyrir aldamót í mér gleymdu leikhúsi sunnan við Thames í London. Þar glitti ekkert í Shakespeare, en mikið af látum og hávaða. Þetta þótti þá mjög fínt, en ég kunni ekki að meta gabbið. Mér hefur hvorki tekizt að gúgla leikstjórann né leikhúsið.

Herkúles nútímans

Punktar

Evrópusambandið er heimsins mesta efnahagsveldi. Hefur meiri heildarframleiðslu en Bandaríkin eða Kína. Fleiri af 500 stærstu fyrirtækjum heims eru í Evrópu en í Bandaríkjunum, Kína eða Japan. Evrópa er vél nútímans. Samt notar Evrópa bara helminginn af orkunotkun Bandaríkjanna. Um leið er Vestur-Evrópa sá heimshluti, sem farsælast tengir markað og velferð. Límið í samfélagi Vestur-Evrópu er mun sterkara en í Bandaríkjunum. Ríkisrekið heilbrigðiskerfi og önnur þjónusta hins opinbera ber af öðrum heimshlutum. Lífsgæði fólks eru bezt í Evrópu. Þjóðverjar vinna aðeins 1400 tíma á ári, en kúgaðir Bandaríkjamenn vinna 1800 tíma á ári.

Þrengjum Laugaveg

Punktar

Þótt ég hafi ýmislegt við hatur borgarstjórnarmeirihlutans á einkabílisma að athuga, er ýmislegt gott um skipulagið að segja. Fyrst og fremst þarf að gera sér grein fyrir, hvar skuli þrengja og hvar skuli víkka. Hvar þurfi mislæg gatnamót með viðstöðulausri umferð. Hvar þurfi göngugötur með mannlífi í góðu veðri. Góða veðrið fæst með þaki eins og í mollum nútímans, sem unglingarnir elska. Við fáum ekki beinlínis Gamla Stan eða Barri Gótik í Reykjavík. En unnt á að vera að breyta Laugavegi í Strøget og þá undir þaki. Allar slíkar götur verða fljótt túristagötur, en það er bara partur af nútímavæðingu eyjarskeggja.